Prentað þann 14. jan. 2025
1040/2005
Reglugerð um framkvæmd raforkulaga.
Efnisyfirlit
- I. KAFLI Gildissvið og skilgreiningar.
- II. KAFLI Raforkuvinnsla.
- III. KAFLI Flutningur og kerfisstjórnun.
- 10. gr. Rekstur flutningskerfisins.
- 11. gr. Flutningur raforku.
- 12. gr. Ný flutningsvirki.
- 13. gr. Tekjumörk flutningsfyrirtækis.
- 14. gr. Tilflutningur tekjumarka.
- 15. gr. Gjaldskrá vegna flutnings raforku.
- 16. gr. a Aðferðafræði við útreikning kerfisframlags vegna nýrra tenginga.
- 16. gr. b Forsendur við útreikning kerfisframlags vegna nýrra tenginga.
- 16. gr. c Viðmiðun við útreikning kerfisframlags.
- 17. gr. Bókhaldslegur aðskilnaður og stjórnunarlegt sjálfstæði.
- IV. KAFLI Dreifing.
- 18. gr. Sérleyfi til dreifingar raforku.
- 19. gr. Skilyrði sérleyfis.
- 20. gr. Umsókn um leyfi.
- 21. gr. Efni sérleyfis.
- 22. gr. Málsmeðferð og gjaldtaka.
- 23. gr. Starfsemi og skyldur dreifiveitna.
- 24. gr. Tekjumörk dreifiveitna.
- 25. gr. Gjaldskrá vegna dreifingar raforku.
- 25. gr. a. Kerfisframlag vegna nýrra tenginga við dreifiveitu.
- 26. gr. Bókhaldslegur aðskilnaður.
- 27. gr. Aðskilnaður milli dreifiveitustarfsemi og starfrækslu sölufyrirtækja.
- V. KAFLI Raforkuviðskipti.
- VI. KAFLI Bókhaldslegur aðskilnaður.
- VII. KAFLI Eftirlit og úrræði.
- VIII. KAFLI Ýmis ákvæði.
I. KAFLI Gildissvið og skilgreiningar.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi tekur til vinnslu, flutnings, dreifingar og viðskipta með raforku á íslensku forráðasvæði.
2. gr. Skilgreiningar.
- Afhendingarstaður: Staður í flutnings- eða dreifikerfi þar sem innmötun eða úttekt raforku fer fram.
- Dreifikerfi: Raflínur sem ekki teljast til flutningskerfisins ásamt mannvirkjum og búnaði þeim tengdum til og með heimtaug. Enn fremur mælar og mælabúnaður hjá notendum.
- Dreifiveita: Fyrirtæki sem hefur leyfi til dreifingar raforku á afmörkuðu svæði.
- Dreifiveitusvæði: Landsvæði þar sem dreifiveita hefur einkarétt og skyldu til dreifingar raforku.
- Endurnýjanlegar orkulindir: Orkulindir sem geta endurnýjað sig í sífellu, svo sem fallvötn, jarðhiti, vindorka, sjávarföll og sólarorka.
- Ekki afhent orka/raforkuskerðing: Áætlað magn raforku sem ekki var unnt að afhenda notanda eða dreifiveitu vegna bilunar í raforkukerfinu, viðhaldsvinnu eða breytinga á því.
- Flutningsfyrirtæki: Fyrirtæki sem stýrir rekstri flutningskerfisins og annast kerfisstjórnun.
- Flutningskerfi: Raflínur og mannvirki þeim tengd sem nauðsynleg eru til að flytja raforku frá virkjunum til stórnotenda og til dreifiveitna á þeim afhendingarstöðum sem taldir eru upp í viðauka með raforkulögum nr. 65/2003, með síðari breytingum. Það nær frá háspennuhlið stöðvarspenna virkjana sem tengjast því, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna, að háspennuhlið aðveituspenna stórnotenda eða dreifiveitna.
- Flutningsvirki: Raflína og búnaður henni tengdur til flutnings raforku.
- Heimtaugargjald: Almennt gjald fyrir tengingu nýs notanda við dreifikerfi.
- Kerfisframlag: Hlutdeild viðskiptavinar í fjárfestingu vegna nýrrar tengingar eða styrkingar á flutnings- eða dreifikerfi.
- Kerfisþjónusta: Sú þjónusta sem flutningsfyrirtæki og dreifiveitur veita til að tryggja öruggan rekstur og stöðugleika flutningskerfis og dreifikerfis ásamt gæðum raforku.
- Launafl: Raffræðilegt hugtak á hliðrun straums og spennu í riðstraumskerfi.
- Notandi: Sá sem kaupir raforku til eigin nota.
- Notkunarferill: Mismunur heildarorkuúttektar á notkunarferilssvæði á klukkustund annars vegar, og tímamældrar notkunar einstakra notenda og ómældrar þekktrar notkunar hins vegar. Töp í raforkukerfinu teljast hluti af notkunarferli.
- Orkulind: Náttúruleg uppspretta orku á ákveðnu formi, svo sem vatnsfall, jarðhitageymir, sjávarföll, vindur, sólarljós, en einnig olíu- og gaslindir og kolanámur.
- Raflína: Samsafn af leiðurum, einangrandi efni og tengdum búnaði til að flytja raforku milli tveggja staða innan raforkukerfisins.
- Raforkukerfi: Allur sá búnaður sem notaður er við vinnslu, flutning og dreifingu raforku og myndar starfræna heild.
- Raforkuver/virkjun: Mannvirki sem notað er til vinnslu raforku. Tvær eða fleiri einingar sem mynda eðlilega heild og tengjast flutningskerfinu eða dreifikerfi gegnum sameiginleg tengivirki teljast ein virkjun.
- Raforkuviðskipti/viðskipti: Kaup og sala raforku.
- Sölufyrirtæki: Fyrirtæki sem selur raforku eða annast raforkuviðskipti, hvort sem er í heildsölu eða smásölu.
- Stórnotandi: Notandi sem notar á einum stað a.m.k. 14 MW afl með árlegum nýtingartíma 8.000 stundir eða meira.
- Tekjumörk: Hámark leyfilegra árlegra tekna flutningsfyrirtækis og dreifiveitna til að mæta kostnaði.
- Varaaflstöð: Virkjun sem einungis vinnur raforku tímabundið vegna bilunar eða truflunar í raforkukerfinu.
- Vinnsla/raforkuvinnsla: Umbreyting orku, svo sem vatnsorku, jarðvarma eða efnaorku í raforku.
- Vinnslufyrirtæki: Fyrirtæki sem stundar vinnslu á raforku eða hefur fengið virkjunarleyfi.
- Virkjunarleyfi: Leyfi sem veitt er samkvæmt raforkulögum til að reisa og reka raforkuver.
II. KAFLI Raforkuvinnsla.
3. gr. Virkjunarleyfi.
Leyfi ráðherra þarf til að reisa og reka raforkuver. Þó þarf ekki slíkt leyfi vegna raforkuvera með uppsettu afli sem er undir 1 MW nema orka frá raforkuveri sé afhent inn á dreifikerfi dreifiveitna eða flutningskerfið. Eigendur virkjana með uppsett afl 30-1.000 kW skulu skila Orkustofnun tæknilegum upplýsingum um virkjun. Einnig er skylt að tilkynna Orkustofnun árlega um heildarraforkuvinnslu raforkuvera með uppsettu afli yfir 100 kW.
Virkjunarleyfi fellur úr gildi 10 árum eftir veitingu þess ef leyfishafi hefur þá ekki hafið framkvæmdir og 15 árum eftir veitingu þess ef virkjun er þá ekki komin í rekstur. Áður en að þessum tímamörkum kemur getur leyfishafi sótt um endurnýjun leyfis til ráðherra.
Virkjunarleyfi má hvorki framselja né setja til tryggingar fjárskuldbindingum nema með leyfi ráðherra.
Áður en leyfishafi hefur framkvæmdir á eignarlandi á grundvelli leyfis þarf að hafa náðst samkomulag við landeigendur og eigendur orkulinda um endurgjald eða ákvörðun um eignarnám að liggja fyrir. Hafi hvorki náðst samkomulag um endurgjald né eignarnáms verið óskað innan 90 daga frá útgáfu leyfis fellur það niður. Um skyldur landeigenda, eignarnám og bætur fer samkvæmt VI. kafla raforkulaga. Ákvæði þetta gildir einnig um nýtingu auðlinda í þjóðlendum eftir því sem við á. Um framkvæmdir á landsvæðum í ríkiseign fer samkvæmt 38. gr. raforkulaga.
4. gr. Umsókn um virkjunarleyfi.
Umsókn um virkjunarleyfi skal vera skrifleg og skulu fylgja henni eftirfarandi upplýsingar og gögn:
- Nafn umsækjanda, kennitala hans, heimilisfang og upplýsingar um rekstrarform.
- Niðurstöður rannsókna á viðkomandi virkjunarkosti.
- Lýsing á virkjuninni, þ.m.t. kort og uppdrættir sem sýna legu og tilhögun mannvirkja, helstu tölulegar upplýsingar um virkjunina og afmörkun virkjunarsvæðis.
- Framkvæmdaáætlun, þ.m.t. um hvenær ætlunin er að hefja framkvæmdir, hvenær þeim á að vera lokið og hvenær rekstur virkjunar á að hefjast.
- Fjárhagsáætlun vegna framkvæmdanna.
- Samningur um tengingu við flutningskerfið eða dreifikerfi á viðkomandi svæði.
- Upplýsingar um hvort fyrir liggi samkomulag við landeigendur og eigendur orkulinda um endurgjald fyrir nýtingu viðkomandi auðlindar.
- Upplýsingar um helstu umhverfisþætti virkjunar og áhrif hennar á viðkomandi orkulind, þ.m.t. nýtingu sem fyrir er á svæðinu, eftir því sem við á. Upplýsa skal um hvort um matsskylda framkvæmd er að ræða samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Ef svo er skal skýrsla um mat á umhverfisáhrifum fylgja umsókninni svo og úrskurður umhverfisyfirvalda um mat á umhverfisáhrifum. Þá skal eftir því sem við á gera grein fyrir þeim mótvægisaðgerðum og öðrum ráðstöfunum sem ætlunin er að framkvæma vegna umhverfisáhrifa sem virkjunin hefur samkvæmt framlögðum gögnum.
- Upplýsingar um þau leyfi sem umsækjandi telur sig þurfa að afla frá öðrum stjórnvöldum og hvort framkvæmdin samræmist gildandi skipulagi þar sem ætlunin er að reisa virkjunina.
5. gr. Skilyrði fyrir veitingu virkjunarleyfis.
Virkjunarleyfi verður aðeins veitt sjálfstæðum lög- og skattaðila.
Aðeins má veita virkjunarleyfi til nýtingar endurnýjanlegra orkulinda. Ráðherra getur þó heimilað að reistar séu varaaflstöðvar, toppaflstöðvar og aflstöðvar fyrir einangruð raforkukerfi sem nýta aðra orkugjafa.
