Fara beint í efnið

Prentað þann 22. des. 2024

Eldri útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 21. jan. 2017 – 16. apríl 2021 Sjá lokaútgáfu

467/2015

Reglugerð um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um læknakandídata sem sækja um almennt lækningaleyfi skv. 2. gr. og lækna sem sækja um sérfræðileyfi skv. 6. gr. og þá sem hafa almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi landlæknis skv. 2. og 6. gr.

II. KAFLI Almennt lækningaleyfi.

2. gr. Starfsheiti.

Rétt til að kalla sig lækni og starfa sem slíkur hér á landi hefur sá einn sem fengið hefur útgefið almennt lækningaleyfi frá landlækni.

3. gr. Skilyrði fyrir veitingu almenns lækningaleyfis.

Leyfi skv. 2. gr. má veita þeim sem lokið hafa sex ára námi (360 ECTS) sem lýkur með embættisprófi, cand. med. prófi í læknisfræði frá læknadeild Háskóla Íslands og starfsnámi skv. 4. gr.

Einnig má staðfesta starfsleyfi frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og Sviss.

Þá er heimilt að veita starfsleyfi þeim sem lokið hafa sambærilegri menntun skv. 1. mgr. frá menntastofnun í ríki utan EES eða Sviss sem viðurkennd er sem slík af heilbrigðisyfirvöldum hér á landi og heilbrigðisyfirvöldum þess ríkis þar sem námið var stundað.

Um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi læknis sem uppfyllir skilyrði tilskipunar 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, með síðari breytingum, fer samkvæmt reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum, nr. 461/2011, eða samkvæmt samningum sem ríkisstjórnir Norðurlandanna gera og öðlast hafa gildi að því er Ísland varðar og kveða á um almennar reglur um gagnkvæma viðurkenningu starfsréttinda.

Um frekari skilyrði fyrir veitingu almenns lækningaleyfis fer skv. 16. gr.

Um gjaldtöku fyrir veitingu almenns lækningaleyfis fer skv. 18. gr.

4. gr. Starfsnám til almenns lækningaleyfis.

Starfsnám skal vera tólf mánaða klínískt nám og þannig skipulagt að a.m.k. fjórir mánuðir séu á lyflækningadeild, tveir mánuðir á skurðlækningadeild og/eða bráðadeild og fjórir mánuðir á heilsugæslustöð.

Tímalengd starfsnáms miðast við fullt starf (100%). Námstíminn skal að jafnaði skipulagður sem námsblokkakerfi í eitt ár í senn frá 15. júní ár hvert. Fjarvistir umfram tvær vikur lengja starfsnámið sem því nemur. Heimilt er að veita undanþágu frá reglu um 100% starfshlutfall og heimila starfsnám í hlutastarfi, þó að lágmarki 50% starfi, enda lengist námstími hvers hluta starfsnámsins sem því nemur. Störf sem unnin eru áður en embættisprófi í læknisfræði er lokið eða utan við skipulagðan tíma í starfsnámi reiknast ekki inn í starfsnámið.

Starfsnám skal fara fram á viðurkenndri heilbrigðisstofnun eða viðurkenndri deild heilbrigðisstofnunar undir handleiðslu og samkvæmt marklýsingu fyrir starfsnám til starfsleyfis, sbr. 15. gr. Starfsnámið fer fram á ábyrgð framkvæmdastjóra lækninga viðkomandi stofnunar. Heimilt er að stunda starfsnám erlendis enda uppfylli námið skilyrði 1. og 2. mgr. Starfsnámið skal stundað við heilbrigðisstofnun sem viðurkennd er til slíks starfsnáms af heilbrigðisyfirvöldum í því ríki þar sem starfsnámið er stundað og heilbrigðisyfirvöldum hér á landi.

Tryggja skal að læknakandídat öðlist fullnægjandi starfsþjálfun samkvæmt marklýsingu, sbr. 15. gr. Viðkomandi heilbrigðisstofnun ber ábyrgð á að starfsnámið sé í samræmi við markmið marklýsingar og að læknakandídatinn uppfylli þær kröfur sem þar eru gerðar. Heilbrigðisstofnunin og læknakandídatinn gera með sér samning um starfsnámstíma og innihald starfsnámsins.

Ráðherra skal skipa nefnd til fjögurra ára sem skipuleggur námsblokkir, fjölda þeirra og ráðningarferli fyrir læknakandídata í starfsnámi í samvinnu við þær heilbrigðisstofnanir sem viðurkenndar eru til slíks náms. Nefndin skal skipuð sex fulltrúum með læknismenntun, tveimur frá Landspítala, einum frá Sjúkrahúsinu á Akureyri, einum frá heilbrigðisstofnun utan höfuðborgarsvæðisins, einum frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og einum frá Félagi almennra lækna. Skipa skal jafnmarga fulltrúa til vara. Ráðherra skipar formann úr hópi nefndarmanna. Aðsetur nefndarinnar skal vera á Landspítala sem leggur nefndinni til starfsmann og starfsaðstöðu. Námsblokkirnar skulu auglýstar lausar til umsóknar eigi síðar en 15. desember ár hvert.

