Prentað þann 27. des. 2024
1200/2014
Reglugerð um móttöku á úrgangi og farmleifum frá skipum.
Efnisyfirlit
- Reglugerðin
- 1. gr. Markmið.
- 2. gr. Skilgreiningar.
- 3. gr. Gildissvið.
- 4. gr. Móttaka úrgangs og farmleifa frá skipum í höfnum.
- 5. gr. Eftirlit.
- 6. gr. Áætlanir hafna.
- 7. gr. Tilkynningar um úrgang og farmleifar.
- 8. gr. Afhending úrgangs frá skipum.
- 9. gr. Afhending farmleifa.
- 10. gr. Úrgangsgjald.
- 11. gr. Undanþágur.
- 12. gr. Umsjón með framkvæmd reglugerðar.
- 13. gr. Ágreiningur.
- 14. gr. Þvingunarúrræði og refsiviðurlög.
- 15. gr. Innleiðing.
- 16. gr. Lagastoð og gildistaka.
- Viðauki I
- Viðauki II
1. gr. Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að draga úr losun úrgangs og farmleifa í sjó frá skipum með því að tryggja aðstöðu í höfnum til að taka við úrgangi frá skipum.
2. gr. Skilgreiningar.
Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi orða og hugtaka sem hér segir:
Aðstaða í höfnum fyrir úrgang frá skipum og farmleifar: Hvers konar aðstaða eða þjónusta, hvort sem hún er föst eða hreyfanleg, sem nota má til að taka á móti úrgangi frá skipum og farmleifum.
Farmleifar: leifar hvers konar farms um borð í skipum, í lestum eða tönkum, sem verða eftir að lokinni affermingu og hreinsun, þar með talið umframmagn og leki í tengslum við fermingu eða affermingu.
Fiskiskip: hvert það skip sem er útbúið eða notað til fiskveiða eða til að afla annarra lifandi auðlinda sjávar í atvinnuskyni.
Höfn: svæði á landi og sjó með mannvirkjum og tækjum til móttöku skipa, losunar og lestunar þeirra, geymslu vöru, móttöku og afgreiðslu þessarar vöru til áframhaldandi sjó- eða landflutninga og til móttöku og brottfarar farþega.
MARPOL-samningurinn: alþjóðasamningur um varnir gegn mengun frá skipum frá árinu 1973, ásamt bókun frá árinu 1978 (MARPOL 73/78).
Skemmtibátur: skip af hvaða gerð sem er ætlað til íþrótta eða tómstunda, óháð tegund búnaðar til að knýja skipið áfram.
Skip: sérhvert fljótandi far.
Úrgangur frá skipum: allur úrgangur, þar með talið skólp og leifar aðrar en farmleifar, sem verður til við störf um borð í skipi og fellur undir gildissvið I., IV. og V. viðauka við MARPOL-samninginn, svo og farmtengdur úrgangur eins og hann er skilgreindur í leiðbeiningum um framkvæmd V. viðauka við MARPOL-samninginn.
Meiri háttar breyting á rekstri hafnar: Breyting á notkun hafnar, tegund skipaumferðar eða afmörkun hafnarsvæðis skv. hafnarreglugerð. Einnig meiri háttar breytingar á móttökuaðstöðu í höfnum eða verulegar breytingar á öðru fyrirkomulagi innan hafnarsvæðis.
3. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um öll íslensk skip og um öll önnur skip sem koma til hafnar á Íslandi, að undanskildum erlendum herskipum, hjálparskipum í flota eða öðrum skipum í ríkiseign eða ríkisrekstri sem um stundarsakir eru nýtt í þágu hins opinbera til annars en viðskipta.
Reglugerðin gildir jafnframt um allar íslenskar hafnir.
Ákvæði 7. og 10. gr. eiga ekki við um fiskiskip eða skemmtibáta sem ekki mega flytja fleiri en 12 farþega.
4. gr. Móttaka úrgangs og farmleifa frá skipum í höfnum.