Tengja skal leyfisskylda virkjun flutningskerfinu, sbr. þó 1. mgr. 11. gr. raforkulaga. Virkjanir sem eru 7 MW eða stærri skulu tengjast flutningskerfinu beint en minni virkjunum er heimilt að tengjast því um dreifiveitu. Samningur við flutningsfyrirtækið eða dreifiveitu á því dreifiveitusvæði sem virkjunin er á skal liggja fyrir þegar sótt er um virkjunarleyfi.
Ef framkvæmd fellur undir viðauka 1 með lögum um mat á umhverfisáhrifum skal fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi um mat á umhverfisáhrifum liggja fyrir áður en virkjunarleyfi er veitt. Ef framkvæmd fellur undir 2. viðauka sömu laga skal ákvörðun um matsskyldu liggja fyrir áður en leyfi er veitt og eftir atvikum fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi um mat á umhverfisáhrifum.
Ráðherra skal við leyfisveitinguna taka tillit til mats á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar og fullnaðarúrskurðar stjórnvalda þar um. Ráðherra skal eftir því sem við á mæla fyrir um mótvægisaðgerðir og önnur skilyrði til að koma í veg fyrir eða draga úr áhrifum framkvæmdar á umhverfi og til að stuðla að sjálfbærri nýtingu endurnýjanlegra orkulinda og að varlega sé farið í nýtingu óendurnýjanlegra auðlinda. Slíkar aðgerðir eða skilyrði skulu vera í eðlilegum tengslum við framkvæmdina og geta m.a. lotið að hönnun og búnaði viðkomandi mannvirkja, staðarmörkum, nýtingarmagni, vöktun, mælingum, rannsóknum, upplýsingaskilum, framkvæmdum sem miða að því að varðveita náttúrugæði og frágangi á starfsstöðvum og landi á starfstíma og að honum loknum.
Leyfi skal bundið þeim skilyrðum sem nauðsynlegt er til að tekið verði tillit til nýtingar sem fyrir er á viðkomandi svæði.
Framkvæmdir á grundvelli virkjunarleyfis skulu vera í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði.
Áður en framkvæmdir hefjast á grundvelli leyfis skal leyfishafi sýna fram á að hann geti aflað nægilegs fjármagns til að reisa virkjunina og nauðsynleg mannvirki og búnað henni tengdan. Fyrir sama tíma skal leyfishafi einnig leggja fram hönnunargögn vegna mannvirkja og tækjabúnaðar sem tengjast virkjuninni. Hönnunargögnin skulu unnin eða yfirfarin af sérfræðingum sem hafa þekkingu og reynslu af hönnun virkjana.
6. gr. Skilyrði um samrekstur virkjana.
Leyfi fyrir vatnsaflsvirkjun getur verið bundið því skilyrði að samningar takist um samrekstur annarra vatnsaflsvirkjana og vatnsmiðlana á viðkomandi vatnasviði. Ef ekki nást samningar sker ráðherra úr ágreiningi og er úrskurður hans endanlegur á stjórnsýslustigi. Virkjunarleyfi fyrir jarðgufuvirkjun getur á sama hátt verið bundið því skilyrði að samningar takist um samrekstur með öðrum þeim sem nýta sama jarðhitasvæði. Þá er ráðherra heimilt í virkjunarleyfi að gera fyrirvara um að öðrum aðila kunni að verða veitt leyfi til virkjunar sem nýtir sama vatnasvið eða jarðhitasvæði. Ráðherra er heimilt að endurskoða ákvæði virkjunarleyfis með tilliti til þessa og bæta í það ákvæðum sem hann telur nauðsynleg til að tryggja heildarhagkvæmni í orkunýtingu vatnasviðsins eða jarðhitasvæðisins.
7. gr. Efni virkjunarleyfis.
Eftirfarandi atriði skulu tilgreind í virkjunarleyfi:
- Nafn, kennitala og heimili leyfishafa.
- Stærð virkjunar og afmörkun virkjunarsvæðis.
- Hvenær framkvæmdir skuli hefjast og hvenær þeim skuli lokið.
- Upplýsinga- og tilkynningarskylda leyfishafa til Orkustofnunar og flutningsfyrirtækis sem nauðsynleg er til að viðkomandi aðilar geti rækt hlutverk sitt.
- Öryggis- og umhverfisverndarráðstafanir.
- Skilyrði um tæknilega og fjárhagslega getu.
- Ráðstöfun mannvirkja og tækja þegar notkun þeirra er hætt.
- Hvort og að hve löngum tíma liðnum endurskoða megi virkjunarleyfi.
- Önnur atriði er lúta að skilyrðum leyfis og skyldum virkjunarleyfishafa samkvæmt raforkulögum og reglugerð þessari eða leiða má af öðrum lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.
8. gr. Málsmeðferð og gjaldtaka.
Virkjunarleyfi skal veitt á grundvelli umsóknar sem skal metin á hlutlægan og gagnsæjan hátt.
Áður en ráðherra veitir virkjunarleyfi skal hann leita umsagnar Orkustofnunar. Umsögn Orkustofnunar skal berast innan tveggja mánaða frá því beiðni þar að lútandi var send.
Ráðherra skal kynna umsókn um leyfi í Lögbirtingablaði. Þar skal gefa þeim aðilum sem málið varðar færi á að kynna sér umsóknina og koma á framfæri sjónarmiðum sínum innan fjögurra vikna frá birtingu auglýsingar. Umsækjandi skal kosta birtingu slíkrar auglýsingar.
Ráðherra skal á grundvelli framlagðra gagna, umsagnar Orkustofnunar og athugasemda sem fram hafa komið samkvæmt 3. mgr. meta hvort umsækjandi uppfylli skilyrði fyrir veitingu virkjunarleyfis. Telji hann svo ekki vera skal hann synja um veitingu leyfis eða binda leyfið skilyrðum sem hann telur nauðsynleg í þessu sambandi. Synjun um veitingu leyfis skal rökstudd. Ákvörðun ráðherra skal tekin innan tveggja mánaða frá því öll gögn hafa borist frá umsækjanda og allar umsagnir og athugasemdir liggja fyrir.
Fyrir virkjunarleyfi skal greiða 100.000 kr. auk 10.000 kr. fyrir hvert MW. Gjaldið skal greitt við móttöku leyfis.
Ef leyfishafi fer ekki að skilyrðum reglugerðar þessarar eða skilyrðum leyfisins, samningum sem tengjast því eða öðrum heimildum skal ráðherra veita honum skriflega aðvörun og hæfilegan frest til úrbóta. Ef leyfishafi sinnir ekki aðvörun ráðherra innan tilgreindra tímamarka getur ráðherra afturkallað leyfið eða breytt því. Ef um alvarleg brot eða vanrækslu er að ræða eða ljóst er að leyfishafi getur ekki staðið við skyldur sínar samkvæmt leyfinu getur ráðherra þó afturkallað það án aðvörunar.
9. gr. Starfsemi og skyldur vinnslufyrirtækis.
Heimilt er vinnslufyrirtæki að stunda sérleyfisstarfsemi en óheimilt er því að niðurgreiða vinnsluna með sérleyfisstarfseminni eða starfsemi sem hefur sambærilega stöðu. Vinnslufyrirtæki skal í bókhaldi sínu halda reikningum fyrir vinnslustarfsemi aðskildum frá annarri starfsemi. Starfræki vinnslufyrirtæki jarðvarmaorkuver sem bæði vinnur raforku og aðra orku, svo sem heitt vatn eða gufu, skal fyrirtækið í bókhaldi sínu halda reikningum vegna vinnslu raforku aðskildum frá reikningum vegna annarrar vinnslu. Nánar er mælt fyrir um bókhaldslegan aðskilnað í VI. kafla reglugerðarinnar.
Skylt er vinnslufyrirtæki að hlíta ákvörðunum flutningsfyrirtækis um umfang framleiðslu svo að það geti uppfyllt skyldur sínar vegna kerfisstjórnunar og skal koma fyrir það greiðsla samkvæmt samkomulagi milli flutningsfyrirtækis og vinnslufyrirtækis.
III. KAFLI Flutningur og kerfisstjórnun.
10. gr. Rekstur flutningskerfisins.
Eitt fyrirtæki, Landsnet hf., skal annast flutning raforku og kerfisstjórnun flutningskerfisins. Um kerfisstjórnun fer samkvæmt reglugerð um kerfisstjórnun í raforkukerfinu.
Flutningsfyrirtækið skal gæta jafnræðis við starfrækslu sína.
Flutningsfyrirtækið skal hafa aðgang að öllum upplýsingum hjá vinnslufyrirtækjum, dreifiveitum og raforkusölum sem nauðsynlegar eru til að fyrirtækið geti rækt hlutverk sitt. Skal flutningsfyrirtækið gæta trúnaðar um upplýsingar sem fyrirtækið fær í hendur og varða viðskiptahagsmuni og aðrar þær upplýsingar sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Ber flutningsfyrirtækinu að setja sér verklagsreglur um stjórnun upplýsingaöryggis. Skal starfsmönnum flutningsfyrirtækisins gert að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis að þeir muni gæta fyllsta trúnaðar um upplýsingar sem þeir fá í starfi sínu.
Flutningsfyrirtækinu er skylt að veita stjórnvöldum, viðskiptavinum og almenningi upplýsingar sem nauðsynlegar eru við mat á því hvort fyrirtækið fullnægi skyldum sínum við rekstur og kerfisstjórnun flutningskerfisins og tryggi jafnræði við flutning raforku.
Rísi ágreiningur um hvort fyrirtækinu sé skylt að veita umbeðnar upplýsingar sker Orkustofnun úr. Úrskurður Orkustofnunar í þessu efni sætir kæru til úrskurðarnefndar raforkumála.
11. gr. Flutningur raforku.
Flutningsfyrirtækið skal byggja flutningskerfið upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæða raforku.
Í rekstri flutningskerfisins felst m.a. að:
- Tengja alla sem eftir því sækjast við flutningskerfið, enda uppfylli þeir tæknileg skilyrði fyrir því sem nánar eru tilgreind í samningi flutningsfyrirtækisins um tengingu við flutningskerfið og greiði tengigjald samkvæmt ákvæðum í gjaldskrá flutningsfyrirtækisins. Þó er heimilt að synja nýjum aðilum um aðgang að flutningskerfinu á grundvelli sjónarmiða um flutningsgetu, öryggi og gæði kerfisins. Synjun skal vera skrifleg og rökstudd. Sá sem synjað er um tengingu getur farið fram á upplýsingar um með hvaða hætti og innan hvaða tíma gera megi breytingar á kerfinu sem leiði til þess að unnt sé að tengja hann.
- Útvega rafmagn í stað þess sem tapast í kerfinu í samræmi við reglugerð um kerfisstjórnun.
- Útvega launafl fyrir kerfið til að nýta flutningsgetu og tryggja spennugæði í samræmi við reglugerð um kerfisstjórnun.
