Prentað þann 21. nóv. 2024
1065/2014
Reglugerð um velferð nautgripa.
I. KAFLI Markmið, gildissvið og skilgreiningar.
1. gr. Markmið og gildissvið.
Tilgangur reglugerðarinnar er að tryggja velferð og heilbrigði allra nautgripa með góðri meðferð, umsjá og aðbúnaði. Leitast skal við að nautgripir geti lifað í samræmi við sitt eðlilega atferli eins og framast er kostur. Í reglugerðinni koma fram lágmarkskröfur um einstök atriði.
2. gr. Orðskýringar.
Í reglugerð þessari hafa eftirtalin orð merkingu sem hér segir:
- Básafjós: Fjós þar sem gripir eru hafðir á básum, annaðhvort bundnir eða með streng eða slá fyrir aftan þá.
- Graðnaut: Kynþroska ógelt naut.
- Holdanaut: Nautgripur af sérstöku kyni til kjötframleiðslu.
- Hvítt kjöt: Kjöt sem er framleitt með því að fóðra kálfa með járnsnauðu fóðri svo að þéttni blóðrauða (hemoglobin) fari undir 4,5 mmol/l blóðs.
- Jötugrind: Grind við fóðurgang.
- Kálfur: Nautgripur yngri en 6 mánaða.
- Kelfa: Halda kú undir naut, sæða hana eða leggja inn fósturvísi.
- Kvíga: Kvenkyns nautgripur sem ekki hefur borið kálfi.
- Kýr: Fullvaxinn kvenkyns nautgripur sem borið hefur kálfi.
- Lausagöngufjós: Fjós þar sem gripir ganga lausir og velja sér legupláss sjálfir.
- Legubás: Bás sem gripir hafa frjálsan aðgang að og geta legið á.
- Legusvæði: Svæði sem nautgripum er ætlað til legu og nautgripir geta legið á.
- Mjólkurkýr: Kýr sem er haldin til þess að framleiða mjólk.
- Nautgripur: Dýr af nautgripakyni á öllum aldri og báðum kynjum.
- Umráðamaður: Eigandi eða annar sem er ábyrgur fyrir umsjón með nautgripum.
- Undirburður: Efni sem borið er undir gripi til að mýkja undirlag og halda því þurru svo sem hálmur, sandur, spænir, sag, mór og fleira.
- Útigerði: Afgirt svæði við gripahús sem gripir geta komist í og verið þar tímabundið.
II. KAFLI Úttekt og eftirlit.
3. gr. Opinbert eftirlit.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt reglugerð þessari. Matvælastofnun annast eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar.
Hverjum sem ætlar að eignast nautgrip ber að tilkynna það til Matvælastofnunar svo tryggt sé að lögbundnar skráningar, merkingar og eftirlit geti hafist.
Umráðamanni nautgripa ber að tryggja gott aðgengi eftirlitsaðila að öllum nautgripum og öllum þeim stöðum þar sem nautgripir eru haldnir.
III. KAFLI Meðferð og umsjá.
4. gr. Geta, hæfni og ábyrgð.
Umráðamaður nautgripa skal sjá til þess að hver sá sem ber ábyrgð á umönnun nautgripa á hans vegum hafi lokið prófi í búfræði frá landbúnaðarskóla, lokið námskeiði í nautgripahaldi viðurkenndu af Matvælastofnun eða hafi starfað við umsjá nautgripa sem nemur tveimur árum í fullu starfi. Námskeiðið skal ná til kennslu um líffræðilegar þarfir og atferli nautgripa, umsjá og aflífun í neyð og löggjöf og reglur er varða velferð dýra.
5. gr. Almenn meðferð og eigið eftirlit.
Bannað er að beita nautgripi illri meðferð.
Umráðamaður skal hafa daglegt eftirlit með öllum gripum og bæta úr því sem ábótavant er. Sérstakt og tíðara eftirlit skal haft með nýfæddum kálfum, sjúkum eða meiddum gripum og kúm nálægt burði. Gætt skal að heilsufari, hreinlæti, fóðrun, fóðri, vatni og öðrum umhverfisþáttum og tækjabúnaði sem geta haft áhrif á líðan gripanna.
Í lausagöngufjósum skal færa kýr um burð, sjúka eða meidda gripi í sérstaka sjúkrastíu með þurru, hreinu og mjúku undirlagi.
Hreinsa skal legusvæði daglega og halda því þurru. Gólf skulu hreinsuð reglulega svo að gripir haldist hreinir. Flórar og föst gólf skulu vera með góðu frárennsli. Gólfi í stíum með undirburði skal þannig við haldið að gripir haldist hreinir. Gripir skulu vera hreinir og ekki klepróttir.