Hafnarstjórn skal koma upp viðunandi aðstöðu fyrir móttöku úrgangs og farmleifa frá skipum í öllum höfnum. Aðstaðan skal miðast við þarfir skipa er jafnan koma í viðkomandi höfn og hafnarstjórn er heimilt að fela þjónustuaðila með samningi umsjón með móttöku og meðhöndlun úrgangs og farmleifa frá skipum.
5. gr. Eftirlit.
Umhverfisstofnun hefur eftirlit með móttöku úrgangs og farmleifa frá skipum í höfnum, tilkynningum um úrgang, áætlunum hafna og að til staðar sé aðstaða fyrir móttöku úrgangs. Um meðhöndlun úrgangs, útgáfu starfsleyfa fyrir meðhöndlun hans og eftirlit fer samkvæmt ákvæðum laga um meðhöndlun úrgangs.
Umhverfisstofnun útbýr eftirlitsáætlun til fimm ára í senn vegna eftirlits með aðstöðu fyrir móttöku úrgangs og farmleifa frá skipum í höfnum. Í eftirlitsáætluninni skal vera yfirlit yfir eftirlitsferðir og skipulag eftirlits með móttökuaðstöðu í höfnum.
Reglubundið eftirlit með höfnum fer fram að lágmarki á fimm ára fresti. Umhverfisstofnun hefur heimild til að fara í aukaeftirlit með móttökuaðstöðu í höfnum ef fyrirliggjandi upplýsingar benda til þess að ákvæði reglugerðarinnar séu ekki uppfyllt. Í eftirliti skal farið yfir hvort starfsemi sé í samræmi við áætlanir hafna sbr. 6. grein, hvort meðhöndlun úrgangs í móttökuaðstöðu sé í samræmi við kröfur laga og reglugerða um meðhöndlun úrgangs og að samræmi sé á milli afhendingar úrgangs og tilkynninga sbr. 7. grein um úrgang og farmleifar.
Umhverfisstofnun skal fyrir 1. maí ár hvert gefa út skýrslu um niðurstöður eftirlits fyrir undangengið ár og birta á vefsetri sínu.
Við eftirlit með aðstöðu í höfnum fyrir móttöku úrgangs og farmleifar frá skipum skal Umhverfisstofnun hafa aðgang að nauðsynlegum gögnum s.s. tilkynningum um úrgang og farmleifar og kvittunum fyrir móttöku úrgangs til að meta hvort móttaka og meðhöndlun á úrgangi uppfylli settar kröfur.
Umhverfisstofnun innheimtir gjald hjá rekstraraðila hafna vegna eftirlits með móttökuaðstöðu í höfnum skv. gjaldskrá sem ráðherra setur.
6. gr. Áætlanir hafna.
Hafnaryfirvöld skulu gera áætlun um móttöku og meðhöndlun úrgangs og farmleifa í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar, sbr. og viðauka I. Við gerð áætlunar skal hafa samráð við hlutaðeigandi aðila, einkum notendur hafna eða fulltrúa þeirra.
Endurskoða skal áætlun hafna á þriggja ára fresti en einnig eftir meiri háttar breytingar á rekstri hafnarinnar.
Heimilt er að gera sameiginlega áætlun fyrir stærri svæði með viðeigandi þátttöku hverrar hafnar að því tilskildu að gerð sé sérstaklega grein fyrir hverri höfn í áætluninni.
Umhverfisstofnun staðfestir áætlun um meðhöndlun og móttöku úrgangs og farmleifa.
7. gr. Tilkynningar um úrgang og farmleifar.
Skipstjóri skips sem er á leið til hafnar ber ábyrgð á að tilkynning um úrgang og farmleifar í skipum, sbr. viðauka II, sé fyllt út með réttum upplýsingum og að koma henni til viðkomandi hafnaryfirvalda:
- með 24 klukkustunda fyrirvara við komu til hafnar ef viðkomuhöfn er þekkt; eða
- um leið og viðkomuhöfn er ákveðin ef 24 klukkustunda fyrirvari næst ekki; eða
- fyrir brottför frá fyrri höfn ef sjóferðin er skemmri en 24 klukkustundir.