-
Flutningsfyrirtækið skal setja sér reglur til þess að tryggja áreiðanleik í rekstri flutningskerfisins sem skulu a.m.k. kveða á um eftirfarandi atriði:
4.1. Hönnun kerfisins og uppbyggingu þess.
4.2. Viðhald kerfisins.
4.3. Reglubundið eftirlit með ástandi kerfisins.
4.4. Eftirlit með verndarbúnaði og stillingu verndarliða.
4.5. Skráningu truflana ásamt mati á orku sem ekki er afhent.
4.6. Eftirlit með álagi flutningskerfisins. Ef um umfangsmikla rekstrartruflun er að ræða skal flutningsfyrirtækið senda Orkustofnun skýrslu um atvikið innan 14 daga frá því hún var lagfærð. Orkustofnun skal skilgreina hvað telst umfangsmikil rekstrartruflun í þessu sambandi. - Flutningsfyrirtækið skal gera áætlun um uppbyggingu flutningskerfisins til a.m.k. næstu 5 ára eða lengur ef það telur þörf á. Áætlun flutningsfyrirtækisins skal unnin í samráði við orkuspárnefnd.
12. gr. Ný flutningsvirki.
Til að byggja ný flutningsvirki þarf flutningsfyrirtækið leyfi ráðherra. Umsókn um leyfi til að byggja flutningsvirki skal fylgja þarfagreining vegna viðkomandi virkis, hagkvæmnisútreikningar og greining á áhrifum þess á flutningskerfið og uppdrættir að hinum fyrirhuguðu mannvirkjum, ásamt lýsingu á þeim. Umsókn um leyfi til að byggja flutningsvirki skal send Orkustofnun til umsagnar.
Ef framkvæmd fellur undir viðauka 1 með lögum um mat á umhverfisáhrifum skal fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi um mat á umhverfisáhrifum liggja fyrir áður en leyfi er veitt. Ef framkvæmd fellur undir 2. viðauka sömu laga skal ákvörðun um matsskyldu liggja fyrir áður en leyfi er veitt og eftir atvikum fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi um mat á umhverfisáhrifum. Skal við leyfisveitinguna tekið tillit til mats á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar og fullnaðarúrskurðar stjórnvalda þar um. Getur ráðherra bundið leyfið þeim skilyrðum sem hann metur nauðsynleg til að svo megi verða. Framkvæmdir á grundvelli leyfis skulu vera í samræmi gildandi skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði.
Ráðherra skal á grundvelli framlagðra gagna og umsagnar Orkustofnunar meta hvort flutningsvirkið samræmist sjónarmiðum og skilyrðum 1. og 2. mgr. Telji hann svo ekki vera skal hann synja um veitingu leyfis eða binda leyfið skilyrðum sem hann telur nauðsynleg í því sambandi. Synjun um veitingu leyfis skal rökstudd.
13. gr. Tekjumörk flutningsfyrirtækis.
Orkustofnun skal setja flutningsfyrirtækinu tekjumörk vegna kostnaðar við flutning á raforku til dreifiveitna annars vegar og vegna flutnings til stórnotenda hins vegar. Við setningu tekjumarka skal taka tillit til þess hvort tenging stórnotenda leiði eða hafi leitt til hagkvæmari uppbyggingar og nýtingar flutningskerfisins en ella væri.
Tekjumörkin skulu ákveðin út frá eftirfarandi viðmiðum:
- Kostnaði sem tengist starfsemi fyrirtækisins, þ.m.t. kostnaði vegna viðhalds, afskrifta á nauðsynlegum eignum til reksturs kerfisins, leigukostnaði vegna flutningsvirkja, kostnaði við orkutap, almennum rekstrarkostnaði og kostnaði við kerfisstjórnun.
- Arðsemi flutningsfyrirtækisins skal vera sem næst markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa. Arðsemi reiknast sem hlutfall hagnaðar fyrir fjármunatekjur, fjármagnsgjöld og skatta (EBIT) og bókfærðs verðs fastafjármuna sem nauðsynlegir eru til reksturs flutningskerfis. Fastafjármunir þessir skulu vera þeir sem nýttir eru þann 31. desember 2004 og miðað við bókfært virði þann dag, ásamt nauðsynlegum nýjum fastafjármunum, sem síðar kunna að koma til. Við setningu tekjumarka flutningsfyrirtækisins vegna flutnings raforku til dreifiveitna skal Orkustofnun í upphafi miða við að arðsemi sé helmingur af markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa. Hækka skal arðsemisviðmiðunina á fimm árum í þá ávöxtun sem kveðið er á um hér að ofan, þó skal hækkun arðsemisviðmiðunar ekki valda meiri hækkun tekjumarka en næst með hagræðingarkröfu.
- Hagræðingarkröfu sem skal taka mið af eðlilegum kostnaði samkvæmt mati Orkustofnunar að teknu tilliti til þeirrar þjónustu sem fyrirtækið veitir.
Orkustofnun ákveður viðmiðunarár sem lögð eru til grundvallar við mat á grunnstærðum til ákvörðunar tekjumarka til þriggja ára í senn. Kostnaður vegna taps skal reiknaður miðað við matsvirði raforku, ákvarðað af Orkustofnun. Aðrar grunnstærðir skulu verðbólguleiðréttar.
Flutningsfyrirtækinu er heimilt að breyta bókfærðu verðmæti eigna, sem lagt er til grundvallar við setningu tekjumarka, sbr. 2. tl. 2. mgr. þessarar greinar, í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs frá 31. desember 2004 eða þeim degi sem síðar tilkomnar eignir eru teknar í notkun.
Eigendaskipti á eignum sem nauðsynlegar eru til reksturs flutnings- eða dreifikerfis skulu ekki leiða til breytinga á tekjumörkum flutnings- og dreififyrirtækja, þrátt fyrir að bókfært virði breytist til hækkunar eða lækkunar. Tekjumörk skulu miðuð við bókfært virði eigna fyrir eigendaskipti og breytingar á virði til hækkunar eða lækkunar vegna eigendaskipta ekki hækka samanlögð tekjumörk viðkomandi aðila.
Tekið skal tillit til kostnaðar vegna nýframkvæmda að frádregnu kerfisframlagi á grundvelli umsóknar frá flutningsfyrirtækinu sem samþykkt hefur verið af Orkustofnun. Afskriftatími fasteigna og háspennulína skal vera 50 ár, tengivirkja 40 ár að undanskildum hjálparbúnaði sem afskrifa má á 20 árum. Hrakvirði eigna skal miða við 10% stofnkostnaðar. Heimilt er að endurskoða tekjumörk árlega ef forsendur breytast verulega að mati Orkustofnunar.
Hagræðingarkrafa skal samanstanda af annars vegar almennri hagræðingarkröfu sem gildir einnig fyrir dreifiveitur og hins vegar fyrirtækjaháðri kröfu sem fundin er með samanburði við sambærileg fyrirtæki.
Komi í ljós að arðsemi flutningsfyrirtækisins síðastliðin þrjú ár nær ekki helmingi af markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa né heldur er hagnaður af rekstri fyrirtækisins skal taka tillit til þess við setningu tekjumarka og gerð gjaldskrár næsta árs. Sama á við komi í ljós að arðsemi flutningsfyrirtækisins síðastliðin þrjú ár er meira en þriðjungi yfir sömu ávöxtun.
14. gr. Tilflutningur tekjumarka.
Flutningsfyrirtæki og dreifiveitum er heimilt að semja sín á milli um skiptingu tekjumarka vegna breyttra forsendna, s.s. tilfærslu eigna eða rekstrarkostnaðar milli fyrirtækja. Það er þó skilyrði að slíkur tilflutningur leiði ekki til hækkunar samanlagðra tekjumarka viðkomandi fyrirtækja. Fyrirtækjum sem komast að slíku samkomulagi ber innan 2 vikna frá undirritun þess að leita staðfestingar Orkustofnunar. Fallist Orkustofnun á að breytingar séu heimilar, skal stofnunin staðfesta breytinguna og breyta tekjumörkum viðkomandi fyrirtækja innan 4 vikna frá móttöku beiðnar um slíkt.
15. gr. Gjaldskrá vegna flutnings raforku.
Flutningsfyrirtækið skal setja gjaldskrá vegna þjónustu sinnar í samræmi við tekjumörk skv. 13. gr. Við setningu gjaldskrár skal gætt jafnræðis og byggt á hlutlægum og gegnsæjum sjónarmiðum.
Gjaldskrá skal gilda annars vegar fyrir úttekt dreifiveitna frá flutningskerfi og hins vegar fyrir úttekt stórnotenda. Úttektargjald dreifiveitna skal miðast við heildarmagn raforku sem flutt er til dreifiveitusvæðis auk þess sem úttekið er beint frá virkjun innan dreifiveitusvæðisins.
Gjaldtaka fyrir úttekt dreifiveitna frá flutningskerfi skal miðast við heildarmagn raforku sem flutt er til dreifiveitusvæðisins auk þess sem móttekið er beint frá virkjun innan dreifiveitusvæðisins, sbr. þó 4. mgr. Ekki skal greitt af notkun í einangruðum kerfum innan dreifiveitusvæða sem ekki njóta tengingar við flutningskerfið.
Sama gjaldskrá skal vera fyrir innmötun virkjana í flutningskerfið. Þar sem virkjanir tengjast flutningskerfinu um dreifiveitu skal innmötunargjaldið renna til dreifiveitunnar. Greiða skal úttektargjald vegna framleiðslu slíkrar virkjunar til flutningsfyrirtækisins sem hér segir:
- Vegna þeirrar orku sem framleidd er í virkjun sem er undir 1 MW skal ekki greiða úttektargjald til flutningsfyrirtækisins.
- Vegna orku sem framleidd er í virkjunum á stærðarbilinu 1-3,1 MW skal ekki greiða úttektargjald við neðri stærðarmörkin en síðan skal gjaldið fara hlutfallslega hækkandi þar til það nemur 75% fulls úttektargjalds við efri mörkin.
- Vegna orku frá virkjun sem er 3,1-7 MW skal greiða 75% fulls úttektargjalds.
Tekjur vegna flutnings raforku skulu standa undir kostnaði sem er í beinum og efnislegum tengslum við flutning raforku, þ.m.t. kostnaði vegna viðhalds og afskrifta á nauðsynlegum eignum til reksturs kerfisins, leigukostnaði vegna flutningsvirkja, kostnaði við orkutap, almennum rekstrarkostnaði, kostnaði við kerfisstjórnun, opinberum álögum og gjöldum eftir því sem við á og arðsemi eins og kveðið er á um í raforkulögum.
Flutningsfyrirtækið skal skilgreina gjald fyrir tengingu við flutningskerfið, sbr. gr. 16a, 16b og 16c. Einnig skal flutningsfyrirtækið skilgreina gjald fyrir innmötun annars vegar og úttekt hins vegar á sérhverjum afhendingarstað flutningskerfisins. Sama gjaldskrá skal gilda fyrir innmötun og úttekt á öllum afhendingarstöðum.
Gjaldskrá fyrir úttekt dreifiveitna frá flutningskerfi á afhendingarstöðum skal miðast við að raforka sé afhent á 66 kV spennu. Ef raforka frá flutningskerfi er afhent á hærri spennu ber að lækka gjaldskrá með tilliti til þess. Með sama hætti skal taka tillit til annars mismunar á afhendingarþjónustu við gjaldtöku fyrir úttekt á einstökum afhendingarstöðum, s.s. skert afhendingaröryggi og tíðar truflanir.