Klaufir skulu vera vel hirtar og gripum haldið hreinum og klipptir eftir því sem þörf er á.
6. gr. Hreyfing, hvíld og þarfir.
Innréttingar skulu vera þannig úr garði gerðar að gripir geti óhindrað lagst niður, legið eðlilega, risið á fætur, staðið, hreyft sig og sleikt. Um stærð legusvæðis fer samkvæmt 1. tölulið viðauka I. Legusvæði kúa skulu vera með mjúku undirlagi og óskreipu yfirborði.
Í lausagöngufjósi þar sem kálfar allt að þriggja mánaða og kýr eru saman, skulu kálfarnir komast í eigið afdrep með heilu gólfi og mjúku undirlagi þar sem þeir geta legið saman. Fullnægja skal sogþörf kálfa þannig að komið sé í veg fyrir óeðlilegt sogatferli.
Óheimilt er að halda gripi í uppeldi saman í stíu þar sem aldursmunur og/eða þyngdarmunur er verulegur þannig að það valdi einelti, vanfóðrun eða vanþrifum.
Óheimilt er að einangra nautgripi frá öðrum gripum nema sjúkdómavarnir kveði svo á um. Þó er heimilt að halda kálfa í einstaklingsstíum upp að átta vikna aldri, en því aðeins að skilrúm þeirra séu þannig gerð að kálfarnir sjái og geti snert aðra gripi.
Óheimilt er að binda nautgripi, nema þess sé þörf á meðan þeir eru meðhöndlaðir eða um sé að ræða kvígur sem eiga minna en þrjá mánuði í burð.
Óheimilt er að nota rafstraum til að koma í veg fyrir að nautgripir óhreinki bása eða til að skilja að gripi sem haldnir eru í afmörkuðu rými.
7. gr. Fóðrun og brynning.
Fóður skal að magni, gæðum og efnainnihaldi fullnægja þörfum gripanna til þroska, vaxtar, viðhalds og framleiðslu.
Tryggja skal kálfum broddmjólk strax eftir fæðingu. Kálfar skulu alltaf hafa aðgang að nægu góðu fóðri.
Óheimilt er að fóðra kálfa, til framleiðslu á hvítu kjöti, með mjólk eingöngu.
Allir gripir skulu hafa nægan aðgang að hreinu og ómenguðu drykkjarvatni. Fóður- og brynningarbúnaður skal þannig útbúinn, uppsettur og við haldið að hætta á mengun sé í lágmarki. Um lágmarks átpláss og aðgengi að vatni fer samkvæmt 3. tölulið viðauka I og 7. tl. viðauka I.
Mat á holdum og holdastigi fer eftir viðauka II.
8. gr. Sýningar.
Umráðamanni nautgripa er skylt að venja þá við umgengni við menn bæði utan- og innandyra.
Umráðamanni nautgrips sem nota á við gerð auglýsinga, kvikmynda, leiksýninga eða annað sem felur í sér aðstæður og/eða umhverfi sem nautgrip er ekki eðlilegt, ber að tilkynna Matvælastofnun um fyrirhugaða notkun eigi síðar en 10 dögum áður en áætluð notkun fer fram.
Óheimilt er að hefja notkun fyrr en skilyrði varðandi húsnæði, búnað, notkun og þekkingu eru uppfyllt og hafa verið staðfest af Matvælastofnun að lokinni úttekt.
9. gr. Aðgerðir.
Við sársaukafulla aðgerð skal deyfa eða svæfa nautgrip og veita honum verkjastillandi meðferð.
Dýralæknum er einum heimilt að setja hring í gegnum miðnesi, fjarlægja horn og gelda nautgripi. Skylt er að nota deyfingu við þær aðgerðir og nota skal langverkandi lyf við verkjum þar sem það á við. Ef fjarlægja þarf horn af kálfum skal leitast við að fjarlægja horn innan sex vikna aldurs.
Matvælastofnun getur krafist upplýsinga um allar aðgerðir sem hafa verið gerðar á nautgripum þar með talið hornatöku og geldingar á gripum sem eru á búinu eða koma til slátrunar.
10. gr. Æxlun.
Óheimilt er að kelfa kvígur yngri en 11 mánaða, þó skal huga að líkamlegum þroska kvígnanna og halda þeim seinna séu þær seinþroska.
Óheimilt er að kelfa kvígu af hreinum íslenskum stofni með holdanauti vegna hættu á burðarerfiðleikum.
11. gr. Flutningar, rekstur og handsömun.
Sýna skal aðgát við rekstur nautgripa og tryggja að ekki sé gengið nærri þoli þeirra. Óheimilt er að nota áhöld sem valda þeim streitu og ótta eða áhöld sem gefa rafmagnshögg.
