Fara beint í efnið

Prentað þann 22. des. 2024

Eldri útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 17. júní 2021 – 13. okt. 2021 Sjá núgildandi

745/2016

Reglugerð um vigtun og skráningu sjávarafla.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um vigtun og skráningu alls afla sem landað er hér á landi án tillits til þess hvar hann er veiddur.

Öllum afla, sem íslensk skip veiða úr stofnum sem að hluta eða öllu leyti halda sig í efnahagslögsögu Íslands, skal landað innanlands og hann veginn í íslenskri höfn.

2. gr.

Skipstjóri fiskiskips ber ábyrgð á að afli skipsins sé veginn samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar. Skipstjóra er skylt að halda afla um borð í skipi sínu aðgreindum eftir tegundum. Verði því ekki viðkomið vegna smæðar báts skal afli aðgreindur eftir tegundum við löndun. Meðafli við veiðar á uppsjávarfiski skal ákvarðaður af vigtunarleyfishafa sem er móttakandi afla.

Afli skal skráður til aflamarks á veiðiskip. Óheimilt er að flytja afla milli skipa, nema kveðið sé á um annað í reglugerð.

3. gr.

Ökumaður flutningstækis sem flytur afla skal fá afrit af vigtarnótu og afhenda viðtakanda afla. Ökumanni er óheimilt að flytja afla fyrr en hann hefur fengið vigtarnótu afhenta.

4. gr.

Um almennt og sérstakt hæfi löggiltra vigtarmanna skal fara að 2. mgr. 27. gr. laga nr. 91/2006 um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn, sbr. reglur nr. 650/2007, um almennt og sérstakt hæfi löggiltra vigtarmanna.

5. gr.

Afli skal veginn í því ástandi sem hann er í við löndun. Þó er heimilt að vigta þorsk, ýsu og ufsa eftir slægingu í landi enda sé farið að ákvæðum IV. kafla reglugerðar þessarar.

Fiskistofu er heimilt að framkvæma sérstaka athugun á íshlutfalli afla vegna eftirlits og getur stofnunin ákveðið að sú mæling verði lögð til grundvallar við aflaskráningu.

6. gr.

Fiskistofu er heimilt að veita einkaaðilum leyfi til vigtunar sjávarafla í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar. Skilyrði leyfisveitingar er að eftirlitsmenn Fiskistofu hafi óhindrað aðgengi að aðstöðu þar sem vigtun afla fer fram og skal stofnuninni afhentur lyklakóði sem tryggir aðgengi.

Aðilum sem fengið hafa leyfi til vigtunar sjávarafla er skylt að vigta afla sem móttekinn er, í samræmi við útgefið leyfi.

I. KAFLI Vigtun á hafnarvog.

7. gr.

Allur afli skal veginn á hafnarvog í löndunarhöfn þegar við löndun aflans og skal vigtun afla vera lokið innan tveggja klukkustunda frá því að löndun lauk. Skal við vigtunina nota löggilta vog í eigu viðkomandi hafnar. Vigtun skal framkvæmd af starfsmanni hafnar sem hlotið hefur til þess löggildingu.

Sé hafnarvog ekki í viðkomandi verstöð eða ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi getur Fiskistofa leyft vigtun með öðrum hætti, séu skilyrði sem sett eru í III. kafla eða VI. kafla uppfyllt.

8. gr.

Allur afli skal veginn í ílátum með ís. Hver tegund skal vegin sérstaklega. Löggiltur vigtarmaður á hafnarvog skal skrá á vigtarnótu tegund, fjölda og áætlaða þyngd íláta og draga frá vegnum afla. Vigtarmanni er einnig heimilt að draga allt að 3% frá vegnum afla vegna áætlaðs íss í afla eftir að hafa gengið úr skugga um að aflinn sé ísaður.

Vigtarmanni er heimilt að draga 0,6% frá óunnum ofurkældum (íslausum) afla sem veginn er á hafnarvog vegna vökvafrádrags (e. drips).

Vigtarmanni er heimilt að draga frá 12% þegar kælt er með flöguís eða 7% þegar kælt er með ísþykkni af óunnum afla sem veginn er á hafnarvog frágenginn til útflutnings, beint í flutningsfar. Skipstjóri skal tryggja að upplýsingar um kælimiðil berist til löndunarhafnar áður en afli er vigtaður og skráður. Komi í ljós við eftirlit Fiskistofu verulegt frávik frá íshlutfalli í afla skips skal vigta afla skipsins skv. 1. mgr. eða 1. mgr. 11. gr. í næstu 8 vikur. Ef ítrekuð veruleg frávik eru frá tilkynntu íshlutfalli í afla skips skal vigta afla skipsins skv. 1. mgr. og 1. mgr. 11. gr. næstu 16 vikur.

Frádráttur vegna íss skal tilgreindur á vigtarnótu.

9. gr.

Ökumaður flutningstækis skal láta vigta hverja tegund sérstaklega. Skal hann kynna sér aflasamsetningu farms sem hann flytur, og gefa vigtarmanni réttar upplýsingar þar um og gæta þess að upplýsingar á vigtarnótu gefi rétta mynd af farminum. Jafnframt skal ökumaður gefa vigtarmanni upplýsingar um viðtakanda afla.

10. gr.

Löggiltur vigtarmaður sem jafnframt er starfsmaður hafnar og vigtar aflann, gefur út og undirritar vigtarnótu þar sem eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram:

  1. Nafn skips og skrásetningarnúmer ásamt umdæmisnúmeri.
  2. Löndunarhöfn og löndunardagur.
  3. Nafn seljanda, kaupanda og viðtakanda afla eða eftir atvikum fiskmarkaðar.
  4. Vegið aflamagn, sundurliðað eftir tegundum.
  5. Undirmálsafli.
  6. Fjöldi íláta, gerð og þungi (t.d. kör, kassar, tunnur).
  7. Veiðarfæri.
  8. Sé um að ræða bretti eða palla sem ílátin eru flutt á skal gera grein fyrir fjölda þeirra.
  9. Skrásetningarnúmer flutningstækis og eiginþyngd samkvæmt skráningu í ökutækjaskrá.
  10. Tilgreina skal hvort afli fari til endurvigtunar.
  11. Tilgreina skal hvort óslægður afli, sbr. 5. gr., verði veginn eftir slægingu eða umreiknist í slægðan afla samkvæmt slægingarstuðli sem útgefinn er af ráðuneytinu.

