REGLUGERÐ EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS (EB) nr. 1891/2006
frá 18. desember 2006
um fjármögnun til margra ára á aðgerðum Siglingaöryggisstofnunar Evrópu til að bregðast við mengun frá skipum og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 1406/2002
(Texti sem varðar EES)
EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum
2. mgr. 80. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna (1),
að höfðu samráði við svæðanefndina,
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans (2),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1) Sérstakir tvíhliða og svæðisbundnir samningar, sem gerðir hafa verið milli strandríkja, s.s. Helsinkisamningurinn frá 1992 og Barcelona-samningurinn frá 1976, kveða á um gagnkvæma aðstoð við mengunarslys á sjó.
2) Með reglugerð (EB) nr. 1406/2002 (3) var Siglingaöryggisstofnun Evrópu komið á fót (hér á eftir nefnd „stofnunin“) í þeim tilgangi að tryggja hátt og samræmt stig öryggis- og mengunarvarna sem skilar árangri á sviði siglinga.
3) Með reglugerð (EB) nr. 724/2004, sem var breyting á reglugerð (EB) nr. 1406/2002, voru stofnuninni falin ný verkefni á sviði mengunarvarna og viðbragða við mengun frá skipum, sem svar við nýlegum slysum á hafsvæðum Bandalagsins, einkum slys olíuflutningaskipanna „Eriku“ og „Prestige“.
________________
(1) Stjtíð. ESB C 28, 3.2.2006, bls. 16.
(2) Álit Evrópuþingsins frá 5. september 2006 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB) og ákvörðun ráðsins frá 18. desember 2006.
(3) Stjtíð. EB L 208, 5.8.2002, bls. 1. Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð (EB) nr. 724/2004 (Stjtíð. ESB L 129, 29.4.2004, bls. 1).
________________
4) Til þess að framkvæma þessi nýju verkefni á sviði mengunarvarna og viðbragða við mengun samþykkti stjórn stofnunarinnar 22. október 2004 aðgerðaáætlun um viðbúnað vegna olíumengunar og viðbrögð við henni, þar sem kveðið er á um viðbrögð stofnunarinnar við olíumengun og stefnt að hámarksnýtingu á því fjármagni sem stofnunin hefur til umráða (hér á eftir nefnd „aðgerðaáætlunin“).
5) Viðbrögð stofnunarinnar við mengun, eins og þau eru skilgreind í aðgerðaáætluninni, tengjast starfsemi á sviði upplýsinga, samstarfs og samræmingar og einkum framkvæmdaraðstoð við aðildarríkin með því að láta í té, sé þess óskað, aukaskip til mengunarvarna til að berjast gegn olíumengun og annars konar mengun, t.d. af völdum hættulegra og skaðvænlegra efna. Stofnunin skal huga sérstaklega að þeim svæðum sem teljast viðkvæmust, án þess að það hafi áhrif á aðstoð hennar á öðrum svæðum sem nauðsynlegt er að huga að.
6) Starfsemi stofnunarinnar á þessu sviði skal ekki leysa strandríki undan þeirri ábyrgð að koma á viðeigandi fyrirkomulagi til að bregðast við mengun og skal hún fara að gildandi samstarfsfyrirkomulagi aðildarríkjanna eða hópa aðildarríkja á þessu sviði. Verði mengunarslys á sjó skal stofnunin aðstoða aðildarríkið eða aðildarríkin sem fyrir áhrifum verða og stjórna hreinsuninni.
7) Í samræmi við aðgerðaáætlunina skal stofnunin taka virkan þátt í því að móta miðlæga þjónustu fyrir gervitunglamyndir til að hafa eftirlit með mengun, til að greina hana tímanlega og bera kennsl á skip sem bera ábyrgð á henni. Þetta nýja kerfi mun auka aðgengileika gagna og skilvirkni viðbragða við mengun af völdum skipa.