Gjaldskrá skal vera þannig uppbyggð að hún hvetji til bættrar nýtingar flutningskerfis. Flutningsfyrirtækinu er heimilt að veita afslátt af flutningsgjaldi raforku sem skerða má með skömmum fyrirvara vegna takmarkana í flutningskerfinu. Flutningsfyrirtækið skal sammæla afhendingarstaði inn á dreifiveitusvæði sem rekið er samtengt, enda geti hver afhendingarstaður annað a.m.k. 1/(n-1)*100% af heildaraflþörf svæðisins, þar sem n er fjöldi afhendingarstaða.
Varaaflsstöðvar sem nýttar eru þegar truflanir koma upp í raforkukerfinu skulu undanþegnar greiðslum til flutningskerfisins.
Sama gjaldskrá skal gilda fyrir öll vinnslufyrirtæki vegna innmötunar. Þar sem virkjanir tengjast flutningskerfinu um dreifiveitu skal gjaldinu skipt milli flutningsfyrirtækisins og viðkomandi dreifiveitu eftir skiptireglu sem ákveðin skal af Orkustofnun að fenginni tillögu aðila.
Krefjast skal kerfisframlags ef tenging nýrra virkjana eða stórnotenda við flutningskerfið veldur auknum tilkostnaði annarra notenda í kerfinu. Með sama hætti skal taka tillit til þess ef tenging leiðir til hagkvæmari uppbyggingar eða nýtingar flutningskerfisins. Ennfremur má krefjast greiðslu kerfisframlags við styrkingu á raforkukerfi þegar forsendur viðskipta breytast verulega til dæmis þegar notandi fer fram á aukin afköst tengingar eða aukin gæði sem veldur þörf á styrkingu. Greiðslu skal ákvarða út frá nauðsynlegum kostnaði við tengingu eða styrkingu. Flutningsfyrirtækið skal fyrirfram upplýsa viðskiptavininn um hvort farið sé fram á kerfisframlag og forsendur fyrir útreikningum.
Gjöld vegna kerfisstjórnunar skulu standa undir kostnaði sem er í beinum og efnislegum tengslum við kerfisstjórnun, sjá reglugerð um kerfisstjórn í raforkukerfinu, nr. 513/2003.
Flutningsfyrirtækið skal setja gjaldskrá fyrir launafl. Gjald fyrir launafl skal byggja á raunkostnaði sem fyrirtækið ber vegna þess. Heimilt er að setja mörk fyrir launaflsúttekt. Ekki skal innheimt fyrir launaflsúttekt sem er innan þeirra, en úttekt utan markanna skal gerð upp samkvæmt gjaldskrá fyrir launafl.
Að minnsta kosti tveimur mánuðum áður en gjaldskrá á að taka gildi skal hún send Orkustofnun. Telji Orkustofnun framlagða gjaldskrá brjóta í bága við ákvæði raforkulaga eða reglugerða skal hún koma athugasemdum á framfæri við flutningsfyrirtækið innan sex vikna frá móttöku. Gjaldskrá tekur ekki gildi fyrr en bætt hefur verið úr að mati Orkustofnunar.
Flutningsfyrirtækið skal birta gjaldskrár opinberlega og upplýsa viðskiptavini um eftirlitshlutverk Orkustofnunar.
Landsnet skal senda nýja gjaldskrá til dreifiveitna a.m.k. 2 vikum áður en hún öðlast gildi.
16. gr. a Aðferðafræði við útreikning kerfisframlags vegna nýrra tenginga.
Krefjast skal kerfisframlags ef tenging nýrra virkjana eða stórnotenda við flutningskerfið veldur auknum tilkostnaði annarra notenda í kerfinu. Með sama hætti skal taka tillit til þess ef tenging leiðir til hagkvæmari uppbyggingar eða nýtingar flutningskerfisins.
Ný tenging telst valda auknum tilkostnaði eða leiða til hagkvæmni ef kostnaður vegna tengingar lendir utan annars eða beggja eftirfarandi skilyrða skv. a- og b-liðum:
- Ytri skilyrði skulu notuð til að meta hvort væntanlegar tekjur vegna nýrrar tengingar standi undir stofn- og rekstrarkostnaði. Ytri skilyrði eru reiknuð út frá hlutfalli fjárfestinga í eignastofni flutningsfyrirtækisins fyrir annars vegar innmötun og hins vegar útmötun og fara því eftir tegund viðskiptavinar eins og nánar skal kveðið á um í staðfestum reglum flutningsfyrirtækisins (netmála). Enn fremur er lagt mat á frekari styrkingu kerfis vegna nýrrar tengingar og tekið skal tillit til þess við mat á ytri skilyrðum. Vikmörk á ytri skilyrðum eru 1,5%. Ef niðurstaða útreikninga á kerfisframlagi fellur innan vikmarka er ekki krafist kerfisframlags, annars er krafist fulls kerfisframlags.
- Innri skilyrði skulu notuð til að meta hversu mikið tekjumörk á flutta einingu sveiflast vegna einstakra tenginga, að teknu tilliti til kerfisframlags. Ef niðurstaða útreikninga vegna nýrrar tengingar leiðir í ljós að hún leiðir til hækkunar tekjumarka á flutta einingu skal í slíkum tilvikum krafist kerfisframlags.
16. gr. b Forsendur við útreikning kerfisframlags vegna nýrra tenginga.
Útreikningur kerfisframlags skal byggður á eftirfarandi forsendum, sem nánar skal útfæra í netmála flutningsfyrirtækisins:
- Ákvörðun Orkustofnunar um leyfða arðsemi flutningsfyrirtækisins, sbr. reglugerð um mat á vegnum fjármagnskostnaði sem viðmið um leyfða arðsemi við ákvörðun tekjumarka sérleyfisfyrirtækja í flutningi og dreifingu á raforku nr. 192/2016 með síðari breytingum, er eftir skatt, þegar útreikningur er gerður. Ef um er að ræða tengingu við virkjun, skal miða við bæði veginn fjármagnskostnað vegna flutnings til dreifiveitna og veginn fjármagnskostnað vegna flutnings til stórnotenda, þar sem tekið er mið af hlutfallslegri skiptingu tekna þar sem horft er til orkuflutnings til dreifiveitna annars vegar og stórnotenda hins vegar á undangengnu ári. Ef um er að ræða tengingu við stórnotanda skal taka mið af vegnum fjármagnskostnaði vegna flutnings til stórnotenda.
- Meðaltali miðgengis Seðlabanka Íslands síðastliðna 6 mánuði í viðkomandi gjaldmiðli.
- Tímalengd núvirðisútreikninga til ákvörðunar á kerfisframlagi. Í tilviki stórnotenda er miðað við samningstíma, en í tilviki virkjana er miðað við afskriftartíma.
- Viðbótarrekstrarkostnaði flutningsfyrirtækisins vegna nýrrar tengingar, eins og hann er ákvarðaður af Orkustofnun hverju sinni.
- Áætluðum tekjum af tengingu samkvæmt gjaldskrá sem í gildi er þegar útreikningur fer fram.
- Hlutfallsskiptingu tekna, eins og hún er ákvörðuð í netmála flutningsfyrirtækisins.
- Áætluðum fjárfestingum og/eða framkvæmdakostnaði eins og kveðið er á um í netmála flutningsfyrirtækisins.
16. gr. c Viðmiðun við útreikning kerfisframlags.
Flutningsfyrirtækinu er heimilt að miða við áætlun um hærra hlutfall tekna við útreikning kerfisframlags ef um er að ræða, annars vegar, fyrstu tengingu stórnotanda á nýju svæði sem skilgreint er sem iðnaðarsvæði fyrir fleiri en einn aðila, og hins vegar, ef tenging vinnsluaðila er sú fyrsta á nýju svæði sem skilgreint er sem virkjanaklasi fyrir einn eða fleiri virkjunarkosti samkvæmt nýtingarflokki áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða.
Í útreikningi kerfisframlags vegna síðari tenginga aðila á svæðum skv. 1. mgr. við flutningskerfið skal miðað við hefðbundna hlutfallsskiptingu tekna, sbr. 6. tölul. greinar 16b, þannig að ekki er tekið tillit til þess ef tenging leiðir til hagkvæmari uppbyggingar eða nýtingar.
Nánar skal kveðið á um skilyrði vegna útreiknings kerfisframlags, samanber greinar 16a, 16b og 16c, í reglum (netmála) sem flutningsfyrirtækið setur og ráðherra staðfestir, sbr. 6. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003.
17. gr. Bókhaldslegur aðskilnaður og stjórnunarlegt sjálfstæði.
Flutningsfyrirtækið skal í bókhaldi sínu halda reikningum vegna flutnings raforku aðskildum frá reikningum vegna annarrar starfsemi. Nánar er mælt fyrir um bókhaldslegan aðskilnað í VI. kafla reglugerðarinnar.
IV. KAFLI Dreifing.
18. gr. Sérleyfi til dreifingar raforku.
Leyfi ráðherra þarf til að reisa og reka dreifikerfi á tilteknu dreifiveitusvæði og til að hætta slíkum rekstri. Þeir sem við gildistöku reglugerðarinnar njóta réttar til að reisa eða reka kerfi til dreifingar raforku halda rétti sínum enda uppfylli þeir almenn skilyrði sem dreifiveitur verða að uppfylla samkvæmt raforkulögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
Í sérleyfi samkvæmt 1. mgr. felst einkaréttur og skylda til dreifingar raforku á viðkomandi svæði.
Sérleyfi samkvæmt 1. mgr. má ekki framselja né setja til tryggingar fjárskuldbindingum nema með leyfi ráðherra.
19. gr. Skilyrði sérleyfis.
Dreifiveita skal uppfylla eftirfarandi skilyrði til að öðlast sérleyfi til dreifingar og halda þeim rétti, sbr. 1. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar:
- Dreifiveita skal vera sjálfstæður lög- og skattaðili.
- Dreifiveita skal geta sýnt fram á rekstrarhæfi á hverjum tíma og skal í því skyni vinna rekstraráætlun til 36 mánaða sem skal endurskoðuð árlega. Stjórn og framkvæmdastjórn dreifiveitu ber að tilkynna til Orkustofnunar ef upp kemur sú staða að fyrirsjáanlegt er að rekstrarhæfi dreifiveitu er ekki tryggt.
- Dreifikerfi skal tengjast flutningskerfinu. Ráðherra getur þó veitt undanþágu frá þessu skilyrði við sérstakar aðstæður, svo sem ef um lítið einangrað svæði er að ræða.
- Kröfur sem gerðar eru til öryggis raforkuvirkja, gæða raforku og afhendingaröryggis á hverjum tíma skulu uppfylltar.
- Dreifiveita skal uppfylla skilyrði laga og stjórnvaldsfyrirmæla um umhverfisvernd sem í gildi eru á hverjum tíma.
