Prentað þann 11. des. 2024
976/2021
Reglugerð um verndun fjármálagerninga og fjármuna viðskiptavina, skyldur við vöruþróun og um veitingu og móttöku þóknana, umboðslauna eða hvers konar ávinnings.
Efnisyfirlit
- I. KAFLI Gildissvið og skilgreiningar.
- II. KAFLI Verndun fjármálagerninga og fjármuna viðskiptavina.
- 3. gr. Verndun fjármálagerninga og fjármuna viðskiptavina.
- 4. gr. Verndun fjármálagerninga og fjármuna viðskiptavina í öðrum löndum.
- 5. gr. Fjármálagerningar viðskiptavinar lagðir inn á reikning.
- 6. gr. Fjármunir viðskiptavinar lagðir inn á reikning.
- 7. gr. Notkun á fjármálagerningum viðskiptavinar.
- 8. gr. Ráðstafanir til að koma í veg fyrir óheimila notkun fjármálagerninga viðskiptavina.
- 9. gr. Óviðeigandi notkun samninga um framsal eignarréttar yfir fjárhagslegri tryggingu.
- 10. gr. Fyrirkomulag stjórnarhátta í tengslum við vernd eigna viðskiptavinar.
- 11. gr. Skýrslur ytri endurskoðenda.
- III. KAFLI Kröfur um vöruþróunarferli.
- 12. gr. Almennt um vöruþróunarskyldur verðbréfafyrirtækja sem framleiða fjármálagerninga.
- 13. gr. Hagsmunaárekstrar.
- 14. gr. Kröfur um sérfræðiþekkingu starfsfólks framleiðanda.
- 15. gr. Eftirlit stjórnar, framkvæmdastjóra og regluvörslu framleiðanda.
- 16. gr. Kröfur vegna samstarfs um framleiðslu eða dreifingu.
- 17. gr. Skylda framleiðanda til að skilgreina markhóp.
- 18. gr. Mat á áhættu og regluleg endurskoðun fjármálagerninga.
- 19. gr. Almennar vöruþróunarskyldur dreifingaraðila.
- 20. gr. Ákvörðun dreifingaraðila um markhóp, dreifingaráætlun, framboð fjárfestingarafurða og -þjónustu o.fl.
- 21. gr. Upplýsingagjöf dreifingaraðila til framleiðenda.
- 22. gr. Kröfur um sérfræðiþekkingu starfsfólks dreifingaraðila.
- 23. gr. Eftirlit stjórnar, framkvæmdastjóra og regluvörslu dreifingaraðila.
- 24. gr. Ábyrgð þegar fyrirtæki starfa saman að dreifingu.
- IV. KAFLI Hvatar.
- 25. gr. Hvatar.
- 26. gr. Upplýsingar til viðskiptavina um hvata.
- 27. gr. Hvatar sem varða óháða fjárfestingarráðgjöf eða eignastýringarþjónustu.
- 28. gr. Ásættanlegur minniháttar ófjárhagslegur ávinningur.
- 29. gr. Hvatar í tengslum við greiningar.
- 30. gr. Upplýsingagjöf um greiðslur til viðskiptavina og lögbærra yfirvalda vegna greininga.
- 31. gr. Samkomulag um greiningargjald og gjald fyrir framkvæmd viðskipta.
- 32. gr. Framkvæmd greiðslna fyrir greiningarvinnu.
- 33. gr. Lögleiðing.
- 34. gr. Gildistaka.
I. KAFLI Gildissvið og skilgreiningar.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um verðbréfafyrirtæki, rekstrarfélög verðbréfasjóða samkvæmt lögum um verðbréfasjóði og starfsleyfisskylda rekstraraðila sérhæfðra sjóða samkvæmt lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða.
Vísanir í II.-IV. kafla til verðbréfafyrirtækja og fjármálagerninga eiga einnig við um lánastofnanir og samsettar innstæður í tengslum við skyldur skv. 2. eða 3. mgr. 1. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga.
2. gr. Skilgreiningar.
Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
-
Fjármögnunarviðskipti með verðbréf:
- endurhverf viðskipti,
- verðbréfa- eða hrávörulánveiting og verðbréfa- eða hrávörulántaka,
- kaup/endursala eða sala/endurkaup,
- viðbótarlánveiting vegna kaupa/sölu.
-
Viðurkenndur peningamarkaðssjóður: Verðbréfasjóður samkvæmt lögum um verðbréfasjóði sem uppfyllir öll eftirfarandi skilyrði:
- aðalfjárfestingarmarkmið hans skal vera að halda innra virði sjóðsins annaðhvort föstu á nafnvirði (að frádregnum hagnaði) eða það nemi upphaflegri fjárfestingu að viðbættum hagnaði,
- í því skyni að ná þessu aðalfjárfestingarmarkmiði skal hann fjárfesta eingöngu í hágæðapeningamarkaðsgerningum sem eru ekki með lengri binditíma eða eftirstöðvatíma en 397 daga eða reglubundna arðsemisaðlögun í samræmi við binditímann og 60 daga veginn meðalbinditíma þeirra. Hann getur einnig náð þessu markmiði með því að fjárfesta á viðbótargrundvelli í innlánum hjá lánastofnunum, og
- hann verður að tryggja lausafé við uppgjör sama eða næsta dag.
- Sjálfbærniþættir: Umhverfis-, félags- og starfsmannatengd mál, virðing fyrir mannréttindum, mál sem varða baráttuna gegn spillingu og mútum.
Peningamarkaðsgerningur skal teljast uppfylla skilyrði b-liðar 1. mgr. ef rekstrarfélagið sjálft gerir skjalfest mat á lánshæfi hans sem gerir því kleift að telja hann vera af miklum gæðum. Hafi ein eða fleiri lánshæfismatsstofnanir sem eru skráðar hjá og lúta eftirliti Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunarinnar gefið gerningnum einkunn skal við innra mat rekstrarfélagsins taka tillit til m.a. þeirra lánshæfiseinkunna.
II. KAFLI Verndun fjármálagerninga og fjármuna viðskiptavina.
3. gr. Verndun fjármálagerninga og fjármuna viðskiptavina.
Verðbréfafyrirtæki skal:
- halda skrár og reikninga svo því sé unnt, hvenær sem er og án tafar, að aðgreina eignir sem það varðveitir fyrir einn viðskiptavin frá eignum sem það varðveitir fyrir hvern annan viðskiptavin og frá sínum eigin eignum,
- halda skrám sínum og reikningum þannig að nákvæmni þeirra sé tryggð og einkum að tryggð sé samsvörun þeirra við fjármálagerninga og fjármuni sem það varðveitir fyrir viðskiptavini og að unnt sé að nota þessi gögn sem endurskoðunarslóð (e. audit trail),
- stemma reglulega af innri reikninga og gögn sín við reikninga og gögn þriðju aðila sem varðveita þessar eignir,
- gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að unnt sé að bera kennsl á alla fjármálagerninga viðskiptavinar sem eru lagðir inn á reikning hjá þriðja aðila, í samræmi við 5. gr., með aðgreindum hætti frá fjármálagerningum sem tilheyra verðbréfafyrirtækinu og frá fjármálagerningum sem tilheyra þeim þriðja aðila, með því að nota mismunandi heiti reikninga í bókum þriðja aðilans eða með öðrum sambærilegum ráðstöfunum sem tryggja sams konar vernd,
- gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að fjármunir viðskiptavinar sem eru lagðir inn, í samræmi við 6. gr., á reikning hjá seðlabanka, lánastofnun eða banka með starfsleyfi í þriðja landi eða hjá viðurkenndum peningamarkaðssjóði séu varðveittir á reikningi eða reikningum sem eru auðkenndir með aðgreindum hætti frá reikningum sem eru notaðir til að varðveita fjármuni sem tilheyra verðbréfafyrirtækinu, og
- innleiða fullnægjandi skipulag til að lágmarka hættuna á tapi eða rýrnun eigna viðskiptavina, eða réttinda í tengslum við þessar eignir, vegna misnotkunar á eignunum, svika, slakrar umsýslu, ófullnægjandi skráningar eða vanrækslu.
