Prentað þann 26. des. 2024
1253/2019
Reglugerð um stuðning við sauðfjárrækt.
I. KAFLI Almenn ákvæði.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um stuðningsgreiðslur í sauðfjárrækt, svo sem beingreiðslur, gæðastýringargreiðslur, greiðslur vegna ullarnýtingar, býlisgreiðslur og svæðisbundinn stuðning, samkvæmt samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar sem dagsettur er 19. febrúar 2016, með síðari breytingum.
2. gr. Orðskýringar.
Í reglugerð þessari hafa eftirtalin orð þá merkingu sem hér segir:
Bústofn: Miðlægur gagnagrunnur sem inniheldur upplýsingar um hagtölur í samræmi við lög um búfjárhald nr. 38/2013.
Fjárvís: Tölvukerfi og gagnagrunnur, sem heldur utan um hjarðbók og afurðaskýrsluhald í sauðfjárrækt.
Nýliði: Einstaklingur á aldrinum 18-40 ára, sem er að kaupa búrekstur eða að minnsta kosti 25% hlut í búrekstri í fyrsta skipti eða hefur leigt eða keypt búrekstur innan þriggja ára.
3. gr. Handhafar greiðslna.
Greiðslur samkvæmt reglugerð þessari fá þeir framleiðendur einir sem uppfylla eftirtalin skilyrði:
- eru skráðir eigendur eða leigjendur lögbýlis með lögheimili á Íslandi og
- stunda sauðfjárrækt og reka sauðfjárbú á lögbýlinu með virkt virðisaukaskattsnúmer og starfsemi þeirra fellur undir atvinnugreinanúmer 01 og 02 í atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands, sbr. ÍSAT2008, þó ekki starfsemi í undirflokkum 01.61, 01.62, 01.63, 01.64, 01.70 og 02.40.
Hjón og einstaklingar í óvígðri sambúð, samkvæmt skráningu í þjóðskrá, sem standa saman að búrekstri geta óskað eftir því að greiðslum samkvæmt reglugerð þessari sé skipt jafnt á milli aðila. Þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila er að ræða með aðskilinn búrekstur getur hver og einn þeirra verið handhafi greiðslna.
Skilyrði fyrir greiðslum eru einnig þátttaka og fullnægjandi skil á afurðaskýrsluhaldi í samræmi við 4. gr. og skil á haustskýrslu í Bústofn skv. 10. gr. laga nr. 38/2013 um búfjárhald.
Framleiðendur sem eru ekki skráðir þátttakendur í afurðaskýrsluhaldi eða hafa fallið út úr því vegna skilyrða í 4. gr. skulu sækja um þátttöku á þar til gerðu eyðublaði í rafrænu umsóknarkerfi. Umsóknum skal skila eigi síðar en 10. desember fyrir næsta almanaksár sem stuðningsgreiðslur eiga að hefjast.
4. gr. Afurðaskýrsluhald.
Til að þátttaka í afurðaskýrsluhaldi í sauðfjárrækt sé metin fullnægjandi skulu eftirfarandi skilyrði vera uppfyllt:
- Fullnægjandi skil á hjarðbók og heilsukorti, og rétt framkvæmd á merkingum sauðfjár, í samræmi við reglugerð um merkingar búfjár með síðari breytingum.
-
Eftirfarandi skýrsluhaldsupplýsingar þurfa að lágmarki að vera til staðar í Fjárvísi:
- Afdrif fangs allra kinda.
- Burðarmánuður og ár, og fjöldi fæddra lamba hjá hverri kind.
- Öll lifandi fædd lömb með lambanúmeri.
- Afdrif allra lamba að hausti og fullorðinsnúmer (einstaklingsnúmer) ásettra lamba.
- Fallþungi allra sláturgripa, sem byggir á innlesnum sláturgögnum frá sláturhúsum.
- Upplýsingar um förgun og vanhöld allra fullorðinna gripa.
- Framleiðandi ber ábyrgð á að fullnægjandi afurðaskýrsluhaldi sé skilað á réttum tíma, hvort sem þeir annast skráningu sjálfir eða kaupa þá þjónustu af öðrum. Vorbók skal skráð í Fjárvís eigi síðar en 20. ágúst á skýrsluhaldsári og haustbók eigi síðar en 12. desember á skýrsluhaldsári.
Skylt er að tilkynna framleiðanda fyrir 31. desember ár hvert vegna haustbókar og 1. september ár hvert vegna vorbókar, hvort hann standist kröfur um fullnægjandi skýrsluhald. Framleiðanda skal veittur að hámarki fjögurra vikna frestur til að ganga frá fullnægjandi skýrsluhaldsskilum eða koma á framfæri andmælum.
Afurðastöðvum er skylt að skila gögnum um innlagðar afurðir framleiðenda. Gögnin skulu innihalda upplýsingar um sláturgögn samkvæmt reglugerð um merkingar búfjár og aðrar þær upplýsingar sem taldar eru nauðsynlegar til að uppfylla skilyrði reglugerðar þessarar.
5. gr. Fyrirkomulag stuðningsgreiðslna.
Útbúa skal ársáætlun eigi síðar en 1. mars um heildargreiðslur allra framleiðenda, sem eiga rétt á greiðslum skv. 3. gr. Áætlun fyrir ullargreiðslur skal gerð fyrir 1. júlí ár hvert og greidd í einu lagi. Heildargreiðslur hvers framleiðanda samkvæmt reglugerð þessari skulu áætlaðar miðað við:
- framleiðslu fyrra árs,
- fjölda vetrarfóðraðra kinda í haustskýrslu í Bústofni síðastliðið haust,
- skráð greiðslumark í ærgildum í upphafi árs og
- fjárlög hvers árs.
