Prentað þann 21. nóv. 2024
729/2018
Reglugerð um röraverkpalla.
I. KAFLI Gildissvið, markmið og orðskýringar.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um röraverkpalla, þ.m.t. markaðssetningu, notkun, uppsetningu og niðurtöku slíkra palla.
2. gr. Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að stuðla að öryggi fólks í tengslum við notkun röraverkpalla, þar með talið starfsmanna sem starfa á slíkum pöllum eða í námunda við slíka palla, til að koma í veg fyrir að slys eigi sér stað.
3. gr. Orðskýringar.
Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi orða sem hér segir:
- Röraverkpallur: Vinnupallur, ýmist á hjólum eða ekki á hjólum, sem notaður er af einum eða fleiri starfsmönnum við vinnu í hæð, svo sem til að geyma efni og verkfæri sem notuð eru við vinnuna. Vinnupallurinn er settur saman með rörum sem fest eru saman með sérstökum tengjum eða eftir sérstöku samsetningarkerfi.
- Uppsetning röraverkpalls: Vinna við að setja saman einstaka hluta röraverkpalls eða breyta áður uppsettum röraverkpalli með sérstökum tengjum eða eftir sérstöku samsetningarkerfi þannig að úr verði vinnupallur sem unnt er að nota við vinnu í tiltekinni hæð.
- Niðurtaka röraverkpalls: Vinna við að taka í sundur uppsettan röraverkpall þannig að einstakir hlutar hans verði ekki lengur samansettir með sérstökum tengjum eða eftir sérstöku samsetningarkerfi og því ekki unnt að nota hann sem vinnupall vegna vinnu í hæð eftir að hafin er vinna við að taka hann í sundur.
- Að setja á markað:Þegar röraverkpallur er í fyrsta skipti tilbúin til dreifingar eða notkunar hér á landi, hvort sem er gegn gjaldi eða án endurgjalds.
II. KAFLI Hönnun, efni og staðlar.
4. gr. Hönnun.
Röraverkpallar sem settir eru á markað hér á landi skulu hannaðir og smíðaðir samkvæmt evrópskum stöðlum, svo sem ÍST EN 12811, ÍST EN 12810, ÍST EN 1298, ÍST EN 1004, ÍST EN 338 og ÍST EN 74 sbr. þó 1. mgr. 12. gr. og b-lið 1. mgr. 17. gr.
Röraverkpallar og hver hlutur þeirra skulu vera hannaðir og smíðaðir á fullnægjandi hátt hvað varðar styrk, stöðugleika og mesta mögulega álag sem þeim er ætlað að bera.
Hlutar röraverkpalla skulu vera hannaðir og smíðaðir þannig að þeir geti ekki losnað við notkun og að auðvelt og hættulaust sé að setja pallana saman, taka þá niður og flytja þá á milli staða sundur tekna.
Hjól á röraverkpöllum skulu vera hönnuð og smíðuð þannig að það sé læsing á hjólunum sem hindrar að þeir geti hreyfst úr stað við notkun.
5. gr. Efni.
Allt efni sem notað er í röraverkpalla skal vera framleitt í samræmi við evrópska staðla. Öll rör skulu vera bein og ekki skemmd af ryði eða annars konar tæringu. Óheimilt er að nota rör sem eru bogin, rifin, ryðguð eða löskuð á annan hátt við uppsetningu röraverkpalls og skal fjarlægja slík rör og setja önnur í staðinn verði vart við fyrrnefnda veikleika í rörum eftir að pallur hefur verið settur upp. Festingar röraverkpalla, þar með talið tilheyrandi múrboltar, skulu vera án skemmda af ryði eða af öðrum ástæðum.
Viðarborð, viðarplötur og viðarplankar, sem notuð eru í gólf á mismunandi hæðum röraverkpalls skulu vera óskemmd og ekki með kvistum sem rýrt geta styrkleika gólfanna. Óheimilt er að mála gólf röraverkpalls eða húða þau á annan hátt þannig að erfiðara verði að greina galla í gólfunum sem rýrt geta styrkleika þeirra.
