Prentað þann 24. nóv. 2024
1129/2008
Reglugerð um próf í íslensku fyrir umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt.
1. gr. Próf í íslensku.
Sá sem öðlast íslenskan ríkisborgararétt á grundvelli 7. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt skal hafa staðist próf í íslensku samkvæmt kröfum sem gerðar eru í reglugerð þessari.
2. gr. Undanþágur.
Útlendingastofnun er heimilt að veita umsækjanda um ríkisborgararétt undanþágu frá skilyrði um að hafa staðist próf í íslensku ef telja verður ósanngjarnt að gera þá kröfu til hans. Það getur meðal annars átt við ef:
- umsækjandi hefur náð 65 ára aldri og hefur átt lögheimili hér á landi síðustu 7 ár áður en umsókn er lögð fram;
- ef umsækjandi er í íslenskum grunnskóla eða undir grunnskólaaldri;
- ef umsækjandi getur staðfest með læknisvottorði eða öðrum viðeigandi vottorðum sérfræðings á viðkomandi sviði að honum sé ekki unnt að gangast undir próf af alvarlegum líkamlegum eða andlegum ástæðum;
- ef umsækjandi getur staðfest með viðhlítandi vottorði frá íslenskum skóla að hann hafi færni sem samsvarar þeim kröfum sem gerðar eru í reglugerð þessari.
3. gr. Prófahald.
Íslenskupróf skal að jafnaði haldið eigi sjaldnar en tvisvar á ári.
Próf skulu haldin í Reykjavík eða nágrenni. Að auki er heimilt að halda próf annars staðar á landinu.
Útlendingastofnun auglýsir í fjölmiðlum og á heimasíðu stofnunarinnar með að minnsta kosti átta vikna fyrirvara hvar og hvenær próf verða haldin.
4. gr. Efni prófa.
Efnisþættir og þyngd íslenskuprófa miðast við lokamarkmið í námskrá menntamálaráðuneytis 2008 um grunnnám í íslensku fyrir útlendinga (240 stundir) að undanskildu markmiði um undirstöðuþekkingu á helstu siðum og venjum í íslensku samfélagi.
Umsækjandi þarf því:
- að geta bjargað sér við daglegar aðstæður í skóla, vinnu og einkalífi;
- að geta bjargað sér við óvæntar aðstæður;
- að hafa öðlast nægilegt vald á orðaforða til að geta tekið þátt í umræðum um kunnugleg málefni;
- að geta skilið einfaldar samræður milli manna;
- að geta lesið stutta texta á einföldu máli um kunnugleg efni;
- að geta skrifað stuttan texta á einföldu máli um kunnugleg efni;
- að geta greint aðalatriði í ljósvakamiðlum, sjónvarpi og útvarpi, þegar um kunnugleg efni er að ræða.
Í prófunum skal reynt á tal, hlustunarskilning, ritun og lesskilning.
5. gr. Skráning í próf og aðstoð.
Þeir einir geta þreytt próf sem hafa skráð sig til þátttöku og greitt tilskilið gjald.
Próftaki skal sanna á sér deili við mætingu í próf með því að framvísa persónuskilríki með ljósmynd.
Um aðstoð við próftöku, t.d. vegna lesblindu eða fötlunar, gilda sömu reglur og þegar haldin eru samræmd könnunarpróf í 10. bekk grunnskóla í ensku.
Ekki er gert ráð fyrir sérstakri aðstoð í próftökunni við þá sem eru óskrifandi eða ólæsir á latneskt letur ef ætla má að þeir gætu náð þeirri færni með hefðbundnu lestrar- og skriftarnámi.
6. gr. Framkvæmd prófa.
innanríkisráðherra er heimilt að fela, með sérstökum samningi, Námsmatsstofnun eða öðrum sambærilegum aðila að annast undirbúning og framkvæmd íslenskuprófa, þ. á m. að sjá um samningu prófa og yfirferð þeirra, skráningu í próf og innheimtu prófgjalda, ásamt því að þróa prófin og framkvæmdina í ljósi þeirrar reynslu sem fæst.
Ekki er heimilt að ráða kennara til að semja próf ef hann kennir útlendingum íslensku. Kennari skal ekki meta úrlausnir próftaka sem hafa stundað hjá honum nám. Trúnaðar- og þagnarskylda hvílir á þeim sem sjá um og taka þátt í að semja próf og meta úrlausnir. Þeim er óheimilt að fjalla um eða birta að hluta eða í heild úrlausnir einstakra próftaka.
7. gr. Reglur um próf.
Sá sem falið hefur verið að annast undirbúning og framkvæmd prófa, sbr. 1. mgr. 6. gr., setur og kynnir reglur um framkvæmd og fyrirlögn prófa. Við fyrirlögn prófanna ber að fara nákvæmlega eftir þeim fyrirmælum sem fylgja prófi. Frávik frá reglum um fyrirlögn eru ekki heimil nema með samþykki þess aðila sem ber ábyrgð á framkvæmd prófanna.
Sá sem falið hefur verið að annast undirbúning og framkvæmd prófa heldur skrá yfir þá sem taka próf og um niðurstöður prófa. Jafnframt skal hann senda Útlendingastofnun lista yfir þá sem standast próf eigi síðar en mánuði eftir að próf er haldið.
8. gr. Einkunnir og skírteini.
Prófin skulu leiða í ljós hvort próftaki standist þær kröfur sem lýst er í 4. gr.
Sá sem falið hefur verið að annast undirbúning og framkvæmd prófa afhendir þeim sem staðist hafa próf skírteini þess efnis. Mat hans á því hvort próftaki hafi staðist próf er endanlegt. Próftaki getur óskað eftir útskýringu á niðurstöðu úr prófi sínu innan 15 daga frá því að honum var birt niðurstaðan.
Ekki eru hömlur á því hve oft má þreyta próf.
Ef maður mætir ekki í próf eða stenst það ekki á hann þess ekki kost að þreyta próf fyrr en næst þegar próf verður haldið.
9. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 3. tölulið 9. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt nr. 100/1952, sbr. lög nr. 81/2007, öðlast gildi 1. janúar 2009.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.