Fara beint í efnið

Prentað þann 21. nóv. 2024

Stofnreglugerð

1400/2020

Reglugerð um mengaðan jarðveg.

I. KAFLI Markmið, gildissvið og skilgreiningar.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðarinnar er að uppræta eða draga úr mengun jarðvegs og forðast eða koma í veg fyrir skaðleg áhrif mengaðs jarðvegs eða yfirvofandi hættu á slíkri mengun. Markmiðið er einnig að fyrir liggi upplýsingar um svæði þar sem er mengaður jarðvegur.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um viðbrögð og ráðstafanir vegna jarðvegsmengunar eða yfirvofandi hættu á jarðvegsmengun, af völdum hvers kyns atvinnustarfsemi hér á landi og um meðhöndlun á menguðum jarðvegi.

Um umhverfistjón af völdum atvinnustarfsemi sem lög um umhverfisábyrgð taka til fer samkvæmt ákvæðum þeirra laga.

Reglugerðin tekur ekki til mengunar sem verður frá náttúrunnar hendi.

Reglugerð þessi gildir um jarðveg, þ.e. laus og óhörðnuð jarðlög ofan á berggrunni, á landi og innan netlaga.

3. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirtalinna orða og orðasambanda sem hér greinir:

  1. Áhættugreining: Skipulagt vinnuferli á grundvelli vísindalegrar þekkingar sem hefur að markmiði að fá mat á umfangi og alvarleika mengunar og hvort hreinsunaraðgerða sé þörf. Reynist hreinsunaraðgerða þörf skal fylgja áhættugreiningu tímasett áætlun um hvernig staðið verði að hreinsun og meðhöndlun þess mengaða jarðvegs sem grafinn verður upp.
  2. Bráðamengun: Mengun sem verður skyndilega og krefst tafarlausra aðgerða.
  3. Frummat: Fyrsta mat á umfangi og eðli mengunar. Markmið frummats er að meta á einfaldan og fljótlegan hátt hvers eðlis mengunin er og hvort ástæða er til að fram fari áhættugreining. Niðurstaða frummats getur einnig verið að fullgildur kostur sé að láta málið bíða. Þegar vettvangsskoðun er sýnilega óþörf getur frummat falist í mati á upplýsingum frá mengunarsvæði, s.s. skriflegum upplýsingum eða ljósmyndum.
  4. Fyrra ástand: Ástand svæðis áður en tjón varð, metið á grundvelli bestu fáanlegra upplýsinga, s.s. mælinga á mengunarefnum í ómenguðum jarðvegi á svæðinu.
  5. Hreinsun: Aðgerðir til að fjarlægja mengunarefni úr jarðvegi eða lækka styrk þeirra. Hreinsun getur falist í aðgerðum án þess að jarðvegurinn sé fjarlægður af upprunastað (in-situ) eða í aðgerðum sem miða að því að fjarlægja mengaðan jarðveg.
  6. Meðhöndlun: Söfnun, geymsla, böggun, flokkun, flutningur, endurnotkun, endurnýting, pökkun og förgun.
  7. Mengun: Þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.
  8. Mengunaróhapp: Þegar bráðamengun verður og eiturefni eða önnur efni berast eða kunna að berast í umhverfið og tafarlaus úrræði eru nauðsynleg vegna hættu á tjóni á umhverfi, heilsu fólks eða eignum.
  9. Rekstraraðili: Einstaklingur eða lögaðili sem ber ábyrgð á tiltekinni atvinnustarfsemi.

II. KAFLI Umsjón.

4. gr. Hlutverk og ábyrgð stjórnvalda.

Umhverfisstofnun skal gefa út leiðbeiningar, m.a. sbr. viðmiðunarmörk í viðauka, um frummat, áhættugreiningu, aðferðir við sýnatöku og meðhöndlun mengaðs jarðvegs, halda skrá yfir menguð svæði, sbr. 11. gr., og gera yfirlit yfir eldri, menguð svæði, sbr. 12. gr.

Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga og Umhverfisstofnun hafa eftir því sem við á og í samræmi við IV. kafla, umsjón og eftirlit með aðgerðum er lúta að viðbrögðum við mengun jarðvegs eða yfirvofandi hættu á slíkri mengun.

Slökkviliðsstjóri hefur stjórn á vettvangi við mengunaróhöpp á landi í samræmi við ákvæði laga um brunavarnir.

III. KAFLI Skyldur rekstraraðila.

5. gr. Grundvallarskyldur.

Rekstraraðila er skylt að ganga vel um og sýna ýtrustu varúð þannig að jarðvegi verði ekki spillt með mengun.

Rekstraraðilar skulu tryggja að starfsemi þeirra sé í samræmi við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og útgefið starfsleyfi eins og nánar er kveðið á um í XI. kafla laganna.

6. gr. Tilkynning og aðrar ráðstafanir vegna mengunar jarðvegs.