Útfyllt tilkynning um úrgang og farmleifar í skipum skv. 1. mgr. skal geymd um borð í skipi þangað til komið er til næstu viðkomuhafnar.
Hafnaryfirvöld skulu yfirfara þær tilkynningar sem berast og athuga hvort þær séu rétt útfylltar og hvort allar nauðsynlegar upplýsingar komi þar fram. Hafnaryfirvöldum er heimilt að óska eftir viðbótarupplýsingum ef þörf er á. Ef viðbótarupplýsingar berast ekki eða ef rökstuddur grunur leikur á að upplýsingar á tilkynningu séu ekki réttar skulu hafnaryfirvöld gera Umhverfisstofnun og Samgöngustofu (hafnarríkiseftirliti) viðvart sem í framhaldi taka ákvörðun um þær aðgerðir sem grípa skal til.
Hafnaryfirvöld skulu fyrir 1. mars ár hvert senda Umhverfisstofnun og heilbrigðisnefndum viðkomandi sveitarfélaga samantekt á þeim tilkynningum um úrgang og farmleifar sem þeim hafa borist árið á undan og yfirlit yfir magn og tegund þess úrgangs sem skilað hefur verið.
8. gr. Afhending úrgangs frá skipum.
Skipstjóri ber ábyrgð á því að úrgangi frá skipi sé skilað til hafnar eða viðurkennds þjónustuaðila áður en látið er úr höfn.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er skipi heimilt að halda til næstu viðkomuhafnar án þess að afhenda úrgang ef ráða má af þeim upplýsingum sem gefnar eru í tilkynningu skv. 7. gr. og viðauka II að nægilegt sérhæft geymslurými sé um borð fyrir þann úrgang sem safnast hefur fyrir og mun safnast fyrir meðan á fyrirhugaðri ferð til afhendingarhafnar stendur.
Ef gildar ástæður eru til að ætla að fullnægjandi aðstaða sé ekki fyrir hendi í fyrirhugaðri afhendingarhöfn eða ef höfnin er óþekkt og því hætta á losun úrgangs í sjó getur Umhverfisstofnun í samráði við Samgöngustofu krafist afhendingar úrgangs frá skipi fyrir brottför. Hafnaryfirvöldum skulu afhentar kvittanir því til sönnunar. Láti skip úr höfn án afhendingar kvittana skal hafnarstjóri tilkynna það Umhverfisstofnun og Samgöngustofu (hafnarríkiseftirliti).
9. gr. Afhending farmleifa.
Skipstjóri skips sem hefur viðkomu í höfn skal tryggja að farmleifar séu afhentar í þar til gerðri aðstöðu hafnarinnar fyrir móttöku úrgangs og farmleifa í samræmi við tilkynningu samkvæmt 7. gr.
Notandi hafnaraðstöðu skal greiða gjald fyrir afhendingu farmleifa samkvæmt gjaldskrá viðkomandi hafnaryfirvalda. Eingöngu skal greiða gjald þegar farmleifar eru að sönnu afhentar og skal gjaldið standa undir kostnaði við móttöku, meðhöndlun og förgun farmleifa.
10. gr. Úrgangsgjald.
Öll skip, að undanskildum fiskiskipum, skemmtibátum sem ekki mega flytja fleiri en 12 farþega, herskipum, hjálparskipum í flota, skipum sem þjónusta fiskeldi og skipum í ríkiseign eða ríkisrekstri sem nýtt eru í þágu hins opinbera, sem koma til hafnar skulu greiða gjald fyrir móttöku og meðhöndlun á úrgangi frá skipum, sbr. f-lið 1. tölul. 2. mgr. 17. gr. hafnalaga, nr. 61/2003.
Gjaldið skal standa undir kostnaði við aðstöðu fyrir móttöku úrgangs frá skipum, kostnaði við meðhöndlun og förgun úrgangs frá skipum sem og kostnaði við eftirlit Umhverfisstofnunar. Við ákvörðun fjárhæðar gjalds skal tekið mið af, eftir því sem við á, fjölda skipverja og farþega um borð, lengd sjóferðar og stærð skips.
