Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 22. des. 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 31. maí 2024

640/2022

Reglugerð um kvikasilfur.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja hátt verndarstig fyrir heilbrigði manna og umhverfið gegn losun og sleppingu kvikasilfurs og kvikasilfurssambanda af mannavöldum.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um kvikasilfur, kvikasilfurssambönd, blöndur af kvikasilfri og vörur með viðbættu kvikasilfri.

3. gr. Skilgreiningar.

Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

Blanda: Blanda eða lausn tveggja eða fleiri efna.

Innflutningur: Flutningur efnis, efnablöndu eða efna í hlutum inn á Evrópska efnahagssvæðið frá ríkjum utan svæðisins.

Kvikasilfur: Kvikasilfursmálmur (Hg, CAS-nr. 7439-97-6).

Kvikasilfurssamband: Hvers konar efni sem samanstendur af kvikasilfursatómum og einu eða fleiri atómum annarra frumefna sem einungis er unnt að aðskilja í mismunandi efnisþætti með efnahvörfum.

Tannsilfur (amalgam): Málmblendi sem inniheldur kvikasilfur og notað er til tannviðgerða.

Útflutningur: Flutningur efnis, efnablöndu eða efna í hlutum til ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Vara með viðbættu kvikasilfri: Vara eða efnisþáttur vöru sem inniheldur kvikasilfur eða kvikasilfurssamband sem var bætt við af ásetningi.

4. gr. Gildistaka tiltekinna gerða Evrópusambandsins.

  1. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/852 frá 17. maí 2017 um kvikasilfur og um niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 1102/2008 sem vísað er til í lið 22 a í XX. viðauka í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið öðlast gildi hér á landi með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XX. viðauka samningsins með eftirfarandi viðbótum:
  1. Í 6. mgr. 2. gr. í stað "8. gr. EES-samningsins" kemur: 2. mgr. 28. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins.
  2. Í 6. og 7. mgr. 2. gr. á eftir orðunum "tollsvæði Sambandsins" kemur: eða yfirráðasvæði EFTA-ríkjanna.
  3. Í 7. mgr. 2. gr. gilda orðin "annað tollferli en ytra umflutningsferli Sambandsins" ekki að því er varðar EFTA-ríkin.
  4. Útflutnings- og innflutningstakmarkanirnar í 3., 4. og 5. gr. gilda ekki milli ESB- og EFTA-ríkjanna. Er þetta með fyrirvara um strangari útflutnings- og innflutningsbönn sem eru í gildi í EFTA-ríki á þeim tíma er þessi reglugerð er tekin upp í EES-samninginn. EFTA-ríkin skulu gera skilvirkar ráðstafanir til að tryggja að kvikasilfur sé ekki flutt út úr eða flutt inn í Evrópusambandið í gegnum EFTA-ríki.
  5. Eftirfarandi undirgrein er bætt við 4. mgr. 8. gr.:

    1. Hafi rekstraraðili tilkynnt lögbærum yfirvöldum í EFTA-ríki í samræmi við 3. mgr. og EFTA-ríkið telur að skilyrðin sem vísað er til í fyrstu undirgrein 6. mgr. hafi verið uppfyllt skal EFTA-ríkið framsenda tilkynninguna til framkvæmdastjórnarinnar. Viðkomandi EFTA-ríki skal upplýsa framkvæmdastjórnina um tilvik þar sem það telur að skilyrðin sem vísað er til í fyrstu undirgrein 6. mgr. hafi ekki verið uppfyllt.
  6. Eftirfarandi undirgrein er bætt við 6. mgr. 8. gr.:

    1. Framkvæmdargerðir framkvæmdastjórnarinnar, þar sem kemur fram hvort viðkomandi ný vara með viðbættu kvikasilfri eða nýtt framleiðsluferli er leyft, hafa almennt gildi og skulu teknar upp í EES-samninginn.
  7. Í 1. mgr. 10. gr. orðast "Frá og með 1. janúar 2019", að því er varðar EFTA-ríkin, "Þegar eitt ár er liðið frá gildistöku ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2021 frá 23. apríl 2021".
    Í 2. mgr. 10. gr. orðast "Frá og með 1. júlí 2018", að því er varðar EFTA-ríkin, "Þegar sex mánuðir eru liðnir frá gildistöku ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2021 frá 23. apríl 2021".
    Í 3. mgr. 10. gr. orðast "Eigi síðar en 1. júlí 2019", að því er varðar EFTA-ríkin, "Þegar 18 mánuðir eru liðnir frá gildistöku ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2021 frá 23. apríl 2021".
    Í 4. mgr. 10. gr. orðast "Frá 1. janúar 2019", að því er varðar EFTA-ríkin, "Þegar eitt ár er liðið frá gildistöku ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2021 frá 23. apríl 2021".
    Í a-lið 4. mgr. 10. gr. orðast "eftir 1. janúar 2018", að því er varðar EFTA-ríkin, "eftir gildistökudag ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2021 frá 23. apríl 2021".
    Í b-lið 4. mgr. 10. gr. orðast "frá 1. janúar 2021", að því er varðar EFTA-ríkin, "þremur árum eftir gildistökudag ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2021 frá 23. apríl 2021".
  8. Í 1. mgr. 18. gr. orðast "Eigi síðar en 1. janúar 2020", að því er varðar EFTA-ríkin, "Þegar tvö ár eru liðin frá gildistökudegi ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2021 frá 23. apríl 2021".
  9. Ákvæði b-liðar 1. mgr. 18. gr. gilda ekki að því er varðar EFTA-ríkin.
  1. Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2022/2526 frá 23. september 2022 um breytingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2017/852 frá 17. maí 2017 um kvikasilfur og um niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 1102/2008, að því er varðar bráðabirgðageymslu kvikasilfursúrgangs í vökvaformi sem vísað er til í tölul. 22a í XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 341/2023, þann 8. desember 2023 og er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 11 frá 1. febrúar 2024, bls. 635-636, öðlast gildi hér á landi.

5. gr. Hlutverk Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun gegnir hlutverki lögbærs yfirvalds, sbr. 17. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/852 um kvikasilfur.

6. gr. Útflutningur.

Útflutningur á kvikasilfri er bannaður. Útflutningur á kvikasilfurssamböndum og blöndum kvikasilfurs, sem tilgreind eru í I. viðauka reglugerðar (ESB) 2017/852, er bannaður.

Útflutningur á vörum með viðbættu kvikasilfri, sem tilgreindar eru í II. viðauka reglugerðar (ESB) 2017/852, er bannaður.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er útflutningur kvikasilfurssambanda, sem tilgreind eru í I. viðauka reglugerðar (ESB) 2017/852, leyfður til rannsókna eða greininga á rannsóknarstofum.

Bannið sem kveðið er á um í 2. mgr. gildir ekki um eftirfarandi vörur með viðbættu kvikasilfri:

  1. vörur sem eru nauðsynlegar til almannavarna og hernaðarnota,
  2. vörur til rannsókna, til kvörðunar á tækjabúnaði eða til notkunar sem viðmiðunarstaðlar.

Að öðru leyti vísast til 3. gr. reglugerðar (ESB) 2017/852.

7. gr. Innflutningur.

Innflutningur á kvikasilfri og innflutningur á blöndum kvikasilfurs, sem tilgreindar eru í I. viðauka reglugerðar (ESB) 2017/852 er bannaður.

Innflutningur á blöndum kvikasilfurs sem falla ekki undir 1. mgr. og á kvikasilfurssamböndum, til endurheimtar á kvikasilfri, er bannaður.

Innflutningur á vörum með viðbættu kvikasilfri, sem tilgreindar eru í II. viðauka reglugerðar (ESB) 2017/852, er bannaður.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. veitir Umhverfisstofnun undanþágu fyrir innflutningi vegna notkunar sem undanþegin er banni skv. 4. gr. reglugerðar (ESB) 2017/852.

Komi til þess að leyfður verði innflutningur úrgangs til förgunar að uppfylltum skilyrðum í 4. gr. reglugerðar (ESB) 2017/852 skal reglugerð um flutning úrgangs á milli landa nr. 822/2010 gilda áfram, til viðbótar við kröfur í reglugerð (ESB) 2017/852.

Bannið sem kveðið er á um í 3. mgr. gildir ekki um eftirfarandi vörur með viðbættu kvikasilfri:

  1. vörur sem eru nauðsynlegar til almannavarna og hernaðarnota,
  2. vörur til rannsókna, til kvörðunar á tækjabúnaði eða til notkunar sem viðmiðunarstaðlar.