8) Viðbótarúrræði, sem stofnunin lætur aðildarríkjunum í té, skulu gerð aðgengileg innan ramma fyrirkomulags Bandalagsins við hjálparaðgerðir á sviði almannavarna, þ.m.t. óviljandi mengun sjávar, sem komið var á fót með ákvörðun ráðsins 2001/792/EB, KBE (1).
9) Til þess að tryggja ítarlega framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar og styrkja varnir gegn og viðbrögð við mengun frá skipum með því að víkka út núverandi mengunarvarnaraðgerðir, skal stofnuninni látið í té hentugt og kostnaðarhagkvæmt kerfi til fjármögnunar, einkum að því er varðar framkvæmdaraðstoð hennar við aðildarríkin.
10) Því er nauðsynlegt að kveða á um viðeigandi fjárhagslegt öryggi fyrir fjármögnun þeirra verkefna sem stofnuninni er falið á sviði viðbragða við mengun og annars konar tengdra aðgerða á grundvelli skuldbindinga til margra ára. Ákveða skal fjárhæð árlegs framlags Bandalagsins í samræmi við gildandi verklagsreglur.
11) Fjárhæðin, sem er úthlutað til að standa straum af viðbrögðum við mengun, skal ná til áranna 2007 til 2013, í samræmi við nýja fjárhagsáætlun.
12) Af þeim sökum skal kveða á um fjárhagsramma, sem nær yfir sama tímabil, til að framkvæma aðgerðaáætlunina.
13) Líta skal á fjárhæð fjárhagsrammans sem lágmarksupphæð sem er nauðsynleg til að framkvæma þau verkefni sem stofnuninni er falið á sviði viðbragða við mengun frá skipum.
14) Til þess að dreifa skuldbindingum eins og best verður á kosið og að tekið sé tillit til allra breytinga, að því er varðar viðbrögð við mengun frá skipum, er nauðsynlegt að tryggja að stöðugt sé fylgst með því hvort sérstaklega þurfi að grípa til aðgerða þannig að hægt sé að aðlaga árlegar fjárskuldbindingar.
15) Stjórn stofnunarinnar skal því, á grundvelli skýrslu sem framkvæmdastjóri leggur fram, endurskoða fjárskuldbindingar til að meta hvort nauðsynlegt sé að gera breytingar á fjárhagsáætlun stofnunarinnar. Breyta ber reglugerð (EB) nr. 1406/2002 til samræmis við það.
________________
(1) Stjtíð. EB L 297, 15.11.2001, bls. 7.
________________
SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:
1. gr. Markmið
Í þessari reglugerð er mælt fyrir um nákvæm ákvæði um fjárframlag Bandalagsins til fjárlaga Siglingaöryggisstofnunar Evrópu til framkvæmdar þeirra verkefna, sem stofnuninni eru falin á sviði viðbragða við mengun frá skipum, og til annars konar tengdra aðgerða, í samræmi við 2. gr. reglugerðar (EB) nr. 1406/2002.
2. gr. Skilgreiningar
Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a) „stofnunin“: Siglingaöryggisstofnun Evrópu sem komið var á fót með reglugerð (EB) nr. 1406/2002,
b) „svæðisbundnir samningar“: tvíhliða og svæðisbundnir samningar sem gerðir hafa verið milli strandríkja um að veita gagnkvæma aðstoð þegar mengunarslys verður á sjó,
c) „olía“: jarðolía í hvaða formi sem er, þ.m.t. óhreinsuð olía, brennsluolía, sori, olíuúrgangur og hreinsaðar afurðir eins og ákvarðað er í alþjóðasamningi um viðbúnað og viðbrögð gegn olíumengun og samstarf þar um frá 1990,
d) „hættuleg og skaðvænleg efni“: önnur efni en olía sem eru líkleg til að stofna heilbrigði manna í hættu, skaða lifandi auðlindir og sjávarlíf, rýra eftirsóknarverða þætti í umhverfinu eða hindra önnur réttmæt not af hafinu ef þau eru losuð í umhverfi sjávar, samkvæmt bókun um viðbúnað og viðbrögð gegn mengunaróhöppum af völdum hættulegra og skaðvænlegra efna og samstarf þar um frá 2000.