- Dreifiveita skal fjarlægja mannvirki og búnað á eigin kostnað þegar notkun hans er hætt og fyrirsjáanlegt er að hann verður ekki notaður frekar. Ráðherra getur þó að fengnu samþykki viðkomandi sveitarfélags heimilað að ekki þurfi að fjarlægja mannvirki og búnað.
- Önnur skilyrði sem leiða má af öðrum lögum en raforkulögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.
20. gr. Umsókn um leyfi.
Umsókn um leyfi til dreifingar raforku skal vera skrifleg og skulu fylgja henni eftirfarandi upplýsingar og gögn:
- Nafn, kennitala og heimili umsækjanda.
- Stofnefnahagsreikningur eða efnahags- og rekstrarreikningur næstliðins árs.
- Afmörkun starfssvæðis og lýsing á dreifikerfi.
- Áætlun um rekstur og uppbyggingu kerfisins til 3 ára.
- Samningur um tengingu við flutningskerfið.
21. gr. Efni sérleyfis.
Í sérleyfi til dreifingar skal m.a. tilgreina eftirfarandi:
- Afmörkun svæðis sem sérleyfi til dreifingar nær til.
- Upplýsinga- og tilkynningaskyldu leyfishafa til Orkustofnunar og flutningsfyrirtækis sem nauðsynleg er til að viðkomandi aðilar geti rækt hlutverk sitt.
- Öryggis- og umhverfisverndarráðstafanir á framkvæmda- og rekstrartíma.
- Skilyrði um tæknilega og fjárhagslega getu leyfishafa.
- Hvernig skuli ráðstafa mannvirkjum og búnaði þegar notkun þeirra er hætt.
- Hvort og að hve löngum tíma liðnum endurskoða skuli leyfi.
- Önnur atriði sem tengjast skilyrðum leyfis og skyldum dreifiveitna samkvæmt raforkulögum og reglugerð þessari eða leiða má af öðrum lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.
22. gr. Málsmeðferð og gjaldtaka.
Leyfi skal veitt á grundvelli umsóknar sem skal metin á hlutlægan og gagnsæjan hátt.
Áður en ráðherra veitir leyfi skal hann leita umsagnar Orkustofnunar og viðkomandi sveitarfélaga. Umsagnir skulu berast innan tveggja mánaða frá því beiðni þar að lútandi var send.
Ráðherra skal kynna umsókn um leyfi í Lögbirtingablaði. Þar skal gefa þeim aðilum sem málið varðar færi á að kynna sér umsóknina og koma á framfæri sjónarmiðum sínum innan fjögurra vikna frá birtingu auglýsingar. Umsækjandi skal kosta birtingu slíkrar auglýsingar.
Ráðherra skal á grundvelli framlagðra gagna, umsagna og athugasemda sem fram hafa komið samkvæmt 3. mgr. meta hvort umsækjandi uppfylli skilyrði fyrir veitingu leyfis. Telji hann svo ekki vera skal hann synja um veitingu leyfis eða binda leyfið skilyrðum sem hann telur nauðsynleg í þessu sambandi. Synjun um veitingu leyfis skal rökstudd. Ákvörðun ráðherra skal tekin innan tveggja mánaða frá því öll gögn hafa borist frá umsækjanda og allar umsagnir og athugasemdir liggja fyrir.
Fyrir leyfið skal greiða 50.000 kr. auk 10 kr. fyrir hvern íbúa. Gjaldið skal greitt við móttöku leyfis.
Ef leyfishafi fer ekki að skilyrðum reglugerðar þessarar eða skilyrðum leyfisins, samningum sem tengjast því eða öðrum heimildum skal ráðherra veita honum skriflega aðvörun og hæfilegan frest til úrbóta. Ef leyfishafi sinnir ekki aðvörun ráðherra innan tilgreindra tímamarka getur ráðherra afturkallað leyfið eða breytt því. Ef um alvarleg brot eða vanrækslu er að ræða eða ljóst er að leyfishafi getur ekki staðið við skyldur sínar samkvæmt leyfinu getur ráðherra þó afturkallað það án aðvörunar.
23. gr. Starfsemi og skyldur dreifiveitna.
Dreifiveita annast dreifingu raforku og kerfisstjórnun á dreifiveitusvæði sínu. Hún skal viðhalda, endurbæta og byggja dreifikerfið upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæða raforku.
Dreifiveitu er m.a. skylt að:
-
Tengja alla sem eftir því sækjast við dreifikerfið að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
1.1. Neysluveitur skulu uppfylla skilyrði tæknilegra tengiskilmála, sem samþykktir hafa verið af öllum dreifiveitum, staðfestir af ráðherra og birtir með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.
1.2. Virkjanir skulu uppfylla tæknileg skilyrði sem fram koma í tengisamningi.
1.3. Þeir sem óska tengingar skulu greiða tengigjald sem skal tilgreint í gjaldskrá dreifiveitu.Þó er heimilt að synja nýjum aðilum um aðgang að kerfinu á grundvelli sjónarmiða um flutningsgetu dreifikerfisins, öryggi og gæði þess. Synjun skal vera skrifleg og rökstudd. Sá sem synjað er um tengingu getur farið fram á upplýsingar um með hvaða hætti og innan hvaða tíma gera megi breytingar á kerfinu sem leiði til þess að unnt sé að tengja hann.
- Útvega raforku til þeirra notenda á sínu dreifiveitusvæði, sem ekki hafa valið eða eiga ekki kost á að velja raforkusala, sbr. 2. mgr. 3. gr. reglugerðar um viðskipti og mælingar.
-
Dreifiveitur skulu setja sér reglur til þess að tryggja áreiðanleik í rekstri dreifikerfisins og sem skulu a.m.k. kveða á um eftirfarandi atriði:
3.1. Hönnun kerfisins og uppbyggingu þess.
3.2. Viðhald kerfisins.
3.3. Reglubundið eftirlit með ástandi kerfisins.
3.4. Eftirlit með verndarbúnaði og stillingu verndarliða.
3.5. Skráningu truflana ásamt mati á orku sem ekki er afhent.
3.6. Eftirlit með álagi dreifikerfisins. Ef um umfangsmikla rekstrartruflun er að ræða skal dreifiveita senda Orkustofnun skýrslu um atvikið innan 14 daga frá því hún var lagfærð. Orkustofnun skal skilgreina hvað telst umfangsmikil rekstrartruflun í þessu sambandi. - Útvega rafmagn í stað þess sem tapast í kerfinu.
- Útvega launafl fyrir kerfið til að nýta flutningsgetu og tryggja spennugæði.
- Mæla eða láta mæla með nákvæmum hætti þá raforku sem hún afhendir eða tekur við í samræmi við ákvæði sem sett hafa verið í reglugerð um viðkomandi dreifiveitu, sbr. 5. mgr.
- Halda skrá um þekkta ómælda notkun á sínu dreifiveitusvæði.
- Veita stjórnvöldum, viðskiptavinum og almenningi upplýsingar sem nauðsynlegar eru við mat á því hvort hún fullnægi skyldum sínum.
- Gæta jafnræðis við starfrækslu sína og trúnaðar um upplýsingar er varða viðskiptahagsmuni og aðrar þær upplýsingar sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari.
Ef ófyrirséð og óviðráðanleg atvik valda því að framboð raforku fullnægir ekki eftirspurn á dreifiveitusvæði ber viðkomandi dreifiveitu að grípa til skömmtunar raforku til notenda. Dreifiveitur skulu setja sér reglur um hvernig skömmtun skuli háttað. Við setningu reglna um skömmtun skal gæta jafnræðis og leitast við að tryggja að skömmtun valdi sem minnstri röskun á samfélagslegum hagsmunum. Skal m.a. leitast við að tryggja raforku til þeirra fyrirtækja og stofnana sem veita almenningi bráðaþjónustu og tryggja öryggi borgara og allsherjarreglu.
Um starfsemi og skyldur dreifiveitna, þ. á m. tengingu við kerfið, mælingar, uppgjör og stöðvun orkuafhendingar fer að öðru leyti samkvæmt efni reglugerða um viðkomandi dreifiveitur, sem í gildi eru við gildistöku reglugerðar þessarar.
Dreifiveitur skulu, innan hæfilegra tímamarka og ef eftir því er leitað, veita stjórnvöldum og viðskiptavinum upplýsingar um forsendur gjaldskrárliða og aðra viðskiptaskilmála.
Rísi ágreiningur um hvort fyrirtækinu sé skylt að veita umbeðnar upplýsingar sker Orkustofnun úr. Úrskurður Orkustofnunar sætir kæru til úrskurðarnefndar raforkumála.
24. gr. Tekjumörk dreifiveitna.
Orkustofnun skal setja dreifiveitum tekjumörk vegna kostnaðar við dreifingu raforku. Ef heimilað er að hafa í gildi sérstaka gjaldskrá á dreifbýlissvæði, sbr. 24. gr., skulu sérstök tekjumörk sett vegna dreifingar raforku í þéttbýli annars vegar og í dreifbýli hins vegar.
Tekjumörkin skulu ákveðin út frá eftirfarandi viðmiðum:
- Kostnaði sem tengist starfsemi dreifiveitu, þ.m.t. kostnaði vegna viðhalds, afskrifta á nauðsynlegum eignum til reksturs kerfisins, kostnaði vegna flutnings um flutningskerfið, kostnaði við orkutap, almennum rekstrarkostnaði og kostnaði við kerfisstjórnun í dreifikerfinu.
- Arðsemi dreifiveitu skal vera sem næst markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa. Arðsemi reiknast sem hlutfall hagnaðar fyrir fjármunatekjur, fjármagnsgjöld og skatta (EBIT) og bókfærðs verðs fastafjármuna, sem nauðsynlegir eru til reksturs dreifikerfis þann 31. desember 2004 og miðað við bókfært virði þann dag, ásamt nauðsynlegum nýjum fastafjármunum, sem síðar kunna að koma til. Við setningu tekjumarka dreifiveitna skal Orkustofnun í upphafi miða við að arðsemi sé helmingur af markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa. Hækka skal arðsemisviðmiðunina á fimm árum í þá ávöxtun sem kveðið er á um hér að ofan, þó skal hækkun arðsemisviðmiðunar ekki valda meiri hækkun tekjumarka en næst með hagræðingarkröfu.
- Hagræðingarkröfu sem skal taka mið af eðlilegum kostnaði samkvæmt mati Orkustofnunar að teknu tilliti til þeirrar þjónustu sem dreifiveitan veitir.
Tekjumörk skulu ákveðin til þriggja ára í senn. Þó er heimilt að endurskoða tekjumörk árlega ef forsendur breytast verulega að mati Orkustofnunar.
Orkustofnun ákveður rekstrarár sem lögð eru til grundvallar við mat á grunnstærðum til ákvörðunar tekjumarka til þriggja ára í senn. Kostnaður vegna taps skal reiknaður miðað við matsvirði raforku ákvarðað af Orkustofnun. Aðrar grunnstærðir skulu leiðréttar til samræmis við verðbólgu árlega miðað við vísitölu neysluverðs.
