Fara beint í efnið

Prentað þann 23. des. 2024

Eldri útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 31. des. 2016 – 8. mars 2017 Sjá núgildandi

1005/2009

Reglugerð um vélar og tæknilegan búnað.

I. KAFLI Gildissvið og orðskýringar.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um vélar sem ætlaðar eru til notkunar á vinnustöðum sem lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, gilda um. Reglugerðin gildir jafnframt um vélar sem seldar eru eða leigðar jöfnum höndum til notkunar við atvinnurekstur eða til einkanota sé ekki fjallað um þær í öðrum lögum eða reglugerðum. Reglugerðin gildir einnig um umskiptanlegan búnað, öryggisíhluti, ásláttarbúnað, keðjur, strengi og bönd ofin úr sterkum efnum, vélrænan yfirfærslubúnað sem unnt er að fjarlægja og ófullgerðar vélar.

Reglugerð þessi gildir ekki um:

  1. öryggisíhluti sem ætlaðir eru til notkunar sem varahlutir í stað sams konar íhluta og sem framleiðandi upphaflegu vélarinnar lætur í té,
  2. sérstakan búnað eða tæki til nota á sýningarsvæðum og/eða í skemmtigörðum,
  3. vélar sem eru sérhannaðar fyrir kjarnorku eða notaðar í tengslum við hana og geta orsakað geislavirkni ef þær bila,
  4. vopn, að meðtöldum skotvopnum,
  5. eftirfarandi flutningatæki:

    1. dráttarvélar til nota í landbúnaði eða skógariðnaði, sem reglugerð nr. 822/2004, um gerð og búnað ökutækja, með síðari breytingum, gildir um að undanskildum vélum sem festar eru á þessi ökutæki,
    2. vélknúin ökutæki og eftirvagna þeirra, sem reglugerð nr. 822/2004, um gerð og búnað ökutækja, með síðari breytingum, gildir um að undanskildum vélum sem festar eru á þessi ökutæki,
    3. vélknúin ökutæki á tveimur eða þremur hjólum, sem reglugerð nr. 822/2004, um gerð og búnað ökutækja, með síðari breytingum, gildir um að undanskildum vélum sem festar eru á þessi ökutæki,
    4. vélknúin ökutæki sem eingöngu eru ætluð til keppni og
    5. tæki til nota við flutninga í lofti, á vatni og á járnbrautum, að undanskildum vélum sem festar eru á þessi tæki.
  6. skip og færanleg mannvirki á grunnsævi ásamt vélum um borð í slíkum skipum og/eða mannvirkjum,
  7. vélar sem eru hannaðar og smíðaðar sérstaklega fyrir her eða lögreglu,
  8. vélar sem eru hannaðar og smíðaðar sérstaklega til rannsókna og ætlaðar til tímabundinna nota á rannsóknarstofum,
  9. vindubúnað í námum,
  10. vélar sem ætlaðar eru til að lyfta flytjendum listrænna atriða,
  11. rafmagns- og rafeindavörur sem teljast til eftirfarandi flokka, og falla undir reglugerð nr. 678/2009, um raforkuvirki, með síðari breytingum:

    1. heimilistæki til einkanotkunar,
    2. hljóð- og myndflutningsbúnað,
    3. upplýsingatæknibúnað,
    4. venjulegar skrifstofuvélar,
    5. lágspennurafbúnað og stýribúnað,
    6. rafmagnshreyfla.
  12. eftirfarandi gerðir háspennubúnaðar:

    1. rofbúnað og stýribúnað,
    2. spennubreyta.

Ákvæði reglugerðar þessarar sem eiga við um vélar eiga einnig við um umskiptanlegan búnað, öryggisíhluti, ásláttarbúnað, keðjur, strengi og bönd ofin úr sterkum efnum, og vélrænan yfirfærslubúnað sem unnt er að fjarlægja.

Sérreglur þær er gilda að hluta eða öllu leyti um hættur sem fylgja vélum, sem falla undir gildissvið reglugerðar þessarar, halda gildi sínu þrátt fyrir ákvæði þessarar reglugerðar. Ennfremur ganga nýjar sérreglur sem settar eru að hluta eða öllu leyti um hættur er fylgja vélum, sem falla undir gildissvið reglugerðar þessarar, framar ákvæðum þessarar reglugerðar.

2. gr. Orðskýringar.

