Áramótapistill forstjóra 2023
28. desember 2023
Gleðilegt nýtt ár
Nú þegar árið 2023 er að renna sitt skeið á enda er gott að líta um öxl og meta þau mikilvægu skref sem við höfum tekið á árinu og draga lærdóm af reynslunni sem árið hefur fært okkur. Á þessum tímamótum er mér efst í huga þakklæti til alls starfsfólks HSU sem hefur með samstöðu og seiglu skilað okkur því góða starfi sem við erum stolt af. Mikil gróska í nýsköpun og þróun nýrra verkferla innan HSU hefur lagt grunn að framtíðarþróun í þjónustu stofnunarinnar sem er mikilvægt í nútíma samfélagi. Í þeirri vegferð er velvilji og stuðningur samfélagsins ómetanlegur og vil ég senda þeim félögum og einstaklingum sem hafa stutt okkur með fjárframlögum og gjöfum mínar dýpstu þakkir og virðingu.
Eitt af stærstu afrekum okkar á þessu ári var opnun Móbergs, nýs hjúkrunarheimilis á Selfossi. Þessi viðbót hefur styrkt hjúkrunarþjónustu stofnunarinnar og veitt eldri borgurum betri aðstöðu og aukna hjúkrunarumönnun. Áframhaldandi þróun og útfærsla á Heimaspítala fyrir aldraða er annar stórsigur, sem mun breyta landslagi heilbrigðisþjónustu í heimahúsum, með aukinni læknisþjónustu og tæknilausnum til að bæta lífsgæði og sjálfstæði íbúa.
Þátttaka HSU í þróunarverkefninu „Gott að eldast“, í samstarfi við Hveragerðisbæ og Sveitarfélagið Árborg, er dæmi um hvernig stefnt er að samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu til að bæta þjónustuna við eldri borgara. Jafnframt er innleiðing okkar á nýju fjarvöktunarkerfi skref í átt að nýbreytni og betri þjónustu við langveika.
Í forvarnarstarfi HSU hefur m.a. verðið lögð áherslu á að efla heilsulæsi íbúa og hafa fræðsluerindi markvisst verið birt á heimasíðu stofnunarinnar. Síðastliðið vor bauð HSU jafnframt upp á blóðþrýstings- og blóðsykursmælingar fyrir 60 ára og eldri víða um Suðurland sem margir nýttu sér.
Umhverfisvitund og sjálfbærni eru í forgangi hjá HSU og hefur stofnunin unnið að því að skipta yfir í vistvænni ökutæki og leggja áherslu á sjálfbærni í rekstri. Þá hefur sjálfbærnistefna HSU verið birt og unnið er að aðgerðaráætlun í tengslum við frekari útfærslu hennar.
Eitt af þeim þróunarverkefnum sem unnið er að hjá HSU er innleiðing á nýrri sjúkraskráningarlausn sem nefnd er Leviosa. Kerfið býður upp á nútímalegt og notendavænt viðmót fyrir starfsfólk sem leiðir til aukinnar skilvirkni og hagræðingu í skráningu gagna. Þessi nýjung mun ekki aðeins bæta innri ferla hjá stofnuninni, heldur mun hún einnig hafa bein áhrif á þjónustuna við sjúklinga.
Við fögnum byggingu varaaflstöðvar við sjúkrahúsið á Selfossi sem mun auka rekstrarstöðugleika sjúkrahússins. Stöðin á að vera tilbúin til notkunar snemma á næsta ári og er mikilvægt skref í að tryggja að við getum haldið áfram að veita órofna og örugga þjónustu.
Ég hlakka til áframhaldandi vinnu með samstarfsfólki og samstarfsaðilum til að takast á við áskoranir framtíðarinnar og halda áfram á þeirri braut þróunar og nýsköpunar sem einkennt hefur árið sem er að líða.
Megi nýtt ár færa ykkur öllum hamingju og gleði.
Með vinsemd og virðingu,
Díana Óskarsdóttir, forstjóri