Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 27. des. 2024

Stofnreglugerð Reglugerð án breytinga, sjá breytingasögu.

1088/2013

Reglugerð um reykköfun.

1. gr. Markmið.

Markmið með reglugerð þessari er að tryggja öryggi þeirra sem stunda reykköfun.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til reykköfunar hjá slökkviliðum við slökkvistarf, mengunaróhöpp og æfingar. Einnig gildir hún um reykköfunarbúnað, menntun, þjálfun og skyldur reykkafara og um almennt öryggi við reykköfun.

3. gr. Skilgreiningar.

Heit æfing: Æfing í reykköfun í umhverfi þar sem líkt er eftir raunverulegum húsbruna.

Efna æfing: Æfing í efnaköfun í umhverfi þar sem líkt er eftir raunverulegum aðstæðum.

Reykköfun: Athafnir slökkviliðs þegar loft undir þrýstingi er notað til öndunar við slökkvistarf innan um þéttan reyk og í þeim tilgangi að bjarga lífum, sinna slökkvistarfi eða þar sem mengunaróhapp hefur orðið, þ.m.t. efnaköfun.

Reykköfunaráætlun: Áætlun um framkvæmd reykköfunar sem gerð er með hliðsjón af ákvæðum XI. kafla laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Reykköfunarbúnaður: Allur búnaður sem notaður er við reykköfun, þ.e. hlífðarbúnaður, reykköfunartæki eins og þau eru skilgreind í stöðlunum ÍST EN 136 og ÍST EN 137, lofthylki og fjarskiptabúnaður.

Reykköfunartími: Sá tími sem líður frá því er reykkafari hefur vinnu með reykköfunartæki þar til hann er kominn aftur í umhverfi þar sem ekki er þörf á reykköfunartækjum, þ.e. þar sem mengun er undir viðmiðunarmörkum um andrúmsloft á vinnustað, sbr. reglugerð nr. 390/2009 um mengunarmörk og aðgerðir til að draga úr mengun á vinnustöðum. Reykköfunartími skal að lágmarki vera þrjár klukkustundir á ári.

Stjórnandi reykköfunar: Sá sem leiðir framkvæmd reykköfunar á vettvangi.

Þjónustuaðilar brunavarna: Þeir sem hafa starfsleyfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem þjónustuaðilar brunavarna í samræmi við ákvæði 38. gr. a laga nr. 75/2000 um brunavarnir.

4. gr. Framkvæmd.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er heimilt án fyrirvara að láta skoða reykköfunarbúnað og framkvæmd reykköfunaraðgerða. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skal gefa út leiðbeiningar með nánari fyrirmælum um öryggi við reykköfun.

5. gr. Skráning slysa og óhappa.

Slökkvilið skal halda skrá yfir öll slys og óhöpp sem verða við reykköfun hvort sem þau valda óvinnufærni starfsmanns eða ekki. Slökkvilið skal fyrir 1. mars ár hvert veita Húsnæðis- og mannvirkjastofnun yfirlit yfir skráð slys og óhöpp.

6. gr. Kröfur til gæða reykköfunarbúnaðar.

Allur hlífðarbúnaður slökkviliðsmanna skal að lágmarki uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 914/2009 um hlífðarbúnað slökkviliðsmanna og reglugerð nr. 728/2018 um gerð persónuhlífa.

Reykköfunartæki skulu að lágmarki uppfylla ákvæði nýjustu útgáfu eftirfarandi ÍST EN staðla:

  1. ÍST EN 136 Öndunarfærahlífar - Heilgrímur - Kröfur, prófun, merking.
  2. ÍST EN 137 Öndunarfærahlífar - Séröndunarbúnaður með samþjöppuðu lofti í opinni hringrás - Kröfur, prófun, merking.

Reykköfunartæki sem falla undir þá staðla sem tilgreindir eru í 2. mgr. skulu vera CE-merkt í samræmi við gildandi reglur þar um.

Reykköfunartæki skulu hafa skráningarnúmer sem skulu fylgja tækjunum meðan þau eru í notkun þannig að unnt sé að tryggja rekjanleika tækjanna og einstakra hluta þeirra.

Lofthylki skulu uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 1022/2017, um þrýstibúnað.

Allur nýr reykköfunarbúnaður skal uppfylla kröfur þessarar greinar. Notkun reykköfunarbúnaðar sem er kominn fram yfir tilgreindan endingartíma er bönnuð.