Ákvæði laga um brunavarnir gilda um almennar skyldur til að koma í veg fyrir eða takmarka tjón af völdum mengunaróhappa á landi eða þegar bráð hætta er á að slíkt atvik verði.

Um tilkynningarskyldu rekstraraðila vegna óhappa og slysa sem hafa umtalsverð áhrif á umhverfið og ráðstafanir vegna slíkra atvika, m.a. þegar um er að ræða mengaðan jarðveg, fer samkvæmt ákvæðum XI. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

7. gr. Skyldur mengunarvalds.

Rekstraraðilar atvinnurekstrar, sbr. viðauka I-II við lög um hollustuhætti og mengunvarnir, skulu tryggja að gerðar séu allar viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir mengun og bera skyldur samkvæmt ákvæðum 38. og 39. gr. laganna. Rekstraraðilar atvinnurekstrar, sbr. viðauka IV við lögin, bera skyldur skv. 39. gr. laganna. Allir rekstraraðilar bera skyldur skv. 16. gr. laganna við endanlega stöðvun starfsemi.

Mengunarvaldur ber ábyrgð samkvæmt almennum skaðabótareglum á því tjóni eða skaða sem rakin verða til mengunarinnar.

IV. KAFLI Viðbrögð við mengun jarðvegs.

8. gr. Stjórn aðgerða við bráðamengun og frummat á aðstæðum.

Slökkvilið er viðbragðsaðili gagnvart mengunaróhöppum á landi, sbr. ákvæði laga um brunavarnir. Slökkviliðsstjóri stýrir aðgerðum á vettvangi á meðan hætta á bráðamengun varir.

Heilbrigðisnefnd tekur við stjórn aðgerða þegar hætta á bráðamengun varir ekki lengur. Umhverfisstofnun tekur við stjórn aðgerða ef um er að ræða starfsleyfisskyldan atvinnurekstur sem er háður mengunarvarnaeftirliti Umhverfisstofnunar.

Heilbrigðisnefnd, eða eftir atvikum Umhverfisstofnun, skal gera frummat á aðstæðum þegar hætta á bráðamengun varir ekki lengur.

Umhverfisstofnun getur falið hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd stjórn aðgerða, sbr. 2. mgr., og gerð frummats á aðstæðum, sbr. 3. mgr., í umboði stofnunarinnar þar til fulltrúar hennar koma á vettvang.

9. gr. Frummat á aðstæðum þegar ekki er um bráðamengun að ræða.

Þegar tilkynning um mögulega mengaðan jarðveg berst, án þess að um bráðamengun sé að ræða, skal heilbrigðisnefnd gera frummat á aðstæðum svo fljótt sem verða má. Ef um er að ræða mengun á jarðvegi sem stafar frá starfsleyfisskyldum atvinnurekstri sem er háður mengunarvarnaeftirliti Umhverfisstofnunar skal heilbrigðisnefnd tilkynna málið til Umhverfisstofnunar, sem gerir frummat á aðstæðum svo fljótt sem verða má. Umhverfisstofnun getur falið hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd að gera frummat á aðstæðum í umboði stofnunarinnar þar til fulltrúar hennar koma á vettvang.

10. gr. Niðurstaða frummats og áhættugreining.

Ef frummat bendir til þess að um umtalsverða mengun á jarðvegi sé að ræða skulu rekstraraðilar atvinnurekstrar, sbr. viðauka I-II og IV við lög um hollustuhætti og mengunvarnir leggja fram áhættugreiningu. Fylgja skal leiðbeiningum Umhverfisstofnunar við áhættugreiningu. Heilbrigðisnefnd, eða eftir atvikum Umhverfisstofnun, skal ákveða rekstraraðila frest til að standa skil á áhættugreiningu.

Ef niðurstaða frummats er sú að hreinsa þurfi umrætt svæði án tafar getur heilbrigðisnefnd, eða eftir atvikum Umhverfisstofnun, gert kröfu um hreinsun án undangenginnar áhættugreiningar.

Ef niðurstaða áhættugreiningar er að hreinsa þurfi svæði skal rekstraraðili atvinnurekstrar, sbr. viðauka I-II og IV við lög um hollustuhætti og mengunvarnir, leggja fram, sem hluta af áhættugreiningunni, tímasetta áætlun um hvernig staðið verði að hreinsuninni og meðhöndlun þess mengaða jarðvegs sem grafinn verður upp. Almennt skal miða við að svæði sé hreinsað með þeim hætti að það komist til fyrra ástands. Við hreinsun skal eftir atvikum farið að ákvæðum VI. kafla laga um menningarminjar.

Ef niðurstaða frummats eða áhættugreiningar er að ekki þurfi að hreinsa svæði skal heilbrigðisnefnd tilkynna Umhverfisstofnun um svæðið, þ.e. staðsetningu þess, stærð, tegund mengunar og ástæðu þess að svæðið er mengað.