  1. Vél:

    1. Samstæða sem hefur eða sem ætlunin er að hafi annað drifkerfi en milliliðalaust handafl eða afl dýra og er samsett af innbyrðis tengdum hlutum eða íhlutum, þar af a.m.k. einum hreyfanlegum, sem eru tengdir saman til tiltekinnar notkunar.
    2. Samstæða skv. i-lið sem í vantar einungis íhlutina til að tengja hana á þeim stað þar sem á að nota hana eða við orkugjafa og hreyfiafl.
    3. Samstæða skv. i- og ii-lið sem er tilbúin til uppsetningar en er einungis hæf til notkunar ef hún er fest á flutningatæki eða komið fyrir í byggingu eða mannvirki.
    4. Samstæður véla skv. i-, ii- og iii-lið eða samstæður ófullgerðra véla, sbr. g-lið, sem er komið þannig fyrir og stjórnað að vélarnar vinni sem órofa heild að sama markmiði.
    5. Samstæða innbyrðis tengdra hluta eða íhluta, þar af a.m.k. einum hreyfanlegum, sem tengdir eru saman til að lyfta byrðum og eini aflgjafinn er milliliðalaust handafl.
  2. Umskiptanlegur búnaður: Búnaður sem notandinn tengir sjálfur við vél eða dráttarvél sem þegar hefur verið tekin í notkun til að breyta hlutverki hennar eða gefa henni nýtt hlutverk enda sé þessi búnaður ekki verkfæri.
  3. Öryggisíhlutur: Íhlutur sem:

    1. fullnægir ákveðnu öryggishlutverki,
    2. er settur sérstaklega á markað,
    3. stofnar öryggi manna í hættu ef hann bilar og
    4. er ekki nauðsynlegur fyrir virkni vélarinnar eða sem skipta má út fyrir venjulega íhluti til þess að vélin starfi.

      Viðmiðunarskrá yfir öryggisíhluti er sett fram í V. viðauka reglugerðar þessarar.
  4. Ásláttarbúnaður: Íhlutur eða búnaður sem ekki er festur við lyftibúnað en gerir kleift að halda byrðinni og er settur á milli vélar og byrðar eða á byrðina sjálfa, eða sem ætlað er að mynda óaðskiljanlegan hluta byrðarinnar, og er settur sérstaklega á markað; stroffur og íhlutir þeirra teljast einnig ásláttarbúnaður.
  5. Keðjur, strengir og bönd ofin úr sterkum efnum: Keðjur, strengir og bönd ofin úr sterkum efnum sem eru hönnuð og gerð til að lyfta sem hluti af lyftibúnaði eða ásláttarbúnaði.
  6. Vélrænn yfirfærslubúnaður sem unnt er að fjarlægja: Íhlutur, sem má fjarlægja, og er ætlaður til að færa afl milli sjálfknúinnar vélar eða dráttarvélar og annarrar vélar með því að tengja þær við fyrstu föstu leguna. Þegar búnaðurinn er settur á markað með hlíf skal telja það eina vél.
  7. Ófullgerð vél: Samstæða sem uppfyllir að mestu leyti skilyrði a-liðar til þess að geta talist vél en getur ekki sjálf framkvæmt sérstaka aðgerð. Drifkerfi er dæmi um ófullgerða vél. Ófullgerðar vélar eru einungis ætlaðar til þess að vera settar í eða bætt við aðra vél eða aðra ófullgerða vél eða búnað svo úr verði vél sem fellur undir reglugerð þessa.
  8. Að setja á markað: Þegar vél eða ófullgerð vél er í fyrsta skipti tilbúin til dreifingar eða notkunar á Evrópska efnahagssvæðinu, hvort sem er gegn gjaldi eða án endurgjalds.
  9. Framleiðandi: Einstaklingur eða lögaðili sem hannar og/eða framleiðir vél eða ófullgerða vél, sem fellur undir reglugerð þessa, og ber ábyrgð á samræmi vélar eða ófullgerðrar vélar samkvæmt reglugerð þessari í því skyni að setja hana á markað undir eigin nafni eða vörumerki eða til eigin nota. Ef framleiðandi er ekki til staðar skal hver einstaklingur eða lögaðili, sem setur á markað eða tekur í notkun vél eða ófullgerða vél sem fellur undir reglugerð þessa, teljast framleiðandi.
  10. Viðurkenndur fulltrúi: Einstaklingur eða lögaðili með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu sem hefur skriflegt umboð frá framleiðanda til að uppfylla fyrir hönd hans allar eða hluta af þeim skuldbindingum og formsatriðum sem leiða af reglugerð þessari.
  11. Að taka í notkun: Þegar vél, sem fellur undir reglugerð þessa, er fyrst notuð á Evrópska efnahagssvæðinu í fyrirhuguðum tilgangi.
  12. Samræmdur staðall: Tækniforskrift sem ekki er bindandi og Staðlasamtök Evrópu (CEN), Rafstaðlasamtök Evrópu (CENELEC) eða Fjarskiptastaðlastofnun Evrópu (ETSI) hefur samþykkt.
  13. Grunnkröfur um heilsuvernd og öryggi: bindandi ákvæði varðandi hönnun og smíði þeirra véla og annars búnaðar sem falla undir reglugerð þessa skv. 1. gr. til að tryggja að heilsa og öryggi manna sé verndað og, eftir því sem við á, húsdýra og eigna og, eftir atvikum, umhverfisins. Grunnkröfur um heilsuvernd og öryggi eru settar fram í I. viðauka. Grunnkröfur um heilsuvernd og öryggi m.t.t. umhverfisverndar gilda aðeins um þær vélar sem um getur í lið 2.4 í þeim viðauka.