7. gr. Upplýsingar um reykköfunarbúnað.

Með öllum reykköfunarbúnaði sem seldur er skulu fylgja leiðbeiningar framleiðanda á íslensku um rétta meðhöndlun, eftirlit og viðhald.

8. gr. Rekstur reykköfunarbúnaðar.

Reykköfunarbúnaður skal skoðaður og lagfærður og hlífðarbúnaður þrifinn eftir hverja notkun samkvæmt leiðbeiningum framleiðanda. Þá skulu reykköfunartæki yfirfarin sérstaklega að lágmarki á 12 mánaða fresti. Reykköfunartæki í notkun skulu ekki sjaldnar en á tveggja ára fresti skoðuð af þjónustuaðila brunavarna, sbr. reglugerð nr. 1067/2011 um þjónustuaðila brunavarna.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun getur látið innsigla reykköfunarbúnað sem stofnunin telur óhæfan til notkunar eða þarfnast viðgerðar og skal hún halda skrá um slíkar aðgerðir. Í slíkum tilvikum ber slökkviliðsstjóra að sjá til þess að búnaðurinn sé tafarlaust sendur til þjónustuaðila brunavarna og er öðrum en Húsnæðis- og mannvirkjastofnun eða þjónustuaðila óheimilt að rjúfa innsiglið.

Reykköfunarbúnaður sem ekki er í notkun og uppfyllir ekki kröfur reglugerðar þessarar eða reglugerðar um hlífðarbúnað slökkviliðsmanna skal sérstaklega merktur geymdur aðskilinn frá búnaði sem er í notkun.

9. gr. Loftpressa til hleðslu á öndunarlofti og loftgæði.

Mælibúnaður og loftpressa, þ.m.t. uppsetning og aðstaða, skal vera yfirfarin og samþykkt af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Loftpressa skal uppfylla ákvæði staðalsins ÍST EN 1012 Þjöppur og lofttæmidælur - Öryggiskröfur - Hluti 1: Þjöppur.

Loftpressa skal vera búin síum og skiljum er hreinsa úr öndunarloftinu raka, olíu og önnur óhreinindi í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi, þannig að hreinleiki loftsins uppfylli skilyrði þessarar greinar. Loftpressa skal einnig vera búin kælibúnaði til að draga úr myndun hættulegra efnasambanda vegna hita. Loftpressur skulu búnar neyðarrofa við áfyllingarstað.

Sogrör véldrifinnar loftpressu skal þannig staðsett að engar líkur séu á því að hún geti dregið til sín útblástursloft aflvélar eða aðrar skaðlegar lofttegundir.

Öndunarloft sem ætlað er til reykköfunar skal uppfylla staðalinn ÍST EN 12021, Öndunarfærahlífar - þrýstiloft fyrir öndunarbúnað.

Taka skal sýni af öndunarlofti frá loftpressu við uppsetningu búnaðarins og þegar gerðar eru breytingar á búnaðinum. Þá skal eigi sjaldnar en á 12 mánaða fresti taka sýni af öndunarlofti frá loftpressu í rekstri. Mæla skal magn efna í öndunarloftinu með viðurkenndum hætti af þjónustuaðila brunavarna. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skal hafa aðgang að niðurstöðum mælinga og getur framkvæmt eigin mælingarnar.

Við áfyllingu á lofthylki skal fylgja ákvæðum reglugerðar nr. 1022/2017, um þrýstibúnað, og leiðbeiningum framleiðanda.

Áfylling á lofthylki skal eingöngu framkvæmd af starfsmanni sem hefur fengið nauðsynlega fræðslu um lofthylki og verið leiðbeint um hættur sem geta fylgt starfinu. Áður en fyllt er á lofthylki skal athuga dagsetningu prófunarmerkingar og skoða vandlega ástand lofthylkis og loftloka. Ekki skal fylla loft á lofthylki sem komið er fram yfir dagsetningu um næstu skoðun.

Halda skal skrá yfir rekstur loftpressu og áfyllingar á lofthylki.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gefur út leiðbeiningar um rekstur loftpressu.

10. gr. Skráning viðhalds og eftirlits reykköfunarbúnaðar.