III. KAFLI Leiðbeiningar, notkun, viðhald og endurnýjun.
6. gr. Leiðbeiningar frá framleiðanda í tengslum við notkun.
Sá sem setur á markað hér á landi röraverkpall skal sjá til þess að upphaflegar leiðbeiningar framleiðanda í tengslum við notkun viðkomandi röraverkpalls fylgi með pallinum, svo sem um:
- uppsetningu og niðurtöku,
- stillingu og frágang samsetningar- og festibúnaðar,
- könnun öryggisþátta sem og kerfisbundið eftirlit,
- viðhald og annað sem máli kann að skipta, og
- kröfur til starfsmanna sem koma til með að starfa í námunda við pallinn, meðal annars hvað varðar fræðslu og þjálfun þeirra.
Sá sem setur á markað hér á landi röraverkpall skal auk þess sem kveðið er á um í 1. mgr. sjá til þess að til sé íslensk þýðing á upphaflegum leiðbeiningum framleiðanda í tengslum við notkun viðkomandi röraverkpalls og skal koma skýrt fram í þýðingunni að um sé að ræða þýðingu á upphaflegum leiðbeiningum framleiðandans.
7. gr. Notkun.
Farið skal nákvæmlega eftir leiðbeiningum framleiðanda við notkun röraverkpalls.
Óheimilt er að taka í notkun röraverkpall sem ekki hefur verið gengið frá á fullnægjandi hátt í samræmi við leiðbeiningar framleiðanda. Á það jafnframt við hafi röraverkpallur verið færður úr stað eftir að hafa verið settur upp.
Hafi röraverkpallur staðið ónotaður og óhreyfður í nokkurn tíma sem og eftir óveður eða við aðrar aðstæður þar sem ætla má að frágangur viðkomandi röraverkpalls sé ekki lengur í samræmi við leiðbeiningar framleiðanda skal pallurinn yfirfarinn og lagfærður ef nauðsyn krefur áður en notkun hans hefst að nýju.
Sé röraverkpallur á hjólum er óheimilt að flytja hann til á meðan fólk er á honum og skulu allir hlutir sem eru á honum fjarlægðir eða skorðaðir þannig að þeir geti ekki fallið niður.
Niðurtaka röraverkpalls skal fara fram á tryggilegan hátt.
8. gr. Viðhald og endurnýjun.
Öllum hlutum röraverkpalls skal viðhaldið með fullnægjandi hætti og í samræmi við leiðbeiningar framleiðanda ef við á.
Fyrir hverja notkun röraverkpalls skulu helstu hlutar hans yfirfarnir og endurnýjaðir ef þörf krefur auk þess sem öryggisbúnaður, svo sem afstýfingar og festibúnaður, skal yfirfarinn sérstaklega og endurnýjaður ef þörf krefur.
IV. KAFLI Frágangur við uppsetningu.
9. gr. Frágangur á undirlagi.
Stoðir uppsetts röraverkpalls skulu standa á sérstökum plötum sem unnt er að stýra. Sé um að ræða gljúpan jarðveg undir plötu og undirlag plötunnar því ekki nægjanlega traust skal dreifa þunga röraverkpallsins, svo sem með því að setja viðarplanka undir plötuna sem um ræðir, til að koma í veg fyrir að platan sökkvi í gljúpan jarðveginn. Í slíkum tilvikum skal plötunni komið fyrir eins nálægt miðju viðarplankans og unnt er.
Sé röraverkpallur á loftfylltum gúmmíhjólum skal undirlag hans vera traust, jafnt og lárétt þannig að stöðugleiki við notkun og flutning sé tryggður. Frágangur undirlags skal jafnframt vera með þeim hætti að ekki sé hætta á að pallurinn hallist eða velti þótt loft leki úr einu hjóli hans eða fleirum meðan á notkun hans stendur.
Sé röraverkpallur á hjólum skal nota læsingar á dekkjum.
10. gr. Frágangur festinga.
Sé hætta á að röraverkpallur geti ekki staðið án stuðnings, svo sem vegna undirlags, skal pallurinn festur á fullnægjandi hátt í vegg eða stagaður niður í festingar á undirlaginu með traustum böndum þannig að ekki sé hætta á að hann hreyfist eða velti við notkun þannig að hætta geti stafað af.