Sé verðbréfafyrirtæki ókleift, vegna gildandi laga, einkum laga sem tengjast eignum eða ógjaldfærni, að fara að 1. mgr. þessarar greinar til að vernda réttindi viðskiptavina til að uppfylla kröfur 1. og 2. mgr. 24. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga skal verðbréfafyrirtæki taka upp fyrirkomulag sem tryggi að eignir viðskiptavina séu verndaðar til að uppfylla markmið 1. mgr. þessarar greinar.
Veiti fyrirtækið veð, tryggingar eða réttindi til skuldajöfnunar sem hvíla á fjármálagerningum eða fjármunum viðskiptavinar, eða fyrirtækið hefur fengið upplýsingar um slíkar kvaðir, skulu þær skráðar í samninga við viðskiptavini og í eigin bækur fyrirtækisins svo eignarhald á eignum viðskiptavinarins sé ljóst, s.s. við ógjaldfærni.
Verðbréfafyrirtæki skal gera upplýsingar sem varða fjármálagerninga og fjármuni viðskiptavina greiðlega aðgengilegar fyrir lögbær yfirvöld, skiptastjóra og þá sem bera ábyrgð á skilameðferð ógjaldfærra stofnana. Upplýsingarnar sem gerðar eru aðgengilegar skulu innihalda eftirfarandi:
- upplýsingar um tengda innri reikninga og gögn sem tilgreina á auðsæjan hátt stöðu fjármuna og fjármálagerninga sem varðveittir eru fyrir hvern viðskiptavin,
- varðveiti verðbréfafyrirtæki fjármuni viðskiptavinar í samræmi við 6. gr., skulu upplýsingarnar tilgreina þá reikninga sem geyma fjármuni viðskiptavinar og viðkomandi samninga við þau fyrirtæki,
- varðveiti verðbréfafyrirtæki fjármálagerninga í samræmi við 5. gr., skulu upplýsingarnar tilgreina þá reikninga sem stofnaðir hafa verið hjá þriðju aðilum og viðkomandi samninga við þá þriðju aðila, sem og viðkomandi samninga við þau verðbréfafyrirtæki,
- upplýsingar um þriðju aðila sem hafa tekið að sér tengd (útvistuð) verkefni og upplýsingar um öll útvistuð verkefni,
- upplýsingar um lykileinstaklinga hjá fyrirtækinu sem koma að tengdum ferlum, þ.m.t. þá sem bera ábyrgð á eftirliti með kröfum fyrirtækisins í tengslum við vernd eigna viðskiptavina, og
- samninga sem skipta máli við staðfestingu eignarhalds viðskiptavina á eignum.
4. gr. Verndun fjármálagerninga og fjármuna viðskiptavina í öðrum löndum.
Ef gildandi lög í lögsögunni þar sem fjármunir eða fjármálagerningar viðskiptavinarins eru geymdir koma í veg fyrir að verðbréfafyrirtæki uppfylli skyldur skv. d-lið eða e-lið 1. mgr. 3. gr. þá skal þeim óheimilt að geyma fjármuni eða fjármálagerningana þar nema til staðar sé fyrirkomulag sem hefur sambærileg áhrif hvað varðar verndun á þessum eignum. Reiði verðbréfafyrirtæki sig á slíkt sambærilegt fyrirkomulag skulu þau upplýsa viðskiptavini sína um að í slíkum tilvikum njóti þeir ekki ávinnings af viðkomandi ákvæðum laga um markaði fyrir fjármálagerninga og þessari reglugerð.
Veð, tryggingar eða réttindi til skuldajöfnunar sem hvíla á fjármálagerningum eða fjármunum viðskiptavina og gera þriðja aðila kleift að innleysa fjármálagerninga eða fjármuni viðskiptavinar til að endurheimta skuldir sem tengjast ekki viðskiptavininum eða þjónustu við hann eru óheimil nema þeirra sé krafist í gildandi lögum í lögsögu þriðja lands þar sem fjármunir eða fjármálagerningar viðskiptavinarins eru varðveittir. Verðbréfafyrirtæki, sem skylt er að gera samninga sem stofna til slíks veðs, tryggingar eða réttinda til skuldajöfnunar, skal veita viðskiptavinum upplýsingar þar að lútandi og greina þeim frá áhættunni sem tengist því fyrirkomulagi.
5. gr. Fjármálagerningar viðskiptavinar lagðir inn á reikning.
Verðbréfafyrirtæki er heimilt að leggja fjármálagerninga sem það geymir fyrir hönd viðskiptavina sinna inn á reikning eða reikninga sem stofnaðir eru hjá þriðja aðila að því tilskildu að fyrirtækið beiti tilhlýðilegri færni, aðgát og kostgæfni við val, ráðningu og reglulega endurskoðun á þriðja aðila og fyrirkomulagi varðveislu og verndar þessara fjármálagerninga. Einkum skal verðbréfafyrirtæki taka tillit til sérfræðiþekkingar og orðspors viðkomandi þriðja aðila á markaði og hvers kyns lagakrafna sem tengjast eignarhaldi viðkomandi fjármálagerninga sem gætu haft neikvæð áhrif á réttindi viðskiptavina.
Ef verðbréfafyrirtæki hyggst leggja fjármálagerninga viðskiptavina inn á reikning hjá þriðja aðila í öðru landi, þurfa sérstakar reglur og eftirlit að gilda um vernd fjármálagerninga fyrir reikning annars aðila og skal verðbréfafyrirtækið ganga úr skugga um að umræddur þriðji aðili falli undir viðkomandi reglur og eftirlit áður en innlögn fjármálagerninganna á sér stað.
Verðbréfafyrirtæki skal ekki leggja fjármálagerninga sem það varðveitir fyrir hönd viðskiptavinar inn á reikning hjá þriðja aðila í landi utan Evrópska efnahagssvæðisins sem hefur ekki sett reglur um varðveislu og vernd fjármálagerninga fyrir reikning annars aðila, nema annað eftirfarandi skilyrða sé uppfyllt:
- eðli fjármálagerninganna eða fjárfestingarþjónustunnar sem tengist þessum gerningum krefjist þess að þeir séu lagðir inn á reikning hjá þriðja aðila í viðkomandi landi, eða
- séu fjármálagerningarnir varðveittir fyrir fagfjárfesti, að hann fari skriflega fram á það við verðbréfafyrirtækið að það leggi þá inn á reikning hjá þriðja aðila í viðkomandi landi.
Kröfur skv. 2. og 3. mgr. gilda einnig ef þriðji aðili hefur falið öðrum þriðja aðila einhver verkefna sinna sem snerta varðveislu og vernd fjármálagerninga.
6. gr. Fjármunir viðskiptavinar lagðir inn á reikning.
Verðbréfafyrirtæki skal tafarlaust við móttöku á fjármunum viðskiptavinar leggja þá inn á einn eða fleiri reikninga sem stofnaðir eru hjá einhverjum eftirfarandi aðila:
- seðlabanka,
- lánastofnun í skilningi laga um fjármálafyrirtæki,
- banka með starfsleyfi í þriðja landi, eða
- viðurkenndum peningamarkaðssjóði.
Ákvæði 1. mgr. gildir ekki um lánastofnun í skilningi laga um fjármálafyrirtæki að því er varðar innlán hjá þeirri stofnun.
Í þeim tilvikum sem verðbréfafyrirtæki leggur ekki fjármuni viðskiptavina inn á reikning hjá seðlabanka þá skal það beita allri tilhlýðilegri færni, aðgát og kostgæfni við val, ráðningu og reglulega endurskoðun á þeirri lánastofnun, banka eða peningamarkaðssjóði sem fjármunirnir eru geymdir hjá og fyrirkomulagi varðveislu fjármunanna og meti þörfina á að dreifa fjármununum sem hluta af ráðstöfunum sínum til að tryggja tilhlýðilega kostgæfni. Einkum skal verðbréfafyrirtæki taka tillit til sérfræðiþekkingar og orðspors slíkra stofnana eða peningamarkaðssjóða á markaði í því skyni að tryggja réttindi viðskiptavina, og einnig til hvers konar laga- eða regluákvæða eða markaðsvenja sem tengjast varðveislu fjármuna viðskiptavina og gætu haft neikvæð áhrif á réttindi viðskiptavina.