Heildargreiðslur taka til beingreiðslna, gæðastýringargreiðslna skv. reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu með síðari breytingum, greiðslna fyrir ullarnýtingu, býlisgreiðslna og greiðslna vegna svæðisbundins stuðnings. Heildargreiðslu ársins, að undanskilinni greiðslu fyrir ullarnýtingu, verður deilt í 12 jafna hluta. Tvöföld greiðsla skal greidd í janúar, mars og apríl en fellur þó niður á móti í febrúar, nóvember og desember.
Fyrir 20. ágúst ár hvert skal áætla sölumagn kindakjöts á innanlandsmarkaði næsta almanaksár og byggja þá áætlun á sölu síðustu 24 mánaða og líklegri söluþróun. Við mat á innanlandsþörf fyrir kindakjöt skal áætla sölu til að mæta mismunandi eftirspurn eftir afurðum/skrokkhlutum. Framkvæmdanefnd búvörusamninga staðfestir áætlunina. Innanlandsvog metur áætlaða þörf innanlandsmarkaðar. Mismunur á raunverulegri framleiðslu og innanlandsvog gefur til kynna árlega útflutningsþörf sláturleyfishafa. Álagsgreiðslur vegna gæðastýringar skiptast á þann hluta heildarframleiðslunnar sem ætlaður er til innanlandsmarkaðar.
Tvöföld greiðsla í janúar skal byggja á bráðabirgðaársáætlun miðað við framleiðslutölur fyrra árs á þeim tíma sem áætlunin er gerð. Stuðningsgreiðslur til framleiðenda skulu berist fyrsta virkan dag mánaðar. Greiðsla í janúar skal greidd eigi síðar en 18. janúar, þegar ársáætlun til bráðabirgða liggur fyrir.
Heimilt er að halda eftir 7% af framlögum vegna gæðastýringar og ullarnýtingar og 2% vegna beingreiðslna, svæðisbundins stuðnings og býlisstuðnings við gerð ársáætlunar sem verða greidd þegar heildarframleiðsla liggur fyrir. Ef fjárveiting yfirstandandi fjárlagaárs nægir ekki fyrir uppgjöri stuðningsgreiðslna er heimilt að draga mismuninn frá fjárveitingu næsta fjárlagaárs.
Heildargreiðslur til nýliða skal áætla út frá ærgildum og fjölda vetrarfóðraðra kinda samkvæmt haustskýrslu í Bústofni. Miða skal við að hver vetrarfóðruð ær tveggja vetra og eldri skili 20 kg af lambakjöti og hver veturgömul ær 10 kg. Jafnframt skal miða við að sérhver vetrarfóðruð kind skili 1,6 kg af hreinni ull. Skiptingu framleiðslu í flokka skal miða við framleiðslu á landsvísu árið á undan. Ef nýliði tekur við búi í fullum rekstri er heimilt að áætla greiðslur miðað við síðasta framleiðsluár fyrri eiganda.
Endurskoðuð ársáætlun um heildargreiðslur skal kynnt framleiðanda eigi síðar en 1. mars ár hvert. Framleiðandi skal skila inn athugasemdum við ársáætlun með rafrænum hætti eigi síðar en 30 dögum frá útkomu hennar.
Heimilt er að leiðrétta áætlun um heildargreiðslur til framleiðenda ef forsendur greiðslna breytast. Stuðningsgreiðslur eru inntar af hendi með fyrirvara um að framleiðandi fullnægi skilyrðum um stuðningsgreiðslur samkvæmt reglugerð þessari.
Uppgjör á heildargreiðslum fyrra árs skal fara fram í febrúar árið eftir að undanskildu uppgjöri fyrir ullarnýtingu, sem skal fara fram eigi síðar en 1. júní. Greiðslur eru þá leiðréttar í samræmi við raunverulega framleiðslu ársins og vegna annarra breytinga á forsendum heildargreiðslna, svo sem ef þeir standast ekki skilyrði fyrir álagsgreiðslu í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu. Framleiðanda er skylt að endurgreiða stuðningsgreiðslur ef þær reynast byggðar á röngum eða brostnum forsendum að hluta til eða að öllu leyti.
Framleiðendum er skylt að tilkynna um búskaparlok, svo unnt sé að tryggja rétt ársuppgjör og ársáætlun um heildarframlög.
Ef bú uppfyllir ekki skilyrði fyrir stuðningsgreiðslum samkvæmt reglugerð þessari er heimilt að endurkrefja nýjan framleiðanda um allar ofgreiddar stuðningsgreiðslur fyrir búið ef skipt hefur verið um handhafa á árinu.
Ef handhafaskipti eru ekki tilkynnt með réttum hætti áður en lokauppgjör fer fram þá ber ekki að endurkrefja fyrri handhafa um ofgreiddar stuðningsgreiðslur fyrir búið.
Heimilt er að skuldajafna endurgreiðslukröfu vegna greiðslna af öðrum stuðningsgreiðslum skv. samningi um starfsskilyrði í sauðfjárrækt.
Hver framleiðandi getur ekki fengið framlög samkvæmt reglugerð þessari sem nema hærra hlutfalli en 0,4% af árlegum heildarframlögum samkvæmt samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar.
6. gr. Frestun eða niðurfelling stuðningsgreiðslna.
Ef framleiðandi uppfyllir ekki skilyrði um greiðslur skv. 3. og 4. gr. er heimilt að fresta eða fella niður stuðningsgreiðslur.