Formaður nefndarinnar staðfestir á grundvelli vottorða frá framkvæmdastjórum lækninga þeirra stofnana þar sem námið fór fram að læknakandídat hafi lokið starfsnámi á fullnægjandi hátt. Ef vafi leikur á um að læknakandídat uppfylli kröfur marklýsingar skal nefndin í samráði við framkvæmdastjóra lækninga á viðkomandi heilbrigðisstofnun gera viðeigandi ráðstafanir.

5. gr. Umsagnir.

Áður en leyfi er veitt skv. 2. gr. á grundvelli menntunar utan EES og Sviss skv. 3. mgr. 3. gr. skal landlæknir leita umsagnar læknadeildar Háskóla Íslands um það hvort umsækjandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 3. gr. og skilyrði 4. gr. um menntun og starfsnám.

III. KAFLI Sérfræðileyfi.

6. gr. Sérfræðileyfi.

Rétt til að kalla sig sérfræðing í sérgrein innan læknisfræði og starfa sem slíkur hér á landi hefur sá einn sem fengið hefur til þess leyfi landlæknis.

7. gr. Skilyrði fyrir sérfræðileyfi.

Sérfræðileyfi má veita í sérgreinum læknisfræði skv. 10. gr. Skilyrði er að sérnám umsækjanda sé skilgreint innan þeirrar sérgreinar sem umsókn hans um sérfræðileyfi tekur til.

Til að læknir geti átt rétt á að öðlast sérfræðileyfi skv. 6. gr. skal hann uppfylla eftirtaldar kröfur:

  1. hafa lokið embættisprófi í læknisfræði frá læknadeild Háskóla Íslands skv. 3. gr. og starfsnámi skv. 4. gr. eða hafa lokið sambærilegu námi erlendis,
  2. hafa hlotið almennt lækningaleyfi hér á landi skv. 2. gr. og
  3. hafa lokið viðurkenndu sérnámi og tileinkað sér þekkingu, klíníska og verklega færni og aðferðafræði sem krafist er fyrir viðkomandi sérgrein skv. 8. og 9. gr.

Umsækjandi um sérfræðileyfi í sérgrein og undirsérgrein innan læknisfræði skal fyrst hafa hlotið sérfræðileyfi í því ríki þar sem sérnámið eða meirihluti sérnáms fór fram og þar sem sérnámi lauk.

Heildarnámstími skal að jafnaði vera að lágmarki fimm ár (60 mánuðir) í aðalgrein og tvö ár í undirgrein, sbr. þó 7. mgr.

Einnig má staðfesta sérfræðileyfi í sérgrein skv. 10. gr., frá ríki innan EES og Sviss.

Þá er heimilt að veita sérfræðileyfi þeim sem lokið hafa sambærilegu sérnámi, sbr. 8. gr., frá menntastofnun í ríki utan EES eða Sviss sem viðurkennt er sem slíkt af heilbrigðisyfirvöldum hér á landi og heilbrigðisyfirvöldum þess ríkis þar sem námið var stundað.

Einnig er heimilt að veita sérfræðileyfi þeim sem lokið hafa viðurkenndu sérnámi, sbr. 8. gr., í landi sem gerir sambærilegar kröfur um nám og gerðar eru í reglugerð þessari enda þótt námstilhögun sérnáms sé frábrugðin, þar með talið tímaákvæði.

Um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi sérmenntaðs læknis sem uppfyllir skilyrði tilskipunar 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, með síðari breytingum, fer samkvæmt reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum, nr. 461/2011, eða samkvæmt samningum sem ríkisstjórnir Norðurlandanna gera og öðlast hafa gildi að því er Ísland varðar og kveða á um almennar reglur um gagnkvæma viðurkenningu starfsréttinda.

Um frekari skilyrði fyrir veitingu sérfræðileyfis fer skv. 16. gr.

8. gr. Sérnám í læknisfræði.

Sérnám í læknisfræði skal fela í sér fræðilegt og verklegt nám við háskóla eða heilbrigðisstofnun sem viðurkennd er af heilbrigðisyfirvöldum hér á landi eða háskóla eða heilbrigðisstofnun sem viðurkennd er til slíks sérnáms í því ríki þar sem sérnámið er stundað.