Verðbréfafyrirtæki skal tryggja að viðskiptavinir veiti skýlaust samþykki sitt fyrir því að fjármunir þeirra séu lagðir í viðurkenndan peningamarkaðssjóð og upplýsa viðskiptavini um að slík varðveisla muni ekki verða í samræmi við kröfur þessarar reglugerðar um varðveislu á fjármunum viðskiptavina.
Ef verðbréfafyrirtæki leggur fjármuni viðskiptavinar inn hjá lánastofnun, banka eða peningamarkaðssjóði í sömu samstæðu og verðbréfafyrirtækið þá skulu fjármunir sem lagðir eru inn samtals hjá öllum fyrirtækjum innan samstæðunnar ekki nema meira en 20% af öllum slíkum fjármunum.
Verðbréfafyrirtæki er heimilt að hlíta ekki kröfu 5. mgr. ef það getur sýnt fram á að kröfur 3. mgr. séu óhóflegar miðað við eðli, umfang og flækjustig starfsemi þess og þess öryggis sem þeir þriðju aðilar sem tilgreindir eru í 5. mgr. veita, þ.m.t. ef um er að ræða lága fjárhæð fjármuna viðskiptavinar sem verðbréfafyrirtækið hefur í vörslu. Verðbréfafyrirtæki skal reglulega endurskoða mat sem framkvæmt er í samræmi við þessa málsgrein og tilkynna Fjármálaeftirlitinu um upphaflegt og endurskoðað mat sitt.
7. gr. Notkun á fjármálagerningum viðskiptavinar.
Verðbréfafyrirtæki er óheimilt að gera samkomulag um fjármögnunarviðskipti með verðbréf að því er varðar fjármálagerninga sem það varðveitir fyrir hönd viðskiptavinar, eða nota slíka fjármálagerninga á annan hátt fyrir eigin reikning eða reikning annars einstaklings eða viðskiptavinar fyrirtækisins, nema bæði eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:
- viðskiptavinurinn hafi áður veitt ótvírætt samþykki sitt fyrir notkun fjármálagerninganna með tilteknum skilmálum, sem sé staðfest á skýran hátt og skriflega með undirskrift eða á sambærilegan hátt, og
- notkun fjármálagerninga þess viðskiptavinar takmarkist við tilgreinda skilmála sem viðskiptavinurinn samþykkir.
Verðbréfafyrirtæki er jafnframt óheimilt að gera samkomulag um fjármögnunarviðskipti með verðbréf að því er varðar fjármálagerninga sem varðveittir eru fyrir hönd viðskiptavinar á safnreikningi sem þriðji aðili heldur utan um, eða að nota með öðrum hætti fjármálagerninga sem varðveittir eru á slíkum reikningi fyrir sinn eigin reikning eða reikning annars aðila, nema a.m.k. annað hvort eftirfarandi skilyrða sé uppfyllt til viðbótar við þau skilyrði sem tilgreind eru í 1. mgr.:
- hver viðskiptavinur sem á fjármálagerninga sem eru varðveittir saman á safnreikningi hafi áður veitt ótvírætt samþykki í samræmi við a-lið 1. mgr., og
- verðbréfafyrirtækið búi yfir kerfi og eftirliti sem tryggi að einungis fjármálagerningar sem tilheyra viðskiptavinum sem hafa áður veitt ótvírætt samþykki í samræmi við a-lið 1. mgr. séu notaðir á þennan hátt.
Gögn verðbréfafyrirtækisins skulu hafa að geyma upplýsingar um viðskiptavininn sem gaf fyrirmæli um þá notkun fjármálagerninganna sem framkvæmd hefur verið og um fjölda fjármálagerninga sem notaðir eru og sem tilheyra hverjum viðskiptavini sem hefur veitt samþykki sitt, svo unnt sé að úthluta tapi á réttan hátt.
Verðbréfafyrirtæki skal viðhafa sérstakt fyrirkomulag fyrir alla viðskiptavini til að tryggja að aðili sem fær fjármálagerninga viðskiptavina að láni veiti viðeigandi tryggingu og að fyrirtækið fylgist með því að tryggingin sé áfram viðeigandi og geri nauðsynlegar ráðstafanir til að viðhalda jafnvægi á móti virði gerninga viðskiptavinar.
Verðbréfafyrirtæki skal ekki gera samninga við almenna fjárfesta um framsal eignarréttar yfir fjárhagslegri tryggingu í þeim tilgangi að tryggja eða vernda skuldir og skuldbindingar viðskiptavina.
8. gr. Ráðstafanir til að koma í veg fyrir óheimila notkun fjármálagerninga viðskiptavina.
Verðbréfafyrirtæki skal gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir óheimila notkun fjármálagerninga viðskiptavina fyrir eigin reikning sinn eða reikning annars aðila, s.s.:
- að gert sé samkomulag við viðskiptavini um hvaða ráðstafanir verðbréfafyrirtækið skuli gera ef viðskiptavinurinn hefur ekki nægilega mikið til ráðstöfunar á reikningi sínum á uppgjörsdegi, s.s. að fá að láni samsvarandi verðbréf fyrir hönd viðskiptavinarins eða loka stöðunni,
- að verðbréfafyrirtækið fylgist náið með áætlaðri getu sinni til afhendingar á uppgjörsdegi og geri ráðstafanir til úrbóta sé sú geta ekki fyrir hendi, og
- að haft sé náið eftirlit með og skjótt sé óskað eftir útistandandi verðbréfum sem ekki hafa verið afhent á uppgjörsdegi eða síðar.
9. gr. Óviðeigandi notkun samninga um framsal eignarréttar yfir fjárhagslegri tryggingu.
Verðbréfafyrirtæki skal meta, og geta sýnt fram á að það hafi metið, á tilhlýðilegan hátt hvernig það notar samninga um framsal eignarréttar yfir fjárhagslegri tryggingu með tilliti til sambandsins milli skyldna viðskiptavinarins gagnvart fyrirtækinu og eigna viðskiptavinarins sem lúta samningum fyrirtækisins um framsal eignarréttar yfir fjárhagslegri tryggingu.
Við mat og skrásetningu á því hvort notkun samninga um framsal eignarréttar yfir fjárhagslegri tryggingu er heppileg skal verðbréfafyrirtæki taka tillit til allra eftirfarandi þátta:
- hvort aðeins séu mjög veik tengsl milli skyldu viðskiptavinarins gagnvart fyrirtækinu og notkunar samninga um framsal eignarréttar yfir fjárhagslegri tryggingu, þ.m.t. hvort líkur á lagalegri ábyrgð viðskiptavinarins gagnvart fyrirtækinu séu litlar eða óverulegar,
- hvort virði fjármuna eða fjármálagerninga viðskiptavina sem lúta samningum um framsal eignarréttar yfir fjárhagslegri tryggingu sé langt umfram skyldu viðskiptavinarins, eða sé jafnvel ótakmarkað ef viðskiptavinurinn hefur einhverja skyldu gagnvart fyrirtækinu, og
- hvort allir fjármálagerningar eða fjármunir viðskiptavina séu látnir lúta samningum um framsal eignarréttar yfir fjárhagslegri tryggingu án þess að hugað sé að því hvaða skyldu hver viðskiptavinur hefur gagnvart fyrirtækinu.
Verðbréfafyrirtæki sem notar samninga um framsal eignarréttar yfir fjárhagslegri tryggingu skal vekja athygli fagfjárfesta og viðurkenndra gagnaðila á þeirri áhættu sem þetta felur í sér og áhrifum samninga um framsal eignarréttar yfir fjárhagslegri tryggingu á fjármálagerninga og fjármuni viðskiptavinarins.
10. gr. Fyrirkomulag stjórnarhátta í tengslum við vernd eigna viðskiptavinar.
