Fara beint í efnið

Prentað þann 23. nóv. 2024

Eldri útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 13. júlí 2012 – 17. apríl 2014 Sjá núgildandi

619/2008

Reglugerð um bann við markaðssetningu, dreifingu og sölu kveikjara án barnalæsingar og kveikjara með óhefðbundið útlit sem höfða sérstaklega til barna.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um bann við markaðssetningu, dreifingu og sölu kveikjara án barnalæsingar og kveikjara með óhefðbundið útlit sem höfða sérstaklega til barna og því hætta á að þau noti þá við leik.

Ákvæði reglugerðarinnar gilda ekki um áfyllanlega kveikjara ef framleiðandi getur, að beiðni Neytendastofu, lagt fram gögn um að kveikjarinn sé hannaður, framleiddur og markaðssettur þannig að gera megi ráð fyrir öruggri notkun í a.m.k. fimm ár eftir að hann er settur á markað. Kveikjari er undanþeginn ákvæðum reglugerðarinnar ef hann uppfyllir eftirtalin atriði:

  1. til sé skrifleg yfirlýsing framleiðanda um ábyrgð, sem gildir í tvö ár í samræmi við ákvæði laga um neytendakaup nr. 48/2003;
  2. unnt sé að gera við kveikjarann, sérstaklega kveikibúnaðinn, og fylla á kveikjarann allan þann tíma sem hann er í notkun;
  3. unnt sé að skipta út slitnum íhlutum eða íhlutum sem líklegir eru til að bila eftir að ábyrgð framleiðenda rennur út og að unnt sé að nálgast varahluti eða setja kveikjarann í viðgerð hjá aðila sem sérhæfir sig í slíku og hefur aðsetur innan Evrópska efnahagssvæðisins;
  4. á kveikjaranum komi fram upplýsingar um nafn eða annað auðkenni framleiðenda og/eða innflytjanda, ásamt heimilisfangi.

2. gr. Skilgreiningar.

Kveikjari: handdrifið tæki sem gefur frá sér eld, gengur fyrir eldsneyti og er framleitt með einnota eða áfyllanlega eldsneytisgeymslu. Tækið er venjulega notað til að kveikja í sígarettum, vindlum og pípum og fyrirsjáanlegt er að hægt sé að nota það til þess að kveikja í efni, s.s. pappír, kveik, kertum og luktum.

Kveikjari með óhefðbundið útlit: kveikjari sem höfðar til barna og veldur því að mikil hætta er á að börn yngri en 51 mánaða taki kveikjarann í misgripum og noti við leik, t.d. kveikjari sem lítur úr eins og bíll, farsími, dýr eða vera sem blikkar eða gefur frá sér hljóð. Kveikjari telst hafa óhefðbundið útlit uppfylli hann ákvæði ÍST EN 13869:2002, lið 3.2.

Kveikjari með barnalæsingu: kveikjari sem er hannaður og framleiddur á þann hátt að börn yngri en 51 mánaða geta ekki kveikt á kveikjaranum við eðlilegar eða fyrirsjáanlegar aðstæður þar sem kraftur þeirra og tækni eru ekki nægjanleg. Einnig er hönnun kveikjarans og vörn fyrir kveikibúnað þannig að börn geta ekki kveikt á kveikjaranum.

Barnalæsingaprófun: kerfisbundin prófun á barnalæsingum á eintaki af fyrirfram tilgreindri tegund kveikjara. Prófað er í samræmi við staðalinn ÍST EN 13869:2002, sérstaklega hvað varðar málsgreinar 3.1, 3.4, og 5.2.3 í staðlinum, eða í samræmi við prófunaraðferðir þeirra landa sem eru ekki hluti af Evrópska efnahagssvæðinu, þar sem sambærileg ákvæði um barnalæsingar eru í gildi.

Framleiðandi: sá sem býr til fullunna vöru, býr til hluta vöru eða lætur af hendi hráefni, vinnur eða aflar afurða úr náttúrunni að því tilskildu að hann hafi staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. Einnig telst framleiðandi vera sá sem merkir framleiðsluvöruna með nafni sínu, vörumerki eða öðru kennimarki eða aðili sem endurgerir vöruna. Hafi framleiðandi vöru ekki staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum skal fulltrúi hans teljast framleiðandi.

Innflytjandi: sá aðili sem telst vera framleiðandi vöru hafi framleiðandi ekki staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins né fulltrúa.

Dreifingaraðili: hver sá í aðfangakeðjunni sem stundar starfsemi sem hefur ekki áhrif á öryggiseiginleika framleiðsluvöru.

3. gr. Bann við markaðssetningu kveikjara án barnalæsingar og með óhefðbundið útlit.

Framleiðendur, innflytjendur og dreifingaraðilar mega eingöngu afhenda, gefa eða selja kveikjara sem eru með barnalæsingu.

Markaðssetning, sala eða önnur dreifing kveikjara sem hafa óhefðbundið útlit kveikjara og höfða til barna er bönnuð.

4. gr. Skilyrði markaðssetningar.