Sé um að ræða festingar í vegg skulu stoðir röraverkpalls festar í festingar í veggnum eins nálægt og unnt er þeim stað þar sem stoð, langrör og þverrör röraverkpallsins mætast og skal ein röð festinga vera í sömu hæð og efsta langrörið ef unnt er að koma því við.
Festingar í vegg skulu vera þannig gerðar að þær þoli tog og þrýsting sem þær verða fyrir þegar viðkomandi röraverkpallur er notaður.
Í þeim tilvikum þar sem nota þarf festingar í vegg og ekki er um að ræða festingar sem sérstaklega eru gerðar fyrir viðkomandi röraverkpall skal einungis nota múrbolta og skrúfur. Heitgalvaníseraðir múrboltar og heitgalvaníseraðar skrúfur skal einungis nota sem festingar í vegg þegar um er að ræða röraverkpalla úr sama efni.
11. gr. Frágangur gólfa.
Gólf röraverkpalla skulu vera slétt og ekki með hálu yfirborði auk þess sem þau skulu vera það þétt að ekki sé hætta á að hlutir, svo sem efni eða verkfæri, geti fallið niður um gólfið.
Sé hætta á að hlutir, svo sem efni eða verkfæri, geti fallið niður af röraverkpalli meðfram gólfi hans skal setja fótlista á kanta gólfsins eða koma með öðrum hætti í veg fyrir fall hluta, svo sem efna eða verkfæra, niður af pallinum, sbr. einnig 12. gr.
Þar sem endar á viðarborðum koma saman skulu þeir ávallt ganga að minnsta kosti 250 mm á misvíxl og skulu slík samskeyti ávallt vera yfir þverröri. Við endann á efra viðarborðinu skal setja fleygmyndað stykki til þess að auðvelda umferð yfir samskeytin.
Ganga skal þannig frá gólfi röraverkpalls að ekki sé hætta á að einstök viðarborð eða gólfhlutar sporðreisist.
12. gr. Frágangur fallvarna.
Handrið og fallvarnir skulu uppfylla kröfur staðalsins ÍST EN 12811.
Á röraverkpöllum skal vera handrið á þeirri hlið sem snýr frá vegg eða hliðstæðum byggingarhluta sem og á þeirri hlið verkpallsins sem snýr að vegg eða hliðstæðum byggingarhluta gegnt opum eða innskotum sem kunna að vera á viðkomandi vegg eða hliðstæðum byggingarhlutum.
Fjarlægð milli veggjar eða hliðstæðra byggingarhluta og þeirri hlið röraverkpalls sem snýr að veggnum eða hliðstæðum byggingarhlutum skal vera eins lítil og mögulegt er. Ef þessi fjarlægð er meiri en 300 mm skal setja upp handrið á þeirri hlið röraverkpallsins sem snýr að veggnum eða hliðstæðum byggingarhlutum.
Handrið skulu vera við öll op sem nauðsynlegt er að hafa á viðkomandi röraverkpalli, svo sem vegna aðgangs eða lyftubúnaðar.
Handrið röraverkpalls skulu hafa handlista, hnélista og fótlista en heimilt er að sleppa fótlista í þeim tilvikum þegar engin hætta er á að hlutir, svo sem efni eða verkfæri, geti fallið niður af röraverkpalli. Handlisti skal vera í þeirri hæð sem aðstæður krefjast hverju sinni með tilliti til öryggis en þó ekki lægri en í 1 m hæð frá gólfi röraverkpalls. Fótlisti skal vera minnst 150 mm hár og liggja við gólf röraverkpalls. Ef ekki er nægjanlegt að festa fótlista við kanta á gólfi röraverkpalls til að koma í veg fyrir að hlutir, svo sem efni eða verkfæri, geti fallið niður af pallinum skal annar búnaður, svo sem net, settur upp í því skyni að koma í veg fyrir fall hluta niður af pallinum. Hnélisti skal staðsettur mitt á milli handlista og fótlista eða gólfs röraverkpalls, eftir því sem við á. Þar sem handlisti er í meira en 1 m hæð frá gólfi röraverkpalls skal koma fyrir fleiri en einum hnélista á milli handlista og fótlista eða gólfs pallsins með jöfnu millibili.
