Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða

Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Björn Magnússon, sérfræðingur í lungnalækningum við Heilbrigðisstofnun Suðurlands er einn höfunda í nýrri rannsókn um öndun hjá astmasjúklingum 

15. ágúst 2025

Frétt

Vísindagreinin birtist nýverið í Physiological Reports – virtu alþjóðlegu riti á sviði lífeðlisfræði og er samvinnuverkefni evrópsku lífeðlisfræðisamtakanna (The Physiological Society) og þeirra bandarísku (The American Physiological Society). Rannsóknin að baki greinarinnar sýnir að mælingar á lífeðlisfræðilegum breytingum í öndun geta varpað nýju ljósi á meðferð astmasjúklinga.  
Greinin ber heitið Assessing ventilatory efficiency at rest in asthma: A longitudinal comparison with healthy subjects. 

Meðal höfunda er Björn Magnússon læknir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands sem segir um þátttökuna; 

,,Ástæða þess að mér var boðin þátttaka er sú að frá 1981-1997 vann ég á á Reykjalundi við að koma þar upp þverfaglegri lungnaendurhæfingu sem gekk vel. Talverð vísindavinna var unnin í okkar þverfaglega hópi. Frá því ég hætti á Reykjalundi hef ég haldið sambandi við suma af mínum fyrri samstarfsmönnum og  unnið lítillega  rannsóknarvinnu með Mörtu Guðjónsdóttur líffræðingi og Rannsóknarstjóra þar.” 

,,Hún hafði svo samband við mig fyrir tæpum 10 árum og bað mig um ráðgjöf í sambandi við meistaranáms ritgerð Monique van Oosten sjúkraþjálfara en Marta var leiðbeinandi hennar. Afraksturinn varð svo ofangreind grein sem birtist í Physiological Reports í Júlí sl.” 

Rannsóknin hefur tekið töluverðan tíma enda um eftirfylgni með sjúklingum að ræða 

Rannsóknin, sem leidd var af Monique van Oosten sjúkraþjálfara og Mörtu Guðjónsdóttur líffræðingi og rannsóknarstjóra á Reykjalundi, fylgdi 30 einstaklingum með óstöðugan astma og 23 heilbrigðum viðmiðunaraðilum í eitt ár. Þátttakendur fóru í endurteknar mælingar á ýmsum öndunarbreytum.  

Áhugaverðar niðurstöður sem geta nýst í framtíðinni 

Niðurstöðurnar sýna að astmasjúklingarnir höfðu aukið næmi öndunarmiðstöðva fyrir koldíoxíði miðað við heilbrigða einstaklinga, og þessi munur hélt áfram yfir allan rannsóknartímann. Slík mæling er sjaldgæf í rannsóknum á astma, sérstaklega í langtímasamhengi. 

Vonast er til að sumar af þeim breytum sem mældar voru í rannsókninni geti nýst í framtíðinni til að meta árangur meðferða eins og lungnaendurhæfingar, slökunar og öndunarkennslu. 

Greinin er birt í samstarfsriti The Physiological Society í Evrópu og The American Physiological Society í Bandaríkjunum. Fyrir áhugasama er hægt að lesa greinina hér