Verðbréfafyrirtæki skal skipa einn starfsmann með fullnægjandi hæfni og vald sem ber sérstaka ábyrgð á málum sem tengjast því að fyrirtækið uppfylli skyldur sínar í tengslum við vernd fjármálagerninga og fjármuna viðskiptavina. Verðbréfafyrirtæki skal ákveða hvort starfsmaðurinn skuli sinna þessu verkefni eingöngu eða samhliða öðrum skyldum sínum.
11. gr. Skýrslur ytri endurskoðenda.
Verðbréfafyrirtæki skal tryggja að ytri endurskoðendur leggi minnst árlega fram skýrslu til lögbærs yfirvalds í heimaaðildarríki fyrirtækisins um hversu fullnægjandi fyrirkomulag fyrirtækisins samkvæmt þessum kafla er og skv. 24. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga.
III. KAFLI Kröfur um vöruþróunarferli.
12. gr. Almennt um vöruþróunarskyldur verðbréfafyrirtækja sem framleiða fjármálagerninga.
Verðbréfafyrirtæki skal við framleiðslu fjármálagerninga, þ.m.t. þegar þeir eru búnir til, þróaðir, gefnir út eða hannaðir, fara að ákvæðum 12.-18. gr. Verðbréfafyrirtæki sem framleiðir fjármálagerninga skal, á viðeigandi og hæfilegan hátt, fara að kröfum 12.-18. gr, að teknu tilliti til eðlis fjármálagerningsins, fjárfestingarþjónustunnar og markhóps afurðarinnar.
Verðbréfafyrirtæki skal meta hvort fjármálagerningurinn geti ógnað eðlilegri virkni eða stöðugleika fjármálamarkaða áður en það ákveður að setja afurðina á markað.
13. gr. Hagsmunaárekstrar.
Verðbréfafyrirtæki skal koma á, hrinda í framkvæmd og viðhalda verkferlum og ráðstöfunum sem tryggja að framleiðsla fjármálagerninga fullnægi kröfum um viðhlítandi meðferð hagsmunaárekstra, að starfskjörum meðtöldum. Einkum skal verðbréfafyrirtæki sem framleiðir fjármálagerninga tryggja að tilhögun fjármálagerninga, þ.m.t. eiginleikar þeirra, hafi hvorki neikvæð áhrif á endanlega viðskiptavini né leiði til vandamála í tengslum við heilleika markaða, með því að gera fyrirtækinu kleift að draga úr og/eða losa sig við eigin áhættu eða áhættuskuldbindingu vegna undirliggjandi eigna afurðarinnar, ef verðbréfafyrirtækið geymir hinar undirliggjandi eignir nú þegar á eigin reikningi.
Verðbréfafyrirtæki skal greina mögulega hagsmunaárekstra í hvert sinn sem fjármálagerningur er framleiddur. Einkum skal fyrirtæki meta hvort fjármálagerningurinn skapar aðstæður þar sem endanlegir viðskiptavinir kunna að verða fyrir neikvæðum áhrifum ef þeir taka á sig:
- áhættuskuldbindingu sem er gagnstæð þeirri sem fyrirtækið sjálft var áður með, eða
- áhættuskuldbindingu sem er gagnstæð þeirri sem fyrirtækið vill hafa eftir sölu afurðarinnar.
14. gr. Kröfur um sérfræðiþekkingu starfsfólks framleiðanda.
Verðbréfafyrirtæki skal tryggja að viðkomandi starfsfólk sem kemur að framleiðslu fjármálagerninga búi yfir nauðsynlegri sérfræðiþekkingu til að skilja eiginleika og áhættuþætti þeirra fjármálagerninga sem það hyggst framleiða.
15. gr. Eftirlit stjórnar, framkvæmdastjóra og regluvörslu framleiðanda.
Verðbréfafyrirtæki skal tryggja að stjórn og framkvæmdastjóri fyrirtækisins hafi skilvirkt eftirlit með vöruþróunarferli þess. Verðbréfafyrirtæki skal tryggja að hlítingarskýrslur til stjórnar hafi að geyma með kerfisbundnum hætti upplýsingar um þá fjármálagerninga sem fyrirtækið framleiðir, þ.m.t. um dreifingaráætlun. Verðbréfafyrirtæki skal veita Fjármálaeftirlitinu aðgang að þessum skýrslum sé þess óskað.
Verðbréfafyrirtæki skal tryggja að regluvarsla hafi eftirlit með þróun og reglubundinni endurskoðun á fyrirkomulagi vöruþróunar til að verða þess vör ef fyrirtækið uppfyllir ekki þær skyldur sem tilgreindar eru í 12.-18. gr.
16. gr. Kröfur vegna samstarfs um framleiðslu eða dreifingu.
Verðbréfafyrirtæki sem starfar með öðrum aðilum að því að búa til, þróa, gefa út og/eða hanna afurð, þ.m.t. aðilum sem hafa ekki starfsleyfi og eru ekki undir eftirliti samkvæmt lögum um markaði fyrir fjármálagerninga eða fyrirtækjum í þriðja landi, skal útlista gagnkvæmar skyldur þeirra í skriflegum samningi.
Verðbréfafyrirtæki sem framleiðir fjármálagerninga sem er dreift gegnum önnur verðbréfafyrirtæki skal ákvarða þær þarfir og eiginleika viðskiptavina sem afurðin samrýmist á grundvelli fræðilegrar þekkingar þeirra á og fyrri reynslu af fjármálagerningnum eða svipuðum fjármálagerningum, fjármálamörkuðunum og þörfum, eiginleikum og markmiðum mögulegra endanlegra viðskiptavina.
Verðbréfafyrirtæki skal tryggja að á meðal upplýsinga um fjármálagerning sem miðlað er til dreifingaraðila séu upplýsingar um viðeigandi leiðir til dreifingar á fjármálagerningnum, um vörusamþykktarferlið og um matið á markhópnum og að upplýsingarnar séu nógu vandaðar svo dreifingaraðilar geti skilið, mælt með eða selt fjármálagerninginn á réttan hátt.
Sjálfbærniþættir fjármálagernings skulu settir fram á gagnsæjan hátt og veita dreifingaraðilum viðeigandi upplýsingar svo þeir geti tekið tilhlýðilegt tillit til sjálfbærnitengdra markmiða viðskiptavina eða hugsanlegra viðskiptavina.
17. gr. Skylda framleiðanda til að skilgreina markhóp.
Verðbréfafyrirtæki skal tilgreina af nægilegri nákvæmni mögulegan markhóp hvers fjármálagernings og tiltaka þá tegund eða tegundir viðskiptavina sem hafa þarfir, eiginleika og markmið þ.m.t. hvers kyns sjálfbærnitengd markmið sem fjármálagerningurinn samrýmist. Hluti af þessu ferli er að fyrirtækið tilgreini þann hóp eða þá hópa viðskiptavina sem hafa þarfir, eiginleika og markmið sem fjármálagerningurinn samrýmist ekki nema þar sem fjármálagerningar taka tillit til sjálfbærniþátta. Starfi fleiri en eitt verðbréfafyrirtæki saman að framleiðslu fjármálagernings þarf aðeins að tilgreina einn markhóp.
Verðbréfafyrirtæki skal ákvarða hvort fjármálagerningur mætir tilgreindum þörfum, eiginleikum og markmiðum markhópsins, þ.m.t. með því að meta eftirfarandi þætti:
- hvort áhætta og ávöxtun fjármálagerningsins eru í samræmi við markhópinn, og
- hvort sjálfbærniþættir fjármálagernings eru í samræmi við markhópinn, þar sem við á
- hvort tilhögun fjármálagerningsins tekur mið af þáttum sem viðskiptavinurinn hefur hag af en ekki af viðskiptalíkani sem byggir á slæmri útkomu fyrir viðskiptavini til að vera arðbært.
Verðbréfafyrirtæki skal meta þá uppbyggingu gjalda sem áformuð er fyrir fjármálagerninginn, þ.m.t. eftirtalin atriði:
- hvort kostnaður og gjöld samræmast þörfum, markmiðum og eiginleikum markhópsins,
- hvort gjöldin grafa undan væntri ávöxtun fjármálagerningsins, s.s. ef kostnaðurinn eða gjöldin eru jafnhá og, hærri en eða eyða næstum öllu væntu skattahagræði sem tengist fjármálagerningnum, og
- hvort uppbygging gjalda fjármálagerningsins er nógu gagnsæ fyrir markhópinn, s.s. að hún feli ekki gjöld og ekki sé of flókið að skilja hana.