Upplýsingar samkvæmt vigtarnótu skal hafnarvigtarmaður ávallt skrá í aflaskráningarkerfi Fiskistofu án ástæðulauss dráttar.

II. KAFLI Endurvigtun.

11. gr.

Heimilt er Fiskistofu að veita leyfi til að ísaður afli sem vigtaður hefur verið á hafnarvog sé endurvigtaður. Leyfi til endurvigtunar er veitt til heilvigtunar og úrtaksvigtunar afla svo sem nánar er kveðið á um í reglugerð þessari.

Leyfi til endurvigtunar skal bundið við nafn og kennitölu umsækjanda og veitir vigtunarleyfishafa rétt til endurvigtunar sjávarafla í því húsnæði sem tilgreint er í leyfisbréfi og með þeim skilyrðum sem þar er kveðið á um. Leyfið gildir til allt að þriggja ára.

Taki nýr rekstraraðili við rekstri fyrirtækis sem hefur endurvigtunarleyfi skal sá aðili þegar í stað sækja um leyfi til endurvigtunar afla. Á meðan umsókn er til meðferðar hjá stjórnvöldum gildir fyrra leyfi.

12. gr.

Aðili sem óskar eftir leyfi til að vigta afla skal senda skriflega umsókn til Fiskistofu og skal Fiskistofa taka ákvörðun um leyfisveitingu eftir að hafa leitað álits viðkomandi hafnaryfirvalda.

Í umsókninni skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram:

  1. Nafn og kennitala umsækjanda.
  2. Starfsemi umsækjanda.
  3. Staðsetning vinnsluhúss sem vigtun fer fram í.
  4. Nöfn þeirra löggiltu vigtarmanna sem munu vigta aflann og upplýsingar um hvenær þeir hlutu löggildingu. Þá komi fram hjá hverjum hinn löggilti vigtarmaður starfi.
  5. Rekstrarform fyrirtækisins og nöfn aðaleigenda.
  6. Vinnsluleyfisnúmer.
  7. Gerð leyfis sem óskað er eftir þar sem tilgreind er framkvæmd vigtunar á hverri fisktegund og eftir atvikum aðferð við úrtaksvigtun.

Með umsókn skal fylgja nákvæm greinargerð um hvernig staðið verði að vigtun og skráningu afla, hvers konar vogir verði notaðar og hvenær þær voru löggiltar. Þar skal gerð grein fyrir því hvernig niðurstöður vigtunar verða notaðar í viðskiptum með sjávarafla og hvernig rekjanleiki þessara upplýsinga verður tryggður.

Fiskistofa skal meta hvort búnaður umsækjanda sé með þeim hætti að unnt verði að fara í hvívetna að reglum sem gilda um vigtun sjávarafla. Uppfylli umsækjandi kröfur sem gerðar eru til vigtunarleyfishafa skal Fiskistofa gefa út leyfi til endurvigtunar afla. Fiskistofa skal tilkynna viðkomandi hafnaryfirvöldum um veitingu leyfa til endurvigtunar afla.

13. gr.

Búnaður til heilvigtunar skal vera með þeim hætti að til staðar sé sjálfvirk vog sem vigtar allan afla með samfelldum hætti.

14. gr.

Búnaður til úrtaksvigtunar skal vera með þeim hætti að vigtarmanni sé kleift að annast vigtun þess afla sem unninn er daglega hjá viðkomandi vigtunarleyfishafa. Fiskistofa skal meta hvort búnaður og aðrar aðstæður hjá umsækjanda séu fullnægjandi og skal í því sambandi m.a. líta til ísskiljubúnaðar, fjölda starfsmanna sem annast vigtun og hvort nægilegt rými sé til vigtunar.

15. gr.

Við heilvigtun skal allur afli veginn. Heimilt er að heilvigta fisk eftir hausun og skal vigta búka og hausa sérstaklega.

Við úrtaksvigtun skal, í kjölfar brúttóvigtunar alls afla á hafnarvog, úrtak valið af handahófi þannig að það gefi sem réttasta mynd af aflanum og vigtun framkvæmd á þann veg að:

Vigtunarleyfishafi skal ávallt beita sömu aðferð við vigtun úrtaks. Það á þó ekki við um fiskmarkaði.

þegar hvert kar hefur verið brúttóvigtað skal afli í tilteknum fjölda íláta vigtaður í samræmi við 4. gr. auglýsingar nr. 213/2010 um reglur um lágmarksúrtak og framkvæmd vigtunar við úrtaksvigtun.

Vigtunarleyfishafi skal ávallt beita sömu aðferð við vigtun úrtaks.

Vigtun afla skal framkvæmd af vigtarmanni sem hlotið hefur löggildingu til vigtunar og notuð skal löggilt vog.

Löggiltur vigtarmaður sem jafnframt er starfsmaður löndunarhafnar getur enn fremur annast endurvigtun afla, enda sé löggilt vog notuð. Löggiltur vigtarmaður sjálfstæðs vigtunarleyfishafa, sbr. VI. kafla, getur einnig annast endurvigtun afla hafi viðkomandi vigtunarleyfishafi annast vigtun aflans við löndun enda fari vigtun fram í húsnæði hans á löggiltri vog eða hjá aðila sem hefur leyfi til endurvigtunar.

16. gr.

Þegar afli er endurvigtaður skal það gert svo fljótt sem verða má og án ástæðulauss dráttar og þegar afla er landað óslægðum. Vigtarnóta skal send löndunarhöfn strax að vigtun lokinni. Vigtarnóta skal ávallt send til löndunarhafnar innan tveggja virkra daga frá löndun aflans þegar afli er úrtaksvigtaður og innan fimm virkra daga þegar afli er heilvigtaður. Vigtarnóta skal þó ávallt send til löndunarhafnar innan tveggja daga þegar afli er veginn eftir slægingu í landi.

Afla sem veginn hefur verið hjá endurvigtunarleyfishafa og fluttur er til kaupanda skal fylgja vigtarnóta þar sem fram koma þau atriði sem tilgreind eru í 17. gr. Vigtarnóta skal þó ávallt send til löndunarhafnar innan tveggja daga þegar afla er landað óslægðum.

17. gr.

