Prentað þann 22. des. 2024
643/2016
Reglugerð um ráðstöfun og meðferð aflaheimilda samkvæmt 10. gr. a laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.
Efnisyfirlit
1. gr. Gildissvið - Val á byggðarlögum.
Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar aflaheimildir, sem ráðherra ákvarðar samkvæmt heimild í 5. mgr. 8. gr. laga nr. 116/2006, til að styðja byggðarlög í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi sbr 10. gr. a laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.
Val á byggðarlögum sem koma til álita skal byggja á eftirfarandi þáttum:
Byggðarlag hafi átt í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi eða ætla megi að samdráttur í greininni myndi skapa slíkan vanda.
Störf við veiðar og vinnslu séu eða hafi verið verulegur hluti starfa í byggðarlaginu sl. 10 ár.
Íbúar byggðarlags séu færri en 450.
Íbúaþróun í byggðarlaginu hafi verið undir landsmeðaltali sl. 10 ár.
Akstursfjarlægð frá byggðarlagi til byggðakjarna sem telur meira en 1.000 íbúa sé a.m.k. 20 km.
Byggðakjarninn tilheyri vinnusóknarsvæði sem telur færri en 10.000 íbúa.
Að aflamark Byggðastofnunar skipti verulegu máli fyrir framtíð byggðarlagsins að mati stjórnar Byggðastofnunar.
Stjórn Byggðastofnunar tekur ákvörðun um endanlegt val byggðarlaga og um það aflamark sem úthluta skal til hvers þeirra á grundvelli greiningar stofnunarinnar á stöðu byggðarlaga sem falla að þeim skilgreiningum sem upp eru taldar í grein þessari.
2. gr. Skipting aflamarks.
Skipting þess aflamarks sem kemur í hlut byggðarlags samkvæmt reglum þessum skal fara fram á grundvelli samninga Byggðastofnunar, fiskvinnslu og útgerðaraðila. Við mat umsókna frá einstökum byggðarlögum verður byggt á eftirfarandi atriðum:
Trúverðugum áformum um útgerð, vinnslu sjávarafurða eða aðra starfsemi.
Fjölda heilsársstarfa sem skapast eða verður viðhaldið.
Sem bestri nýtingu þeirra aflaheimilda sem fyrir eru í byggðarlaginu.
Öflugri starfsemi til lengri tíma sem dregur sem mest úr óvissu um framtíðina.
Jákvæðum áhrifum á atvinnulíf og samfélag.
Traustri rekstrarsögu forsvarsmanna umsækjenda.
Byggðastofnun ákveður tímalengd samninga um nýtingu aflaheimilda skv. reglum þessum, sem skal þó ekki vera lengri en til sex ára.
3. gr. Skilyrði fyrir úthlutun aflamarks.
Eingöngu er heimilt að ráðstafa aflamarki til fiskiskipa sem hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, þegar úthlutun aflamarks á sér stað.
4. gr. Umsóknarferli.
Byggðastofnun annast úthlutun aflamarks, sem kemur í hlut einstakra byggðarlaga, og skal auglýsa eftir umsóknum með opinberum hætti og á vefsíðu Byggðastofnunar: www.byggðastofnun.is. Í umsóknum skulu koma fram upplýsingar sem Byggðastofnun ákveður og skal umsóknum skilað á formi sem stofnunin ákveður. Umsóknarfrestur skal vera minnst tvær vikur. Byggðastofnun annast mat og úrvinnslu umsókna og skal svara öllum umsóknum svo fljótt sem unnt er.
5. gr. Úthlutun aflamarks.
Byggðastofnun skal úthluta aflamarki með tilkynningu til Fiskistofu um magn á skip, á grundvelli samninga fyrir fiskveiðiárið enda séu skilyrði samningsins uppfyllt. Hafi skilyrði fyrir úthlutun aflamarks til einstakra fiskiskipa á grundvelli reglugerðar þessarar ekki verið uppfyllt að fullu í lok fiskveiðiárs fellur niður réttur til aflamarks í hlutfalli við það sem upp á vantar að skilyrði séu uppfyllt. Takist ekki að úthluta öllu aflamarki viðkomandi skips fyrir lok fiskveiðiársins er heimilt að ráðstafa áunnu aflamarki yfirstandandi fiskveiðiárs til næsta fiskveiðiárs, enda hafi viðkomandi skip verið í samfelldri eigu viðkomandi útgerðar og ekki verið flutt meira aflamark frá skipinu en til þess í lok fiskveiðiársins á undan.
6. gr. Samráð við sveitarstjórn.
Byggðastofnun skal hafa samráð við sveitarstjórn viðkomandi sveitarfélags áður en tillögur um samningsaðila eru lagðar fyrir stjórn Byggðastofnunar til endanlegrar afgreiðslu.
7. gr. Veiðar og vinnsla afla.
Fiskiskipum er skylt að skila því aflamagni sem telja á til aflamarks Byggðastofnunar til vinnslu innan hlutaðeigandi vinnusóknarsvæða á viðkomandi fiskveiðiári og í samræmi við samning sem liggur til grundvallar úthlutun. Með vinnslu er átt við flökun, flatningu, frystingu, söltun eða herslu samkvæmt nánari lýsingu í samningi.
8. gr. Framsal aflamarks.
Framsal aflamarks sem úthlutað er samkvæmt reglugerð þessum er óheimilt, en þó skulu heimil jöfn skipti á aflamarki í þorskígildum talið. Samningsaðilar skulu gera grein fyrir öllum slíkum skiptum þannig að ljóst sé hvernig umsamið aflamark skilar sér til veiða og vinnslu skv. samningi. Aflamarki Byggðastofnunar er m.a. ætlað að stuðla að sem bestri nýtingu þeirra aflaheimilda sem fyrir eru í byggðarlaginu. Því er heimilt í samningi skv. 2. gr. að kveða á um bann við leigu eða sölu aflaheimilda frá aðilum samningsins á samningstímanum.
9. gr. Eftirlit með samningum.
Eftirlit með framkvæmd samninga skal vera í höndum Byggðastofnunar og skal kveða á um nauðsynlegar heimildir stofnunarinnar þess vegna í samningunum sjálfum. Sé það mat stofnunarinnar að um alvarleg frávik sé að ræða frá ákvæðum samningsins, getur hún rift honum einhliða hvenær sem er á samningstímanum.
10. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett skv. 10. gr. a laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, og öðlast gildi 1. september 2016. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 606/2015, um ráðstöfun og meðferð aflaheimilda skv. ákvæði til bráðabirgða XIII í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.