Gæðastýringargreiðslur frestast hjá þeim framleiðendum sem ekki standast skilyrði gæðastýringar skv. reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu ef framleiðandi bregst ekki við skráðu fráviki í eftirlitsskýrslu Matvælastofnunar innan tilskilins frests.
Heimilt er að endurkrefja framleiðanda um stuðningsgreiðslur fyrir það tímabil sem hann þáði greiðslur fyrir ef hann stendur ekki skil á afurðaskýrsluhaldi.
7. gr. Framkvæmdanefnd búvörusamninga.
Framkvæmdanefnd búvörusamninga aflar upplýsinga um þróun framleiðslu og sölu á sauðfjárafurðum, afurðaverð, inn- og útflutning afurða, afkomuþróun í sauðfjárrækt auk annarra upplýsinga sem hafa þýðingu fyrir framkvæmd samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktar.
Á grundvelli upplýsinga skv. 1. mgr. getur framkvæmdanefnd búvörusamninga ákveðið að færa fjármuni á milli einstakra verkefna sem falla undir samning um starfsskilyrði sauðfjárræktar. Heimilt er að færa árlega allt að 20% þeirrar fjárhæðar sem ætluð er til hvers verkefnis.
8. gr. Framleiðslujafnvægi.
Ef bregðast þarf við breytingum á framboði og eftirspurn á markaði er framkvæmdarnefnd heimilt að færa fjármuni vegna ónýttra beingreiðslna til framleiðslujafnvægis, sbr. 11.1 gr. núgildandi samnings. Heimilt er að ráðstafa fjármunum samkvæmt ákvæði þessu til eftirtalinna verkefna:
- Eflingar á markaðsfærslu sauðfjárafurða,
- sérstakra uppbóta fyrir slátrun áa til fækkunar
- tilfærslna í aðra framleiðslu í sauðfjárrækt og
- greiðslna til að hafa áhrif á framleiðslumagn.
Verði fjármunir sem til ráðstöfunar eru, ekki nýttir til verkefna skv. liðum a-d skal framkvæmdanefnd búvörusamninga ráðstafa þeim til annarra verkefna í sauðfjársamningi.
II. KAFLI Greiðslumark og beingreiðslur.
9. gr. Greiðslumark lögbýla.
Greiðslumark lögbýla við gildistöku reglugerðar þessarar skal miðast við greiðslumark eins og það er skráð eftir að búið er að skrá tilkynningar um framsal og breytingar sem verða á greiðslumarkaðseign á markaði við lok hvers árs.
Greiðslumark sem er óvirkt í þrjú ár samfellt frá 1. janúar 2017 eða síðar, skal fellt úr gildi.
10. gr. Beingreiðslur.
Beingreiðslur til lögbýla taka breytingum í samræmi við ákvæði búvörulaga, með síðari breytingum.
Halda skal skrá yfir greiðslumark lögbýla og handhafa beingreiðslna.
Réttur til beingreiðslna flyst milli aðila innan lögbýlis við handhafaskipti og við breytingu skráningar ef um hjón eða einstaklinga í óvígðri sambúð er að ræða.
Fjármunum sem ekki er ráðstafað vegna skertra beingreiðslna eða óvirks greiðslumarks skal ráðstafað á liðinn framleiðslujafnvægi.
11. gr. Aðilaskipti.
Aðilaskipti að greiðslumarki skulu fara fram á innlausnarmarkaði, sbr. 12. gr. Þó er heimil tilfærsla greiðslumarks milli lögbýla í eigu sama aðila og við ábúendaskipti eða breytingu skráningar ef um hjón eða sambúðarfólk er að ræða.
Aðilaskipti taka gildi 1. janúar ár hvert og beingreiðslur greiðast nýjum handhafa frá sama tíma.
Með tilkynningu um flutning greiðslumarks sem bundið er við lögbýli skal fylgja staðfesting um eignarhald að lögbýli og samþykki ábúanda, sameigenda og þinglýst samþykki veðhafa í lögbýlinu.
Leiguliða er heimilt að kaupa greiðslumark á lögbýli á innlausnarmarkaði og skal það sérstaklega skráð á nafn hans.
Með tilkynningu um aðilaskipti að sérskráðu greiðslumarki í eigu ábúanda eða leiguliða við lok ábúðar eða leigu, sbr. 4. mgr. 38. gr. búvörulaga, skal fylgja staðfesting á eignarhaldi lögbýlis og því að eiganda jarðar hafi verið boðinn forkaupsréttur.
12. gr. Innlausn.
Handhafi greiðslumarks getur óskað eftir innlausn á greiðslumarki. Innlausnarverð er núvirt andvirði beingreiðslna næstu tveggja almanaksára. Bjóða skal til sölu það greiðslumark sem er innleyst á innlausnarverði. Miðað er við stýrivexti Seðlabanka Íslands 1. janúar ár hvert og greiðslur frá þeim tíma. Framleiðendur sem eiga 100 kindur eða fleiri og eru með ásetningshlutfallið 1,0 eða hærra skulu hafa forgang að 100% þess greiðslumarks sem er í boði á markaði, þar af 60% til þeirra sem eiga 200 kindur eða fleiri og hafa ásetningshlutfallið 1,6 eða hærra. Það skiptist hlutfallslega milli aðila sem hljóta forgang í samræmi við það magn sem þeir óskuðu eftir að kaupa. Hver framleiðandi getur ekki óskað eftir ærgildum umfram þau sem tryggja honum óskertar beingreiðslur í samræmi við fjárfjölda og ásetningshlutfall. Það greiðslumark sem ekki er úthlutað til framleiðenda í forgangshópi skal boðið öðrum umsækjendum.