Löggiltur vigtarmaður sem annast endurvigtun afla skal fylla út og undirrita vigtarnótu þar sem, auk þess sem segir í 10. gr., skal tilgreina eftirfarandi upplýsingar fyrir hverja tegund:

  1. Þegar um er að ræða heilvigtun:

    1. Heildarþunga fisks.
    2. Reiknað hlutfall íss í afla. (Brúttóafli, þ.e. afli og ís samkvæmt vigtun á hafnarvog, mínus nettóafli, þ.e. afli án íss við endurvigtun, margfaldað með 100, deilt með brúttóafla.)
    3. Niðurstöðu vigtunar á óslægðum afla eftir því sem við á, sbr. 25. gr.
  2. Þegar um er að ræða úrtaksvigtun A:

    1. Fjöldi og gerð íláta sem valin eru í úrtak.
    2. Fyrir hvert ílát sem valið er í úrtak skal tilgreina:

      1. þunga fisks í hverju íláti,
      2. þunga íss í hverju íláti,
      3. þunga íláts.
  3. Þegar um er að ræða úrtaksvigtun B:

    1. Niðurstaða brúttóvigtunar hvers kars.
    2. Fjöldi og gerð íláta sem valin eru í úrtak.
    3. Fyrir hvert ílát sem valið er í úrtak skal tilgreina:

      1. þunga fisks í hverju íláti,
      2. þunga íss í hverju íláti,
      3. þunga íláts.
    4. Reiknað hlutfall íss í afla. (Brúttóafli, þ.e. afli og ís samkvæmt vigtun á hafnarvog, mínus nettóafli, þ.e. afli án íss við endurvigtun, margfaldað með 100, deilt með brúttóafla.)

18. gr.

Endurvigtunarleyfishafa, sem hefur heimild til heilvigtunar, er heimilt að fara með afla sem ætlaður er til útflutnings samkvæmt reglum um úrtaksvigtun og skal sá hluti aflans brúttóvigtaður á hafnarvog.

III. KAFLI Heimavigtun.

19. gr.

Fiskistofu er heimilt að veita undanþágu frá vigtun á hafnarvog að uppfylltum skilyrðum kafla þessa enda verði til þess notuð sjálfvirk vog sem vigtar afla með samfelldum hætti. Auk þessa skal vigta hvern fisk sérstaklega þegar um er að ræða bolfisk. Heimilt er að vigta fisk eftir hausun og skal þá vigta hvern búk sérstaklega auk þess sem vigta ber hausa. Þá skal vigtunarbúnaður skrá og geyma upplýsingar um vigtaðan afla síðastliðna tólf mánuði. Að gættum ákvæðum þessarar málsgreinar er heimilt að veita leyfi til heimavigtunar á sjávargróðri með notkun ósjálfvirkrar vogar.

Leyfi til heimavigtunar skal bundið við nafn og kennitölu umsækjanda og veitir leyfið rétt til vigtunar sjávarafla í því húsnæði sem tilgreint er í leyfisbréfi og með þeim skilyrðum sem þar er kveðið er á um. Í leyfisbréfi skal koma fram hvort leyfið er til heimavigtunar á uppsjávarfiski eða botnfiski. Leyfið gildir til allt að tveggja ára.

Taki nýr rekstraraðili við rekstri fyrirtækis sem hefur heimavigtunarleyfi skal sá aðili þegar í stað sækja um nýtt leyfi til heimavigtunar afla. Á meðan umsókn er til meðferðar hjá stjórnvöldum gildir fyrra leyfi.

Leyfi til heimavigtunar veitir leyfishafa eingöngu heimild til vigtunar á afla sem fyrirhugað er að vinna á vigtunarstað eða seldur er á uppboði hjá fiskmarkaði. Fiskistofa skal tilkynna viðkomandi hafnaryfirvöldum um veitingu leyfa til heimavigtunar afla.

20. gr.

Heimavigtunarleyfi skal aðeins veitt að fenginni jákvæðri umsögn hafnaryfirvalda á viðkomandi löndunarstað. Heimavigtunarleyfi nær aðeins til vigtunar á afla sem landað er á tilteknum löndunarstað, sem tilgreindur er í leyfisbréfi sem Fiskistofa gefur út. Fiskistofa getur bundið heimavigtunarleyfi skilyrðum, s.s. varðandi tegundir og aðferð við vigtun. Heimavigtunarleyfi skal því aðeins veitt að veruleg vandkvæði séu á því að vega aflann á hafnarvog, eftirlit hafnar sé nægilegt og innra eftirlit fyrirtækisins traust auk þess sem vigtunarbúnaður sé löggiltur og vigtun framkvæmd af löggiltum vigtarmanni. Þá skal Fiskistofa meta hvort búnaður umsækjanda sé með þeim hætti að unnt verði að fara í hvívetna að reglum um vigtun sjávarafla. Aðili sem hefur heimavigtunarleyfi hefur jafnframt leyfi til endurvigtunar, sbr. II. kafla.

Í umsókn um heimavigtunarleyfi skal tilgreina þau atriði sem fram koma í 1.-7. tl. 12. gr. ásamt rökstuðningi fyrir umsókn um heimavigtunarleyfi.

Með umsókn skal fylgja nákvæm greinargerð um hvernig staðið verði að vigtun og skráningu afla, hvers konar vogir verði notaðar og hvenær þær voru löggiltar. Þar skal gerð grein fyrir hvernig niðurstöður vigtunar eru notaðar í viðskiptum með sjávarafla og hvernig rekjanleiki upplýsinga er tryggður.

Leyfi til heimavigtunar er veitt til heilvigtunar og úrtaksvigtunar afla og skal fara fram í samræmi við ákvæði II. kafla reglugerðar þessarar.

21. gr.

Heimavigtunarleyfi má veita vegna löndunar á uppsjávarfiski sem landað er með dælingu afla úr veiðiskipi beint til fiskvinnslu eða í hráefnisgeymslu.

Fiskistofa getur í samráði við viðkomandi löndunarhöfn bundið heimavigtunarleyfi því skilyrði að leyfishafi tryggi að tilkynningar um löndun og áætlaðan afla berist til löndunarhafnar áður en löndun hefst.

22. gr.

Leyfi til heimavigtunar á botnfiski er bundið þeim skilyrðum að leyfishafi tilkynni fyrirfram til hafnar um fyrirhugaða löndun og áætlaðan afla. Þessa er þó ekki þörf hafi skipstjóri þegar sent upplýsingar til löndunarhafnar um áætlað aflamagn flokkað eftir tegundum.

