Fara beint í efnið

Réttur barna til persónuverndar

Réttur barna

Öll börn eiga rétt á að einkalíf þeirra sé virt, bæði á heimili þeirra og utan þess. Þessi réttur er tryggður í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, stjórnarskránni og persónuverndarlögunum.

Persónuupplýsingar barna njóta sérstakrar verndar þar sem börn eru síður meðvituð um réttindi sín, áhættur og afleiðingar í tengslum við vinnu slíkra upplýsinga.

Hvað eru persónuupplýsingar?

Persónuupplýsingar eru upplýsingar sem er hægt að tengja við einstakling.

Til dæmis:

  • nafnið

  • heimilisfang

  • símanúmer

  • netfang

  • mynd af einstaklingi, þar sem hægt er að þekkja viðkomandi

Þessar upplýsingar eru þínar.

Að veita samþykki fyrir notkun

Ef einhver vill gera eitthvað við persónuupplýsingar barns þarf hann venjulega samþykki frá foreldrum þess, eða barninu sjálfu.

  • Foreldrar taka ákvarðanir fyrir barnið þangað til það verður 13 ára. Ef málið snýst um deila einhverju á netinu ætti barnið samt alltaf að geta sagt til um hvort það vilji það eða ekki.

  • Við 13 ára aldur getur barn samþykkt þjónustu á netinu, til dæmis í tengslum við samfélagsmiðla, tölvuleiki og smáforrit þar sem samþykkja þarf skilmála fyrir notkun.

Börn mega alltaf hætta við og skipta um skoðun. Þó barn hafi til dæmis samþykkt að myndir af sér væru birtar á vefsíðu skólans má barnið þannig alltaf skipta um skoðun og biðja um að láta fjarlægja þær.

Vinnsla með persónuupplýsingar barna

Foreldrar, forsjáraðilar og aðrir sem annast börn og bera ábyrgð á velferð þeirra ættu að vera meðvitaðir um réttindi barna til persónuvernda og virða einkalíf þeirra.

Barnasáttmálinn segir meðal annars að:

  • börn eiga rétt á að segja sitt álit á öllu sem tengist þeim. Skoðanir barna eiga að vega þungt

  • börn eiga að njóta verndar gegn ólögmætum afskiptum af heiðri þeirra og mannorði

  • foreldrar bera meginábyrgð á umönnun og þroska barnsins og þeim ber að gera það sem er barninu fyrir bestu.

Þetta þýðir að börn eiga að vera tekin alvarlega og að foreldrar og aðrir eiga að hlusta á álit þeirra.

Heimild til vinnslu

Við vinnslu persónuupplýsinga skal styðjast við reglu í persónuverndarlögum sem leyfir vinnsluna.

Til dæmis:

Samþykki frá foreldri eða barni

Samþykki barns er alltaf metið eftir aldri og þroska þess.

  • Ef óskað er eftir samþykki barnsins skal hafa allar upplýsingar og tilkynningar á skýru og einföldu máli sem barnið getur auðveldlega skilið. Samþykki barns sem ekki hefur náð 13 ára aldri er ekki fullnægjandi vinnsluheimild.

  • Skólar og aðrir opinberir aðilar geta yfirleitt ekki byggt á samþykki nema um algerlega valfrjálsa þjónustu sé að ræða. Persónuverndarlög gera ráð fyrir að slík vinnsla fari eingöngu fram ef hún er nauðsynleg og byggir á lagaheimild.

  • Samþykki foreldra er ekki nauðsynlegt þegar um er að ræða forvarnar- eða ráðgjafarþjónustu sem barni er boðin beint.

Nauðsyn vegna framkvæmdar samnings

  • Við framkvæmd samnings þarf barnið að skilja um hvað samningurinn er og þá getur aldur barns skipt miklu máli. Ekki er til dæmis hægt að gera sömu kröfur á 7 ára og 17 ára börn.

Lögmætir hagsmunir, til dæmis vegna beinnar markaðssetningar, vegna notkunar eftirlitsmyndavéla og fleira

  • Ábyrgðaraðilinn þarf að vega og meta áhættu og afleiðingar fyrir barnið ef það vill byggja vinnsluna á þessari heimild. Gera þarf sérstakar ráðstafanir meðal annars með tilliti til aldurs barns.

Fylgja skal meginreglum persónuverndar og hafa sanngirni að leiðarljósi við alla vinnslu. Einnig skal ávallt virða rétt til eyðingar persónuupplýsinga.

Þjónustuaðili

Persónu­vernd

Persónuvernd

Hafa samband

postur@personuvernd.is

Sími: 510 9600

Afgreiðslu­tími

Virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Símatími lögfræðinga er alla fimmtudaga frá 9 til 12

Stað­setning

Laugarvegur 166, 4. hæð

105 Reykjavík, Ísland

Kennitala: 560800-2820