Prentað þann 22. nóv. 2024
1342/2020
Reglugerð um ráðstöfun leiguíbúða skv. 37. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um ráðstöfun leiguíbúða sem veitt var lán til fyrir 10. júní 2016 á grundvelli þágildandi 1. mgr. 37. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum, og eingöngu eru ætlaðar tilgreindum hópi leigjenda sem eru undir tekju- og eignamörkum skv. 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna.
2. gr. Árstekjur leigjenda.
Árstekjur leigjanda samkvæmt reglugerð þessari skulu ekki nema hærri fjárhæð en 5.995.000 kr. fyrir hvern einstakling en 8.394.000 kr. fyrir hjón og sambúðarfólk. Við þá fjárhæð bætast 1.499.000 kr. fyrir hvert barn eða ungmenni að 20 ára aldri sem býr á heimilinu.
Með tekjum er í reglugerð þessari átt við allar tekjur skv. II. kafla laga um tekjuskatt samkvæmt skattframtali síðasta árs, staðfestu af ríkisskattstjóra, að teknu tilliti til frádráttar skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 30. gr. og frádráttar skv. 31. gr. sömu laga.
3. gr. Heildareign leigjenda.
Samanlögð heildareign leigjenda íbúða samkvæmt reglugerð þessari að frádregnum heildarskuldum við upphaf leigu, með vísan til 72.-75. gr. laga um tekjuskatt samkvæmt skattframtali síðasta árs, staðfestu af ríkisskattstjóra, skal ekki nema hærri fjárhæð en 6.471.000 kr.
4. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er á grundvelli 3. mgr. 37. gr. og 50. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, öðlast gildi 1. janúar 2021.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.