Prentað þann 7. jan. 2025
1112/2006
Reglugerð um stofnanaþjónustu fyrir aldraða.
I. KAFLI Almenn ákvæði.
1. gr.
Reglugerð þessi tekur til dvalarheimila, hjúkrunarheimila og hjúkrunarrýma á stofnunum fyrir aldraða samkvæmt 1. og 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra.
Vistmaður nefnist í reglugerð þessari einstaklingur sem dvelur á dvalarheimili fyrir aldraða eða á hjúkrunarheimili eða í hjúkrunarrými á stofnun.
2. gr.
Með dvalarkostnaði á stofnun fyrir aldraða er átt við daggjald eins og það er ákveðið af velferðarráðherra hverju sinni, sbr. 6. mgr. 48. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.
II. KAFLI Greiðsla dvalarkostnaðar á dvalarheimilum.
3. gr.
Til tekna skv. II. kafla reglugerðar þessarar teljast tekjur skv. II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki telst til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Þó skal eftirfarandi gilda við ákvörðun tekjugrundvallar:
- Tekjur umfram 98.640 kr. skv. C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skulu teljast til tekna við útreikning á vistunarframlagi skv. 21. gr., sbr. og 22. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra. Ef um hjón er að ræða skiptast tekjur skv. 1. málsl. til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða.
- Tekjur vistmanns af atvinnu skulu hafa áhrif við útreikning á fjárhæð vistunarframlags skv. 21. gr., sbr. 22. gr., laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra. Vistmaður skal hafa 1.315.200 kr. frítekjumark vegna atvinnutekna við útreikning vistunarframlags.
- Við útreikning á fjárhæð vistunarframlags skv. 21. gr., sbr. og 22. gr., laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra, skal ekki reikna með tekjum maka, sbr. þó a-lið 1. mgr.
Þrátt fyrir 1. mgr. teljast ekki til tekna bætur frá lífeyristryggingum almannatrygginga samkvæmt lögum um almannatryggingar, bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og sambærilegar greiðslur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 68. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007.
Tryggingastofnun ríkisins er heimilt, að ósk vistmanns, að dreifa eigin tekjum vistmannsins sem stafa af fjármagnstekjum sem leystar hafa verið út í einu lagi á allt að 10 ár. Ekki er heimilt að dreifa slíkum tekjum oftar en einu sinni á hverju tímabili.
4. gr.
Lífeyrir samkvæmt lögum um almannatryggingar og bætur honum tengdar til vistmanna sem eru á dvalarheimilum aldraðra sem ekki eru á föstum fjárlögum fellur niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir upphaf dvalar. Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að víkja frá tímamörkum þessum ef sérstaklega stendur á og gildir reglugerð nr. 357/2005, um heimild Tryggingastofnunar ríkisins til að framlengja bótagreiðslur þrátt fyrir dvöl á sjúkrahúsi eða stofnun fyrir aldraða, um heimild þessa.
Hafi vistmaður engar tekjur, sbr. 3. gr., skal Tryggingastofnun ríkisins greiða dvalarheimilinu vistunarframlag skv. 6. mgr. 48. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar til greiðslu dvalarkostnaðar hans á stofnuninni. Vistunarframlagið skal nema fjárhæð lífeyris vistmanns og bótum tengdum honum og því sem á vantar dvalarkostnað eins og hann er ákveðinn fyrir dvalarheimili af ráðherra skv. 5. mgr. 48. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. þó 5. gr.
Tryggingastofnun ríkisins skal annast framkvæmd útreiknings á tekjum samkvæmt þessari grein og 3. og 5. gr. og greiðir dvalarheimilum fyrir aldraða vistunarframlag. Reglugerð nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, með síðari breytingu, gildir um framkvæmd Tryggingastofnunar ríkisins.
5. gr.
Nú hefur vistmaður á dvalarheimili fyrir aldraða tekjur, sbr. 3. gr., sem að frádregnum staðgreiðsluskatti (miðað við hámarksútsvar) eru hærri en 88.088 kr á mánuði og skal hann þá með þeim tekjum sem umfram eru taka þátt í greiðslu dvalarkostnaðar á dvalarheimili fyrir aldraða frá þeim tíma sem greiðslur bóta frá Tryggingastofnun ríkisins falla niður, sbr. 4. gr. Þó skal greiðsluþátttaka hans í hverjum mánuði aldrei nema hærri fjárhæð en sem nemur að hámarki 395.305 kr.
Þegar nýr vistmaður kemur til dvalar á dvalarheimili aldraðra skulu stjórnendur stofnunarinnar óska eftir því við Tryggingastofnun ríkisins að hún kanni hvort viðkomandi skuli taka þátt í greiðslu dvalarkostnaðar.
Tekjumörk skv. 1. mgr. breytast í samræmi við breytingar á tekjumörkum ellilífeyris skv. 17. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar.
6. gr.
Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að greiða vistmanni á dvalarheimili fyrir aldraða vasapeninga skv. 8. mgr. 48. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þegar lífeyrir og bætur honum tengdar falla niður.
7. gr.
