Prentað þann 4. jan. 2025
1255/2016
Reglugerð um ráðstöfunarfé og dagpeninga samkvæmt lögum um almannatryggingar.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um ráðstöfunarfé og dagpeninga skv. 8. og 9. mgr. 48. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar. Einnig gildir reglugerðin um ráðstöfunarfé til fanga skv. 1. mgr. 56. gr. sömu laga.
2. gr. Dvöl á sjúkrahúsi, dvalar- eða hjúkrunarheimili.
Heimilt er að greiða ráðstöfunarfé samkvæmt reglugerð þessari til einstaklings sem á lögheimili á Íslandi og dvelst á sjúkrahúsi, dvalar- eða hjúkrunarheimili hér á landi enda hafi lífeyrisgreiðslur til hans verið felldar niður, sbr. 5. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar.
3. gr. Dvöl utan stofnunar eða heimilis.
Dveljist einstaklingur sem fær greitt ráðstöfunarfé samkvæmt reglugerð þessari utan stofnunar eða heimilis nokkra daga í senn, en útskrifast þó ekki, er heimilt að greiða honum dagpeninga. Fjárhæð dagpeninganna skal ekki vera lægri en 3.744 kr. þann tíma sem einstaklingurinn dvelst utan stofnunar eða heimilis, þó að hámarki í átta daga í mánuði.
4. gr. Fangelsisvist, gæsluvarðhald og úrskurður um dvöl á stofnun.
Heimilt er að greiða ráðstöfunarfé til lífeyrisþega sem afplánar refsingu í fangelsi, sætir gæsluvarðhaldi eða er á annan hátt úrskurðaður til dvalar á stofnun, sbr. 1. mgr. 56. gr. laga um almannatryggingar, enda hafi lífeyrisgreiðslur til hans hafa verið felldar niður af þeim sökum.
5. gr. Fjárhæð og útreikningur ráðstöfunarfjár.
Fjárhæð ráðstöfunarfjár er 925.008 kr. á ári. Við útreikning á fjárhæðinni skulu tekjur, sbr. 2. mgr., lækka ráðstöfunarfé um 65% og falla greiðslur alveg niður við tekjur sem nema 1.423.089 kr. á ári.
Með tekjum skv. 1. mgr. er átt við tekjur skv. 8. tölul. 2. gr., sbr. einnig 3. mgr. 16. gr., laga nr. 100/2007, um almannatryggingar.
6. gr. Umsóknir og upplýsingaskylda.
Viðkomandi einstaklingar eða hlutaðeigandi stofnanir sækja um greiðslur samkvæmt reglugerð þessari hjá Tryggingastofnun. Umsækjanda er skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um greiðslur samkvæmt reglugerð þessari. Umsóknir skulu vera á eyðublöðum stofnunarinnar eða sendar með rafrænum hætti.
Þrátt fyrir 1. mgr. þarf ekki að sækja sérstaklega um greiðslur samkvæmt reglugerð þessari ef viðkomandi einstaklingur er augljóslega ófær til þess, t.d. vegna öldrunar eða langvarandi veikinda. Í þeim tilfellum skulu hlutaðeigandi stofnanir upplýsa Tryggingastofnun um dvöl viðkomandi og annað sem máli kann að skipta varðandi greiðslur.
Umsækjendur og hlutaðeigandi stofnanir skulu gera Tryggingastofnun þegar í stað grein fyrir öllum breytingum sem haft geta áhrif á réttindi eða greiðslur samkvæmt reglugerðinni.
7. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 10. mgr. 48. gr., sbr. 70. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. janúar 2017. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 460/2013, um ráðstöfunarfé og dagpeninga lífeyrisþega, með síðari breytingum.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.