Heimavigtunarleyfishafa er heimilt að fara með afla sem ætlaður er til útflutnings samkvæmt reglum um úrtaksvigtun og skal sá hluti aflans brúttóvigtaður á hafnarvog.

23. gr.

Við heimavigtun afla skal við löndun botnfisks brúttóvigta allan afla og senda vigtarnótu, sbr. 10. gr. til löndunarhafnar án tafar. Þó er heimilt að senda einungis endanlega niðurstöðu vigtunar þegar vigtun farms er lokið innan 24 klukkustunda frá löndun og vigtarnóta er send til löndunarhafnar þegar í stað.

Heimavigtun afla skal framkvæmd af vigtarmanni sem hlotið hefur löggildingu til vigtunar og notuð skal löggilt vog.

Vigtarnóta skal send til viðkomandi löndunarhafnar undirrituð af þeim löggilta vigtarmanni sem sá um vigtunina þegar að vigtun lokinni. Vigtarnóta skal ávallt send til löndunarhafnar innan tveggja virkra daga frá löndun aflans þegar afli er úrtaksvigtaður og innan fimm virkra daga þegar afli er heilvigtaður. Vigtarnóta skal þó ávallt send innan tveggja daga þegar afla er landað óslægðum.

Á heimavigtunarnótu skal tilgreina sömu atriði og fram koma í 17. gr.

Afla sem veginn hefur verið hjá heimavigtunarleyfishafa og fluttur er til kaupanda skal fylgja vigtarnóta þar sem fram koma þau atriði sem tilgreind eru í 17. gr.

24. gr.

Senda skal Fiskistofu upplýsingar um magn afurða ásamt upplýsingum um nýtingarhlutfall viðkomandi afurða. Upplýsingarnar skal senda á því formi sem Fiskistofa ákveður eigi síðar en 15. hvers mánaðar, vegna afla sem unninn var undanfarinn mánuð.

IV. KAFLI Vigtun eftir slægingu í landi.

25. gr.

Fiskistofu er heimilt að veita vigtunarleyfishafa leyfi til að vigta þorsk, ýsu eða ufsa eftir slægingu í landi enda verði til þess notuð sjálfvirk vog sem vigtar allan afla með samfelldum hætti fyrir og eftir slægingu. Auk þess skal vigta hvern fisk sérstaklega. Vigtunarbúnaður skal skrá og geyma upplýsingar um vigtaðan afla síðastliðna tólf mánuði.

Löggiltur vigtarmaður sem annast vigtun aflans skal skrá á vigtarnótu, auk upplýsinga sem fram koma í 17. gr., upplýsingar um niðurstöðu vigtunar á óslægðum afla.

Vigtunarleyfishafa sem leyfi hefur til slægingar og vigtunar afla ber ávallt að slægja afla fyrir vigtun hans til skráningar. Það á þó ekki við um fiskmarkaði.

V. KAFLI Vigtun á fiskmarkaði.

26. gr.

Fiskistofu er heimilt að veita fiskmörkuðum leyfi til endurvigtunar afla, sbr. 11. gr. eða til heimavigtunar afla, sbr. 19. gr. og til vigtunar eftir slægingu í landi, sbr. 1. mgr. 25. gr.

Um umsókn um vigtunarleyfi til fiskmarkaða og veitingu leyfa vísast til ákvæða 12. gr., sbr. 20. gr. og 1. mgr. 25. gr. eftir atvikum.

27. gr.

Um vigtun afla á fiskmarkaði fer skv. ákvæðum II. og III. kafla reglugerðar þessarar um endurvigtun og heimavigtun eftir því sem við á. Vigtarnóta skal ávallt send til löndunarhafnar þegar að vigtun lokinni þó eigi síðar en innan tveggja virkra daga frá löndun aflans.

Fiskmarkaði sem heimild hefur til vigtunar afla eftir slægingu í landi ber að vigta afla í samræmi við upplýsingar á vigtarnótu, sbr. 10. gr., eða tilkynningu skipstjóra þegar um er að ræða heimavigtunarleyfishafa.

Afla sem veginn hefur verið á fiskmarkaði og fluttur er til kaupanda skal fylgja vigtarnóta þar sem fram koma þau atriði sem tilgreind eru í 17. gr.

VI. KAFLI Vigtun sjálfstæðs aðila.

28. gr.

Fiskistofa getur veitt sjálfstæðum aðilum heimild til að annast vigtun á afla við löndun enda sé hún undir eftirliti og á ábyrgð viðkomandi hafnaryfirvalda.

Leyfið skal bundið við nafn og kennitölu umsækjanda og veitir það vigtunarleyfishafa rétt í samræmi við ákvæði leyfisbréfs til vigtunar sjávarafla við löndun í tiltekinni höfn. Í umsókn skal tilgreina þau atriði sem koma fram í 1.-6. tl. 12. gr. og með umsókn skal fylgja yfirlýsing hafnaryfirvalda um heimild umsækjanda til vigtunar sjávarafla undir eftirliti og á ábyrgð hafnarinnar. Leyfið gildir til þriggja ára.

Skilyrði fyrir leyfisveitingu er að innra eftirlit vigtunaraðila sé traust, vigtunarbúnaður löggiltur og vigtun framkvæmd af löggiltum vigtarmanni.

29. gr.

Heimild til vigtunar afla í umboði hafnar skal aðeins veitt þeim sem ekki eiga beina eignaraðild að útgerðarfyrirtæki eða fiskvinnslu, né annast eða hafa milligöngu um sölu á afla og ekki hafa slíkra hagsmuna að gæta að draga megi óhlutdrægni þeirra í efa með réttu. Löggiltur vigtarmaður sem annast vigtun fyrir slíkan aðila skal uppfylla skilyrði um hæfi, sbr. 4. gr.

30. gr.

Vigtun afla sem framkvæmd er af sjálfstæðum aðila á grundvelli sérstaks vigtunarleyfis skal fara fram í samræmi við ákvæði I. kafla. Löggiltur vigtarmaður sem annast vigtun afla skal fylla út og undirrita vigtarnótu, sbr. 10. gr. og senda til viðkomandi hafnar án ástæðulauss dráttar.