18. gr. Mat á áhættu og regluleg endurskoðun fjármálagerninga.
Verðbréfafyrirtæki skal gera sviðsmyndagreiningu á fjármálagerningum sínum sem feli í sér mat á þeirri hættu á slæmri útkomu fyrir endanlega viðskiptavini sem stafar af afurðinni og við hvaða aðstæður slík útkoma gæti orðið raunin. Verðbréfafyrirtæki skal meta fjármálagerninginn við neikvæðar aðstæður, þ.m.t. hvað myndi gerast t.d. ef:
- markaðsaðstæður versna,
- framleiðandi eða þriðji aðili sem kemur að framleiðslu og/eða virkni fjármálagerningsins lendir í fjárhagserfiðleikum eða annars konar mótaðilaáhætta raungerist,
- fjármálagerningurinn reynist ekki markaðsvænlegur, eða
- eftirspurn eftir fjármálagerningnum reynist mun meiri en áætlað var og veldur álagi á afkastagetu fyrirtækisins og/eða markaðinn með hinn undirliggjandi gerning.
Verðbréfafyrirtæki skal endurskoða reglulega þá fjármálagerninga sem það framleiðir og taka tillit til atburða sem gætu haft veruleg áhrif á mögulega áhættu fyrir skilgreindan markhóp. Verðbréfafyrirtæki skal meta hvort fjármálagerningurinn sé enn í samræmi við þarfir, eiginleika og markmið markhópsins þ.m.t. hvers kyns sjálfbærnitengd markmið og hvort honum sé dreift til markhópsins, eða hvort hann býðst viðskiptavinum með þarfir, einkenni og markmið sem fjármálagerningurinn samrýmist ekki nema þar sem fjármálagerningar taka tillit til sjálfbærniþátta.
Verðbréfafyrirtæki skal endurskoða fjármálagerninga áður en ráðist er í frekari útgáfu eða endurútgáfu ef það verður vart við atburð sem gæti haft veruleg áhrif á mögulega áhættu fyrir fjárfesta, og meta með reglulegu millibili hvort fjármálagerningurinn virki eins og til er ætlast þ.m.t. með tilliti til hvers kyns sjálfbærnitengdra markmiða. Verðbréfafyrirtæki skal ákveða hve reglulega það endurskoðar fjármálagerninga sína á grundvelli viðeigandi þátta, þ.m.t. þátta sem tengjast því hve flókinni eða nýstárlegri fjárfestingarstefnu er fylgt. Fyrirtækið skal einnig bera kennsl á afdrifaríka atburði sem myndu hafa áhrif á mögulega áhættu eða vænta ávöxtun fjármálagerningsins, s.s.:
- ef farið er yfir viðmiðunarmörk, sem hefur áhrif á ávöxtunarmynd fjármálagerningsins, eða
- í tengslum við gjaldþol tiltekinna útgefenda ef verðbréf eða tryggingar þeirra geta haft áhrif á ávöxtun fjármálagerningsins.
Verðbréfafyrirtæki skal, þegar slíkir atburðir eiga sér stað, gera viðeigandi ráðstafanir, sem geta falist í að:
- veita viðskiptavinum eða dreifingaraðilum fjármálagerningsins allar viðeigandi upplýsingar um atburðinn og áhrif hans á fjármálagerninginn ef verðbréfafyrirtækið hvorki býður fjármálagerninginn til kaups né selur hann beint til viðskiptavinanna,
- breyta vörusamþykktarferlinu,
- hætta frekari útgáfu fjármálagerningsins,
- breyta fjármálagerningnum til að koma í veg fyrir ósanngjarna samningsskilmála,
- meta hvort þær söluleiðir sem eru notaðar til að selja fjármálagerninginn séu viðeigandi ef fyrirtækið verður þess vart að fjármálagerningurinn er ekki seldur eins og gert var ráð fyrir,
- hafa samband við dreifingaraðila til að ræða breytingar á dreifingarferlinu,
- slíta sambandinu við dreifingaraðilann, eða
- upplýsa viðkomandi lögbært yfirvald.
19. gr. Almennar vöruþróunarskyldur dreifingaraðila.
Verðbréfafyrirtæki skal við ákvörðun þess úrvals fjármálagerninga sem það sjálft eða önnur fyrirtæki gefa út og þeirrar þjónustu sem það hyggst bjóða eða mæla með við viðskiptavini, uppfylla á viðeigandi og hæfilegan hátt viðkomandi kröfur sem mælt er fyrir í 18.-24. gr., að teknu tilliti til eðlis fjármálagerningsins, fjárfestingarþjónustunnar og markhóps afurðarinnar.
Verðbréfafyrirtæki skal einnig uppfylla kröfur laga um markaði fyrir fjármálagerninga þegar það býður eða mælir með fjármálagerningum sem framleiddir eru af aðilum sem falla ekki undir gildissvið þeirra laga. Það verðbréfafyrirtæki skal búa yfir skilvirku fyrirkomulagi sem tryggir að það fái nægilegar upplýsingar um slíka fjármálagerninga frá slíkum framleiðendum.
20. gr. Ákvörðun dreifingaraðila um markhóp, dreifingaráætlun, framboð fjárfestingarafurða og -þjónustu o.fl.
Verðbréfafyrirtæki skal ákvarða markhóp fyrir hvern fjármálagerning, jafnvel þótt framleiðandinn hafi ekki skilgreint markhópinn.
Verðbréfafyrirtæki skal hafa fullnægjandi fyrirkomulag til vöruþróunar til að tryggja að þær afurðir og sú þjónusta sem það hyggst bjóða eða mæla með séu samrýmanleg þörfum, eiginleikum og markmiðum tilgreinds markhóps og að fyrirhuguð dreifingaráætlun sé í samræmi við tilgreindan markhóp. Verðbréfafyrirtæki skal greina og meta aðstæður og þarfir þeirra viðskiptavina sem það hyggst leggja áherslu á, til að tryggja að hagsmunum viðskiptavina sé ekki stefnt í hættu vegna viðskiptalegs eða fjármögnunartengds þrýstings. Þetta ferli skal fela í sér að fyrirtækin tilgreini alla hópa viðskiptavina sem hafa þarfir, eiginleika og markmið sem afurðin eða þjónustan samrýmist ekki.
Verðbréfafyrirtæki skal fá upplýsingar frá framleiðendum sem falla undir lög um markaði fyrir fjármálagerninga til að öðlast nauðsynlegan skilning og þekkingu á þeim afurðum sem það hyggst mæla með eða selja, til að tryggja að þessum afurðum sé dreift í samræmi við þarfir, eiginleika og markmið skilgreinds markhóps.
Verðbréfafyrirtæki skal gera allar eðlilegar ráðstafanir til að tryggja að það fái fullnægjandi og áreiðanlegar upplýsingar frá framleiðendum sem falla ekki undir lög um markaði fyrir fjármálagerninga, til að tryggja að afurðunum sé dreift í samræmi við eiginleika, markmið og þarfir markhópsins. Séu viðeigandi upplýsingar ekki aðgengilegar opinberlega skal dreifingaraðilinn gera allar eðlilegar ráðstafanir til að afla slíkra viðeigandi upplýsinga frá framleiðandanum eða umboðsaðila hans. Viðunandi upplýsingar sem eru aðgengilegar opinberlega eru upplýsingar sem eru skýrar, áreiðanlegar og samdar til að uppfylla kröfur samkvæmt reglum, s.s. upplýsingakröfur samkvæmt lögum um upplýsingaskyldu útgefanda verðbréfa og flöggunarskyldu og lögum um lýsingu verðbréfa sem boðin eru í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði. Þessi skylda á við um afurðir sem eru seldar á frum- og eftirmarkaði og skal gilda á hæfilegan hátt eftir því að hvaða marki er unnt að nálgast upplýsingar sem eru aðgengilegar öllum og hve flókin afurðin er. Verðbréfafyrirtæki skal nota upplýsingar sem aflað er frá framleiðendum og upplýsingar um eigin viðskiptavini til að skilgreina markhópinn og dreifingaráætlunina. Komi verðbréfafyrirtæki fram bæði sem framleiðandi og dreifingaraðili nægir eitt mat á markhópi.