II. KAFLI Að setja á markað og samræmismat.

3. gr. Almennt.

Heimilt er að setja á markað eða taka í notkun hérlendis vél sem fullnægir ákvæðum reglugerðar þessarar.

Ennfremur er heimilt að setja á markað ófullgerða vél þegar framleiðandinn eða viðurkenndur fulltrúi hans hefur gefið yfirlýsingu um ísetningu, sbr. B-lið 1. hluta II. viðauka reglugerðar þessarar, þar sem fram kemur að ætlunin sé að setja hana í vél eða bæta henni við aðra ófullgerða vél svo úr verði vél.

4. gr. Skilyrði um öryggi.

Óheimilt er að setja á markað eða taka í notkun vélar eða ófullgerðar vélar, sem falla undir gildissvið reglugerðar þessarar, nema að tryggt sé að heilsu og öryggi manna, og þar sem við á, öryggi húsdýra sem og eignum og, eftir atvikum, umhverfinu stafi ekki hætta af þeim vélum eða ófullgerðum vélum sem eru settar upp á réttan hátt, þeim haldið við sem skyldi og þær notaðar í fyrirhuguðum tilgangi eða við aðstæður sem skynsamlegt er að ætla að sjá megi fyrir.

Vélar sem falla undir gildissvið reglugerðar þessarar skulu fullnægja grunnkröfum um heilsuvernd og öryggi sem tilgreindar eru í I. viðauka reglugerðar þessarar.

5. gr. Undanþága vegna vörusýninga.

Heimilt er á kaupstefnum, vörusýningum, kynningum eða á sambærilegum vettvangi að sýna vél eða ófullgerða vél sem fullnægir ekki ákvæðum reglugerðar þessarar, svo fremi að það sé tekið skýrt fram á áberandi skilti að vélin eða ófullgerða vélin fullnægi ekki ákvæðum þessarar reglugerðar og sé ekki til sölu fyrr en framleiðandinn eða viðurkenndur fulltrúi hans með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins hafi séð til þess að vélin eða ófullgerða vélin fullnægi ákvæðum þessarar reglugerðar. Gera skal nauðsynlegar varúðarráðstafanir til að ekki stafi hætta af því þegar vélin eða ófullgerða vélin er kynnt.

6. gr. Áhættumat.

Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans skal sjá til þess að fram fari áhættumat til að ákvarða þær grunnkröfur um heilsuvernd og öryggi sem eiga við um vélina í samræmi við ákvæði I. viðauka reglugerðar þessarar. Við hönnun og smíði vélarinnar skal taka tillit til niðurstaðna áhættumatsins.

7. gr. Skyldur framleiðanda vélar áður en hún er sett á markað og/eða tekin í notkun.

Áður en vél er sett á markað og/eða tekin í notkun skal framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans:

  1. tryggja að vélin uppfylli viðeigandi grunnkröfur um heilsuvernd og öryggi sem settar eru fram í I. viðauka reglugerðar þessarar;
  2. tryggja að tækniskjölin skv. A-lið VII. viðauka reglugerðar þessarar séu tiltæk;
  3. veita nauðsynlegar upplýsingar, svo sem leiðbeiningar;
  4. gera samræmismat skv. 10. gr.;
  5. semja EB-samræmisyfirlýsingu skv. A-lið 1. hluta II. viðauka reglugerðar þessarar og tryggja að yfirlýsingin fylgi vélinni;
  6. einkenna vélina með CE-merki, sbr. 13. gr.