Við þetta bætist kostnaður greiddur flutningsfyrirtækinu vegna flutnings um flutningskerfið og kostnaður vegna nýframkvæmda að frádregnu kerfisframlagi á grundvelli umsóknar frá dreifiveitu sem samþykkt hefur verið af Orkustofnun. Afskriftir skulu vera samkvæmt samræmdum reglum dreifiveitna, sem samþykktar skulu af Orkustofnun. Heimilt er að endurskoða tekjumörk árlega ef forsendur breytast verulega að mati Orkustofnunar.
Dreifiveitum er heimilt að breyta bókfærðu verðmæti eigna, sem lagt er til grundvallar við setningu tekjumarka, sbr. 2. tl. 2. mgr. greinar þessarar í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs frá 31. desember 2004, eða þeim degi sem síðar tilkomnar eignir eru teknar í notkun.
Þrátt fyrir ákvæði 6. mgr., er dreifiveitum heimilt að endurmeta eignir til 1. janúar 2007 að fengnu samþykki Orkustofnunar. Endurmat skal ekki leiða til hærra verðs en sem nemur endurstofnverði að frádregnum framreiknuðum afskriftum sem bókfærðar hafa verið vegna viðkomandi eignar.
Eigendaskipti á eignum sem nauðsynlegar eru til reksturs flutnings- eða dreifikerfis skulu ekki leiða til breytinga á tekjumörkum flutnings- og dreififyrirtækja, þrátt fyrir að bókfært virði breytist til hækkunar eða lækkunar. Tekjumörk skulu miðuð við bókfært virði eigna fyrir eigendaskipti og breytingar á virði til hækkunar eða lækkunar vegna eigendaskipta ekki hækka samanlögð tekjumörk viðkomandi aðila.
Hagræðingarkrafa skal samanstanda af annars vegar almennri hagræðingarkröfu sem gildir fyrir allar dreifiveitur og hins vegar fyrirtækjaháðri kröfu sem fundin er með samanburði við sambærileg fyrirtæki.
Komi í ljós að arðsemi dreifiveitu síðastliðin þrjú ár nær ekki helmingi af markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa né heldur er hagnaður af rekstri veitunnar skal taka tillit til þess við setningu tekjumarka og gerð gjaldskrár næsta árs. Sama á við komi í ljós að arðsemi dreifiveitu síðastliðin þrjú ár er meira en þriðjungi yfir sömu ávöxtun.
25. gr. Gjaldskrá vegna dreifingar raforku.
Dreifiveita skal setja gjaldskrá vegna þjónustu sinnar í samræmi við tekjumörk, skv. 10. gr. Við setningu gjaldskrár skal gætt jafnræðis og byggt á hlutlægum og gegnsæjum sjónarmiðum. Sama gjaldskrá skal gilda á veitusvæði hverrar dreifiveitu fyrir úttekt á lágspennu, þ.e. 230-400V spennu, sjá þó 6. og 7. mgr. þessarar greinar. Ef orka frá dreifiveitu er afhent á annarri spennu er heimilt að taka tillit til þess í gjaldskrá. Með sama hætti er við gjaldtöku heimilt að taka tillit til annars mismunar á þjónustu, s.s. ef búið er við tíðar truflanir eða bilanir í kerfinu.
Gjaldskrá skal vera þannig uppbyggð að hún hvetji til bættrar nýtingar dreifikerfis utan álagstíma t.d. með tímaháðum taxta. Heimilt er að bjóða upp á lægri taxta gegn skertum afhendingargæðum.
Uppgjör við notendur í dreifikerfinu, sem ekki kaupa samkvæmt afltaxta á að vera samkvæmt föstum þætti og orkuþætti þannig að:
- Fastur þáttur standi undir mælingar- og umsýslukostnaði vegna viðkomandi notanda og hluta af öðrum föstum kostnaði í dreifikerfinu.
- Orkuþáttur standi undir kostnaði vegna taps og geti þar að auki fjármagnað hluta af öðrum kostnaði sem ekki er sóttur gegnum fastan þátt gjaldskrárinnar.
Notendur sem gert er upp við samkvæmt afltaxta í dreifikerfinu skulu greiða samkvæmt föstum þætti, orkuþætti og aflþætti.
- Fastur þáttur á að lágmarki að standa straum af mælingar- og umsýslukostnaði vegna viðkomandi notanda.
- Orkuþáttur á að lágmarki að standa straum af kostnaði við meðaltap í netkerfinu.
- Aflþáttur má byggja á aflúttaki notanda í skilgreindum lotum og hluta af föstum kostnaði.
Heimilt er að setja afltaxta fyrir ómælda notkun, t.d. utanhússlýsingu eða aðra litla notkun þar sem illframkvæmanlegt eða óhagkvæmt er að koma við mælingu á raforku.
Dreifiveitum er heimilt að sækja um leyfi til Orkustofnunar til að hafa sérstaka gjaldskrá á dreifbýlissvæðum þar sem kostnaður vegna dreifingar er sannanlega hærri en í þéttbýli. Dreifbýlissvæði sem til greina koma eru:
- Svæði sem skilgreind eru sem strjálbýli samkvæmt Hagstofu Íslands auk húsa utan gatna á svæðum sem sýnd eru á sveitarfélagsuppdrætti aðalskipulags.
- Staðir þar sem færri en 200 manns búa og njóta ekki tengingar við flutningskerfi eða stofnkerfi. Stofnkerfi teljast í þessu samhengi kerfiseiningar dreifiveitu sem þjóna bæði innanbæjarkerfum og sveitakerfum.
Innan dreifbýlissvæða skv. 6. mgr. er dreifiveitu heimilt að láta almenna gjaldskrá, sbr. 1. mgr., gilda á ákveðnu svæði enda sé annað neðangreindra skilyrða uppfyllt:
- Svæðið sé skilgreint sem byggðakjarni samkvæmt Hagstofu Íslands með a.m.k. 50 íbúum, fjarlægð frá afhendingarstað flutningsfyrirtækisins sé innan við 10 kílómetrar og heildarraforkunotkun á svæðinu sé a.m.k. 8 GWst á ári.
- Svæðið sé skilgreint sem iðnaðarsvæði með a.m.k. 10 notendur og hafnaraðstöðu, fjarlægð frá afhendingarstað flutningsfyrirtækisins sé innan við 10 kílómetrar og heildarraforkunotkun á svæðinu sé a.m.k. 8 GWst á ári.
Svæði þar sem almenn gjaldskrá gildir samkvæmt málsgrein þessari eru ekki skilgreind sem dreifbýlissvæði í skilningi reglugerðar þessarar.
Standi væntanlegar tekjur dreifiveitu af nýjum viðskiptavini ekki undir eðlilegum stofn- eða rekstrarkostnaði er heimilt að krefja hann um greiðslu kerfisframlags. Ennfremur má krefjast greiðslu kerfisframlags við styrkingu á eða tengingu við raforkukerfi þegar forsendur viðskipta breytast verulega til dæmis þegar notandi fer fram á aukin afköst tengingar eða aukin gæði sem veldur þörf á styrkingu. Kerfisframlag má að hámarki vera kostnaður við framkvæmd ákvarðaður út frá nauðsynlegum kostnaði við tengingu eða styrkingu að frádregnu heimtaugargjaldi.
Dreifiveita getur deilt viðbótarkostnaði kerfishluta milli notenda sem nýta kerfishlutann, þó ekki lengur en 10 ár eftir að hún er tilbúin. Skiptinguna má framkvæma sem eftiráuppgjör og endurgreiðslu, þegar nýir notendur eru tengdir eða með því að dreifiveitan beri fjárfestingarkostnaðinn tímabundið. Dreifiveitan skal fyrirfram upplýsa notandann um hvort farið sé fram á kerfisframlag og forsendur fyrir útreikningum.
Dreifiveitur skulu, ef eftir því er leitað, bjóða eigendafélögum íbúða, fyrirtækjagörðum, búseturéttarfélögum, húsbyggingarfélögum og álíka stofnunum, einmælingu og gjaldskrár fyrir dreifingu um sameiginlega heimtaug enda komi viðkomandi félag fram sem einn lögaðili. Kostnaður við að koma sameiginlegum mæli fyrir greiðist af húseigendum.
Dreifiveitur skulu setja í gjaldskrá ákvæði um gjöld fyrir sérstakar mælingar hjá notendum s.s. tímamælingar hjá þeim sem krefjast slíks.
Dreifiveitum er heimilt að innheimta gjöld til að mæta raunkostnaði við mismunandi innheimtuleiðir. Slík gjöld skulu birt í gjaldskrá.
Dreifiveitum er óheimilt að innheimta gjald vegna skipta á söluaðila. Kostnaður vegna slíkra skipta skal borinn af dreifiveitu og skal tekið tillit til hans við setningu tekjumarka.
Dreifiveitur skulu setja gjaldskrárákvæði fyrir launafl. Gjald fyrir launafl skal byggja á raunkostnaði sem veitan ber vegna þess, þ.e. kostnaði við kaup á launafli frá flutningskerfinu og/eða kostnaði veitunnar við að afla sér launafls á annan hátt.
Heimilt er að setja mörk fyrir hámark leyfilegrar launaflsúttektar. Launaflsúttekt sem er undir þeim skal vera innifalin í almennum töxtum. Úttekt yfir mörkum er gerð upp samkvæmt sérstakri gjaldskrá fyrir launafl.
Dreifiveitu er skylt að greiða virkjun sem tengist henni og er undir 3,1 MW þann ávinning, að hluta eða að fullu, sem felst í því að þurfa ekki að greiða úttektargjald að fullu til flutningskerfisins, sbr. ákvæði 4. mgr. 13. gr., með eftirfarandi hætti:
- Greiða skal virkjun undir 0,3 MW að fullu hreinan ávinning veitunnar af niðurfellingu úttektargjaldsins.
- Fyrir virkjun sem er 0,3-3,1 MW skal minnka greiðsluna hlutfallslega þar til ekkert er greitt sé virkjunin 3,1 MW eða stærri.
Tveimur mánuðum áður en gjaldskrá á að taka gildi skal hún send Orkustofnun. Telji stofnunin framlagða gjaldskrá brjóta í bága við ákvæði raforkulaga eða reglugerða skal hún koma athugasemdum á framfæri við dreifiveitu innan sex vikna frá móttöku. Gjaldskrá tekur ekki gildi fyrr en bætt hefur verið úr að mati Orkustofnunar. Dreifiveitur skulu birta gjaldskrár opinberlega og upplýsa viðskiptavini um eftirlitshlutverk Orkustofnunar.
25. gr. a. Kerfisframlag vegna nýrra tenginga við dreifiveitu.
Dreifiveita skal reikna út og innheimta kerfisframlag fyrir tengingar vinnslueininga og notenda þegar ætla má að beinar tekjur og annar ávinningur dreifiveitu af tengingunum standi ekki undir kostnaði við tengingarnar.