Verðbréfafyrirtæki skal við ákvörðun þess úrvals fjármálagerninga og þjónustu sem það býður eða mælir með og viðkomandi markhópa, viðhalda verkferlum og ráðstöfunum til að tryggja að allar viðeigandi kröfur laga um markaði fyrir fjármálagerninga séu uppfylltar, þ.m.t. þær sem tengjast upplýsingagjöf, mati á hæfi eða tilhlýðileika, hvötum og tilhlýðilegri stýringu hagsmunaárekstra. Í þessu samhengi skal sýna sérstaka aðgát þegar dreifingaraðilar hyggjast bjóða eða mæla með nýjum afurðum eða þegar um er að ræða mismunandi afbrigði af þjónustunni sem þeir bjóða upp á.
Verðbréfafyrirtæki skal endurskoða reglulega og uppfæra fyrirkomulag vegna vöruþróunar til að tryggja að það sé áfram traust og þjóni vel tilgangi sínum og grípa til viðeigandi aðgerða ef nauðsyn krefur.
Verðbréfafyrirtæki skal endurskoða reglulega þær fjárfestingarafurðir sem það býður eða mælir með og þá þjónustu sem það býður, að teknu tilliti til allra atburða sem gætu haft veruleg áhrif á mögulega áhættu fyrir skilgreindan markhóp. Fyrirtækið skal a.m.k. meta hvort afurðin eða þjónustan samræmist enn þörfum, eiginleikum og markmiðum skilgreinds markhóps og hvort fyrirhuguð dreifingaráætlun sé enn viðeigandi. Fyrirtækið skal endurskoða markhópinn og/eða uppfæra fyrirkomulag vöruþróunar verði það þess vart að það hefur skilgreint markhóp tiltekinnar afurðar eða þjónustu á rangan hátt eða að afurðin eða þjónustan mæti ekki lengur aðstæðum skilgreinds markhóps, s.s. ef afurðin verður illseljanleg eða flöktir mikið vegna markaðsbreytinga.
21. gr. Upplýsingagjöf dreifingaraðila til framleiðenda.
Dreifingaraðili skal veita framleiðendum söluupplýsingar og, eftir því sem við á, upplýsingar um endurskoðun skv. 19.-22. gr., til stuðnings við endurskoðun afurða af hálfu framleiðanda.
22. gr. Kröfur um sérfræðiþekkingu starfsfólks dreifingaraðila.
Verðbréfafyrirtæki skal tryggja að viðkomandi starfsfólk búi yfir nauðsynlegri sérfræðiþekkingu til að skilja eiginleika og áhættu afurðanna sem það hyggst bjóða eða mæla með og þjónustunnar sem það veitir, sem og þarfir, eiginleika og markmið skilgreinds markhóps.
23. gr. Eftirlit stjórnar, framkvæmdastjóra og regluvörslu dreifingaraðila.
Verðbréfafyrirtæki skal tryggja að stjórn og framkvæmdastjóri fyrirtækisins hafi skilvirkt eftirlit með vöruþróunarferli þess til að ákvarða það úrval fjárfestingarafurða sem það býður eða mælir með og þá þjónustu sem veitt er viðkomandi markhópum. Verðbréfafyrirtæki skal tryggja að hlítingarskýrslur til stjórnar hafi að geyma með kerfisbundnum hætti upplýsingar um þær afurðir sem það býður eða mælir með og þjónustuna sem það veitir. Hlítingarskýrslur skulu gerðar aðgengilegar lögbærum yfirvöldum sé þess óskað.
Verðbréfafyrirtæki skal tryggja að regluvarsla hafi umsjón með þróun og reglubundinni endurskoðun á fyrirkomulagi vöruþróunar, til að koma auga á hættu á því að skyldur skv. 19.-24. gr. séu ekki uppfylltar.
24. gr. Ábyrgð þegar fyrirtæki starfa saman að dreifingu.
Starfi fyrirtæki saman að dreifingu afurðar eða þjónustu skal verðbréfafyrirtækið sem er í beinu viðskiptasambandi við viðskiptavininn bera endanlega ábyrgð á að uppfylla þær skyldur í tengslum við vöruþróunarferli sem tilgreindar eru í 19.-24. gr. Verðbréfafyrirtæki sem er milliliður skal þó:
- tryggja að viðeigandi upplýsingar um afurðina séu sendar frá framleiðandanum til endanlegs dreifingaraðila í keðjunni,
- gera framleiðandanum kleift að fá upplýsingar um afurðasölu óski hann þess til að uppfylla eigin vöruþróunarskyldur og
- beita vöruþróunarskyldunum sem gilda um framleiðendur, eins og við á, í tengslum við þá þjónustu sem það veitir.
IV. KAFLI Hvatar.
25. gr. Hvatar.
Verðbréfafyrirtæki sem greiðir eða fær greidda þóknun eða umboðslaun, eða lætur í té eða tekur við ófjárhagslegum ávinningi í tengslum við að veita viðskiptavini fjárfestingarþjónustu eða viðbótarþjónustu, skal tryggja að öll skilyrði þessarar greinar og 26. gr. og einnig 2.-4. mgr. 36. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga séu uppfyllt öllum stundum.
Þóknun, umboðslaun eða ófjárhagslegur ávinningur skal teljast efla gæði viðkomandi þjónustu við viðskiptavininn ef öll eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
-
hann er réttlætanlegur á grundvelli viðbótarþjónustu eða þjónustu á hærra stigi við viðkomandi viðskiptavin, í hlutfalli við móttekinn hvata, s.s.:
- fjárfestingarráðgjafar, sem er ekki óháð, um sem og aðgangs að miklu úrvali hentugra fjármálagerninga, þ.m.t. nægjanlegum fjölda gerninga frá þriðju aðilum sem hafa engin náin tengsl við verðbréfafyrirtækið,
- veittrar fjárfestingarráðgjafar, sem er ekki óháð, ásamt annaðhvort tilboði til viðskiptavinar um a.m.k. árlegt mat á hæfi fjármálagerninga sem viðskiptavinurinn hefur fjárfest í, eða annarri viðvarandi þjónustu sem er líkleg til að hafa virði fyrir viðskiptavininn, s.s. ráðgjöf um ákjósanlegustu eignadreifingu viðskiptavinarins, eða
- aðgangs, á samkeppnishæfu verði, að miklu úrvali fjármálagerninga sem eru líklegir til að uppfylla þarfir viðskiptavinarins, þ.m.t. nægjanlegum fjölda gerninga frá þriðju aðilum sem hafa engin náin tengsl við verðbréfafyrirtækið, ásamt annaðhvort því að útvega virðisaukandi tól, s.s. tól til að afla hlutlægra upplýsinga, sem hjálpa viðkomandi viðskiptavini að taka fjárfestingarákvarðanir eða gera honum kleift að fylgjast með, móta og stilla af það úrval fjármálagerninga sem hann hefur fjárfest í, eða sem veita reglulegar skýrslur um árangur, kostnað og gjöld í tengslum við fjármálagerningana,
- hann veitir viðtökufyrirtækinu, hluthöfum þess eða starfsfólki ekki ávinning með beinum hætti án áþreifanlegs ávinnings fyrir viðkomandi viðskiptavin, og
- hann er réttlættur með því að viðkomandi viðskiptavini er veittur viðvarandi ávinningur í tengslum við viðvarandi hvata.
Þóknun, umboðslaun eða ófjárhagslegur ávinningur skulu ekki teljast ásættanleg ef viðkomandi þjónusta við viðskiptavininn er hlutdræg eða afbökuð vegna þóknunarinnar, umboðslaunanna eða ófjárhagslega ávinningsins.