Dvalarheimili fyrir aldraða skal innheimta hjá vistmanni sjálfum í byrjun hvers mánaðar daglegan hlut hans í dvalarkostnaði nýliðins mánaðar þegar hann tekur þátt í greiðslu dvalarkostnaðar skv. 5. gr. Þess skal ætíð gætt að vistmaður haldi eftir mánaðarlegu ráðstöfunarfé skv. 5. gr. Dvalarheimili fyrir aldraða skal gera Tryggingastofnun ríkisins grein fyrir innheimtu vegna nýliðins mánaðar fyrir 15. dag næsta mánaðar. Nú tekst stofnun ekki að innheimta hlut vistmanns í dvalarkostnaði og er Tryggingastofnun ríkisins þá heimilt að halda eftir samsvarandi hluta af mánaðarlegum greiðslum vistunarframlags til viðkomandi stofnunar.
III. KAFLI Greiðsla dvalarkostnaðar á hjúkrunarheimilum.
8. gr.
Lífeyrir samkvæmt lögum um almannatryggingar og bætur honum tengdar til vistmanns sem dvelur á hjúkrunarheimili, sem ekki er á föstum fjárlögum, fellur niður ef vistmaður dvelst lengur en í mánuð samfellt á heimilinu ef vistin hefur varað lengur en sex mánuði undanfarna tólf mánuði. Ef ljóst er frá upphafi að um varanlega dvöl á hjúkrunarheimili er að ræða falla bætur niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir upphaf dvalar. Heimilt er þó að víkja frá tímamörkum þessum ef sérstaklega stendur á og gildir reglugerð nr. 357/2005, um heimild Tryggingastofnunar ríkisins til að framlengja bótagreiðslur þrátt fyrir dvöl á sjúkrahúsi eða stofnun fyrir aldraða, um heimild þessa.
9. gr.
Vistmaður á hjúkrunarheimili fyrir aldraða, sbr. 8. gr., skal taka þátt í greiðslu dvalarkostnaðar á hjúkrunarheimilinu. Um þátttöku vistmanns í greiðslu dvalarkostnaðar fer skv. 5. gr., sbr. 3. gr. Hafi vistmaður engar tekjur skulu daggjöld skv. 2. gr. standa straum af dvalarkostnaði hans.
10. gr.
Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að greiða vistmanni á hjúkrunarheimili vasapeninga skv. 8. mgr. 48. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, þegar lífeyrir og bætur honum tengdar falla niður.
11. gr.
Hjúkrunarheimili, sbr. 8. gr., skal innheimta hjá vistmanni í byrjun hvers mánaðar daglegan hlut hans í dvalarkostnaði nýliðins mánaðar þegar hann tekur þátt í greiðslu dvalarkostnaðar skv. 9. gr. Þess skal ætíð gætt að vistmaður haldi eftir mánaðarlegu ráðstöfunarfé skv. 1. mgr. 5. gr. Hjúkrunarheimili skal gera Tryggingastofnun ríkisins grein fyrir innheimtu vegna nýliðins mánaðar fyrir 15. dag næsta mánaðar. Nú tekst stofnun ekki að innheimta hlut vistmanns í dvalarkostnaði og er Tryggingastofnun ríkisins þá heimilt að halda eftir samsvarandi hluta af mánaðarlegum greiðslum vistunarframlags til viðkomandi stofnunar.
IV. KAFLI Greiðsla dvalarkostnaðar í hjúkrunarrými á stofnunum sem reknar eru með beinum fjárframlögum úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum hverju sinni.
12. gr.
Lífeyrir samkvæmt lögum um almannatryggingar og bætur honum tengdar til vistmanns sem dvelur í hjúkrunarrými á stofnun sem rekin er með beinum fjárframlögum úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum hverju sinni fellur niður ef vistmaður dvelst lengur en í mánuð samfellt í hjúkrunarrýminu ef vistin hefur varað lengur en sex mánuði undanfarna tólf mánuði. Ef ljóst er frá upphafi að um varanlega dvöl í hjúkrunarrými öldrunarstofnunar er að ræða falla bætur niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir upphaf dvalar. Heimilt er þó að víkja frá tímamörkum þessum ef sérstaklega stendur á og gildir reglugerð nr. 357/2005, um heimild Tryggingastofnunar ríkisins til að framlengja bótagreiðslur þrátt fyrir dvöl á sjúkrahúsi eða stofnun fyrir aldraða, um heimild þessa.
13. gr.
Vistmaður sem dvelur í hjúkrunarrými á stofnun, sbr. 12. gr., skal taka þátt í greiðslu dvalarkostnaðar á stofnuninni. Um þátttöku vistmanns í greiðslu dvalarkostnaðar fer skv. 5. gr., sbr. 3. gr. Hafi vistmaður engar tekjur skulu daggjöld skv. 2. gr. standa straum af dvalarkostnaði hans.
14. gr.
Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að greiða vistmanni sem dvelur í hjúkrunarrými á stofnun, sbr. 12. gr., vasapeninga skv. 8. mgr. 48. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, þegar lífeyrir og bætur honum tengdar falla niður.
15. gr.
Stofnun, sbr. 12. gr., skal innheimta hjá vistmanni sjálfum í byrjun hvers mánaðar hlut hans í dvalarkostnaði nýliðins mánaðar þegar hann tekur þátt í greiðslu dvalarkostnaðar skv. 13. gr. Tekjur þessar skulu færast í bókhald stofnunar sem sértekjur. Fjármálaráðuneyti er heimilt samkvæmt upplýsingum frá velferðarráðuneyti að halda eftir af beinum fjárframlögum samkvæmt fjárlögum upphæð sem svarar til þessara sértekna.
16. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 29. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra, öðlast gildi 1. janúar 2007. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 47/1990 um stofnanaþjónustu fyrir aldraða.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.