Eftirlit og viðhald á reykköfunarbúnaði skal framkvæmt í samræmi við viðhaldskerfi þar sem tiltekið er hvernig og hvenær skuli prófa búnaðinn og íhluti hans samkvæmt leiðbeiningum framleiðanda og viðeigandi stöðlum. Skráning viðhalds og eftirlits skal fylgja öllum reykköfunarbúnaði þar sem fram kemur allt sem máli skiptir um viðhald, eftirlit og skoðanir. Skráningar skulu staðfestar og dagsettar.

11. gr. Lágmarksskilyrði til reykköfunar.

Hver sá sem reykkafar skal uppfylla öll eftirfarandi skilyrði:

  1. Vera fullra 20 ára.
  2. Hafa lokið námi í reykköfun, sbr. 13. gr., eða sambærilegu námi og viðhaldið þjálfun sinni með æfingum í samræmi við ákvæði 12. gr.
  3. Hafa staðist með fullnægjandi hætti heilbrigðiskröfur í samræmi við ákvæði 15. gr.

12. gr. Reykköfunaræfingar.

Fjöldi verklegra æfinga í reykköfun hjá slökkviliðum skal vera að lágmarki sex á hverju ári. Fimm skulu vera reykköfunaræfingar, þar af ein heit æfing. Þá skal ein æfing að lágmarki vera efnaköfunaræfing. Reykköfunartími skal að lágmarki vera þrjár klukkustundir á ári, sbr. 6. mgr. 3. gr.

Æfingar í reykköfun skulu endurspegla helstu áhættur eins og þær eru skilgreindar í brunavarnaáætlun viðkomandi sveitarfélags.

Við æfingar í reykköfun skulu tveir leiðbeinendur tilnefndir til að stjórna æfingunni. Þeir skulu hafa a.m.k. þriggja ára starfsreynslu sem slökkviliðsmaður og vera með gild reykköfunarréttindi á þeim tíma. Í reykköfun og reykköfunaræfingum skal annar leiðbeinandinn hafa reykköfunarréttindi í gildi.

Heitar æfingar og æfingar með hættulegum efnum skulu fara fram á æfingasvæði sem er útbúið fyrir slíkar æfingar og heilbrigðisnefnd hefur veitt starfsleyfi fyrir í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 550/2018, um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Þó er heimilt að nýta hús til æfinga hafi aðfærsla vatns og öryggi allra viðstaddra verið tryggt sem og tilskilin leyfi fengin í samræmi við viðeigandi lög. Reykkafarar geta sótt æfingar hjá öðrum slökkviliðum eða æfingasvæðum náist um það samkomulag milli slökkviliðsstjóra. Á heitum æfingum skal leitast við að lágmarka mengunarhættu.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun getur gefið út leiðbeiningar um sérstakar mengunarvarnir sem miða að einstaklingum á eldstað.

13. gr. Nám í reykköfun.

Brunamálaskólinn starfrækir nám í reykköfun fyrir slökkviliðsmenn í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 792/2001 um Brunamálaskólann og réttindi og skyldur slökkviliðsmanna.

Kennsla í reykköfun skal vera viðurkennd af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og skal ætíð leggja fyrir stofnunina til samþykkis kennsluáætlun og skrá yfir búnað til kennslu.

Leiðbeinendur við kennslu skulu vera a.m.k. tveir og uppfylla sömu skilyrði og stjórnendur við æfingar í reykköfun, sbr. 3. mgr. 12. gr. Skulu þeir halda skrá yfir nemendur í reykköfun.

Nemendur í reykköfun skulu slysatryggðir af vinnuveitanda og hafa til umráða reykköfunarbúnað, þ.m.t. hlífðarbúnað, í samræmi við reglugerð um hlífðarbúnað slökkviliðsmanna. Nemendur skulu einnig standast læknisskoðun í samræmi við 15. gr. og leggja fram heilbrigðisvottorð frá lækni því til staðfestingar, ekki eldra en fjögurra vikna.

14. gr. Tilkynning til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um heimild til reykköfunar.

Slökkviliðsstjóri skal árlega senda Húsnæðis- og mannvirkjastofnun upplýsingar um þá slökkviliðsmenn sem uppfylla skilyrði 11. gr. og eru skráðir sem reykkafarar.

