Prentað þann 26. des. 2024
720/2020
Reglugerð um skilyrði fyrir tímabundnum lánveitingum Ferðaábyrgðasjóðs vegna COVID-19.
1. gr.
Ferðaábyrgðasjóður skal bregðast við tímabundnum neikvæðum áhrifum kórónuveirufaraldursins á starfsemi skipuleggjenda eða smásala og tryggja hagsmuni ferðamanna í samræmi við ákvæði til bráðabirgða við lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018.
Í því skyni að tryggja aðgang skipuleggjenda eða smásala að nauðsynlegu lausafé til að tryggja rekstrarhæfi og standa við lögbundnar skyldur sínar, skal Ferðaábyrgðasjóður veita skipuleggjendum eða smásölum lán í samræmi við ákvæði til bráðabirgða við lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018, og reglugerð þessa.
Ferðaábyrgðasjóður er í vörslu Ferðamálastofu sem tekur ákvarðanir um lánveitingar sjóðsins.
Ráðherra er heimilt með samningi að fela hæfum þriðja aðila þjónustu við sjóðinn.
2. gr.
Skipuleggjendur eða smásalar skulu beina umsókn um lán frá Ferðaábyrgðasjóði til Ferðamálastofu með rafrænum hætti. Ferðamálastofu er heimilt að taka við umsókn með öðrum hætti telji stofnunin það nauðsynlegt.
Með umsókn skulu fylgja nauðsynleg gögn sem sýna fram á að umsækjanda beri að endurgreiða ferðamanni vegna pakkaferðar og að lánsfjárhæð sé í samræmi við þá lagaskyldu.
Við skil umsóknar skal umsækjandi um lán staðfesta að sú lánsfjárhæð sem sótt er um feli í sér lausafjárþörf umsækjanda til næstu 12 mánaða, svo honum sé kleift að standa við lagaskyldu til endurgreiðslu vegna pakkaferða.
3. gr.
Í reglugerð þessari merkir:
- Lítið fyrirtæki: Fyrirtæki sem er með færri en 50 starfsmenn og er með árlega veltu undir 10 milljónum evra og/eða efnahagsreikning undir 10 milljónum evra, sbr. I. viðauka við reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 651/2014 frá 17. júní 2014.
- Meðalstórt fyrirtæki: Fyrirtæki sem er með á bilinu 50-250 starfsmenn og er með árlega veltu undir 50 milljónum evra og/eða efnahagsreikning undir 43 milljónum evra, sbr. I. viðauka við reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 651/2014.
- Stórt fyrirtæki: Fyrirtæki sem er með fleiri en 250 starfsmenn, sbr. I. viðauka við reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 651/2014.
4. gr.
Skipuleggjandi eða smásali skal endurgreiða Ferðaábyrgðasjóði höfuðstól kröfu sjóðsins á allt að 6 árum. Endurgreiðslur skulu skiptast í jafnar afborganir sem skulu vera fjórar á ári. Fyrsta afborgun skal vera með gjalddaga 1. desember 2022 og síðan á þriggja mánaða fresti eftir það þar til höfuðstóll kröfu er að fullu greiddur. Heimilt er að endurgreiða höfuðstól að fullu hvenær sem er á lánstímanum. Ferðamálastofa, eða hæfur aðili sem þjónustar sjóðinn, sbr. 1. gr., skal tilgreina greiðslustað.
Höfuðstóll kröfu sjóðsins skal bera árlega vexti (360 dagar) sem miðast við grunnvexti 2,65% að viðbættu 0,5% álagi, eða samtals 3,15% ársvexti, fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki en að viðbættu 1,0% álagi, eða samtals 3,65% ársvexti fyrir stór fyrirtæki. Á hverjum gjalddaga afborgunar skv. 1. mgr. skal einnig greiða áfallna vexti.
Sé afborgun kröfunnar ekki greidd á viðkomandi gjalddaga skal greiða dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga, nr. 38/2001, frá gjalddaga til greiðsludags.
5. gr.
Komi til vanefnda viðkomandi skipuleggjanda eða smásala á afborgunum og vanskil hafa staðið í meira en 6 mánuði, er heimilt að gjaldfella höfuðstól kröfunnar og gera fjárnám án undangengins dóms eða sáttar fyrir kröfu Ferðaábyrgðasjóðs, ásamt vöxtum, dráttarvöxtum og kostnaði.
6. gr.
Óheimilt er að veita lán til fyrirtækja sem voru í rekstrarerfiðleikum 31. desember 2019. Fyrirtæki telst hafa verið í rekstrarerfiðleikum ef a.m.k. eitt af eftirfarandi skilyrðum telst uppfyllt:
- Um er að ræða félag með takmarkaðri ábyrgð og bókfært eigið fé þess, samkvæmt viðurkenndum reikningsskilaaðferðum, er orðið lægra en sem nemur helmingi innborgaðs hlutafjár að meðtöldum yfirverðsreikningi. Þessi töluliður á ekki við um fyrirtæki sem er lítið eða meðalstórt og starfsemi þess hefur staðið yfir í þrjú ár eða skemur.
- Um er að ræða félag þar sem a.m.k. einn aðili ber ótakmarkaða ábyrgð á skuldum félagsins og bókfært eigið fé þess, samkvæmt viðurkenndum reikningsskilaaðferðum, er orðið lægra en sem nemur helmingi innborgaðs hlutafjár að meðtöldum yfirverðsreikningi. Þessi töluliður á ekki við um fyrirtæki sem er lítið eða meðalstórt og starfsemi þess hefur staðið yfir í þrjú ár eða skemur.
- Um er að ræða fyrirtæki sem sætir gjaldþrotameðferð eða hefur óskað heimildar til að leita nauðasamninga.
- Um er að ræða fyrirtæki sem hefur fengið björgunaraðstoð í skilningi leiðbeinandi reglna Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um björgun og endurskipulagningu fyrirtækja, og hefur enn ekki endurgreitt lánið eða aflétt ábyrgðinni eða hefur fengið aðstoð til endurskipulagningar og er því enn bundið af samþykktri áætlun um endurskipulagningu.
-
Um er að ræða fyrirtæki sem hvorki er lítið né meðalstórt og hefur uppfyllt eftirtalin skilyrði síðustu tvö reikningsár:
- hlutfall milli bókfærðra skulda fyrirtækisins og eigin fjár hefur verið hærra en 7,5 og
- hagnaður fyrir afskriftir og vexti (EBITDA) nemur lægri fjárhæð en nettófjármagnskostnaður ársins.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að veita lán til lítilla fyrirtækja sem eitthvert skilyrða 1. mgr. á við um, þó ekki skilyrði 3. tölul.
Þrátt fyrir 1. mgr. er heimilt að veita lán til fyrirtækja sem voru í rekstrarerfiðleikum 31. desember 2019 sem nemi að hámarki 20 m.kr. Upphæðin er samtala minniháttaraðstoðar sem umsækjandi hefur þegið á þriggja ára tímabili.
Lán skv. 3. mgr. skal samræmast reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1407/2013 frá 18. desember 2013 um beitingu 107. og 108. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins gagnvart minniháttaraðstoð; eins og hún var tekin upp í EES-samninginn.
7. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í ákvæði til bráðabirgða I við lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018, sbr. lög nr. 78/2020, öðlast þegar gildi.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.