Framleiðendur og innflytjendur kveikjara skulu uppfylla eftirfarandi skilyrði fyrir markaðssetningu kveikjara hér á landi:

  1. Varðveita og afhenda án tafar, að beiðni Neytendastofu, upplýsingar um þær prófanir sem farið hafa fram á hverri tegund kveikjara því til staðfestingar að viðkomandi tegund kveikjara hafi staðist barnalæsingarprófun.
  2. Geta staðfest að allir kveikjarar í þeirri framleiðslulotu sem er markaðssett séu í samræmi við það eintak kveikjara sem hefur verið prófað og geta lagt fram upplýsingar um prófun og framleiðslustýringu því til stuðnings, að beiðni Neytendastofu.
  3. Fylgjast stöðugt með því hvort kveikjarar sem framleiddir eru séu í samræmi við kröfur um barnalæsingu með því að nota viðeigandi prófunaraðferðir og hafa aðgengileg framleiðslugögn fyrir Neytendastofu sem sýna að allir framleiddir kveikjarar séu í samræmi við það eintak kveikjara sem prófað hefur verið.
  4. Varðveita og afhenda án tafar, að beiðni Neytendastofu, nýjar skýrslur um barnalæsingaprófun ef breytingar eru gerðar á viðkomandi tegund kveikjara sem gætu á einhvern hátt haft áhrif á að sú tegund uppfylli ákvæði reglugerðarinnar.

Kveikjarar teljast vera öruggir börnum ef þeir eru í samræmi við staðalinn ÍST EN 13869:2002, sérstaklega hvað varðar málsgreinar 3.1, 3.4 og 5.2.3 í staðlinum eða í samræmi við reglur ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins þar sem sambærilegar kröfur eru gerðar til barnalæsingar.

5. gr. Barnalæsingarprófun.

Prófunarstofur sem uppfylla kröfur EN ISO/IEC 17025:2005 og sem hlotið hafa faggildingu til að framkvæma barnalæsingaprófanir á kveikjurum af aðila innan alþjóðlegu faggildingarsamtakanna, ILAC eða eru viðurkenndar á annan hátt af lögbæru yfirvaldi innan Evrópska efnahagssvæðisins teljast hæfar til þess að framkvæma barnalæsingaprófun á kveikjurum. Einnig teljast prófunarstofur hæfar ef skýrslur þeirra um barnaöryggi eru samþykktar í ríki þar sem sambærilegar kröfur eru gerðar og í reglugerð þessari.

Í skýrslu um barnalæsingaprófun skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram:

  1. Nafn, heimilisfang og starfsstöð framleiðenda og innflytjenda.
  2. Tæmandi lýsing á kveikjara, þ.m.t. stærð, lögun, þyngd, tegund eldsneytis, eldneytisrúmtaki, kveikibúnaði, barnalæsingarbúnaði, hönnun, tæknilausnum og öðrum búnaði sem leiðir til þess að kveikjarinn uppfylli kröfur reglugerðarinnar um barnalæsingu. Sérstaklega skulu koma fram nákvæmar upplýsingar um öll mál kveikjarans, þann kraft sem þarf til að kveikja á kveikjaranum eða aðra þætti sem gætu haft áhrif á barnaöryggi kveikjarans, þ.m.t. vikmörk framleiðandans fyrir hvern þátt.
  3. Nákvæm lýsing á prófunum og niðurstöðum þeirra, dagsetningar prófana, hvar þær voru framkvæmdar, hver framkvæmdi þær og upplýsingar um hæfni þess aðila til þess að framkvæma slíkar prófanir.
  4. Upplýsingar um þann stað sem kveikjararnir eru og hafa verið framleiddir á.
  5. Staðsetning þeirra upplýsinga sem Neytendastofa getur krafist samkvæmt reglugerð þessari.
  6. Tilvísanir til faggildingar eða viðurkenningar á hæfni þess aðila sem framkvæmdi prófanir.

6. gr. Upplýsingaskylda dreifingaraðila.

Dreifingaraðilum er skylt að halda utan um skjöl sem nauðsynleg eru til þess að rekja uppruna vöru og geta framvísað þeim til Neytendastofu ef stofnunin óskar þess.

Dreifingaraðili skal án tafar, að kröfu Neytendastofu, leggja fram skjöl sem nauðsynleg eru til að bera kennsl á birgja á þeim kveikjurum sem þeir hafa sett á markað í því skyni að tryggja rekjanleika í gegnum aðfangakeðjuna alla til framleiðandans. Geti dreifingaraðili ekki lagt fram skjöl skv. 1. mgr. innan tilskilins frests skal Neytendastofa innkalla kveikjara af markaði.

7. gr. Stjórnsýsluúrræði.

Óski Neytendastofa eftir upplýsingum samkvæmt 4. og 6. gr. reglugerðarinnar en framleiðandi, innflytjandi og dreifingaraðili afhenda ekki umbeðin gögn innan tilskilins frests skal Neytendastofa taka kveikjarana af markaði.

Brjóti framleiðandi, innflytjandi eða dreifingaraðili gegn ákvæðum reglugerðar þessarar getur Neytendastofa beitt úrræðum samkvæmt V. kafla laga nr. 134/1995 um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, með áorðnum breytingum.

8. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett á grundvelli 10. gr. laga nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, með áorðnum breytingum og innleiðir ákvarðanir Evrópusambandsins nr. 2006/502/EB, 2007/231/EB, 2008/322/EB, 2009/298/EB, 2010/157/ESB, 2011/176/ESB og 2012/53/ESB. Reglugerðin tekur þegar gildi.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.