Fara beint í efnið

Prentað þann 23. nóv. 2024

Eldri útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 1. jan. 2020 – 1. jan. 2021 Sjá núgildandi

1245/2016

Reglugerð um dagdvöl aldraðra.

1. gr. Gildissvið.

Í reglugerð þessari er kveðið á um dagdvöl aldraðra, greiðslur sjúkratryggðra og greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í kostnaði sjúkratryggðra dvalargesta í dagdvalarrýmum.

2. gr. Sjúkratryggðir.

Sjúkratryggður er sá sem er búsettur á Íslandi og hefur verið það a.m.k. síðustu sex mánuðina áður en bóta er óskað úr sjúkratryggingum að uppfylltum öðrum skilyrðum laga um sjúkratryggingar, nema annað leiði af milliríkjasamningum, sbr. 10. gr. laga um sjúkratryggingar. Með búsetu er átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga. Að öðru leyti gilda um það hverjir teljist sjúkratryggðir hér á landi 10.-16. gr. laga um sjúkratryggingar.

Sjúkratryggingar Íslands ákvarða hvort einstaklingur teljist sjúkratryggður.

3. gr. Dagdvöl.

Dagdvöl aldraðra er stuðningsúrræði við þá sem að staðaldri þurfa eftirlit og umsjá til að geta búið áfram heima. Stjórnendur dagdvalar ákvarða hverjir eiga rétt til dvalar í dagdvöl.

4. gr. Þjónusta í dagdvöl.

Í dagdvöl aldraðra skal veitt hjúkrunarþjónusta og vera aðstaða til þjálfunar og læknisþjónustu. Boðið skal upp á mat á heilsufari, þjálfun, tómstundaiðju, félagslegan stuðning, fræðslu, ráðgjöf og aðstoð við athafnir daglegs lífs. Ennfremur skal boðið upp á aðstöðu til léttra líkamsæfinga, fæði, hvíldaraðstöðu og aðstoð við böðun.

Boðið skal upp á flutningsþjónustu að og frá heimili einstaklingsins.

Dagdvöl má reka sjálfstætt eða í tengslum við aðra starfsemi.

5. gr. Greiðslur dvalargests.

Dagdvalargestur greiðir 1.248 kr. fyrir hvern dvalardag, sbr. 19. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra, með síðari breytingum. Stjórnendur dagdvalar innheimta gjaldið. Stjórnendur ákveða hversu oft í mánuði gjaldið er innheimt. Kostnaður vegna flutningsþjónustu er innifalinn í gjaldinu.

6. gr. Greiðsla daggjalda þegar í gildi er samningur um dagdvöl.

Um daggjöld fyrir þjónustu við sjúkratryggða í dagdvalarrýmum sem ekki eru á föstum fjárlögum fer samkvæmt samningi rekstraraðila og Sjúkratrygginga Íslands, sbr. IV. kafla laga um sjúkratryggingar, með síðari breytingum.

7. gr. Greiðsla daggjalda þegar ekki eru samningar í gildi um dagdvöl. Gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands.

Séu samningar um þjónustu við sjúkratryggða í dagdvalarrýmum ekki fyrir hendi, sbr. IV. kafla laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, er Sjúkratryggingum Íslands heimilt að taka þátt í kostnaði sjúkratryggðra vegna dvalar í dagdvalarrýmum sem ekki eru á föstum fjárlögum samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar og á grundvelli gjaldskrár sem stofnunin gefur út, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um sjúkratryggingar. Gjaldskráin skal rúmast innan gildandi fjárlaga. Heimildin gildir frá 1. janúar 2020 til og með 31. desember 2020.

Gjaldi fyrir dvöl í dagdvalarrými er ætlað að mæta þeirri þjónustu sem notendum þjónustunnar er látin í té á meðan á dvalartíma þeirra þar stendur. Gjaldinu er einnig ætlað að mæta rekstri stofnunarinnar þó án viðhalds húsnæðisins. Nauðsynlegur flutningskostnaður notenda er innifalinn í dagdvalargjaldi.

Sjúkratryggingar Íslands greiða gjald til að mæta viðhaldskostnaði húsnæðis sem nýtt er til reksturs á dagdvalarrýmum. Gjaldið reiknast að hámarki á 30 m² fyrir dagdvalarrými að meðtöldu sameiginlegu rými. Gjaldið reiknast aldrei á stærra rými en sem stærð húsnæðisins nemur.

Viðhaldshluta í húsnæðisgjaldi er ætlað að standa undir öllu almennu viðhaldi húsnæðis en ekki stofnkostnaði, afskriftum og meiriháttar breytingum og endurbótum á húsnæði.

8. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 29. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra, 2. mgr. 38. gr. og 55. gr. laga um sjúkratryggingar, öðlast gildi 1. janúar 2017. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 45/1990 um dagvist aldraðra og reglugerð nr. 145/2016 um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í kostnaði sjúkratryggðra vegna dvalar í hjúkrunarrýmum, dvalarrýmum og dagdvalarrýmum á stofnunum sem ekki eru á föstum fjárlögum árið 2016 og sem eru án samnings við Sjúkratryggingar Íslands.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.