Standi væntanlegar tekjur dreifiveitu af nýjum viðskiptavini ekki undir eðlilegum stofn- eða rekstrarkostnaði er heimilt að krefja hann um greiðslu kerfisframlags. Enn fremur má krefjast greiðslu kerfisframlags við styrkingu á eða tengingu við raforkukerfi þegar forsendur viðskipta breytast verulega til dæmis þegar notandi fer fram á aukin afköst tengingar eða aukin gæði sem veldur þörf á styrkingu. Kerfisframlag reiknast út frá núvirtum framtíðartekjum, framtíðarrekstrarkostnaði, stofnkostnaði og tengigjaldi sem af tengingunni hlýst.
Dreifiveita skal deila viðbótarkostnaði við styrkingu kerfishluta milli notenda sem nýta kerfishlutann, þó ekki lengur en í 10 ár eftir að hann er tilbúinn. Skiptinguna má framkvæma sem eftir á uppgjör og endurgreiðslu, þegar nýir notendur eru tengdir eða með því að dreifiveitan beri fjárfestingarkostnaðinn tímabundið. Dreifiveitan skal fyrir fram upplýsa notandann um hvort farið sé fram á kerfisframlag og forsendur fyrir útreikningum.
Dreifiveita skal setja viðmið um hærra hlutfall tekna, að uppfylltum skilyrðum, við útreikning á kerfisframlagi á skilgreindum nýjum svæðum við tengingu vinnslueininga.
Útreikningur kerfisframlags samkvæmt grein þessari skal byggður á eftirfarandi forsendum, sem nánar skal útfæra í sameiginlegum netmála dreifiveitna:
- Fjármagnskostnaður við útreikning á kerfisframlagi er meðaltal vegins fjármagnskostnaðar fyrir og eftir skatt eins og hann birtist samkvæmt ákvörðun Orkustofnunar um leyfða arðsemi dreifiveitu, samanber reglugerð nr. 192/2016 um mat á vegnum fjármagnskostnaði sem viðmið um leyfða arðsemi við ákvörðun tekjumarka sérleyfisfyrirtækja í flutningi og dreifingu á raforku, með síðari breytingum.
- Tímalengd núvirðisútreikninga til ákvörðunar á kerfisframlagi er í tilviki notenda miðuð við samningstíma en í tilviki vinnsluaðila miðuð við væntan afskriftartíma vinnslueiningar að hámarki 30 ár.
- Viðbótarrekstrarkostnaði dreifiveitu vegna nýrrar tengingar, eins og hann er ákvarðaður af Orkustofnun hverju sinni.
- Áætluðum tekjum af tengingu samkvæmt gjaldskrá sem í gildi er þegar útreikningur fer fram, ásamt ætluðu hagræði af minni úttekt dreifiveitu af flutningskerfinu vegna framleiðslu vinnslueininga skv. 25. gr.
- Áætluðum áhrifum af tengingu á töp í dreifikerfinu með hermun yfir tíma á meðalverði tapa undangengis árs.
- Áætluðum fjárfestingum og/eða framkvæmdakostnaði eins og kveðið er á um í netmála dreifiveitunnar.
Í netmála skal nánar kveðið á um skilyrði vegna útreiknings kerfisframlags samkvæmt grein þessari. Dreifiveitur skulu mynda með sér samráðsvettvang fyrir gerð samræmdra netmála (tæknilegra skilmála fyrir rekstur dreifikerfisins, sbr. 3. og 7. mgr. 16. gr. raforkulaga nr. 65/2003). Áður en netmáli tekur gildi skal hafa samráð við viðskiptavini og veita þeim færi á að gefa umsögn.
26. gr. Bókhaldslegur aðskilnaður.
Dreifiveita skal í bókhaldi sínu halda reikningum vegna dreifingar raforku, þ.m.t. kostnaði vegna kerfisstjórnunar, aðskildum frá reikningum vegna annarrar starfsemi. Nánar er mælt fyrir um bókhaldslegan aðskilnað í VI. kafla reglugerðarinnar.
27. gr. Aðskilnaður milli dreifiveitustarfsemi og starfrækslu sölufyrirtækja.
Skylt er að aðskilja starfsemi dreifiveitna og sölufyrirtækis eða söludeildar sem rekin er innan sama fyrirtækis. Skal þess gætt að starfsmenn sölufyrirtækja eða söludeilda hafi ekki aðgang að upplýsingum sem dreifiveita býr yfir um raforkunotkun, notkunarferla eða annað það sem varðað getur raforkuviðskipti annarra raforkunotenda en þeirra sem eru í viðskiptum við viðkomandi sölufyrirtæki.
Dreifiveitum ber fyrir 15. desember 2005 að setja skriflegar reglur um upplýsingaöryggi, sem taki gildi 1. janúar 2006. Gæta skal þess sérstaklega að aðgangi að upplýsingakerfum verði þannig hagað að ekki fari í bága við ákvæði þessarar greinar. Reglur dreifiveitna um upplýsingaöryggi skulu tilkynntar Orkustofnun sem getur lagt fyrir dreifiveitur að breyta þeim sé fulls öryggis upplýsinga ekki gætt að mati Orkustofnunar. Dreifiveitum er skylt að sjá til þess að þeir starfsmenn sem hafa aðgang að trúnaðarupplýsingum þeim er grein þessi nær til undirriti trúnaðarheit.
V. KAFLI Raforkuviðskipti.
28. gr. Leyfi til að stunda raforkuviðskipti.
Leyfi ráðherra þarf til að stunda raforkuviðskipti. Slíkt leyfi felur hvorki í sér sérleyfi né önnur sérréttindi til handa leyfishafa.
Dreifiveita þarf ekki leyfi til að selja raforku á starfssvæði sínu en telst sölufyrirtæki samkvæmt þessum kafla með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja nema sérstaklega sé mælt fyrir um annað.
Leyfi til að stunda raforkuviðskipti má hvorki framselja né setja til tryggingar fjárskuldbindingum nema með leyfi ráðherra.
29. gr. Skilyrði leyfis.
Leyfi verður aðeins veitt sjálfstæðum lög- og skattaðila.
Sölufyrirtæki skal hafa eigið fé sem nemur að lágmarki kr. 15.000.000 (fimmtánmilljónir).
Sölufyrirtæki skal gera áætlun til 36 mánaða í senn um umfang orkusölu og hvernig það muni útvega raforku til þess að standa við orkusölusamninga sbr. 1. tl. 1. mgr. 26. gr. hér að neðan. Slík áætlun skal fylgja umsókn um leyfi.
Ráðherra getur krafist þess að sölufyrirtæki setji fram tryggingu er taki mið af áætluðu umfangi orkusölu sbr. 2. mgr. að ofan.
Sölusamningar þeir sem gerðir hafa verið á árinu 2005 halda gildi sínu þrátt fyrir að sölufyrirtæki hafi ekki fengið útgefið leyfi ráðuneytisins til raforkusölu, enda hafi viðkomandi sölufyrirtæki fengið útgefið leyfi ráðuneytisins fyrir árslok 2005.
30. gr. Málsmeðferð og gjaldtaka.
Leyfi skal veitt á grundvelli umsóknar sem skal metin á hlutlægan og gagnsæjan hátt.
Ráðherra skal á grundvelli framlagðra gagna meta hvort umsækjandi uppfylli skilyrði fyrir veitingu leyfis. Telji hann svo ekki vera skal hann synja um veitingu leyfis eða binda leyfið skilyrðum sem hann telur nauðsynleg í þessu sambandi. Synjun um veitingu leyfis skal rökstudd.
Fyrir leyfi til að stunda raforkuviðskipti skal greiða 50.000 kr. Skal gjaldið greitt við móttöku leyfis.
Ef leyfishafi fer ekki að skilyrðum reglugerðar þessarar, skilyrðum leyfisins eða öðrum heimildum skal ráðherra veita honum skriflega aðvörun og hæfilegan frest til úrbóta. Ef leyfishafi sinnir ekki aðvörun ráðherra innan tilgreindra tímamarka getur ráðherra afturkallað leyfið eða breytt því. Ef um alvarleg brot eða vanrækslu er að ræða eða ljóst er að leyfishafi getur ekki staðið við skyldur sínar samkvæmt leyfinu getur ráðherra þó afturkallað það án aðvörunar.
31. gr. Skyldur sölufyrirtækja.
Sölufyrirtæki er skylt að:
- Útvega þá raforku sem nauðsynleg er til að unnt sé að standa við orkusölusamninga.
- Sölufyrirtæki er skylt að semja við flutningsfyrirtæki skv. III. kafla raforkulaga nr. 65/2003 um uppgjör jöfnunarorkuábyrgðar. Sölufyrirtæki er heimilt að fela öðrum að sjá um uppgjör jöfnunarábyrgðar fyrir sína hönd. Jöfnunarábyrgð gagnvart flutningsfyrirtækinu hvílir þó ávallt á sölufyrirtæki. Í jöfnunarorkuábyrgð felst að greiða flutningsfyrirtækinu kostnað sem hlýst af frávikum sbr. reglugerð um kerfisstjórnun raforkukerfisins auk hæfilegrar umsýsluþóknunar skv. gjaldskrá flutningsfyrirtækisins.
- Tilkynna flutningsfyrirtækinu daglega um heildarviðskipti með raforku á hverju dreifiveitusvæði. Tilkynningin skal sett fram á því formi sem flutningsfyrirtækið ákveður. Dreifiveitum ber að láta Orkustofnun í té sömu upplýsingar ef stofnunin óskar eftir þeim.
- Ef notandi kaupir raforku af öðrum en dreifiveitu á sínu dreifiveitusvæði skal viðkomandi sölufyrirtæki tilkynna dreifiveitunni um upphaf og lok viðskipta. Tilkynningin skal sett fram á því formi sem dreifiveitur ákveða.
Heimilt er sölufyrirtæki að stunda sérleyfisstarfsemi en óheimilt er því að niðurgreiða söluna með sérleyfisstarfseminni eða starfsemi sem hefur sambærilega stöðu. Sölufyrirtæki skal í bókhaldi sínu halda reikningum vegna sölustarfsemi aðskildum frá annarri starfsemi. Um bókhaldslegan aðskilnað fer að öðru leyti samkvæmt VI. kafla reglugerðarinnar.
32. gr. Orkuviðskipti.
Standi orkukaupandi ekki skil á greiðslum til sölufyrirtækis eða dreifiveitu er heimilt að loka fyrir afhendingu á raforku til hans, enda hafi notanda verið tilkynnt skriflega um lokunina með hæfilegum fyrirvara. Telji notandi að sölufyrirtæki standi ekki við skyldur sínar samkvæmt reglugerð þessari getur hann kvartað til Orkustofnunar.
Um samskipti dreifiveitna og notenda fer að öðru leyti samkvæmt efni reglugerða um einstakar dreifiveitur sem staðfestar voru af ráðherra fyrir gildistöku reglugerðarinnar og í gildi voru 30. júní 2003.
VI. KAFLI Bókhaldslegur aðskilnaður.
33. gr.
Um ársreikninga fyrirtækja sem falla undir ákvæði reglugerðarinnar fer samkvæmt lögum um ársreikninga.