Um flutning á nautgripum skal farið eftir ákvæðum reglugerðar um flutning búfjár.
12. gr. Smitvarnir.
Umhverfi og næsta nágrenni nautgripahúsa skal vera þrifalegt þannig að smitefni berist ekki auðveldlega inn í þau og meindýravarnir viðhafðar. Fóðursvæði og aðgengi að því skal vera hreint og þurrt og tryggt að fóður mengist hvorki af saur né öðrum óhreinindum, þannig að gripum geti stafað smithætta af. Gólf, veggir, loft, innréttingar og búnaður í gripahúsum skulu vera þannig úr garði gerð og viðhaldið að auðvelt sé að þrífa þau og sótthreinsa.
Við inngang í nautgripahús skal vera aðstaða til handþvottar eða sótthreinsunar á höndum og hreinsunar á skófatnaði. Verði því ekki við komið, skulu þjónustuaðilar og gestir fara í hlífðarfatnað og skófatnað búsins eða einnota búnað. Við móttöku og afhendingu gripa, fóðurs og annarra aðfanga skal gæta smitvarna.
Gripaflutningamenn skulu alla jafna ekki koma inn í rými þar sem gripir eru haldnir þegar afhending gripa fer fram. Í fjósum byggðum eftir gildistöku reglugerðar þessarar skulu aðstæður vera þannig að við afhendingu gripa þurfi gripaflutningamenn ekki að koma inn í rými þar sem gripir eru haldnir. Flutningatæki sem koma með fóður og önnur aðföng og flytja afurðir, gripi eða aðrar vörur, að og frá búinu, skulu geta ekið á malarbornu eða öðru föstu undirlagi. Óheimilt er að halda önnur klaufdýr í sama húsi eða í útigerði með nautgripum, þannig að bein snerting á milli þeirra eða saurmengun geti átt sér stað.
13. gr. Aflífun utan sláturhúss.
Heimilt er að aflífa nautgripi utan sláturhúss með þar til gerðri boltabyssu eða byssu með kúlu. Því skal strax fylgt eftir með því að blóðga gripinn með skurði í gegnum báðar hálsslagæðar.
Þá er heimilt að skjóta nautgrip á færi í brjóstið ef ekki tekst að ná til hans með öðru móti. Við aflífun skal þess gætt að nautgripur sé sviptur meðvitund og blóðgaður skv. 1. mgr.
Skylt er að aflífa alvarlega veika og/eða slasaða nautgripi eins fljótt og auðið er ef viðeigandi læknismeðferð er ekki möguleg. Skylt er að tilkynna Matvælastofnun um aflífunina samdægurs.
Við val á vopni til aflífunar skal taka mið af aldri og ástandi dýrsins. Um beitingu skotvopna við aflífun fer samkvæmt viðauka III.
Um aflífun nautgripa gilda að öðru leyti ákvæði reglugerðar um vernd dýra við aflífun.
IV. KAFLI Aðbúnaður.
14. gr. Aðbúnaður og húsakostur.
Eftir gildistöku reglugerðarinnar skulu öll ný fjós vera lausagöngufjós.
Nautgripir skulu haldnir í fjósum þar sem þeim er tryggð dagleg hreyfing. Allir nautgripir skulu hafa aðgang að þurru og trekklausu legusvæði.
Um stærð á legubásum, flórum, stíum, átplássi og rimlum og aðgengi að vatni í lausagöngu, gilda skilyrði 1.-7. töluliðar viðauka I. Stíur fyrir gripi í uppeldi skulu vera þannig gerðar eða það margar að hægt sé að aðskilja misstóra gripi. Við endurnýjun á jötugrindum og bindingum skal miðað við að gripirnir geti óhindrað lagst, legið eðlilega, risið á fætur, staðið, hreyft sig og sleikt.
Gólf skulu vera þannig úr garði gerð að vatn renni af þeim, þau verði ekki hál og á þeim geti ekki myndast skarpar brúnir. Ekki er leyfilegt að hafa málmristar í lausagöngufjósi, nema yfir litlum svæðum þar sem umferð gripa er takmörkuð.
Í lausagöngufjósum skal vera aðstaða til að festa gripi ef þeir þurfa meðhöndlun eða taka þarf úr þeim sýni.
Í lausagöngufjósum fyrir gildistöku reglugerðar þessarar skal vera burðarstía. Um stærð og fjölda burðarstía gilda skilyrði í 5. tölulið viðauka I.
Skilyrði fyrir básafjós í 9. tölulið viðauka I skulu uppfyllt fyrir 1. október 2016.
15. gr. Lýsing, loftgæði og hljóðvist.