Til að tryggja að gjöldin séu sanngjörn, gagnsæ og endurspegli kostnað vegna þess búnaðar og þjónustu sem veitt er skulu notendur hafnanna hafa aðgang að upplýsingum um þann grundvöll sem gjöldin eru byggð á.
11. gr. Undanþágur.
Umhverfisstofnun getur veitt skipum í áætlunarsiglingum sem hafa reglulega viðkomu í höfnum og sýna fram á trygga afhendingu úrgangs og greiðslu gjalda í einhverri höfn á siglingaleiðinni undanþágu frá afhendingu úrgangs skv. 8. gr. reglugerðar þessarar.
Umhverfisstofnun er heimilt að veita skipum í áætlunarsiglingum, sem hafa tíða og reglulega viðkomu í höfnum og geta sýnt fram á trygga afhendingu úrgangs og greiðslu gjalda í einhverri höfn á siglingaleiðinni, undanþágu frá skilum tilkynningar um úrgang og farmleifar skv. 7. gr. reglugerðar þessarar. Umsókn um undanþágu samkvæmt 1. og 2. mgr. skal berast Umhverfisstofnun á þar til gerðu eyðublaði og skulu eftirtalin gögn fylgja umsókn:
- Upplýsingar um geymslurými um borð.
- Gögn sem sýna fram á að viðkomandi skip sé í áætlunarsiglingum og hafi reglulega viðkomu í höfnum.
- Afrit af samningi/yfirlýsingu sem í gildi er við tiltekna höfn á siglingaleiðinni eða þjónustuaðila um móttöku á úrgangi.
- Kvittanir um móttöku á úrgangi sem sýna að samningur sé virkur.
- Listi yfir þær íslenskar hafnir sem undanþága varðar.
Áður en Umhverfisstofnun tekur ákvörðun um veitingu undanþágu getur stofnunin leitað umsagnar viðkomandi hafnarstjóra.
Ef Umhverfisstofnun telur ofangreind skilyrði vera fyrir hendi veitir stofnunin skriflega undanþágu frá skilum tilkynningar um úrgang og farmleifar og afhendingu úrgangs í viðkomandi höfnum. Undanþága gildir í fimm ár. Afrit af undanþágu skal geymt um borð í viðkomandi skipi.
Undanþága fellur úr gildi ef breytingar verða á áætlunarsiglingum þess skips sem undanþága tekur til eða fyrirkomulagi á móttöku úrgangs frá skipi.
12. gr. Umsjón með framkvæmd reglugerðar.
Umhverfisstofnun hefur umsjón með framkvæmd reglugerðar þessarar. Stofnunin skal útbúa leiðbeiningar um skil á upplýsingum skv. 3. mgr. 6. gr.
Umhverfisstofnun getur falið heilbrigðisnefndum sveitarfélaga eða faggiltum skoðunaraðilum eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar í samræmi við sérstakt samkomulag þar að lútandi, sbr. 2. og 3. málsl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda, með síðari breytingum.
13. gr. Ágreiningur.
Ágreiningi um framkvæmd reglugerðarinnar er heimilt að vísa til úrskurðar ráðherra.
14. gr. Þvingunarúrræði og refsiviðurlög.
Um beitingu þvingunarúrræða og dagsekta, refsiviðurlög, sektir og farbann fer samkvæmt V. kafla laga nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda, með síðari breytingum.
15. gr. Innleiðing.
Reglugerð þessi er sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/59/EB, um aðstöðu í höfnum til að taka á móti úrgangi skipa og farmleifum, sem vísað er til í tölul. 56i í V. kafla, XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 77/2001, þann 19. júní 2001, og með hliðsjón af tilskipun 2002/84/EB.
16. gr. Lagastoð og gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með stoð í k- og l-lið 6. gr. laga nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda, með síðari breytingum.
Við gildistöku reglugerðar þessarar fellur úr gildi reglugerð nr. 792/2004 um móttöku á úrgangi frá skipum.
Reglugerð þessi öðlast gildi 31. desember 2014.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.