Ef fyrirtæki á samkvæmt reglugerðinni að halda reikningum vegna mismunandi starfsemi sinnar aðskildum í bókhaldi skal gera sérstaka grein fyrir hverri starfsemi í ársreikningi. Gera skal Orkustofnun grein fyrir sundurliðuninni í því formi sem stofnunin ákveður.
Sameiginlegum rekstrartekjum og rekstrarkostnaði sem ekki er unnt að heimfæra beint á einstaka starfsemi skal skipt í samræmi við viðtekna reikningsskilavenju, enda hafi skiptireglurnar hlotið samþykki Orkustofnunar. Hliðstæðar reglur gilda um skiptingu sameiginlegra afskrifta og fastafjármuna.
Fallist Orkustofnun ekki á skiptireglur fyrirtækis skv. 3. mgr. skal hún taka rökstudda ákvörðun þar um innan sex vikna frá því að óskað var eftir samþykki hennar á skiptireglum og skal Orkustofnun þá ákvarða skiptireglur á grundvelli eftirfarandi meginviðmiða:
Fastafjármunum sem ekki er unnt að heimfæra beint á einstaka starfsemi skal skipt á hverja starfsemi í þeim hlutföllum sem eru á milli bókfærðs verðs þeirra fastafjármuna sem heimfæranlegir eru.
Skipta skal afskriftum af þeim eignum sem ekki er unnt að skipta í sömu hlutföllum og þeim sem skiptanlegar eru.
Rekstrartekjum og rekstrarkostnaði sem ekki er unnt að heimfæra beint á einstaka starfsemi skal skipt í þeim hlutföllum sem eru milli tekna og kostnaðar sem heimfæranlegur er.
Starfræki vinnslufyrirtæki jarðvarmaorkuver sem vinnur raforku og afhendir aðra orku, svo sem heitt vatn eða gufu skal fyrirtækið gera grein fyrir afkomu einstakra rekstrarþátta í ársreikningi. Skila skal Orkustofnun skýrslu um afkomuna í því formi sem stofnunin ákveður. Útreikningur á afkomu einstakra rekstrarþátta og skiptingu á sameiginlegum kostnaði skal vera í samræmi við viðtekna reikningsskilavenju, enda hafi skiptireglurnar hlotið samþykki Orkustofnunar. Hliðstæðar reglur gilda um skiptingu sameiginlegra afskrifta og fastafjármuna.
Fallist Orkustofnun ekki á skiptireglur fyrirtækisins skv. 5. mgr. skal hún taka rökstudda ákvörðun þar um innan sex vikna frá því að óskað var eftir samþykki hennar á skiptireglum og skal Orkustofnun þá ákvarða skiptireglur á grundvelli eftirfarandi meginviðmiða:
- Þeim sameiginlegu þáttum í rekstrar- og efnahagsreikningi sem getið er um í 3. mgr. skal skipt í hlutfalli við verðmæti þeirrar orku sem afhent er.
- Verðmæti raforku, sbr. 1. tölul., skal miðast við meðalverð raforku við stöðvarvegg í viðskiptum til almennra nota hérlendis, en að teknu tilliti til samninga við notendur sem nota meira en 100 GWst á ári.
- Til þess að ákvarða verðmæti annarrar orku, sbr. 1. tölul., svo sem heits vatns og gufu, skal Orkustofnun skilgreina eðlilegt einingarverð á þeirri orku við afhendingu frá orkuverinu. Í því skyni skal stofnunin hafa hliðsjón af verði orkunnar þegar hún kemur til kaupenda en að frádregnum kostnaði við flutning, dreifingu og sölu hennar. Jafnframt skal höfð hliðsjón af því við ákvörðun þessa verðs að hlutfall arðs af fastafjármunum sem eru bundnir í jarðvarmaorkuverinu sé svipað hvort sem um er að ræða raforkuvinnslu eða aðra orkuvinnslu.
VII. KAFLI Eftirlit og úrræði.
34. gr. Eftirlit Orkustofnunar.
Orkustofnun skal hafa eftirlit með því að fyrirtæki sem starfa samkvæmt reglugerð þessari fullnægi þeim skilyrðum sem um starfsemina gilda samkvæmt henni, skilyrðum leyfis eða öðrum heimildum. Orkustofnun skal hafa samráð við Samkeppniseftirlitið um eftirlit með starfsemi og gjaldskrá flutningsfyrirtækisins og dreifiveitna eftir því sem við á.
Um samráð við eftirlitsskylda aðila fer samkvæmt reglugerð um samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila sem sett er á grundvelli 2. mgr. 24. gr. raforkulaga.
Orkustofnun getur falið faggiltri skoðunarstofu, sbr. lög um vog, mál og faggildingu, að framkvæma eftirlit skv. 1. mgr. fyrir sína hönd.
35. gr. Heimildir Orkustofnunar.
Orkustofnun skal við framkvæmd eftirlits ekki beita viðurhlutameiri heimildum en nauðsyn krefur og byggja eftirlitið eins og kostur er á innra eftirliti hinna eftirlitsskyldu aðila.
Orkustofnun getur krafið eftirlitsskylda aðila um allar upplýsingar og gögn sem nauðsynleg eru við framkvæmd eftirlitsins. Skulu gögn og upplýsingar berast innan hæfilegs frests sem Orkustofnun setur. Orkustofnun getur einnig skyldað þessa aðila til að upplýsa stofnunina reglulega um atriði sem máli skipta við eftirlitið. Þá getur Orkustofnun krafist þess að eftirlitsskyldur aðili komi á innra eftirliti í samræmi við kröfur sem stofnunin setur.
Orkustofnun getur í eftirlitsstörfum sínum krafist upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum óháð þagnarskyldu þeirra.
Orkustofnun getur við rannsókn mála gert nauðsynlegar athuganir á starfsstöð eftirlitsskylds aðila og lagt hald á gögn þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn reglugerð þessari, skilyrðum leyfis eða öðrum heimildum. Við framkvæmd slíkra aðgerða skal fylgja ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um leit og hald á munum.
36. gr. Úrræði Orkustofnunar.
Telji Orkustofnun að eftirlitsskyld starfsemi samræmist ekki skilyrðum reglugerðar þessarar, skilyrðum leyfis eða öðrum heimildum getur hún krafist þess að úr verði bætt að viðlögðum dagsektum. Dagsektir geta numið 10-500 þús. kr. á dag. Við ákvörðun dagsekta er heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu eða brots. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Ákvarðanir um að leggja á dagsektir eru aðfararhæfar, svo og sakarkostnaður. Innheimtar dagsektir renna til ríkissjóðs að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Fari leyfishafi ekki að tilmælum Orkustofnunar skal hún veita ráðherra upplýsingar um málið.
Telji Orkustofnun að gjaldskrá sem tilkynnt hefur verið uppfylli ekki kröfur reglugerðar þessarar tekur gjaldskráin ekki gildi fyrr en úr hefur verið bætt að mati stofnunarinnar. Þá getur Orkustofnun gert flutningsfyrirtækinu og dreifiveitum að breyta gjaldskrá sinni að viðlögðum dagsektum.
37. gr. Eftirlit Samkeppniseftirlits.
Samkeppnislög gilda um atvinnustarfsemi þá sem reglugerð þessi nær til.
Ef fyrirtæki stundar vinnslu eða sölu á raforku er því óheimilt að niðurgreiða þá starfsemi með sérleyfisstarfsemi sem fyrirtækið hefur með höndum eða starfsemi sem hefur sambærilega stöðu. Í þeim tilgangi að koma í veg fyrir slíka niðurgreiðslu er samkeppnisyfirvöldum heimilt að mæla fyrir um fjárhagslegan aðskilnað, þ.m.t. fyrirtækjaaðskilnað milli samkeppnisstarfsemi og starfsemi er nýtur sérleyfis eða hefur sambærilega stöðu.
38. gr. Eftirlit með gæðum raforku og afhendingaröryggi.
Forsvarsmenn vinnslufyrirtækja, flutningsfyrirtækis og dreifiveitna bera ábyrgð á því að koma á fót og starfrækja innra eftirlit með gæðum raforku og afhendingaröryggi. Eftirlitið skal byggt upp á grundvelli gæðastaðla og tekið út og samþykkt af faggiltri skoðunarstofu.
Orkustofnun skal ákveða eðlileg viðmiðunarmörk afhendingaröryggis og gæða raforku í samráði við vinnslufyrirtæki, flutningsfyrirtækið og dreifiveitur og birta þau með opinberum hætti. Fyrirtækin skulu á grundvelli viðmiðunarmarkanna setja sér skrifleg markmið um gæði raforku og afhendingaröryggi. Þá skulu fyrirtækin skrá með skipulegum og varanlegum hætti frávik frá hinum settu markmiðum og ákvarða viðbragðsferla vegna frávika. Fyrirtækin skulu vinna úr hinum skráðu upplýsingum í samræmi við fyrirmæli sem Orkustofnun setur þeim og senda Orkustofnun á því formi sem stofnunin ákveður í samráði við þau. Skal úrvinnslan við það miðuð að einfalt sé að sannreyna innra eftirlitið.
39. gr. Þagnarskylda.
Starfsmenn Orkustofnunar eru bundnir þagnarskyldu. Þeir mega ekki að viðlagðri ábyrgð samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi skýra óviðkomandi frá því sem þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara um viðskipti og rekstur aðila sem þeir hafa eftirlit með. Sama gildir um sérfræðinga sem starfa á vegum Orkustofnunar eða aðra þá sem sinna eftirliti fyrir hana, svo sem starfsmenn faggiltra skoðunarstofa.
40. gr. Kæruleiðir.
Stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru af Orkustofnun á grundvelli reglugerðar þessarar og varða gjaldskrá eða starfsemi flutningsfyrirtækisins eða dreifiveitna sæta kæru til úrskurðarnefndar raforkumála, samkvæmt 30. gr. raforkulaga.
Stjórnvaldsákvarðanir Orkustofnunar, sem ekki verða kærðar samkvæmt 1. mgr., verða kærðar til iðnaðarráðherra. Kæra til iðnaðarráðherra skal vera skrifleg og skal hún borin fram innan 30 daga frá því aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Um meðferð máls fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.
41. gr. Gjaldtaka.
Kostnaður vegna eftirlits Orkustofnunar sem fram fer á grundvelli reglugerðar þessarar er greiddur af gjaldi því sem innheimt er samkvæmt 31. gr. raforkulaga.
Eftirlitsskyldir aðilar skulu greiða kostnað vegna eftirlits faggiltra skoðunarstofa, enda sé ekki um úrtakseftirlit að ræða.
VIII. KAFLI Ýmis ákvæði.
42. gr. Viðurlög.
Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt lögum eða öðrum stjórnvaldsfyrirmælum. Nú er brot framið í starfsemi lögaðila og má þá gera lögaðilanum fésekt skv. II. kafla A almennra hegningarlaga.
43. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi sem er sett samkvæmt 1. mgr. 5. gr., 9. mgr. 9. gr., 3. mgr. 10. gr., 6. mgr. 16. gr., 3. mgr. 20. gr. og 44. gr. raforkulaga tekur þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 511/2003 með síðari breytingum.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.