Tilkynningu til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar skal fylgja:

  1. Vottorð um nám í reykköfun, sbr. 13. gr. Sé um að ræða sambærilegt nám skal leggja fram vottorð eða prófskírteini um námið og lýsingu á náminu. Upplýsingar skv. þessum lið þarf einungis að senda þegar reykkafari hefur störf.
  2. Staðfesting slökkviliðsstjóra á að viðkomandi uppfylli heilbrigðiskröfur skv. 15. gr.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun heldur skrá um þá slökkviliðsmenn sem slökkviliðsstjórar hafa tilkynnt um að séu skráðir sem reykkafarar.

15. gr. Læknisskoðun og mat á þoli og líkamsstyrk.

Reykkafari slökkviliðs skal fara árlega í sérstaka læknisskoðun og standast þær heilbrigðiskröfur sem fram koma í viðauka við reglugerð þessa. Jafnframt skal hann árlega undirgangast og standast próf í þoli og líkamsstyrk eins og mælt er fyrir um í viðaukanum. Reykkafari skal auk árlegrar læknisskoðunar fara í læknisskoðun hvenær sem viðkomandi læknir telur þörf á.

Gildistími læknisskoðunar og prófs í þoli og líkamsstyrk er 12 mánuðir nema annað sé tekið fram. Verði skyndilega verulegar breytingar á heilsufari reykkafara getur slökkviliðsstjóri óskað eftir að læknisskoðun og/eða próf sé endurtekið.

Reykkafarar og nemar í reykköfun skulu vera í góðu andlegu og líkamlegu ástandi og vera hæfir til reykköfunarstarfa. Uppfylli reykkafari eða nemi í reykköfun ekki heilbrigðiskröfur við læknisskoðun eða standist ekki próf í þoli og líkamsstyrk er honum óheimilt að stunda reykköfun eða nám í reykköfun.

Heimilt er að leita álits landlæknis vegna ágreinings í tengslum við læknisskoðun.

Hafi reykkafari verið frá vinnu vegna einhverra eftirtalinna ástæðna skal hann leggja fram heilbrigðisvottorð frá lækni um að hann uppfylli heilbrigðiskröfur samkvæmt þessari grein og geti hafið störf við reykköfun að nýju:

  1. Veikinda eða slyss þar sem hann er frá vinnu í meira en 20 daga,
  2. innlagnar á sjúkrastofnun,
  3. þungunar.

16. gr. Skyldur slökkviliðsstjóra.

Slökkviliðsstjóri skal tryggja eins og framast er unnt að reykköfun sé skipulögð og framkvæmd þannig að heilsu og öryggi allra sem þátt taka í aðgerðinni sé ekki hætta búin.

Slökkviliðsstjóri ber ábyrgð á því að reykköfunarbúnaður uppfylli kröfur um gæði samkvæmt reglugerð þessari og reglugerð um hlífðarbúnað slökkviliðsmanna og að fylgt sé ákvæðum reglugerðarinnar um viðhald og meðferð búnaðarins.

Slökkviliðsstjóri ber ábyrgð á því að reykkafarar fái þjálfun í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar og þeir séu upplýstir um meðferð og viðhald reykköfunarbúnaðar. Slökkviliðsstjóri skal sjá til þess að við reykköfun sé nauðsynlegur fjöldi reykkafara sem uppfylla ákvæði reglugerðar þessarar og sá búnaður sem nauðsynlegur er til að tryggja öryggi við reykköfun sem og vegna hugsanlegra neyðartilfella sem upp geta komið.

Slökkviliðsstjóri skal sjá til þess að færð sé skýrsla um sérhverja reykköfun, sbr. 19. gr., að haldin sé skrá um meðferð og viðhald reykköfunarbúnaðar, sbr. 10. gr. og að slys og óhöpp séu skráð, sbr. 5. gr. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skal hafa aðgang að framangreindum skýrslum og skrám.

17. gr. Stjórnandi reykköfunar.

Stjórnandi reykköfunar hefur umsjón með þeim reykköfurum sem tilheyra hans teymi við tiltekna reykköfun og leiðir framkvæmd reykköfunarinnar undir yfirumsjón stjórnanda á vettvangi. Hann skal sjá til þess að unnið sé eftir reykköfunaráætlun og að öryggisreglur séu haldnar. Hann skal yfirfara búnað reykkafara áður en þeir reykkafa.

Stjórnanda reykkafara er óheimilt að reykkafa sjálfur eða sinna öðrum störfum á vettvangi sem trufla hlutverk hans sem stjórnandi reykköfunar.