13. gr. Frágangur aðgangsleiða og athafnarýmis.
Óheimilt er að fara á milli hæða röraverkpalls með öðrum hætti en í stiga sem liggur á milli hæða pallsins í gegnum opnanlega lúgu í gólfi á hverri hæð pallsins eða um sérstakan stigapall sem er þá við hlið verkpallsins og er sérstaklega ætlaður sem aðgangsleið til að fara á milli palla. Stigar sem notaðir eru til að komast á milli hæða röraverkpalls skulu vera tryggilega festir þannig að öruggt sé að fara á milli hæða.
Fjarlægð milli þrepa í stigum sem notaðir eru til að fara á milli hæða röraverkpalls skal vera 230 mm - 300 mm, eða samkvæmt evrópskum stöðlum. Þvermál á stigaþrepum í stiga sem liggur á milli hæða röraverkpalls og gerð eru úr rörum má ekki fara fyrir 50 mm.
Þar sem gengið er eða ekið, svo sem hjólbörum, inn á röraverkpall skal ganga frá traustri tengibrú frá þeim stað sem gengið eða ekið er frá og inn á gólf röraverkpallsins.
Fjarlægð milli hæða röraverkpalls má mest vera 3,5 m nema gerðar séu sérstakar ráðstafanir til að fyrirbyggja að sá sem er að fara á milli hæða geti fallið aftur fyrir sig í stiganum, svo sem með bakvörn. Fjarlægð milli hæða röraverkpalls má þó aldrei fara yfir 6 m án þess að unnt sé að hvíla sig á leiðinni á sérstöku hvíldargólfi.
Mesta hæð á óstuddum röraverkpalli á hjólum, sem notaður er innanhúss skal vera fjórum sinnum minnsta breidd milli hjóla eða stuðningsstoða. Utanhúss skal mesta hæð hans vera þrisvar sinnum minnsta breidd milli hjóla eða stuðningsstoða. Heimilt er að nota hærri hjólapall ef hann er tryggilega festur.
Röraverkpallur skal vera uppsettur á þann hátt að ekki stafi hætta af hlutum hans í athafnarými pallsins eða á leiðum milli hæða hans.
Stærð röraverkpalls skal vera nægjanleg til þess að starfsmenn geti athafnað sig með hluti, svo sem efni eða verkfæri, sem þarf að nota við þau störf sem framkvæma á.
V. KAFLI Skyldur atvinnurekenda, námskrár og námskeið.
14. gr. Þjálfun starfsmanna.
Atvinnurekandi skal sjá um að starfsmenn fái nauðsynlega kennslu og þjálfun við að framkvæma störf sín á þann hátt að ekki stafi hætta af. Starfsmenn skulu meðal annars fá þjálfun í uppsetningu og niðurtöku röraverkpalla í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar.
15. gr. Námskrár.
Vinnueftirlit ríkisins skipar þrjá fulltrúa í sérstakt verkefnaráð sem hefur það hlutverk að semja námskrár fyrir hvert námskeið í tengslum við uppsetningu og niðurtöku röraverkpalla þar sem meðal annars kemur fram markmið námskeiðsins, leiðbeiningar um skipulag námskeiðsins, svo sem um fjölda kennslustunda, upplýsingar um nauðsynlegt kennsluefni og próflýsing, bæði hvað varðar bóklegt og verklegt próf við lok námskeiðs. Vinnueftirlit ríkisins skal skipa einn fulltrúa í verkefnaráðið án tilnefningar, einn sem tilnefndur er af Alþýðusambandi Íslands og einn sem tilnefndur er af Samtökum atvinnulífsins.
16. gr. Námskeið fyrir stjórnendur og starfsmenn.