Ef vél fellur einnig undir ákvæði annarra reglna sem ennfremur kveða á um að einkenna skuli viðkomandi vél með CE-merki, sbr. 13. gr., gefur þetta merki til kynna að viðkomandi vél teljist einnig vera í samræmi við ákvæði þeirra reglna. Heimili ein eða fleiri þessara reglna framleiðanda eða viðurkenndum fulltrúa hans að velja hvaða fyrirkomulag hann notar á aðlögunartíma skal CE-merkið einungis gefa til kynna að samræmi sé við þær reglur sem framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans fer eftir. Í slíku tilviki skulu tilvísanir í þær reglur sem farið er eftir, koma fram í þeim skjölum, auglýsingum eða fyrirmælum sem krafist er í þeim reglum, þar á meðal EB-samræmisyfirlýsingu, og fylgja slíkum vélum.

8. gr. Skyldur framleiðanda ófullgerðrar vélar áður en hún er sett á markað.

Áður en ófullgerð vél er sett á markað skal framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans tryggja að:

  1. viðeigandi tækniskjöl skv. B-lið VII. viðauka reglugerðar þessarar séu til reiðu;
  2. leiðbeiningar um samsetningu skv. VI. viðauka reglugerðar þessarar séu til reiðu;
  3. yfirlýsing um ísetningu skv. B-lið 1. hluta II. viðauka reglugerðar þessarar hafi verið gefin út.

Leiðbeiningar um samsetningu og yfirlýsing um ísetningu skulu fylgja ófullgerðu vélinni þar til hún hefur verið sett í vél en eftir það vera hluti af tækniskjölum þeirrar vélar.

9. gr. Ætlað samræmi og samræmdir staðlar.

Vél sem einkennd er með CE-merki, sbr. 13. gr., ásamt því að EB-samræmisyfirlýsing, sbr. A-lið 1. hluta II. viðauka reglugerðar þessarar, fylgir henni er álitin fullnægja öllum ákvæðum reglugerðar þessarar.

Þegar vél hefur verið framleidd í samræmi við samræmdan staðal sem birtur hefur verið í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins og slíkur staðall fjallar um eina eða fleiri af grunnkröfum um heilsuvernd og öryggi skal ganga út frá því að vélin uppfylli viðeigandi grunnkröfur.

10. gr. Samræmismat.

Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans skal votta skv. 2., 3. eða 4. mgr., eftir því sem við á, að vél sé í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar enda hafi hann aðgengi að þeim búnaði sem til þarf svo unnt sé að ganga úr skugga um að vél fullnægi skilyrðum um grunnkröfur um heilsuvernd og öryggi skv. I. viðauka reglugerðar þessarar.

Þegar um er að ræða aðra vél en þær sem taldar eru upp í IV. viðauka reglugerðar þessarar skal framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans gera mat á samræmi með innri athugunum á framleiðslu véla skv. VIII. viðauka reglugerðar þessarar áður en vélin er sett á markað og/eða tekin í notkun.

Þegar um er að ræða vél sem talin er upp í IV. viðauka reglugerðar þessarar og hefur verið framleidd samkvæmt samræmdum staðli, sbr. 2. mgr. 9. gr., skal framleiðandi hennar eða viðurkenndur fulltrúi hans, áður en hún er sett á markað og/eða tekin í notkun, gera eitt af eftirfarandi:

  1. meta samræmi með innri athugunum á framleiðslu véla skv. VIII. viðauka reglugerðar þessarar,
  2. gera EB-gerðarprófun skv. IX. viðauka reglugerðar þessarar auk innri athugana á framleiðslu véla skv. 3. lið VIII. viðauka reglugerðar þessarar,
  3. sýna fram á fulla gæðatryggingu skv. X. viðauka reglugerðar þessarar.