VII. KAFLI Vigtun einstakra tegunda.

Vigtun á grásleppu.

31. gr.

Grásleppa skal vegin á hafnarvog samkvæmt ákvæðum 7. gr.

Við vigtun grásleppuhrogna skal brúttóvigta aflann og skrá fjölda tunna eða kara.

Við umreikning landaðra grásleppuhrogna í heila grásleppu til skráningar í aflaskráningarkerfi Fiskistofu skal að frádreginni þyngd íláta miða við margföldunarstuðulinn 3,4.

Vigtun á humri.

32. gr.

Humar skal veginn á hafnarvog skv. ákvæðum 7. gr.

Um vigtun á humri sem er vigtaður samkvæmt endurvigtunarleyfi gilda eftirfarandi ákvæði:

  1. Humri, sem kemur slitinn í land, skal hellt í sérbúna ísskilju, ísinn skal fleyttur ofan af og vatn látið síga af humarhölum áður en afli er veginn.
  2. Humar sem slitinn er í landi skal veginn að lokinni afísun áður en honum er pakkað.
  3. Heimilt er að vigta heilan humar í umbúðum þegar að lokinni pökkun. Einungis skal draga þyngd umbúða frá heildarþyngd.

Á vigtarnótu skulu koma fram þau atriði sem tilgreind eru í 17. gr. Um skil á vigtarnótu gilda ákvæði 16. gr.

Vigtun á hörpudiski.

33. gr.

Hörpudiskur skal veginn á hafnarvog skv. ákvæðum 7. gr. Um vigtun hörpudisks gilda að öðru leyti eftirfarandi reglur:

  1. Fari endanleg vigtun fram á hafnarvog er vigtarmanni heimilt að draga allt að 4% frá vegnum afla vegna áætlaðra aðskotahluta í aflanum. Þessi frádráttur skal koma fram á vigtarnótu og er því aðeins leyfður að vigtarmaður á hafnarvog staðfesti með áritun á vigtarnótu að aðskotahlutir hafi verið í aflanum við löndun.
  2. Sé aflinn endurvigtaður hjá endurvigtunarleyfishafa, skal það gert svo fljótt sem við verður komið og með eftirfarandi hætti:

    1. Löggiltur vigtarmaður sem annast skal vigtunina skal velja af handahófi og vigta úrtak sem nemur a.m.k. 0,5% af farmi. Við endurvigtunina skal úrtakið brúttóvigtað síðan skulu hrúðurkarlar, dauðar skeljar og aðrir aðskotahlutir hreinsaðir frá og úrtakið síðan vegið að nýju og þannig fundinn nettóþungi.
    2. Löggiltur vigtarmaður sem annast endurvigtun afla skal fylla út og undirrita vigtarnótu þar sem tilgreina skal eftirfarandi atriði:

      • Nafn skips, skrásetningarnúmer ásamt umdæmisnúmeri.
      • Veiðarfæri.
      • Löndunarhöfn og löndunardag.
      • Viðtakanda afla.
      • Fjölda íláta.
      • Brúttóafla á hafnarvog (afli og aðskotahlutir).
      • Brúttóþunga úrtaks.
      • Þunga hrúðurkarla.
      • Þunga annarra aðskotahluta.
      • Nettóþunga úrtaks.
      • Reiknað hlutfall hrúðurkarla og aðskotahluta í afla.

Nettóafla (brúttóafli samkvæmt hafnarvog að frádregnum hrúðurkörlum og öðrum aðskotahlutum í afla).

Vigtun á ísaðri rækju.

34. gr.

Ísuð rækja skal vegin á hafnarvog skv. ákvæðum 7. gr.

Um ísaða rækju sem vigtuð er samkvæmt endurvigtunarleyfi gildir eftirfarandi: Löggiltur vigtarmaður sem annast vigtunina skal velja úrtak í samræmi við reglur sem ráðuneytið setur um lágmarksúrtak við vigtun og láta það í sérbúna ísskilju. Hitastig vatns í ísskilju skal ekki vera yfir 15°C. Ísinn skal fleyttur ofan af og vatn látið síga af rækjunni í allt að tvær klukkustundir áður en rækjan er vegin.

Rækjufrystiskip.

35. gr.

Vega skal heildarafla af rækju sem er lausfryst í pokum eða fryst í blokkir á hafnarvog skv. 7. gr.

Aðila sem hefur endurvigtunarleyfi er heimilt að endurvigta frysta rækju og skal þá löggiltur vigtarmaður standa að vigtun í samræmi við reglur Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins frá 1. janúar 1990, um aðferð til ákvörðunar á nettóþyngd sjófrystrar rækju.

36. gr.

Forsoðin rækja sem fryst er í öskjur skal ávallt vegin skv. ákvæðum 7. gr. Vigtarmaður á hafnarvog skal draga þyngd umbúða frá vegnu aflamagni.

Hrárækja sem fryst er í öskjur skal ávallt vegin skv. ákvæðum 7. gr. Vigtarmaður á hafnarvog skal draga þyngd umbúða frá vegnu aflamagni. Frá þannig vegnu aflamagni frystrar hrárækju skal síðan draga 10% vegna vatns í afla.

Á vigtarnótu skal tilgreina þau atriði sem fram koma í 43. gr. eftir því sem við á.

37. gr.

Rækju sem veidd er vestan 26°00'V og norðan 65°30'N (á Dohrnbanka) skal haldið aðgreindri frá annarri rækju eða auðkennd og skal hún vegin sérstaklega. Sérstaklega skal getið um þann afla í tilkynningu til Fiskistofu skv. 40. gr.

Vigtun á uppsjávarfiski.

38. gr.

Vigtun uppsjávarfisks sem fer í hráefnisgeymslu fiskmjölsverksmiðju skal fara fram í samræmi við ákvæði 1. mgr. 19. gr. Vigtarnóta skal ávallt send til löndunarhafnar þegar að vigtun lokinni þó eigi síðar en innan tveggja virkra daga frá löndun aflans.