Verðbréfafyrirtæki skal uppfylla á viðvarandi grundvelli þær kröfur sem tilgreindar eru í 2.-3. mgr. svo lengi sem það lætur í té eða móttekur þóknunina, umboðslaunin eða ópeningalega ávinninginn.
Verðbréfafyrirtæki skal geyma gögn sem sýna fram á að allar þóknanir, umboðslaun eða ófjárhagslegur ávinningur sem fyrirtækið lætur í té eða móttekur hafi þann tilgang að bæta viðkomandi þjónustu við viðskiptavininn með því að:
- halda innri skrá yfir allar þóknanir, umboðslaun og ófjárhagslegan ávinning sem verðbréfafyrirtækið fær frá þriðja aðila í tengslum við veitingu fjárfestingar- eða viðbótarþjónustu, og
- skrá hvernig þóknanir, umboðslaun og ófjárhagslegur ávinningur sem verðbréfafyrirtækið lætur í té eða fær, eða sem það hyggst nota, bætir þjónustuna sem veitt er viðkomandi viðskiptavinum og hvaða ráðstafanir eru gerðar til að draga ekki úr hlítni við þá skyldu fyrirtækisins til að starfa heiðarlega, af sanngirni og faglega þannig að hagsmunum viðskiptavinarins sé þjónað sem best.
26. gr. Upplýsingar til viðskiptavina um hvata.
Í tengslum við allar greiðslur eða ávinning sem tekið er við frá þriðja aðila eða honum er látinn í té skal verðbréfafyrirtæki veita viðskiptavininum eftirfarandi upplýsingar:
- áður en viðkomandi fjárfestingar- eða viðbótarþjónusta er veitt skal verðbréfafyrirtækið veita viðskiptavininum upplýsingar um viðkomandi greiðslu eða ávinning í samræmi við 3. mgr. 36. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga. Minniháttar ófjárhagslegum ávinningi er heimilt að lýsa á almennan hátt. Annar ófjárhagslegur ávinningur sem verðbréfafyrirtæki fær eða greiðir í tengslum við fjárfestingarþjónustu við viðskiptavin skal verðlagður og upplýst um hann með aðskildum hætti,
- hafi verðbréfafyrirtæki verið ókleift að ákvarða fyrir fram fjárhæð greiðslu eða ávinnings sem er til viðtöku eða útgreiðslu, og þess í stað upplýst viðskiptavininn um aðferðina við útreikning þeirrar fjárhæðar, skal fyrirtækið einnig veita viðskiptavinum sínum upplýsingar eftir á um nákvæma fjárhæð greiðslunnar eða ávinningsins sem það tekur við eða innir af hendi, og
- a.m.k. einu sinni á ári, svo lengi sem verðbréfafyrirtækið tekur við (viðvarandi) hvata í tengslum við verðbréfaþjónustu sem er veitt viðkomandi viðskiptavinum, skal verðbréfafyrirtækið upplýsa hvern viðskiptavin sinn fyrir sig um raunverulega fjárhæð greiðslna eða ávinnings sem tekið er við eða innt eru af hendi. Minniháttar ófjárhagslegum ávinningi er heimilt að lýsa á almennan hátt.
Við framkvæmd þessara krafna skal verðbréfafyrirtæki taka tillit til reglna um kostnað og gjöld sem settar eru fram í 3. tölul. 2. mgr. 34. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga og í 50. gr. framseldrar reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/565, sbr. 3. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga.
Komi fleiri fyrirtæki að dreifileið skal hvert verðbréfafyrirtæki sem veitir fjárfestingar- eða viðbótarþjónustu uppfylla skyldur sínar um að veita viðskiptavinum sínum upplýsingar.
27. gr. Hvatar sem varða óháða fjárfestingarráðgjöf eða eignastýringarþjónustu.
Verðbréfafyrirtæki, sem veitir óháða fjárfestingarráðgjöf eða eignastýringarþjónustu, skal láta viðskiptavini í té allar þóknanir, umboðslaun og annan fjárhagslegan ávinning sem þriðji aðili, eða aðili sem kemur fram fyrir hönd þriðja aðila, greiðir eða veitir í tengslum við þjónustu við viðkomandi viðskiptavin eins fljótt og unnt er eftir móttöku. Allar þóknanir, umboðslaun og fjárhagslegur ávinningur sem tekið er við frá þriðja aðila í tengslum við óháða fjárfestingarráðgjöf og eignastýringu skulu renna að fullu til viðskiptavinarins.
Verðbréfafyrirtæki skal setja og innleiða stefnu til að tryggja að öllum þóknunum, umboðslaunum og fjárhagslegum ávinningi sem þriðji aðili, eða aðili sem kemur fram fyrir hönd þriðja aðila, greiðir eða veitir í tengslum við óháða fjárfestingarráðgjöf og stýringu eignasafna sé úthlutað til og látinn renna til hvers viðskiptavinar fyrir sig.
Verðbréfafyrirtæki skal upplýsa viðskiptavini um þóknanir, umboðslaun eða fjárhagslegan ávinning sem renna til þeirra, s.s. með reglulegum yfirlitum sem veitt eru viðskiptavinum.
Verðbréfafyrirtæki sem veitir óháða fjárfestingarráðgjöf eða eignastýringarþjónustu skal ekki taka við ófjárhagslegum ávinningi sem telst ekki ásættanlegur minniháttar ófjárhagslegur ávinningur í samræmi við 28. gr.
28. gr. Ásættanlegur minniháttar ófjárhagslegur ávinningur.
Ávinningur skal því aðeins teljast ásættanlegur minniháttar ófjárhagslegur ávinningur að hann sé á eftirfarandi formi:
- upplýsinga eða gagna sem tengjast fjármálagerningi eða fjárfestingarþjónustu sem eru almenns eðlis eða einstaklingsmiðuð til að endurspegla aðstæður staks viðskiptavinar,
- skriflegs efnis frá þriðja aðila sem er pantað og greitt fyrir af útgefanda sem er fyrirtæki eða mögulegum útgefanda til að kynna nýja útgáfu fyrirtækisins, eða þar sem þriðji aðili er ráðinn af útgefandanum sem greiðir fyrir að láta framleiða slíkt efni á viðvarandi grundvelli, að því tilskildu að upplýst sé um tengslin með skýrum hætti í efninu og að efnið sé samtímis gert aðgengilegt öllum verðbréfafyrirtækjum sem óska eftir því eða almenningi,
- þátttöku í ráðstefnum, málstofum og öðrum námskeiðum um ávinning af og eiginleika tiltekins fjármálagernings eða fjárfestingarþjónustu,
- risnu að verðmæti sem er eðlilegt og óverulegt, s.s. matar og drykkjar á viðskiptafundi eða ráðstefnu, málstofu eða annars konar námskeiði sem getið er um í c-lið eða
- annars minniháttar ófjárhagslegs ávinnings sem talinn er geta bætt þjónustu sem veitt er viðskiptavini og er slíkur að umfangi og þess eðlis, með hliðsjón af þeim heildarávinningi sem einn aðili eða hópur aðila veitir, að ólíklegt sé að hann dragi úr hlítni við þá skyldu verðbréfafyrirtækisins að þjóna hagsmunum viðskiptavinarins sem best.
Til að teljast ásættanlegur og minniháttar skal ófjárhagslegur ávinningur vera eðlilegur og hæfilegur og í slíku umfangi að ólíklegt sé að hann hafi áhrif á hegðun verðbréfafyrirtækisins á nokkurn þann hátt sem getur skaðað hagsmuni viðkomandi viðskiptavinar.
Birta skal upplýsingar um minniháttar ófjárhagslegan ávinning áður en viðkomandi fjárfestingar- eða viðbótarþjónusta er veitt. Í samræmi við a-lið 6. mgr. 26. gr. er heimilt að lýsa minniháttar ófjárhagslegum ávinningi á almennan hátt.
29. gr. Hvatar í tengslum við greiningar.