Vegna forgangsröðunar er tekið mið af stöðu framleiðenda 1. janúar á innlausnarári. Hver framleiðandi getur ekki fengið hærri úthlutun en sem nemur því að heildarfjöldi ærgilda eftir úthlutun fari ekki yfir 600.
Ríkið innleysir það greiðslumark sem ekki selst. Þau ærgildi falla niður og skal framkvæmdanefnd búvörusamninga ráðstafa fjármagni vegna þeirra á liðinn framleiðslujafnvægi.
Skilafrestur á beiðnum um innlausn og kaup á greiðslumarki er 1. nóvember ár hvert. Greiðslufrestur vegna kaupa á greiðslumarki er 1. desember sama ár. Ærgildum sem úthlutað er á innlausnarmarkaði en eru ekki greidd innan greiðslufrests skal úthluta á næsta markaði. Með beiðni um innlausn á greiðslumarki skal fylgja staðfesting um eignarhald að lögbýli og samþykki ábúanda, sameigenda og veðhafa í lögbýlinu. Kaupandi greiðslumarks nýtir greiðslumark frá og með 1. janúar á næsta almanaksári eftir kaupin.
13. gr. Ásetningshlutfall.
Til að fá óskertar beingreiðslur þarf framleiðandi að eiga að lágmarki 0,6 vetrarfóðraðar kindur fyrir hvert ærgildi greiðslumarks.
Nái ásetningur ekki því lágmarki skerðast beingreiðslur hlutfallslega. Ef greiðslumarki lögbýlisins er skipt á fleiri en einn rekstraraðila, þá skal miðað við greiðslumark og ásetning hvers rekstraraðila fyrir sig.
Ásetningshlutfall hjá framleiðendum sem hafa skorið niður fé til útrýmingar bótaskyldum sjúkdómum skal á fyrsta almanaksári eftir fjártöku aðeins nema 1/3 af því sem ákveðið er samkvæmt 1. mgr. og á öðru ári 2/3, til að þeir haldi fullum beingreiðslum.
III. KAFLI Ullarnýting.
14. gr. Ráðstöfun fjármuna til ullarnýtingar.
Fjármunum til ullarnýtingar skal ráðstafað á eftirgreindan hátt:
- Að minnsta kosti 85% skulu greiðast til framleiðenda ullar skv. 3. gr. Fjárhæðinni skal deilt niður hlutfallslega eftir gæðum á hvert kíló hreinnar ullar miðað við alla innlagða ull á tímabilinu 1. janúar - 31. desember samkvæmt verðskrá. Skilyrði fyrir greiðslu fjármuna til framleiðenda er að ullin hafi verið flokkuð og metin í samræmi við lög nr. 57/1990, um flokkun og mat á gærum og ull, og reglugerð nr. 856/2003, um ullarmat.
- Allt að 15% skulu greiðast til kaupenda ullar sem uppfylla skilyrði skv. 2. mgr. 15. gr. Fjárhæðin skal þó eigi vera hærri en sem nemur kostnaði við söfnun ullarinnar. Verði afgangur af fjárhæðinni skal mismuni ráðstafað skv. 1. tölul.
Framkvæmdanefnd búvörusamninga ákveður notkun stuðla til að greiða mishátt álag á einstaka gæðaflokka ullar samkvæmt tillögu Landssamtaka sauðfjárbænda.
15. gr. Auglýsing.
Í september ár hvert skal auglýst eftir umsækjendum um stuðning til söfnunar ullar.
Stuðningur til söfnunar ullar er háður því að umsækjandi uppfylli eftirfarandi skilyrði:
- Aðili skal vera reiðubúinn að taka við allri vinnsluhæfri ull af öllum framleiðendum sem þess óska.
- Aðili þarf að sækja ull heim til framleiðanda eða taka á móti ullinni á móttökustöð sem ekki er lengra frá hverjum einstökum framleiðanda ullar en 100 km.
- Að minnsta kosti 30% allrar ullar sem aðili móttekur skal þvegin hér á landi og jafnframt unnið úr þessari sömu ull band, lopi eða samsvarandi vara hérlendis.
16. gr. Upplýsingaskylda.
Ullarkaupendur sem þiggja stuðning til söfnunar ullar skulu skila upplýsingum um móttekna ull fyrir 5. hvers mánaðar. Upplýsingar skulu veittar um magn, flokka og þvott sundurliðaðar niður á hvern seljanda. Upplýsingarnar skal veita með sendingu afreikninga eða sölunótna en ef upplýsingar eru sendar á rafrænu formi er ekki skylt að afreikningar eða sölunótur fylgi, aðeins að gögnin séu til staðar og aðgengileg verði eftir þeim leitað. Þá skulu ullarkaupendur skila ársskýrslu um ullarnýtingu fyrir 1. febrúar ár hvert, þ.m.t. um atriði sem talin eru upp í 1.-3. tölul. 2. mgr. 15. gr.
17 gr. Greiðslur.
Til að framleiðandi hljóti greiðslur þurfa að liggja fyrir staðfestar upplýsingar frá ullarkaupanda um þau atriði sem koma fram í 15. gr.
Heimilt er að beita stuðlum þannig að mishátt álag er greitt á einstaka gæðaflokka ullar skv. ákvörðun framkvæmdanefndar búvörusamninga.
18. gr. Uppgjör.
Samningur skal gerður við þá ullarkaupendur sem hljóta stuðning til söfnunar ullar, sbr. 15. og 16. gr.