Vigtun uppsjávarfisks sem fer í vinnslu (frystingu eða söltun) skal fara fram í samræmi við ákvæði 1. mgr. 19. gr. Fiskistofu er heimilt að veita leyfi til vigtunar á pökkuðum afurðum. Vigtun á pökkuðum afurðum skal fara fram á löggiltri vog með eftirfarandi hætti fyrir hverja afurð:

  1. Raunþyngd eininga skal fundin með vigtun á úrtaki. Löggiltur vigtarmaður sem annast vigtunina skal velja af handahófi a.m.k. 5 einingar á klst. þegar vinnsla fer fram. Á hverjum sólarhring skal vigta a.m.k. 30 einingar en þó er ekki gerð krafa um vigtun á fleiri en 70 einingum af hverri vinnslulínu.
  2. Meðaltal vigtaðrar raunþyngdar eininga, að frádregnum umbúðaþunga, skal fundið og margfaldað með fjölda framleiddra eininga og skal niðurstaðan skráð á vigtarnótu.
  3. Allan afskurð, hausa, slóg og fráflokk skal vigta og niðurstaðan skráð á vigtarnótu.

39. gr.

Löggiltur vigtarmaður sem annast vigtun á uppsjávarfiski til vinnslu, sbr. 2. mgr. 38. gr., skal ganga frá og gefa út vigtarnótu þar sem eftirtalin atriði koma fram:

  1. Nafn skips og skrásetningarnúmer ásamt umdæmisnúmeri.
  2. Löndunarhöfn og löndunardagur.
  3. Viðtakandi afla.
  4. Fyrir hverja afurð komi eftirtaldar upplýsingar fram:

    1. Fjöldi framleiddra eininga.
    2. Fjöldi eininga í úrtaki.
    3. Heildarþungi úrtaks.
    4. Nettóþungi úrtaks (heildarþungi að frádregnum þunga bretta, umbúða og íss).
    5. Nettóþungi einingar (nettóþungi úrtaks deilt með fjölda eininga í úrtaki).
    6. Nettóþungi afurðar (nettóþungi einingar margfaldaður með heildarfjölda eininga).
  5. Nettóþungi afskurðar, hausa, slógs og fráflokks.

Vigtun á sjávargróðri.

39. gr. A

Við vigtun á þörungum (þangi og þara) í atvinnuskyni skal afli veginn (blautvigt) á hafnarvog, nema gefið sé heimavigtunarleyfi. Hagnýta skal aðra hvora eftirgreindra aðferða:

  1. Pokavigtun. Vigtun á pokum við löndun. Færa skal skráningu á einstök skip þ.m.t. sláttupramma.
  2. Safnvigtun. Vigtun í lausu máli frá skipi við löndun. Í þessum tilvikum skal áætla aflamagn hvers skips þ.m.t. pramma við vigtunina.

Að auki skal skrá uppruna þangsins eftir heitum fasteigna (eða landnúmeri).

Óheimilt er að framkvæma endurvigtun á þörungum. Heimilt er að færa afla milli skipa við söfnun á sjó.

VIII. KAFLI Skip er vinna afla um borð.

40. gr.

Skipstjórar skipa er vinna afla um borð frekar en að blóðga, slægja og ísa, skulu strax þegar veiðum er hætt tilkynna Fiskistofu í símskeyti, eða með öðrum hætti sem Fiskistofa viðurkennir, um áætlað magn hverrar afurðar eins nákvæmlega og unnt er ásamt fyrirhuguðum löndunardegi og löndunarstað. Er þeim skylt að landa afurðum sínum á Íslandi.

Þá skulu skipstjórar í lok hverrar veiðiferðar og áður en löndun hefst tilkynna viðkomandi löndunarhöfn skriflega og á því formi sem Fiskistofa ákveður, um áætlaðan fjölda eininga (t.d. kassa og/eða pakkninga) sem landað er af hverri afurð og þunga umbúða hverrar einingar.

Í tilkynningunni skal einnig geta þess hvort einstakar afurðir, aðrar en flök, eru íshúðaðar sérstaklega.

Vigtarmaður skal því aðeins draga frá niðurstöðu vigtunar afurða vegna þyngdar umbúða og sérstakrar íshúðunar, sbr. 3. mgr. 41. gr., hafi tilkynning skipstjóra borist löndunarhöfn. Tilkynningar þessar skulu varðveittar hjá löndunarhöfn í samræmi við ákvæði 53. gr. Vigtun afurða skv. þessum kafla skal ætíð framkvæmd af starfsmönnum hafnar, sbr. þó 28. gr.

Afurðir skulu vigtaðar þegar við löndun og skal vigtarnótu skilað til löndunarhafnar þegar að vigtun lokinni.

Einungis er heimilt að landa hluta af tiltekinni afurð vinnsluskips ef allri framleiðslu tiltekinna daga er landað ásamt tilheyrandi nýtingarsýnum.

41. gr.

Löggiltur vigtarmaður skal af handahófi velja það úrtak sem vigta skal þannig að það gefi sem réttasta mynd af afurðinni. Úrtakið skal miðað við áætlun skipstjóra hvað varðar fjölda eininga af viðkomandi afurð og skal vera í samræmi við auglýsingu nr. 213/2010 um reglur um lágmarksúrtak og framkvæmd vigtunar við úrtaksvigtun. Með vigtun úrtaks skal finna meðalþyngd hverrar einingar í viðkomandi afurð.

Við útreikning á afla skal leggja til grundvallar meðalþunga eininga sem teknar voru í úrtak af hverri afurð, þunga umbúða, reglur um ís í umbúðum, sbr. 3. mgr., og nýtingarstuðla.

Þegar tekið er tillit til íss í afurðum skal margfalda nettóþunga flaka með 0,98. Heilfrysta grálúðu skal margfalda með 0,97, heilfrystan karfa með 0,96 og lausfryst íshúðuð flök skal margfalda með 0,95. Um frádrátt vegna íss í öðrum afurðum sem sérstaklega eru íshúðaðar fer samkvæmt ákvörðun ráðuneytisins.

42. gr.

Saltaðar afurðir skulu vegnar skv. ákvæðum 7. gr.

Endurvigtun á saltfiski skal framkvæmd þannig að afurðir sem legið hafa minnst fjóra daga í pækli og teljast full pækilsaltaðar (vatnsinnihald minna en 60%) skulu teknar úr pæklinum og allt laust salt skal slegið af fiskinum. Vigtun afurða fer fram í samræmi við ákvæði II. kafla. Auglýsing nr. 213/2010 um reglur um lágmarksúrtak og framkvæmd vigtunar við úrtaksvigtun á ekki við um saltaðar afurðir.