Námskrá vegna námskeiðs fyrir þá sem stjórna framkvæmd við eða framkvæma uppsetningu og niðurtöku röraverkpalla skal innihalda kennsluefni sem tryggir nægilega þekkingu viðkomandi á þeirri áhættu sem fylgir notkun slíkra palla. Jafnframt skal námskráin endurspegla mikilvægi þess að fyllsta öryggis sé gætt við uppsetningu og niðurtöku röraverkpalla í samræmi við evrópska staðla. Námskeið skal meðal annars innihalda eftirfarandi efnisþætti:
- Kennslu og þjálfun í tengslum við öryggisráðstafanir við uppsetningu og niðurtöku röraverkpalla.
- Kennslu í tengslum við öryggisráðstafanir til að koma í veg fyrir að menn eða hlutir falli niður af uppsettum röraverkpöllum.
- Kennslu í tengslum við öryggisráðstafanir vegna hugsanlegra breytinga á veðurskilyrðum sem gætu dregið úr öryggi uppsettra röraverkpalla.
- Kennslu í tengslum við leyfilegan þunga á gólfum uppsettra röraverkpalla, sem og leyfilegt álag á slíka palla.
- Kennslu og þjálfun í tengslum við alla aðra hættu sem uppsetning og niðurtaka röraverkpalla kann að hafa í för með sér.
- Verklega þjálfun við uppsetningu og niðurtöku röraverkpalla.
Námskeið fyrir þá einstaklinga sem stjórna framkvæmd við uppsetningu og niðurtöku röraverkpalla þurfa auk þess sem getið er um í 1. mgr. meðal annars að innihalda kennslu við gerð áætlunar um uppsetningu og niðurtöku röraverkpalla og um þau atriði sem nauðsynlegt er að þeir hafi þekkingu á svo þeir geti uppfyllt skyldur sínar skv. þessari reglugerð.
VI. KAFLI Merkingar.
17. gr. Merkingar á uppsettum röraverkpöllum.
Uppsettir röraverkpallar, sbr. 1. gr., skulu merktir með eftirfarandi hætti:
- Upplýsingum um hver sé fyrirhuguð notkun röraverkpallsins, svo sem málningarvinna, múrhúðun, gluggaviðgerðir o.s.frv.
- Upplýsingum um álagsflokk skv. staðli ÍST EN 12811.
- Upplýsingum um hvenær viðkomandi röraverkpallur var settur upp.
- Upplýsingum um þann einstakling sem stjórnaði framkvæmdinni við uppsetningu viðkomandi röraverkpalls ásamt undirritun hans.
Merking skal vera gerð þannig að hún þoli mismunandi veður, sé skiljanleg starfsmönnum og eftirlitsmönnum Vinnueftirlits ríkisins, auðlesanleg og skal henni komið fyrir á uppsettum röraverkpalli þar sem aðgengi er auðvelt að henni.
Þegar unnið er við uppsetningu og niðurtöku röraverkpalls skal merkja það svæði þar sem vinnan fer fram með almennum viðvörunarmerkjum í samræmi við ákvæði reglna um öryggis- og heilbrigðismerkingar á vinnustöðum, þar með talið að koma fyrir viðeigandi tálmum, svo sem grindverki, til að hefta tímabundið aðgang fólks að vinnusvæðinu.
VII. KAFLI Ýmis ákvæði.
18. gr. Eftirlit.
Vinnueftirlit ríkisins hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar, sbr. 82. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
19. gr. Kæruheimild.
Heimilt er að kæra ákvarðanir Vinnueftirlits ríkisins sem teknar eru á grundvelli reglugerðar þessarar til velferðarráðuneytis innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina, sbr. 98. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
20. gr. Viðurlög.
Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar geta varðað refsingu skv. 99. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
21. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 34., 38., 40., og 47. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, öðlast þegar gildi.
Þrátt fyrir 1. mgr. öðlast V. og VI. kafli reglugerðarinnar ekki gildi fyrr en 1. desember 2018. Reglugerð þessi kemur í staðinn fyrir reglur nr. 331/1989, um röraverkpalla.
Ákvæði til bráðabirgða.
Þrátt fyrir II. kafla sem og 1. mgr. 12. gr. er heimilt að nota röraverkpalla sem teknir voru í notkun hér á landi fyrir 24. júlí 2018 fram til 1. janúar 2028. Að öðru leyti gildir reglugerðin um uppsetningu og notkun röraverkpalla hér á landi.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.