IV. KAFLI Svæðisbundinn stuðningur.
19. gr. Markmið.
Markmið svæðisbundins stuðnings er að styðja þá framleiðendur sem eru á landsvæðum sem eru háðust sauðfjárrækt og framleiðendur hafa takmarkaða möguleika á annarri tekjuöflun.
20. gr. Sauðfjársvæði.
Framleiðendur sem eiga rétt á svæðisbundnum stuðningi skulu uppfylla öll eftirfarandi skilyrði. Við útreikning á fjarlægð skal miða við staðsetningu íbúðarhúss lögbýlis:
- Lögbýli sé í 40 km akstursfjarlægð eða lengra frá þéttbýlisstöðum sem eru með yfir 1.000 íbúa.
- Lögbýli sé í 75 km akstursfjarlægð eða lengra frá þéttbýlisstöðum sem eru með yfir 10.000 íbúa.
- Lögbýli sé í 150 km akstursfjarlægð eða lengra frá Reykjavík.
Byggja skal á gögnum frá Byggðastofnun hvað varðar lista yfir þau sauðfjárbú sem standast ofangreind skilyrði.
Heimilt er að víkja frá skilyrðum 1. mgr. ef framleiðandi sýnir fram á með sannanlegum hætti að þjóðvegur að lögbýli þar sem hann stundar sauðfjárrækt hafi lokast vegna snjóa, skriðufalla og vatnavaxta í meira en átta klukkustundir í senn á sólahring samfleytt í fimm daga á ári síðastliðin tvö ár. Framleiðandi skal sækja um slíka undanþágu eigi síðar en 10. janúar ár hvert.
21. gr. Rétthafar greiðslna.
Rétthafar greiðslna skulu uppfylla eftirtalin skilyrði:
- Vera handhafi greiðslna samkvæmt reglugerð þessari, sbr. 3. gr.
- Hafa átt 300 vetrarfóðraðar kindur eða fleiri samkvæmt haustskýrslu síðastliðið haust.
Framleiðendur í Árneshreppi teljast þó uppfylla b-lið 1. mgr. ef þeir eiga 100 vetrarfóðraðar kindur eða fleiri samkvæmt haustskýrslu síðastliðið haust.
22. gr. Framlög.
Framlög til svæðisbundins stuðnings skulu skiptast á milli rétthafa á hverjum tíma og taka breytingum miðað við breytingar á fjölda rétthafa.
Framleiðendur í Árneshreppi skulu fá greitt 25% álag á framlög skv. 1. mgr.
V. KAFLI Fjárfestingastuðningur.
23. gr. Markmið.
Greidd eru framlög til fjárfestingastuðnings í sauðfjárrækt. Markmið stuðningsins er að stuðla að bættum aðbúnaði sauðfjár og hagkvæmari búskaparháttum.
24. gr. Auglýsing og umsókn.
Auglýsa skal eftir umsækjendum um framlög til fjárfestingastuðnings. Umsókn skal fylgja framkvæmda- og kostnaðaráætlun. Ef um byggingarleyfisskylda framkvæmd er að ræða skulu fylgja teikningar samþykktar af byggingarfulltrúa. Ef um aðrar byggingar er að ræða er nægjanlegt að sýna drög að teikningu unna af ráðunautum Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins eða öðrum sambærilegum aðila.
Framleiðandi í sauðfjárrækt sem uppfyllir skilyrði 3. gr. getur sótt um fjárfestingastuðning. Umsóknum skal skila inn í rafrænt umsóknarkerfi, eigi síðar en 15. mars ár hvert vegna framkvæmda á árinu eða að hámarki 12 mánuðum frá því framkvæmdir hófust.
Í umsókn skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram:
- Upplýsingar um nafn, kennitölu, og lögheimili framleiðanda sem sækir um stuðning.
- Upplýsingar um búsnúmer lögbýlis sem sótt er um fjárfestingastuðning fyrir.
-
Tegund fjárfestingar sem óskað er stuðnings við:
- Nýframkvæmdir.
- Endurbætur á eldri byggingum.
- Heildarkostnaður vegna fjárfestingar. Kostnaður við úttekt er styrkhæfur. Kostnaður vegna kaupa á tæknibúnaði sem telst ekki vera sérstakt fylgifé fasteigna sem ætlaðar eru til landbúnaðar, sbr. lög um fasteignakaup, er ekki styrkhæfur.
- Rökstuðningur fyrir framkvæmd og hvernig framkvæmdin uppfyllir skilyrði fyrir stuðningi skv. 25. gr.
- Upplýsingar um þegar greiddan fjárfestingastuðning vegna sömu fjárfestingar, ef við á.
-
Nauðsynleg fylgiskjöl með umsókn:
- Sundurliðuð kostnaðaráætlun og framkvæmdaáætlun með verklýsingu og tímasettri verkáætlun unnin af fagaðila, svo sem Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins.
- Byggingarleyfi eða staðfesting byggingarfulltrúa um að byggingarleyfis sé ekki krafist vegna framkvæmdar.
- Samþykktar teikningar, ef við á. Drög að vinnuteikningum duga ef framkvæmd er ekki hafin. Samþykktar teikningar skulu þó berast eigi síðar en við lokaúttekt.
- Leyfi þinglýstra eigenda jarðar fyrir framkvæmd.
25. gr. Skilyrði stuðnings.
Fjárfestingastuðningur er veittur vegna framkvæmda sem stuðla að bættum aðbúnaði sauðfjár og hagkvæmari búskaparháttum.
Stuðningur er veittur vegna eftirfarandi framkvæmda:
- Nýframkvæmda.