Við útreikning á afla skal leggja til grundvallar meðalþunga eininga sem teknar voru í úrtak af hverri afurð, þunga umbúða og nýtingarstuðla.

43. gr.

Löggiltur vigtarmaður sem annast vigtun á afurðum skipa skv. þessum kafla skal ganga frá og gefa út vigtarnótu þar sem eftirtalin atriði koma fram:

  1. Nafn skips og skrásetningarnúmer ásamt umdæmisnúmeri.
  2. Löndunarhöfn og löndunardagur.
  3. Viðtakandi afurða.
  4. Fyrir hverja afurð komi eftirtaldar upplýsingar fram:

    1. Fjöldi eininga skv. talningu við löndun.
    2. Fjöldi eininga í úrtaki.
    3. Heildarþungi úrtaks.
    4. Nettóþungi úrtaks (heildarþungi að frádregnum þunga bretta, umbúða og íss).
    5. Nettóþungi einingar (nettóþungi úrtaks deilt með fjölda eininga í úrtaki).
    6. Nettóþungi afurðar (nettóþungi einingar margfaldaður með heildarfjölda eininga).

X. KAFLI Eldisfiskur.

44. gr.

Þyngd fisks sem fangaður er til áframeldis skal ákvörðuð við flutning farms í eldiskví og skal beita annarri af eftirfarandi aðferðum:

  1. Heildarmagn fiska skal vegið með viðurkenndri krókavog.
  2. Heildarfjöldi fiska skal talinn og 5% þeirra skulu valin af handahófi en þó að lágmarki 30 fiskar og að hámarki 200 fiskar og skal það sem þannig er valið vegið með löggiltri vog, meðalþyngd fisks fundin og uppreiknuð á heildarfjölda fiska.

Farmur telst það magn fiska sem flutt er í einni ferð í eldiskví. Vigtun og talning fiska skal framkvæmd af vigtarmanni sem hlotið hefur löggildingu til vigtunar.

Fiskistofa getur heimilað notkun lífmassamælis til ákvörðunar aflamagns. Rekstraraðila ber að tilkynna Fiskistofu um aðferð við ákvörðun aflamagns.

Sé fiski safnað í sérstaka kví til geymslu (söfnunarkví) skal skipstjóri á veiðiskipi sem losar fisk í söfnunarkví gefa út undirritaða staðfestingu þar sem fram kemur áætlað magn afla og skal staðfestingin send á hafnarvog í lok hvers veiðidags til aflaskráningar. Ekki má geyma fisk lengur en einn mánuð í söfnunarkví.

45. gr.

Skipstjóri fiskiskips og rekstraraðili eldisstöðvar bera ábyrgð á því að afli sé veginn í samræmi við reglugerð þessa.

Aðili sem ákvarðar þyngd fisks skal fylla út og undirrita vigtarnótu þar sem eftirfarandi atriði skulu koma fram:

  1. Rekstrarleyfisnúmer og auðkenni kvíar.
  2. Nafn skips og skrásetningarnúmer ásamt umdæmisnúmeri.
  3. Dagsetning flutnings fisks.
  4. Nafn og kennitala seljanda og kaupanda fisks.
  5. Veiðarfæri.
  6. Heildarfjöldi fiska og meðalþyngd fiska í úrtaki, sundurliðað eftir tegundum.
  7. Aflamagn, sundurliðað eftir tegundum.

Vigtarnóta skal send til viðkomandi hafnar strax að vigtun lokinni.

46. gr.

Við slátrun skal eldisfiskur veginn í samræmi við ákvæði I., II. eða III. kafla reglugerðar þessarar eftir því sem við á.

Þó getur Fiskistofa, samkvæmt skriflegri beiðni aðila og að fenginni umsögn hafnaryfirvalda á viðkomandi löndunarstað, heimilað vigtun eldisfisks, sem landað hefur verið lifandi til slátrunar, með öðrum hætti. Slíkt leyfi skal þó því aðeins veitt að innra eftirlit fyrirtækisins sé traust auk þess sem vigtunarbúnaður sé löggiltur og vigtun framkvæmd af löggiltum vigtarmanni. Áður en leyfi er veitt skal Fiskistofa meta hvort búnaður umsækjanda sé með þeim hætti að honum sé unnt að fara í hvívetna að skilyrðum leyfisins. Leyfi sem veitt er samkvæmt þessari heimild skal bundið við nafn og kennitölu umsækjanda og veitir leyfið rétt til vigtunar á eldisfiski til slátrunar í því húsnæði sem tilgreint er í leyfisbréfi og með þeim skilyrðum sem þar er kveðið á um. Leyfið gildir til allt að tveggja ára. Vigtun sem fyrirhuguð er á grundvelli þessa leyfis skal tilkynna Fiskistofu með að lágmarki þriggja virkra daga fyrirvara og skal í tilkynningu koma fram hve miklu er áætlað að slátra ásamt fisktegund.

XI. KAFLI Hafnaryfirvöld.

47. gr.

Hafnaryfirvöld skulu tryggja að upplýsingar um vigtun landaðs afla, sbr. 10. gr., séu færðar í aflaskráningarkerfi Fiskistofu. Skráning afla samkvæmt vigtarnótu vigtunarleyfishafa skal fara fram svo skjótt sem verða má og aldrei síðar en einum virkum degi eftir að vigtarnóta liggur fyrir hjá viðkomandi höfn.

Berist upplýsingar um endurvigtun frá endurvigtunarleyfishafa ekki til löndunarhafnar innan frests sem veittur er til vigtunar skv. 1. mgr. 16. gr. eða berist vigtarnóta frá öðrum aðila en þeim sem tilgreindur var sem viðtakandi aflans við vigtun á hafnarvog, gildir vigtun á hafnarvog, skv. 7. gr. nema Fiskistofa heimili annað.

Berist upplýsingar um nettóvigtun ekki frá heimavigtunarleyfishafa innan frests sem veittur er til að skila vigtarnótu, sbr. 3. mgr. 23. gr., skal brúttóvigtun gilda, sbr. 1. mgr. 23. gr., nema Fiskistofa heimili annað.

48. gr.

Hafnaryfirvöld á hverjum löndunarstað skulu hafa umsjón með vigtun afla og söfnun upplýsinga um landaðan afla. Hafnaryfirvöld skulu hafa umsjón með að þeim reglum sem settar hafa verið um vigtun á hverjum löndunarstað sé framfylgt.