Þegar um er að ræða vél sem talin er upp í IV. viðauka reglugerðar þessarar og framleiðandi hennar eða viðurkenndur fulltrúi hans hefur ekki fylgt, eða einungis að hluta, samræmdum stöðlum, sbr. 2. mgr. 9. gr., samræmdu staðlarnir ná ekki yfir allar viðeigandi grunnkröfur um heilsuvernd og öryggi eða ef engir slíkir staðlar eru til um viðkomandi vél, skal framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans annaðhvort:

  1. gera EB-gerðarprófun skv. IX. viðauka reglugerðar þessarar auk innri athugana á framleiðslu véla skv. 3. lið VIII. viðauka reglugerðar þessarar eða
  2. sýna fram á fulla gæðatryggingu skv. X. viðauka reglugerðar þessarar.

11. gr. Tilkynntir aðilar.

Faggildingarsvið Einkaleyfastofunnar annast viðurkenningu á þeim aðilum sem óska eftir að sjá um samræmismat samkvæmt reglugerð þessari. Þeir sem faggildingarsviðið viðurkennir sem tilkynnta aðila skulu uppfylla þau skilyrði sem eru sett fram í XI. viðauka reglugerðar þessarar. Aðilar sem uppfylla matsskilyrðin sem kveðið er á um í viðeigandi samræmdum stöðlum teljast ennfremur uppfylla skilyrði XI. viðauka reglugerðar þessarar.

Faggildingarsvið Einkaleyfastofunnar skal hafa reglulegt eftirlit með að tilkynntir aðilar uppfylli skilyrði XI. viðauka reglugerðar þessarar. Tilkynntur aðili skal, ef faggildingarsviðið óskar eftir því, láta í té allar viðeigandi upplýsingar sem faggildingarsviðið telur nauðsynlegar til að framfylgja eftirlitinu, að meðtöldum gögnum í tengslum við fjárhagsáætlanir.

Uppfylli tilkynntur aðili ekki lengur skilyrði skv. XI. viðauka reglugerðar þessarar eða alvarlegur misbrestur er á því að aðilinn uppfylli skilyrðin skal faggildingarsvið Einkaleyfastofunnar afturkalla viðurkenningu hans skv. 1. mgr. Að öðru leyti fer um málsmeðferð samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

Velferðarráðuneyti tilkynnir þá aðila sem faggildingarsvið Einkaleyfastofunnar hefur viðurkennt skv. 1. mgr. eða afturkallað viðurkenningu á skv. 3. mgr. til Eftirlitsstofnunar EFTA og annarra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins.

12. gr. Afturköllun vottorðs um samræmi.

Tilkynntur aðili, sbr. 11. gr., getur afturkallað eða breytt vottorði eða viðurkenningu komi í ljós að framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans hafi ekki fullnægt eða fullnægi ekki lengur ákvæðum reglugerðar þessarar eða aðrir annmarkar komi í ljós við útgáfu EB-gerðarprófunarvottorðs eða viðurkenningu gæðatryggingakerfisins.

Tilkynntur aðili, sbr. 11. gr., skal tilkynna framleiðanda eða viðurkenndum fulltrúa hans um fyrirhugaða afturköllun eða breytingu skv. 1. mgr. og gefa honum kost á að tjá sig um efni málsins og gera úrbætur innan hæfilegs frests þannig að ákvæðum reglugerðar þessarar sé fullnægt. Að öðru leyti fer um málsmeðferð samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

Tilkynntur aðili, sbr. 11. gr., skal tilkynna um afturköllun eða breytingu skv. 1. mgr. til Vinnueftirlits ríkisins sem skal meta hvort grípa þurfi til ráðstafana skv. 14. og 15. gr. reglugerðar þessarar.

13. gr. CE-merki.

Á CE-samræmismerkinu skulu vera hástafirnir "CE". Útlit og lögun merkisins skal vera með þeim hætti sem mælt er fyrir um í III. viðauka reglugerðar þessarar.

Vél skal einkennd með CE-merkinu á þann hátt að greinilegt og læsilegt sé sem og óafmáanlegt, sbr. III. viðauka reglugerðar þessarar.

Óheimilt er að einkenna vél með merki, merkingum og áletrunum sem eru til þess fallin að villa um fyrir þriðja aðila að því er varðar þýðingu, útlit eða lögun CE-merkisins. Heimilt er að setja hvers konar aðrar merkingar á vélar að því tilskildu að þær hindri ekki að CE-merkið sjáist vel og sé vel læsilegt.

III. KAFLI Ýmis ákvæði.

14. gr. Eftirlit.