- Endurbóta á eldri byggingum.
Umsækjendur skulu skila umsókn innan tilskilins tímafrests.
26. gr. Afgreiðsla og útreikningur fjárfestingastuðnings.
Fjárfestingastuðningur fyrir hvern framleiðanda getur að hámarki numið 20% af stofnkostnaði ef heildarkostnaður fer yfir eina milljón króna. Hver framleiðandi getur þó ekki fengið hærra framlag ár hvert en 10% af árlegri heildarupphæð fjárfestingastuðningsins skv. fjárlögum.
Sé fyrirhugað að framkvæmdir sem sótt er um stuðning fyrir verði framkvæmdar á fleiri en einu ári skal umsækjandi gera grein fyrir áfangaskiptingu við framkvæmdirnar í heild sinni í verklýsingu, verk- og kostnaðaráætlun. Heimilt er að veita stuðning við sömu framkvæmdir til allt að þriggja ára og skal þá framleiðandi leggja inn nýja umsókn árlega. Framleiðandi sem fengið hefur hámarksfjárfestingastuðning skv. 3. málsl. 1. mgr. þrjú ár í röð getur ekki sótt um stuðning að nýju fyrr en liðin eru þrjú ár frá síðustu styrkveitingu.
Við upphaf framkvæmdar sem telst styrkhæf greiðast 50% af samþykktri styrkupphæð og 50% við skil á lokaskýrslu að teknu tilliti til skilyrða í 27. gr.
Við útgreiðslu fyrri hluta styrks er heimilt að óska eftir staðfestingu frá byggingarfulltrúa eða ráðunaut Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins um að framkvæmdir séu hafnar og afriti af reikningum.
Lokaskýrsla felur í sér eftirfarandi gögn:
- Lokaúttekt byggingarfulltrúa, ef við á.
- Hreyfingarlisti úr löggildu bókhaldskerfi eða afrit af reikningum vegna fjárfestingarkostnaðar sem styrkur nær yfir.
- Úttekt, ef við á.
Framlög skerðast hlutfallslega á allar samþykktar umsóknir ef fjármunir hrökkva ekki til.
Hafi umsækjandi hlotið annan stuðning, bætur eða styrk samkvæmt reglugerð þessari, reglugerð um stuðning við nautgriparækt eða nýliðunarstuðning samkvæmt reglugerð um almennan stuðning við landbúnað vegna sömu framkvæmdar skal tilgreina það í umsókn og er heimilt að draga þá fjárhæð frá.
27. gr. Eftirlit og úttektir.
Heimilt er að framkvæma úttekt á framkvæmd umsækjanda ef þörf þykir og á hans kostnað. Ef framkvæmdakostnaður eða einstaka kostnaðarliðir hafi farið fram úr því sem eðlilegt getur talist skal taka tillit til þess við útreikning á endanlegri styrkupphæð.
Komi í ljós að stuðningur sem greiddur hefur verið hafi ekki verið nýttur til framkvæmda á framkvæmdaári sem sótt var um stuðning fyrir eða vikið hafi verið frá upplýsingum samkvæmt umsókn, skal framleiðandi endurgreiða greiddan stuðning.
VI. KAFLI Býlisstuðningur.
28. gr. Markmið.
Greiddur er býlisstuðningur í sauðfjárrækt. Markmið stuðningsins er að styrkja byggð og styðja við fjölskyldubú.
29. gr. Fjárhæðir og greiðslur.
Greidd er ákveðin fjárhæð til hvers framleiðanda sem fellur í ákveðna stærðarflokka eftir fjölda vetrarfóðraðra kinda samkvæmt haustskýrslu í Bústofni árið á undan samanber töflu í 2. mgr. Býlisstuðningur er ekki greiddur til framleiðenda sem eiga 100 vetrarfóðraðar kindur eða færri.
Fjárhæð greiðslu er fundin með því að margfalda fjölda búa í hverjum stærðarflokki með stuðli stærðarflokksins samanber töflu í 2. mgr. Niðurstaðan er síðan lögð saman og fæst þá heildarfjöldi hluta sem til skiptanna er. Árlegri fjárveitingu til býlisstuðnings er síðan skipt á einstaka framleiðendur í samræmi við stuðul stærðarflokks búsins sem segir jafnframt til um fjölda hluta búsins í heildarfjölda. Framleiðandi með 101 vetrarfóðraða kind fær þannig 1 hlut af heildarfjölda og svo framvegis í samræmi við töfluna.
Fjöldi vetrarfóðraðra kinda á búinu | Stuðull |
101-120 | 1 |
121-140 | 2 |
141-160 | 3 |
161-180 | 4 |
181-200 | 5 |
201-220 | 6 |
221-240 | 7 |
241-260 | 8 |
261-280 | 9 |
281-300 | 10 |
301-350 | 11 |
351-400 | 12 |
401-500 | 13 |
501-600 | 14 |
601-800 | 15 |
801 eða fleiri | 16 |
VII. KAFLI Aðlögunarsamningar.
30. gr.
Framleiðendur sem hyggjast hætta í sauðfjárbúskap eða fækka vetrarfóðruðum kindum um a.m.k. 100 geta sótt um aðlögunarsamning. Framleiðendur geta óskað eftir að gera slíka samninga til 2022. Aðlögunarsamningar sem gerðir eru árið 2019 gilda í fjögur ár en samningar gerðir síðar gilda í þrjú ár. Með gerð aðlögunarsamnings skuldbindur framleiðandi sig til að fækka vetrarfóðruðum kindum og í staðinn að byggja upp nýjar búgreinar, búskaparhætti eða hasla sér völl á öðrum sviðum m.a. til þess að stuðla að nýsköpun og náttúruvernd. Framleiðandi í sauðfjárrækt sem uppfyllir skilyrði 3. gr. getur sótt um aðlögunarsamning.