Nautgripum sem eru innandyra skal tryggð birta. Ljós skulu þannig staðsett að þau valdi gripum ekki óþægindum. Lýsing skal að lágmarki taka mið af dagsljósi á hverjum tíma. Mögulegt skal vera að kveikja ljós þannig að hægt sé að fylgjast með öllum gripum. Óheimilt er að hafa stöðuga sterka lýsingu á legusvæði allan sólarhringinn, ratljóst skal vera hjá mjólkurkúm þann tíma sólarhringsins sem birtu nýtur ekki við.
Tryggja skal að loftskipti og loftgæði hæfi aldri, tegund og ástandi gripa í samræmi við 8. tölulið viðauka I. Koma skal í veg fyrir að loft geti dregist inn í gegnum haughús.
Óheimilt er að hafa gripi í stöðugum hávaða eða reglubundnum hvell- eða högghljóðum og skal hávaði ekki vera meiri en 65 dB á legusvæði.
16. gr. Slysavarnir.
Sjálfvirkur tæknibúnaður, svo sem flórsköfur, gjafabúnaður, mjaltaþjónar o.þ.h. skal vera þannig útbúinn og staðsettur, að hann geti ekki valdið slysum á dýrum.
Við tæmingu á mykjugeymslu og/eða upphræringu mykju skal vinnu þannig háttað að nautgripum stafi ekki hætta af eiturgufum.
Rýmingarleiðir gripa skulu alltaf vera greiðfærar og fljótlegt að opna dyr innan og utan frá. Stíur skal ávallt vera hægt að opna án þess að nota verkfæri.
Skemmdir á ristarflórum og rimlagólfum skal laga tafarlaust. Brotnar innréttingar sem geta valdið slysum skal gera við tafarlaust. Hvergi má vera op í fjósi sem kálfar eða gripir geta fallið niður eða út um eða gripir klemmst á milli.
Eldvarnir skulu vera í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012.
17. gr. Útivist.
Allir nautgripir skulu komast á beit á grónu landi í átta vikur hið minnsta á tímabilinu frá 15. maí til 15. október ár hvert. Undanskildir eru kálfar fæddir á viðkomandi ári svo og graðnaut. Aðgangur að útigerði uppfyllir ekki kröfur um útivist á grónu landi.
Gripir sem eru úti skulu geta leitað skjóls fyrir veðrum. Að vetri skal skjól þetta vera gripahús eða legusvæði í skýli með a.m.k. þremur veggjum og þaki.
Þar sem nautgripir, aðrir en mjólkurkýr, eru haldnir úti skal vera aðstaða til að handsama gripi ef þeir þurfa meðhöndlun eða taka þarf úr þeim sýni.
Átsvæði skal vera með þéttu og þrifalegu undirlagi. Þar sem gripir eru á útigangi allt árið skal vera aðstaða innanhúss til að hlúa að gripum sem þurfa sérstakrar umönnunar við.
Hafa skal reglubundið eftirlit með gripum á útigangi og haga því eftir aðstæðum. Á tímabilinu 15. október til 15. maí skal líta til með gripum á útigangi daglega.
18. gr. Öryggi og velferð mjólkurkúa.
Tryggja skal að mjólkurkýr séu mjólkaðar eftir þörfum, að jafnaði a.m.k. tvisvar sinnum daglega nema í lok mjaltaskeiðs og að velferð mjólkurkúnna sé ekki stefnt í hættu. Til staðar skal vera varabúnaður, dælur og/eða rafstöðvar sem hægt er að tengja við kerfi fjóssins með auðveldum hætti.
V. KAFLI Önnur ákvæði.
18. gr. Viðurlög.
Brot gegn reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 55/2013 um velferð dýra. Meðferð mála út af brotum á reglugerð þessari fer samkvæmt lögum um meðferð sakamála.
19. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 55/2013 um velferð dýra og lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Reglugerðin öðlast þegar gildi.
Við gildistöku þessarar reglugerðar fellur úr gildi reglugerð nr. 438/2002 um aðbúnað nautgripa og eftirlit með framleiðslu mjólkur og annarra afurða þeirra, ásamt síðari breytingum.
Bráðabirgðaákvæði.
Þrátt fyrir 5. mgr. 6. gr. og 2. mgr. 14. gr. er heimilt til 31. desember 2034, í fjósum sem byggð eru fyrir gildistöku reglugerðar þessarar, að binda með hálsbandi eða loka á básum kýr og kvígur sem eiga minna en þrjá mánuði í burð, sé þess gætt að rými sé nægilegt fyrir þær skv. 1. mgr. 6. gr.
Lausagöngufjós byggð fyrir gildistöku reglugerðar þessarar skulu fyrir 31. desember 2034 uppfylla skilyrði fyrir legubása skv. 1. tl. viðauka I.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.