Greiningar þriðju aðila fyrir verðbréfafyrirtæki sem veitir viðskiptavinum þjónustu á sviði eignastýringar eða annarrar fjárfestingar- eða viðbótarþjónustu skulu ekki teljast hvati ef greitt er fyrir þær með öðru af eftirtöldu:
- beinum greiðslum verðbréfafyrirtækisins af eigin fjármunum,
-
greiðslum af sérstökum greiningareikningi undir stjórn verðbréfafyrirtækisins, að því tilskildu að eftirfarandi skilyrði í tengslum við rekstur reikningsins séu uppfyllt:
- hann sé fjármagnaður með sérstöku greiningargjaldi frá viðskiptavinum,
- að verðbréfafyrirtækið ákveði og meti reglulega fjárveitingu til greininga, sem er hluti af því að stofna greiningareikning og semja um greiningargjaldið við viðskiptavini sína,
- verðbréfafyrirtækið beri ábyrgð á greiningareikningnum, og
- verðbréfafyrirtækið meti reglulega gæði keyptrar greiningarvinnu á grundvelli traustra gæðaviðmiða og þess að hvaða marki hún stuðlar að betri fjárfestingarákvörðunum.
30. gr. Upplýsingagjöf um greiðslur til viðskiptavina og lögbærra yfirvalda vegna greininga.
Að því er varðar iv-lið b-liðar 29. gr. skal verðbréfafyrirtæki tilgreina alla nauðsynlega þætti í skriflegri stefnu og afhenda hana viðskiptavinum sínum. Hún skal einnig fjalla um að hvaða marki greiningar sem keyptar eru gegnum greiningareikninginn geta nýst eignasöfnum viðskiptavina, þ.m.t. ef við á, með því að taka mið af fjárfestingaráætlunum sem eiga við um mismunandi tegundir eignasafna, og nálgun fyrirtækisins við að úthluta slíkum kostnaði á sanngjarnan hátt á mismunandi eignasöfn viðskiptavina.
Að því er varðar b-lið 29. gr. skal verðbréfafyrirtæki sem nýtir sér greiningareikning veita viðskiptavinum sínum eftirfarandi upplýsingar:
- áður en viðskiptavinum er veitt fjárfestingarþjónusta, upplýsingar um fjárhæðina sem ráðstafað er til greininga og fjárhæð áætlaðs greiningargjalds fyrir hvern þeirra,
- árlegar upplýsingar um heildarkostnað hvers og eins viðskiptavinar vegna greininga frá þriðja aðila.
Haldi verðbréfafyrirtæki úti greiningareikningi skal því skylt að veita, að ósk viðskiptavina sinna eða lögbærra yfirvalda, samantekt yfir þá þjónustuaðila sem fengið hafa greiðslur af þeim reikningi, heildarfjárhæð greiðslna til þeirra á skilgreindu tímabili, ávinninginn og þjónustuna sem verðbréfafyrirtækið fékk og samanburð á heildarfjárhæðinni sem greidd var af reikningnum og fjárveitingunni sem fyrirtækið ákveður fyrir það tímabil, þannig að getið sé allra endurgreiðslna og flutnings fjárheimilda milli tímabila ef afgangsfjármunir eru á reikningnum. Að því er varðar i-lið b-liðar 29. gr. skal hið sérstaka greiningargjald:
- aðeins byggjast á fjárveitingu til greiningarvinnu sem verðbréfafyrirtækið ákveður til að ákvarða þörfina fyrir greiningar þriðja aðila í tengslum við fjárfestingarþjónustu sem það veitir viðskiptavinum sínum, og
- ekki vera tengt magni og/eða virði viðskipta sem framkvæmd eru fyrir hönd viðskiptavinanna.
31. gr. Samkomulag um greiningargjald og gjald fyrir framkvæmd viðskipta.
Verðbréfafyrirtæki skal gera samkomulag við viðskiptavini um greiningargjald, með samningi fyrirtækisins um stýringu fjárfestinga eða almennum viðskiptaskilmálum, í samræmi við fjárveitingu fyrirtækisins og hve oft á ári sérstaka greiningargjaldið verður dregið af viðskiptavininum. Fjárveiting til greininga skal aðeins aukin að lokinni skýrri upplýsingagjöf til viðskiptavina um slíkar fyrirhugaðar hækkanir. Sé afgangur á greiningareikningnum í lok tímabils ætti fyrirtækið að búa yfir ferli til að endurgreiða viðskiptavininum þá fjármuni eða jafna afganginn á móti fjárveitingunni til greininga og greiðslunni sem reiknuð er út fyrir næsta tímabil.
Sé greiningargjald viðskiptavina ekki innheimt sérstaklega heldur er það innheimt ásamt viðskiptaþóknun, skal allt innheimtufyrirkomulag bera með sér aðgreinanlegt greiningargjald og uppfylla að fullu þau skilyrði sem fram koma í b-lið 29. gr. og 2. mgr. 30. gr.
Heildarfjárhæð innheimtra greiningargjalda skal ekki vera hærri en fjárveitingin til greininga.
Verðbréfafyrirtæki sem veitir þjónustu við framkvæmd viðskipta skal tilgreina sérstök gjöld fyrir þá þjónustu sem endurspegla eingöngu kostnaðinn af því að framkvæma viðskiptin. Annar ávinningur eða þjónusta sem sama verðbréfafyrirtæki veitir verðbréfafyrirtækjum með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins skulu falla undir sérstakt aðgreinanlegt gjald. Fjárhæð greiðslna fyrir framkvæmd viðskipta skal ekki hafa áhrif á eða skilyrða framboð eða gjald fyrir slíkan ávinning eða þjónustu.
32. gr. Framkvæmd greiðslna fyrir greiningarvinnu.
Að því er varðar ii-lið b-liðar 29. gr. skal verðbréfafyrirtækið eitt stýra fjárveitingunni til greininga og byggja hana á eðlilegu mati á þörfinni fyrir greiningar þriðju aðila. Úthlutun af fjárveitingunni til kaupa á greiningum þriðju aðila skal lúta viðeigandi stjórntækjum og yfirumsjón æðstu stjórnenda svo tryggt sé að henni sé stýrt og hún notuð með hagsmuni viðskiptavina fyrirtækisins að leiðarljósi. Þessi stjórntæki skulu fela í sér skýra endurskoðunarslóð greiðslna til greiningaraðila og þess hvernig fjárhæðir greiðslna voru ákvarðaðar, með hliðsjón af þeim gæðaviðmiðum sem um getur í iv-lið b-liðar 29. gr. Verðbréfafyrirtæki skal ekki nota fjárveitingu til greininga og greiningareikninginn til að fjármagna innri greiningar.
Að því er varðar iii-lið b-liðar 29. gr. er verðbréfafyrirtækinu heimilt að fela þriðja aðila umsjón greiningareiknings, að því tilskildu að fyrirkomulagið auðveldi kaup á greiningum þriðju aðila og greiðslur til greiningaraðila í nafni verðbréfafyrirtækisins án ótilhlýðilegra tafa í samræmi við fyrirmæli verðbréfafyrirtækisins.
33. gr. Lögleiðing.
Reglugerð þessi er sett með stoð í 22., 24., 35. og 36. gr. laga nr. 115/2021, um markaði fyrir fjármálagerninga.
Reglugerðin felur í sér innleiðingu á framseldri tilskipun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/593 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/65/ESB að því er varðar að vernda fjármálagerninga og fjármuni í eigu viðskiptavina, afurðastýringarskyldur og reglurnar sem gilda um veitingu eða móttöku þóknana, umboðslauna eða hvers konar peningalegs eða ópeningalegs ávinnings. Tilskipun 2017/593/ESB var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 85/2019 sem birt var 31. október 2019 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 88/2019. Tilskipun 2014/65/ESB var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 78/2019 sem birt var 31. október 2019 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 88/2019.
Jafnframt felur reglugerðin í sér innleiðingu á framseldri tilskipun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/1269 um breytingu á framseldri tilskipun (ESB) 2017/593 að því er varðar samþættingu sjálfbærniþátta í afurðastýringarskyldur. Tilskipunin var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 249/2022.
34. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi öðlast þegar gildi. Við gildistöku reglugerðar þessarar fellur úr gildi reglugerð nr. 995/2007 um fjárfestavernd og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja, með síðari breytingum.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.