Stjórnandi reykköfunar skal hafa a.m.k. þriggja ára reynslu sem slökkviliðsmaður og vera með gild reykköfunarréttindi á þeim tíma.

Stjórnandi reykköfunar skal sjá til þess að við reykköfun séu ávallt tveir reykkafarar sem vinna saman og skulu þeir ætíð vera í fjarskiptasambandi við stjórnanda reykkafara og sömuleiðis sín á milli. Stjórnandi á vettvangi skal tilnefna varateymi reykkafara á vettvangi sé þess þörf.

Stjórnandi reykköfunar skal yfirfara allar skráningar þeirra reykkafara sem hann hefur umsjón með og staðfesta þær, sbr. 19. gr. Skal hann einnig eftir atvikum færa inn athugasemdir sem skipt geta máli varðandi reykköfunina.

18. gr. Skyldur reykkafara.

Reykkafari að störfum skal ætíð vera meðvitaður um að ákvarðanir sem hann tekur og aðgerðir sem hann framkvæmir meðan á reykköfun stendur hafa eða geta haft áhrif á hans eigið öryggi sem og öryggi starfsfélaga hans. Reykkafari skal fyrir reykköfun fullvissa sig um að reykköfunarbúnaður hans sé í lagi. Skal hann ætíð fara eftir fyrirmælum stjórnanda reykkafara og skrá sérhverja reykköfun eins og nánar greinir í 19. gr.

19. gr. Reykköfunarbók reykkafara.

Reykkafari skal halda skrá, reykköfunarbók, yfir hverja reykköfun, þ.m.t. æfingar. Reykköfunarbók er eign slökkviliðs og skal varðveitt varanlega. Reykköfunarbók er ætlað að halda utan um þau skipti sem einstaklingur er útsettur fyrir mengun vegna reykköfunar ásamt æfingatíma vegna reykköfunar.

Reykkafari skal færa eftirfarandi atriði í reykköfunarbók sína, eins og við á hverju sinni:

  1. Dagsetningu og staðsetningu reykköfunar.
  2. Tegund reykköfunar og hvort reykköfun sé vegna útkalls eða æfingar.
  3. Upphafs loftmagn og loka loftmagn, sé því komið við.
  4. Reykköfunartíma og fjölda skipta sem er reykkafað.
  5. Athugasemdir vegna atvika við reykköfun og annað sem snertir öryggi og heilsu reykkafara, s.s. ef reykkafari verður útsettur fyrir mengun.

Reykkafari skal sjá til þess að stjórnandi reykköfunar staðfesti færslur hverju sinni í reykköfunarbók.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gefur út fyrirmynd að rafrænni reykköfunarbók.

20. gr. Neyðarráðstafanir.

Slökkviliðsstjóri skal hafa áætlun um hvernig bregðast skal við slysum og öðrum hugsanlegum neyðaratvikum við reykköfun. Skal slík neyðaráætlun innihalda lýsingar á aðgerðum og verkefnum hvers starfsmanns og skal tiltekinn sá búnaður sem nota þarf þegar neyðarástand verður. Neyðaráætlunin skal kynnt öllum þeim starfsmönnum sem að reykköfun koma og skal þeim gerð grein fyrir skyldum sínum samkvæmt áætluninni. Slökkviliðsstjóri skal sjá til þess að haldnar séu reglulega æfingar samkvæmt fyrirmælum neyðaráætlunarinnar.

Slökkviliðsstjóri skal tryggja að allir starfsmenn slökkviliðs á reykköfunarstað hafi tilskilda þekkingu til að beita fyrstu hjálp vegna mögulegra slysa eða óhappa við reykköfun. Nauðsynlegur öryggisbúnaður, þ.m.t. hjartastuðtæki, brunagel og viðbótarsúrefni, skal vera til staðar og aðgengilegur við reykköfun.

21. gr. Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 34. gr. laga um brunavarnir nr. 75/2000.

22. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 17. og 39. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 354/1984 um reykköfun og reykköfunarbúnað.

Ákvæði til bráðabirgða.

Reykkafari sem við gildistöku reglugerðar þessarar hefur starfað í slökkviliði telst í skilningi 3. mgr. 12. gr. og 3. mgr. 13. gr. eiga að baki 40 klst. í reykköfun eða reykköfunaræfingum fyrir hvert ár sem hann hefur starfað í slökkviliði fram að gildistöku reglugerðar þessarar.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.