3. gr. Gildissvið
Fjárframlagi Bandalagsins, sem um getur í 1. gr., skal úthlutað til stofnunarinnar með það að markmiði að fjármagna aðgerðir, s.s þær sem tilgreindar eru í aðgerðaáætluninni, einkum þær sem varða:
a) upplýsingar og söfnun, greiningu og miðlun bestu starfsvenja, aðferða og nýjunga, s.s. tæki til að vakta tanktæmingu, á sviði viðbragða við mengun frá skipum,
b) samstarf og samræmingu og að veita aðildarríkjunum og framkvæmdastjórninni tæknilega og vísindalega aðstoð við starfsemi innan ramma viðeigandi svæðisbundinna samninga,
c) framkvæmdaraðstoð í tengslum við óviljandi eða viljandi mengun frá skipum og, ef þess er óskað, stuðning við viðbragðsáætlanir aðildarríkjanna við mengun með viðbótarúrræðum, s.s. mengunarvarnarskip og -búnaður í viðbragðstöðu,
4. gr. Fjármögnun Bandalagsins
Fjárhagsramminn fyrir framkvæmd þeirra verkefna sem um getur í 3. gr., að því er varðar tímabilið frá 1. janúar 2007 til 31. desember 2013, skal vera 154 000 000 evrur.
Fjárveitingavaldið skal ákvarða árlegar fjárveitingar innan fjárhagsrammans. Í þessu sambandi skal tryggja aðildarríkjunum nauðsynlega fjármögnun til framkvæmdaraðstoðar sem mælt er fyrir um í c-lið 3. gr.
5. gr. Fylgst með fyrirliggjandi viðbragðsgetu
Til að skilgreina þörf á framkvæmdaraðstoð, s.s. aukaskip til mengunarvarna sem stofnuninni ber að láta aðildarríkjunum í té, skal stofnunin með reglulegu millibili taka saman yfirlit yfir þau kerfi og úrræði sem einkaaðilar og ríki geta gripið til, til að
bregðast við mengun á hinum ýmsu svæðum Evrópusambandsins.
6. gr. Verndun fjárhagslegra hagsmuna Bandalagsins
1. Framkvæmdastjórnin og stofnunin skulu tryggja verndun fjárhagslegra hagsmuna Bandalagsins, þegar gripið er til aðgerða sem fjármagnaðar eru samkvæmt þessari reglugerð, með því að beita fyrirbyggjandi aðgerðum gegn svikum, spillingu og hvers kyns öðru ólöglegu athæfi, með því að beita skilvirku eftirliti og endurheimta fjárhæðir, sem greiddar hafa verið á óréttmætan hátt, og, ef í ljós kemur að reglur eru ekki virtar, með viðurlögum sem eru skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og letjandi í samræmi við reglugerð ráðsins (EB, KBE) nr. 2988/95 (1) og (KBE, EB) nr. 2185/96 (2) og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1073/1999 (3).
2. Að því er varðar aðgerðir Bandalagsins, sem eru fjármagnaðar samkvæmt þessari reglugerð, skal hugtakið brot, sem um getur í 2. mgr. 1. gr. reglugerðar (EB, KBE) nr. 2988/95, merkja hvers kyns brot á ákvæðum Bandalagslaga eða hvers kyns brot á samningsskyldum vegna athafnar eða athafnaleysis rekstraraðila, sem hefur eða getur haft þau áhrif að tefla fjárlögum Evrópusambandsins, eða fjárlögum undir stjórn, þess í tvísýnu með óréttmætum útgjaldalið.
3. Framkvæmdastjórnin og stofnunin skulu hvor um sig tryggja innan síns valdsviðs að besta hlutfall milli gæða og verðs náist fram við fjármögnun aðgerða Bandalagsins samkvæmt þessari reglugerð.