31. gr.
Hámarksfækkun vetrarfóðraðra kinda með aðlögunarsamningum skal vera 10% miðað við fækkun frá haustskýrslu árið 2016 í Bústofni. Ráðherra er heimilt að endurmeta hlutfall hámarksfækkunar, að fenginni tillögu framkvæmdanefndar búvörusamninga, með tilliti til innanlandsvogar og þróunar á framboði og eftirspurn sauðfjárafurða. Ákvörðun ráðherra vegna næsta almanaksárs á eftir skal liggja fyrir eigi síðar en 31. desember.
32. gr.
Framleiðnisjóður landbúnaðarins auglýsir eftir umsóknum og annast alla samningagerð við framleiðendur. Umsóknarfrestur er til 15. febrúar. Framleiðnisjóður fjallar um þær umsóknir sem berast, forgangsraðar ef þörf er á, sjá nánar 33. gr., og metur hvort þær uppfylla skilyrði um markmið og önnur ákvæði reglugerðarinnar. Framleiðnisjóður sér um að tilkynna framleiðanda um afgreiðslu umsóknar eigi síðar en 1. apríl og gera við hann aðlögunarsamning eigi síðar en 20. nóvember.
33. gr.
Verði fjöldi samninga takmarkaður skal forgangsraða umsóknum. Verkefni tengd sauðfjárafurðum skulu þá njóta forgangs. Auk þess skulu þeir framleiðendur sem hyggjast hætta sauðfjárbúskap njóta forgangs. Stjórn Framleiðnisjóðs setur verklagsreglur við úthlutun og forgangsröðun sem staðfestar skulu af framkvæmdanefnd búvörusamninga. Framleiðnisjóður sendir framkvæmdanefnd búvörusamninga skýrslu yfir samþykktar umsóknir til upplýsinga.
34. gr.
Framleiðandi skuldbindur sig til að fækka um að minnsta kosti 100 fjár á vetrarfóðrun. Samningsbundinni fækkun skal vera lokið á því ári sem samningur tekur gildi. Við mat á fækkun fjár skal miða upphafsstöðu fjárfjölda við haustskýrslu ársins 2019 og lokastöðu við haustskýrslu ársins 2021. Þá skal hafa til hliðsjónar skýrsluhaldsupplýsingar á gildistíma samningsins til að sannreyna að um umsamda fækkun sé að ræða. Framleiðendur skuldbinda sig til að skila fé með fullorðinsnúmeri til slátrunar og fjölga ekki fé á vetrarfóðrun né kaupa greiðslumark á gildistíma samningsins.
35. gr.
Framleiðandi með greiðslumark skal innleysa það að lágmarki þannig að skilyrði 1. mgr. 13. gr. fyrir því að fá óskertar beingreiðslur séu uppfyllt þegar fækkun vetrarfóðraðs sauðfjár samkvæmt aðlögunarsamningi er komin til framkvæmda. Innleyst greiðslumark vegna aðlögunarsamninga fellur niður.
36. gr.
Framleiðandi fær stuðningsgreiðslur á samningstímanum í samræmi við ákvæði reglugerðar um stuðning við sauðfjárrækt á gildistíma samningsins þrátt fyrir að hann stundi ekki sauðfjárrækt, þó að hámarki í fjögur ár. Greiðslur vegna býlisstuðnings og ullarnýtingar eru þó undanskildar. Gæðastýringargreiðslur skulu miðast við framleiðslu sl. tveggja ára enda skal framleiðandi standast skilyrði gæðastýringar á samningstímanum, sé hann ekki að hætta sauðfjárrækt. Aðrar stuðningsgreiðslur sem framleiðandi hafði við gildistöku aðlögunarsamnings taka almennum breytingum sem kunna að verða á úthlutun þeirra árlega. Framleiðandi verður áfram rétthafi svæðisbundins stuðnings á gildistíma samningsins. Gildir það jafnt um samninga þar sem framleiðandi hættir fjárbúskap og samninga um hlutfallslega fækkun.
Hjá þeim framleiðendum sem hætta í sauðfjárbúskap miðast greiðslur vegna aðlögunarsamninga við ærgildi fyrir innlausn. Gæðastýringargreiðslur og svæðisbundinn stuðningur miðast við meðalfjárfjölda og framleiðslu síðastliðinna tveggja ára eftir því sem við á.
Hjá þeim framleiðendum sem halda áfram sauðfjárbúskap miðast beingreiðslur vegna aðlögunarsamnings við innleyst greiðslumark. Hlutfall annarra greiðslna verður það sama og hlutfallsleg fækkun vetrarfóðraðs fjár sem samið er um. Um greiðslur út á framleiðslu eða gripafjölda sem áfram er á búinu fer eftir almennum ákvæðum reglugerðarinnar.
37. gr.
Aðlögunarsamningar sem gerðir eru 2019 taka gildi 1. janúar 2020 og greiðslur samkvæmt þeim gilda í fjögur ár. Aðlögunarsamningar gerðir síðar taka gildi 1. janúar komandi árs eftir samningsgerð og gilda í þrjú ár.
38. gr.