Starfsmenn hafnarvoga skulu sannreyna að uppgefin tegund vigtaðs afla sé rétt, m.a. með beinni skoðun úrtaks úr lönduðum afla eftir því sem við á. Sama á við varðandi afla sem gefinn er upp sem undirmálsafli.

Verði hafnaryfirvöld vör við að brotið sé gegn ákvæðum reglugerðar þessarar skulu þau tilkynna það Fiskistofu.

49. gr.

Hafnaryfirvöld skulu meta hvort upplýsingar sem fram koma á vigtarnótum séu trúverðugar. Telji hafnaryfirvöld upplýsingar sem koma fram á vigtarnótu ótrúverðugar skulu þau tilkynna það Fiskistofu.

XII. KAFLI Ýmis ákvæði.

50. gr.

Sé fyrirhugað að flytja út óunninn afla til sölu erlendis sem þegar hefur verið endanlega vigtaður og skráður í aflaskráningarkerfi Fiskistofu, skal útflytjandi (umráðamaður viðkomandi afla) tryggja að áður en afli er settur um borð í flutningsfarið sé tilkynnt til Fiskistofu um þau veiðiskip sem veitt hafa umræddan afla og um útflutt aflamagn sundurliðað eftir tegundum eins nákvæmlega og unnt er. Við útflutning afla er heimilt að fylla ílát með öðrum tegundum sé magn einstakra tegunda það lítið að ekki fylli ílát. Í slíkum tilfellum skal hver tegund vera aðskilin og ílátið merkt sérstaklega með upplýsingum um þær tegundir sem í því eru. Aldrei er þó heimilt að flytja út þorsk með öðrum tegundum í sama íláti.

51. gr.

Teljist undirmálsafli að hluta utan aflamarks skal honum haldið aðgreindum frá öðrum afla og hann veginn sérstaklega. Löggiltur vigtarmaður skal staðfesta á vigtarnótu hversu mikill undirmálsafli er í hverri veiðiferð.

Allur undirmálsafli seldur óunninn erlendis reiknast að fullu til aflamarks.

52. gr.

Teljist afli utan aflamarks samkvæmt 8. og 9. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, skal honum haldið aðgreindum frá öðrum afla og hann veginn sérstaklega. Löggiltur vigtarmaður skal staðfesta á vigtarnótu hversu mikill afli þessi er í hverri veiðiferð. Skylt er að landa slíkum afla innanlands á viðurkenndum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafla og skal hann boðinn þar upp. Löggiltur vigtarmaður á uppboðsmarkaði skal fylla út og undirrita vigtarnótu þar sem fram koma upplýsingar sem við eiga og tilgreindar eru í 10. gr. reglugerðar þessarar. Að sölu lokinni skulu forráðamenn uppboðsmarkaðar standa skil á þeim hluta andvirðis, sem rennur til sjóðs, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, í samræmi við ákvæði laga um stjórn fiskveiða þar um.

Fari sá hluti afla sem reiknast ekki til aflamarks skips samkvæmt ákvæðum 9. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða með síðari breytingum, yfir 0,5% af uppsjávarafla, eða 5% af öðrum sjávarafla eða ef ekki hefur verið farið að ákvæðum 10. gr. greinar við sölu aflans, skal Fiskistofa endurreikna aflamarksstöðu skipsins þannig að sá hluti aflans skráist til aflamarks viðkomandi skips að fullu.

53. gr.

Fiskistofa getur ákveðið í hvaða formi vigtarnótur skuli vera. Óheimilt er að nota vigtarnótur sem eru í öðru formi en Fiskistofa ákveður. Þá getur Fiskistofa gert kröfu um að allar vigtanir í vigtunarbúnaði endurvigtunarleyfishafa sem vigtar í sífellu, séu skráðar og aðgengilegar eftirlitsmönnum.

Reglur um meðferð og varðveislu bókhaldsgagna gilda um vigtarnótur.

54. gr.

Eftirlitsmönnum Fiskistofu og starfsmönnum hafnaryfirvalda er heimill aðgangur að fiskiskipum, flutningsförum, fiskverkunum, fiskmörkuðum og birgðageymslum sem nauðsynlegur er til að vigta afla eða hafa eftirlit með vigtun hans.

XIII. KAFLI Viðurlög.

55. gr.

Sigli fiskiskip með afla af miðum til sölu á markaði erlendis, skal útgerð og skipstjóri fiskiskipsins tryggja að Fiskistofu séu sendar upplýsingar um aflann eigi síðar en 24 klst. áður en lagt er af stað.

Fiskistofu er heimilt að veita fiskiskipum leyfi til að afla sem veiddur er úr íslenskum deilistofnum sé landað erlendis, sama gildir ef sérstaklega stendur á, t.d. vegna alvarlegrar vélarbilunar hjá skipi sem vinnur afla um borð. Innheimta skal kostnað vegna ferðar eftirlitsmanns til að fylgjast með löndun úr skipinu erlendis, samkvæmt framlögðum reikningum, auk daggjalds vegna veru eftirlitsmanns um borð í skipi fyrir hvern starfsdags eftirlitsmanns samkvæmt auglýsingu nr. 1177/2015, um gjaldskrá Fiskistofu.

56. gr.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum, samkvæmt VI. kafla laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða og IV. kafla laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

Þá er Fiskistofu heimilt að afturkalla vigtunarleyfi vinnslustöðva, fiskmarkaða eða annarra aðila sem fengið hafa vigtunarleyfi, sé ekki af þeirra hálfu farið að ákvæðum reglugerðar þessarar eða leyfisbréfa. Einnig getur Fiskistofa afturkallað viðurkenningu sína á erlendum uppboðsmarkaði, eða svipt aðila leyfi til að annast vigtun afla og skýrslugjöf vegna afla sem fluttur er á markað erlendis brjóti hann gegn ákvæðum leyfisbréfs eða reglugerðar þessarar.

Ráðuneytinu er heimilt, að fengnum tillögum Fiskistofu, að svipta uppboðsmarkað fyrir sjávarafla rekstrarleyfi samkvæmt lögum um það efni ef markaður eða þeir sem í þágu hans starfa hafa brotið gegn ákvæðum III. kafla laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar eða reglugerð þessari.

57. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 224/2006, um vigtun og skráningu sjávarafla með síðari breytingum.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.