Vinnueftirlit ríkisins hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar, sbr. 82. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum. Félags- og húsnæðismálaráðherra getur þó samþykkt aðra aðila til að fara með slíkt eftirlit að hluta eða öllu leyti, sbr. 6. mgr. 82. gr. laganna.

Hafi Vinnueftirlit ríkisins rökstuddan grun um að öryggi eða heilsu manna og, eftir því sem við á, húsdýra sem og eignum og, eftir atvikum, umhverfinu, stafi hætta af vél, sem fellur undir gildissvið reglugerðar þessar, og ber CE-merki með meðfylgjandi EB-samræmisyfirlýsingu og notuð er eins og ætlast er til eða við aðstæður sem skynsamlegt er að ætla að sjá megi fyrir, er Vinnueftirlitinu heimilt að banna markaðssetningu og/eða notkun vélarinnar um tíma eða setja sérstök skilyrði fyrir slíku.

Þurfi Vinnueftirlit ríkisins að grípa til aðgerða skv. 2. mgr. skal það tilkynna velferðarráðuneyti um þær án tafar. Með tilkynningunni skal fylgja rökstuðningur þar sem fram kemur hvort ákvörðun Vinnueftirlitsins um að grípa til aðgerða skv. 2. mgr. stafi af því:

  1. að grunnkröfur um heilsuvernd og öryggi skv. 4. gr., sbr. einnig a-lið 1. mgr. 7. gr., hafa ekki verið uppfylltar;
  2. að samræmdu stöðlunum, sbr. 2. mgr. 9. gr. sé beitt á rangan hátt;
  3. að annmarkar séu á samræmdu stöðlunum sjálfum, sbr. 2. mgr. 9. gr.

Velferðarráðuneytið skal tilkynna til Eftirlitsstofnunar EFTA um þær aðgerðir sem Vinnueftirlit ríkisins þarf að grípa til skv. 2. mgr. eða 15. gr.

15. gr. Vél ranglega viðurkennd.

Vél telst ranglega viðurkennd þegar:

  1. vél sem fellur ekki undir gildissvið reglugerðar þessarar en er einkennd með CE-merki í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar;
  2. CE-merki og/eða EB-samræmisyfirlýsingu vantar fyrir vél;
  3. vél er einkennd með merki sem er bannað skv. 3. mgr. 13. gr.

Komist Vinnueftirlit ríkisins að því að vél sem fellur undir gildissvið reglugerðar þessarar hafi ranglega verið einkennd með CE-merki, sbr. 13. gr., eða henni fylgir ranglega EB-samræmisyfirlýsing ber framleiðanda eða viðurkenndum fulltrúa hans að sjá til þess að vélinni verði breytt þannig að hún fullnægi ákvæðum reglugerðar þessarar um CE-merki og EB-samræmisyfirlýsingu.

Sinni framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans ekki skyldu sinni skv. 2. mgr. eftir að hafa fengið hæfilegan frest til að bæta úr annmörkum skv. 1. mgr. er Vinnueftirliti ríkisins heimilt að banna markaðssetningu og/eða notkun vélarinnar eða setja sérstök skilyrði fyrir slíku. Að öðru leyti gildir 48. gr. a laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

16. gr. Kæruheimild.

Heimilt er að kæra ákvarðanir Vinnueftirlits ríkisins sem teknar eru á grundvelli reglugerðar þessarar til velferðarráðuneytis innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina, sbr. 98. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.

17. gr. Viðurlög.

Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar varða ákvæði 99. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.

IV. KAFLI Gildistaka.

18. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 3. mgr. 3. gr. sem og 34., 35., 38., 47., 48. og 48. gr. a laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins og að höfðu samráði við viðskiptaráðuneyti hvað varðar þátt faggildingarsviðs Einkaleyfastofunnar, sbr. lög nr. 24/2006, um faggildingu o.fl., til innleiðingar á tilskipun nr. 2006/42/EB, um vélarbúnað og um breytingu á tilskipun 95/16/EB (endursamin), sem vísað er til í 5. lið, III. kafla, II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 6/2007.

Reglugerð þessi öðlast gildi 29. desember 2009. Frá sama tíma falla úr gildi reglur nr. 761/2001, um vélar og tæknilegan búnað, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða.

Ákvæði til bráðabirgða.

Heimilt er að setja á markað og taka í notkun handstýrðar naglabyssur með skothylkjum og önnur skottæki sem eru í samræmi við gildandi reglur fram til 29. júní 2011.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.