(1) Reglugerð ráðsins (EB, KBE) nr. 2988/95 frá 18. desember 1995 um verndun fjárhagslegra hagsmuna Evrópubandalaganna (Stjtíð. L 312, 23.12.1995, bls. 1).
(2) Reglugerð ráðsins (KBE, EB) nr. 2185/96 frá 11. nóvember 1996 um vettvangsskoðanir og athuganir sem framkvæmdastjórnin framkvæmir til þess að vernda fjárhagslega hagsmuni Evrópubandalaganna gegn svikum og öðrum frávikum (Stjtíð. L 292, 15.11.1996, bls. 2).
(3) Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1073/1999 frá 25. maí 1999 um rannsóknir Evrópuskrifstofunnar um aðgerðir gegn svikum (OLAF)
(Stjtíð. L 136, 31.5.1999, bls. 1).
L 394/3
7. gr. Breytingar á reglugerð (EB) nr. 1406/2002
Reglugerð (EB) nr. 1406/2002 er breytt sem hér segir:
a) Eftirfarandi liður bætist við í 2. mgr. 10. gr.:
„l) endurskoða fjárhagslega framkvæmd nákvæmu áætlunarinnar, sem vísað er til í k-lið, og þeirra fjárhagsáætlana, sem kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1891/2006 frá 18. desember 2006 um fjármögnun til margra ára á aðgerðum Siglingaöryggisstofnunar Evrópu til að bregðast við mengun frá skipum (*), á grundvelli skýrslunnar sem kveðið er á um í g-lið 2. mgr. 15. gr. þessarar reglugerðar. Þessi endurskoðun skal fara fram þegar drög um tekjur og gjöld stofnunarinnar fyrir komandi fjárlagaár eru lögð fram, eins og kveðið er á um í 5. mgr. 18. gr. þessarar reglugerðar.
(*) Stjtíð. ESB L 394, 30.12.2006, bls. 1.“
b) Eftirfarandi liður bætist við í 2. mgr. 15. gr.:
„g) hann skal leggja skýrslu fyrir framkvæmdastjórnina og stjórnina, eigi síðar en 31. janúar ár hvert, um fjárhagslega framkvæmd nákvæmu áætlunarinnar um viðbúnað og viðbrögð stofnunarinnar við mengun og gefa upplýsingar um stöðu allra aðgerða sem eru fjármagnaðar samkvæmt áætluninni. Framkvæmdastjórnin skal síðan, til fróðleiks, senda skýrsluna til Evrópuþingsins, nefndarinnar, sem komið var á fót skv. 4. gr. ákvörðunar nr. 2850/2000/EB, og nefndarinnar, sem vísað er til í 9. gr. ákvörðunar 2001/79/EB, KBE.“
8. gr. Mat á miðju tímabili
Eigi síðar en 31. desember 2010, skal framkvæmdastjórnin, á grundvelli upplýsinga sem stofnunin veitir, leggja skýrslu um framkvæmd þessarar reglugerðar fyrir Evrópuþingið og ráðið. Í skýrslunni, sem skal unnin með fyrirvara um hlutverk stjórnar stofnunarinnar, skal greina frá niðurstöðum um nýtingu framlags Bandalagsins, sem um getur í 4. gr., hvað varðar skuldbindingar og útgjöld sem ná yfir tímabilið frá 1. janúar 2007 til 31. desember 2009.
Framkvæmdastjórnin skal á grundvelli þessarar skýrslu, ef það á við, leggja til breytingar á þessari reglugerð til að taka tillit til framfara í vísindum á sviði baráttu gegn mengun frá skipum, þ.m.t. mengun sem stafar af olíu eða hættulegum og skaðvænlegum efnum.
30.12.2006
9. gr. Gildistaka
Reglugerð þessi öðlast gildi daginn eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
Gjört í Brussel 18. desember 2006.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, | Fyrir hönd ráðsins, |
J. BORRELL FONTELLES | J.-E. ENESTAM |
forseti. | forseti. |