8. gr. Tannsilfur.

Notkun tannlækna á kvikasilfri í lausri vigt er bönnuð. Eingöngu skal nota tannsilfur sem er forskammtað í hylkjum.

Óheimilt er að nota tannsilfur við tannlæknameðferð barnatanna, barna undir 15 ára eða tanna kvenna sem eru þungaðar eða með barn á brjósti nema tannlæknirinn telji það algjörlega nauðsynlegt vegna tiltekinna læknisfræðilegra þarfa sjúklingsins.

Rekstraraðilar tannlæknastofa þar sem tannsilfur er notað eða tannsilfursfyllingar eða tennur, sem innihalda slíkar fyllingar, eru fjarlægðar skulu sjá til þess að stofurnar séu búnar amalgamskiljum til að halda eftir og safna saman amalgamögnum, þ.m.t. þeim sem eru í notuðu vatni. Slíkir rekstraraðilar skulu tryggja að:

  1. amalgamskiljur, sem teknar voru í notkun eftir 24. apríl 2021, hafi getu til að halda eftir a.m.k. 95% af amalgamögnunum,
  2. frá 24. apríl 2024 hafi allar amalgamskiljur í notkun þá getu til að halda eftir amalgamögnum eins og tilgreint er í a-lið.

Amalgamskiljum skal viðhaldið í samræmi við leiðbeiningar framleiðanda til að tryggja mestu mögulegu getu til að halda eftir amalgamögnum.

Hylki og amalgamskiljur, sem uppfylla Evrópustaðla eða aðra landsbundna eða alþjóðlega staðla sem veita jafngilt gæðastig og getu til að halda eftir amalgamögnum, skulu teljast uppfylla kröfurnar sem settar eru fram í 1. til 4. mgr.

Allur amalgammengaður úrgangur telst til spilliefna og skal skilað til viðurkenndrar móttökustöðvar fyrir spilliefni. Tannlæknar skulu tryggja að þeir sem meðhöndla og safni amalgamúrgangi þeirra, þ.m.t. amalgamleifum, -ögnum og -fyllingum, og tönnum, eða hlutum þeirra, sem eru mengaðar af tannsilfri hafi tilskilin starfsleyfi til meðhöndlunar og flutnings úrgagns. Slíkan amalgamúrgang skal ekki undir neinum kringumstæðum losa beint eða óbeint út í umhverfið. Til staðfestingar á því að úrgangi hafi verið skilað til viðurkenndrar móttökustöðvar skal halda eftir kvittun frá móttökustöð. Kvittanir skal geyma í a.m.k. fjögur ár, og ber að sýna þær eftirlitsaðila, óski hann þess. Að öðru leyti er vísað til reglugerðar um spilliefni.

9. gr. Eftirlit.

Umhverfisstofnun annast eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar skv. XI. kafla efnalaga nr. 61/2013.

Heilbrigðisnefndir hafa eftirlit með meðhöndlun á úrgangi skv. II. kafla laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og eftirlit með tannlæknastofum, skv. 8. gr. reglugerðar þessarar, sbr. og lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

10. gr. Þvingunarúrræði og viðurlög.

Um þvingunarúrræði og viðurlög við brotum gegn ákvæðum reglugerðar þessarar fer samkvæmt ákvæðum XIII. og XIV. kafla efnalaga nr. 61/2013, nema hvað varðar brot gegn ákvæðum 8. gr. reglugerðarinnar sem fer samkvæmt ákvæðum XVII. og XIX. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og brotum gegn ákvæðum um meðhöndlun úrgangs sem fer samkvæmt ákvæðum XIII. kafla laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.

11. gr. Innleiðing tiltekinna gerða Evrópusambandsins.

Reglugerðin er sett til innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/852 frá 17. maí 2017 um kvikasilfur og um niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 1102/2008.

12. gr. Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 21. tl. 1. mgr. 11. gr. efnalaga nr. 61/2013, 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og 9., 12. og 22. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Reglugerðin öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 860/2000 um amalgammengað vatn og amalgammengaðan úrgang frá tannlæknastofum.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.