Aðlögunarsamningur skal fela í sér áætlun framleiðanda, sem samþykkt er af Framleiðnisjóði, um nýja starfsemi eða nýsköpun í samræmi við markmið 30. gr. Framleiðanda ber að stunda á samningstímanum búrekstur eða aðra starfsemi í samræmi við áætlunina. Í aðlögunarsamningi skulu markmið og vörður sem settar eru um árangur koma fram með skýrum hætti m.a. til að auðvelda eftirlitsskyldu stjórnvalda með samningunum.
39. gr.
Samningnum skal þinglýst sem kvöð á viðkomandi jörð. Kvöð samkvæmt samningnum gildir út samningstímann, óháð því hvort eignarhald eða umráð yfir jörðinni flyst milli aðila. Ráðherra hefur heimild til að aflétta þessari kvöð af jörðum. Samningurinn er framseljanlegur milli aðila á jörðinni, t.d. við breytingar á eignarhaldi eða ábúð jarðar og gilda þá ákvæði 11. og 12. gr. um aðilaskipti á lögbýli.
40. gr.
Komi í ljós verulegur misbrestur á því að framleiðandi uppfylli skyldur sínar samkvæmt samningi er heimilt að rifta samningnum gagnvart viðkomandi framleiðanda og krefja hann um endurgreiðslu þeirra fjármuna sem þegar hafa verið greiddir á grundvelli samningsins.
Ef í ljós kemur á gildistíma samningsins að forsendur hafi brostið fyrir þeirri starfsemi sem framleiðandi samdi um að hefja í aðlögunarsamningi getur framleiðandi óskað eftir því að uppfæra eða breyta áætlun sinni um starfsemina. Sé talið að góð rök séu færð fyrir breytingum á áætlun, skal leitað til Framleiðnisjóðs um mat á uppfærðri áætlun. Að fengnu jákvæðu mati Framleiðnisjóðs er heimilt að samþykkja breytingar á áætlun.
41. gr.
Framleiðandi er skuldbundinn til að hafa lögheimili og fasta búsetu á lögbýlinu á gildistíma samningsins og halda jörðinni í góðu ásigkomulagi, og skal þar horft til viðmiðunarreglna um mat á umhverfisþáttum í viðauka III í reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Þó er framleiðanda heimilt að fengnu skriflegu samþykki að starfrækja hluta þeirrar starfsemi sem fram kemur í áætlun á bújörð í sama eða aðliggjandi sveitarfélagi.
42. gr.
Framleiðendur skulu í lok hvers árs skila skýrslu þar sem fram koma upplýsingar um markmið og framvindu verkefna samkvæmt samningnum. Skýrslunni skal skilað fyrir 31. desember. Árlegar skýrslur frá framleiðendum skulu yfirfarnar eftir settum verklagsreglum. Framleiðendur skulu veita eftirlitsaðila allar þær upplýsingar sem tengjast verkefninu ef þess er krafist. Eftirlitsaðila er heimilt að fara í heimsóknir á lögbýli framleiðenda ef þörf krefur. Framleiðendum er skylt að veita þær upplýsingar sem óskað er eftir og eru nauðsynlegar vegna eftirlits.
VIII. KAFLI Gildistaka og fleira.
43. gr. Endurgreiðsla ofgreiddra greiðslna.
Ef greiðslur samkvæmt reglugerð þessari hafa verið ofgreiddar ber handhafa greiðslna að endurgreiða ríkinu hið ofgreidda fé. Beri að endurgreiða skal handhafi endurgreiða með vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim tíma er greiðslan átti sér stað og þar til endurgreiðsla fer fram. Auk almennra vaxta skal handhafi greiða dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Vextir skulu þó ekki greiddir ef endurgreiðsla fer fram innan 30 daga frá því að greiðsla fór fram.
44. gr. Skerðing og niðurfelling stuðningsgreiðslna.
Heimilt er að skerða, fella niður eða krefjast endurgreiðslu á stuðningsgreiðslum samkvæmt reglugerð þessari ef framleiðandi gefur vísvitandi rangar upplýsingar eða brýtur á annan hátt skilyrði reglugerðarinnar.
45. gr. Viðurlög.
Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt búvörulögum nr. 99/1993, með síðari breytingum. Með mál út af brotum skal farið skv. lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
46. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í búvörulögum nr. 99/1993, með síðari breytingum og búnaðarlögum nr. 70/1998, með síðari breytingum. Reglugerðin öðlast gildi 1. janúar 2020. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 1262/2018 um stuðning við sauðfjárrækt.
Ákvæði til bráðabirgða.
Þrátt fyrir 2. mgr. 5. gr. skal árið 2020 greidd tvöföld greiðsla fyrir janúar, mars, apríl, maí og júní en á móti felld niður greiðsla fyrir febrúar, september, október, nóvember og desember. Einföld mánaðargreiðsla er fyrir júlí og ágúst.
Ákvæði til bráðabirgða.
Þrátt fyrir ákvæði 32. gr. verður umsóknarfrestur vegna aðlögunarsamninga árið 2020 til 15. júní. Þá skal Framleiðnisjóður landbúnaðarins tilkynna framleiðanda um afgreiðslu umsóknar eigi síðar en 1. ágúst og gera við hann samning fyrir 20. nóvember.
Ákvæði til bráðabirgða.
Þrátt fyrir ákvæði 3. og 4. mgr. 12. gr. verður óselt greiðslumark sem var innleyst árin 2017 og 2018 sett á auka markað sem mun fara fram þann 1. desember 2020. Greiðslumarkið sem var innleyst á þessum tveimur árum mun verða til úthlutunar til samræmis við ákvæði reglugerðarinnar. Skilafrestur á beiðnum um kaup á þessum auka markaði er 3. desember 2020. Greiðslufrestur er 10. desember.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.