V. KAFLI Skrá yfir menguð svæði og áhrif á skipulag.

11. gr. Skrá yfir menguð svæði og svæði þar sem grunur er um mengun.

Umhverfisstofnun skal halda skrá yfir svæði þar sem er mengaður jarðvegur eða þar sem grunur er um mengun. Þar skulu koma fram upplýsingar um staðsetningu, stærð, tegund mengunar og ástæðu þess að svæði er mengað eða grunur leikur á um mengun. Skráin skal vera aðgengileg á vef Umhverfisstofnunar og uppfærð eftir þörfum og eigi sjaldnar en á fimm ára fresti.

Umhverfisstofnun metur, í samstarfi við heilbrigðisnefnd, hvort svæði sem heilbrigðisnefnd tilkynnir um, sbr. 4. mgr. 10. gr., skuli fara á skrá yfir svæði þar sem er mengaður jarðvegur.

Þegar sýnt hefur verið fram á að svæði hafi verið hreinsað með fullnægjandi hætti, sbr. viðauka, skal það fellt brott úr skrá yfir menguð svæði eða þar sem grunur er um mengun.

12. gr. Eldri svæði sem eru menguð eða þar sem grunur er um mengun.

Umhverfisstofnun skal, í samstarfi við heilbrigðisnefndir, gera yfirlit yfir eldri svæði sem eru menguð eða þar sem grunur er um mengun og skulu svæðin skráð í skrá yfir menguð svæði, sbr. 11. gr. Yfirlitið skal byggja á fyrirliggjandi upplýsingum og skal m.a. taka tillit til þess hvort eftirfarandi starfsemi hafi farið fram á viðkomandi svæði:

  1. Starfsleyfisskyld starfsemi, sbr. viðauka I og II við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir.
  2. Viðhald og niðurrif skipa.
  3. Opin brennsla úrgangs, aflagðir urðunarstaðir úrgangs eða önnur förgun úrgangs.
  4. Málmendurvinnsla.
  5. Flugvöllur.
  6. Bensínstöð.
  7. Olíubirgðastöð, geymsla hættulegra efna eða geymsla olíumalarefna.
  8. Virkjun eða orkuveita.
  9. Spennistöð.
  10. Vinnsla jarðefna.
  11. Jarðborun.
  12. Skotvöllur.
  13. Brenna.
  14. Varnarsvæði.
  15. Greftrun dýrahræja.

13. gr. Áhrif á skipulag.

Sveitarfélög skulu taka mið af skrá yfir svæði þar sem er mengaður jarðvegur eða þar sem grunur er um mengun, sbr. 11. gr., við gerð skipulags.

VI. KAFLI Ýmis ákvæði.

14. gr. Meðhöndlun mengaðs jarðvegs sem grafinn er upp.

Mengaður jarðvegur sem grafinn er upp eða færður af upprunastað skal hljóta viðeigandi meðhöndlun skv. 9. gr. laga um meðhöndlun úrgangs og reglugerða settra samkvæmt þeim sem og öðrum ákvæðum þeirra laga. Þetta á við hvort sem jarðvegurinn er meðhöndlaður á upprunastað eða fer annað til meðhöndlunar svo sem til endurnýtingar eða förgunar.

Aðilar sem sjá um flutning eða aðra meðhöndlun á menguðum jarðvegi skulu hafa gilt starfsleyfi og eftir því sem við á starfsleyfi til að flytja spilliefni, sbr. ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Óheimilt er að blanda menguðum jarðvegi við annan jarðveg eða efni með það að markmiði að lækka styrk mengandi efna í honum, nema um sé að ræða viðurkenndar aðgerðir til hreinsunar jarðvegsins.

VII. KAFLI Valdsvið, þvingunarúrræði og viðurlög.

15. gr. Valdsvið og þvingunarúrræði.

Um valdsvið og beitingu þvingunarúrræða samkvæmt reglugerð þessari fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.

16. gr. Viðurlög.

Um viðurlög við brotum gegn ákvæðum reglugerðar þessarar fer samkvæmt ákvæðum XIX. kafla laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.

VIII. KAFLI Lagastoð og gildistaka.

17. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 4., 8., 12., 14. og 32. tölul. 5. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og með hliðsjón af ákvæðum 39. gr. laga nr. 75/2000, um brunavarnir, að höfðu samráði við félagsmálaráðherra, og b., c., g., k. og bb. liða 43. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Jafnframt er reglugerðin sett að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 43. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Reglugerð þessi öðlast gildi 1. janúar 2021. Skrá yfir svæði þar sem er mengaður jarðvegur eða þar sem grunur er um mengun skal vera tilbúin eigi síðar en tveimur árum eftir gildistöku reglugerðarinnar.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 28. desember 2020.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Sigríður Auður Arnardóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.