Sérnám í læknisfræði skal uppfylla, hvað varðar innihald og námstíma, kröfur um sérnám sem gerðar eru í því ríki þar sem sérnám er stundað, en við mat á sérnámi frá ríki utan EES og Sviss skal einkum haft til hliðsjónar sérnám í læknisfræði á hinum Norðurlöndunum eða sambærilegt sérnám, svo sem í Bandaríkjunum.

Sérnám sem unnt er að stunda hér á landi skal fara fram á heilbrigðisstofnun eða deild heilbrigðisstofnunar sem hlotið hefur viðurkenningu til slíks sérnáms af nefnd skv. 15. gr. Sérnám sem stundað er hér á landi að öllu leyti eða hluta skal fara fram í samræmi við námsaðferðir og vera í samræmi við marklýsingu, sbr. 15. gr., sem sett hefur verið fyrir sérgreinina.

Í marklýsingu skal meðal annars kveðið á um inntöku í sérnám, innihald, fyrirkomulag og lengd sérnámsins og einstakra námshluta, gæðakröfur, handleiðslu og hæfismat.

Sérnámið skal fara fram á ábyrgð framkvæmdastjóra lækninga heilbrigðisstofnunar sem viðurkennd hefur verið af nefnd skv. 15. gr. og skal framkvæmdastjóri lækninga skipa kennslustjóra með sérfræðileyfi í viðkomandi sérgrein sem umsjónarmann sérnámsins. Læknir í sérnámi og framkvæmdastjóri lækninga skulu gera með sér samning þar sem kveðið er á um réttindi og skyldur stofnunar og læknis í sérnámi, áætlun um sérnám sem og lengd og fyrirkomulag ætlaðrar sérnámsdvalar. Heimilt er að viðurkenna allt að eins árs vísindavinnu í stað eins árs í aðalgrein, enda sé það í samræmi við marklýsingu og samþykkt af kennslustjóra.

Áunnið sumarleyfi og vaktafrí sem tekin eru á sérnámstímanum reiknast sem hluti af heildarnámstíma. Fjarvistir umfram tíu vikur lengja sérnám sem því nemur. Miðað skal við að starfshlutfall í sérnámi sé 100%. Sé starfshlutfall lægra, lengist lágmarksnámstími þannig að heildarnámstími samsvari minnst 60 mánuðum í fullu starfi.

Þeir sem ljúka sérnámi bæði í aðalsérgrein og undirsérgrein á sjö árum geta haft sveigjanlegri tímamörk milli aðalsérgreinar og undirsérgreinar en að framan getur, þó má aðalgrein aldrei taka skemmri tíma en þrjú ár.

Um frekari skilyrði fyrir veitingu sérfræðileyfis fer skv. 16. gr.

Um gjaldtöku fyrir veitingu sérfræðileyfis fer skv. 18. gr.

9. gr. Sérfræðileyfi.

Sérfræðileyfi má veita að loknu viðurkenndu formlegu sérnámi, sbr. 7. og 8. gr.

Til að hljóta sérfræðileyfi í undirsérgrein innan viðkomandi aðalgreinar skal umsækjandi hafa hlotið sérfræðileyfi í viðkomandi aðalgrein og hafa lokið formlegu viðurkenndu sérnámi í undirgreininni. Með undirgrein er átt við frekari sérhæfingu á fræða- og starfssviði sem fellur innan viðkomandi aðalgreinar. Auk tveggja undirsérgreina er hægt að viðurkenna eina viðbótarsérgrein skv. 10. gr.

Heimilt er að veita umsækjanda um sérfræðileyfi skv. 10. gr. takmarkaða undanþágu á einstaklingsgrundvelli frá hluta sérnáms sem skráð er í lið 5.1.3. V. viðauka tilskipunar 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, með síðari breytingum, samanber tilskipun 2013/55/ESB, enda hafi hann þegar lokið við þann hluta sérnámsins í öðru sérnámi í læknisfræði og þegar öðlast sérfræðileyfi á grundvelli þess sérnáms. Undanþágan má ekki taka til meira en helmings af lágmarkstíma í viðkomandi sérnámi.

10. gr. Sérgreinar.

Sérgrein skal standa á traustum fræðilegum grunni og eiga sér samsvörun á viðurkenndum alþjóðlegum vettvangi.

Sérfræðileyfi má veita í eftirfarandi sérgreinum læknisfræði:

  1. Skurðlækningar:

    1. Almennar skurðlækningar.

      Undirsérgreinar:

      1. Barnaskurðlækningar.
      2. Brjósta- og innkirtlaskurðlækningar.
      3. Efri-meltingarfæraskurðlækningar.
      4. Hjarta- og brjóstholsskurðlækningar.
      5. Lýtaskurðlækningar.
      6. Ristil- og endaþarmsskurðlækningar.
      7. Þvagfæraskurðlækningar.
      8. Æðaskurðlækningar.
    2. Barnaskurðlækningar.
    3. Handaskurðlækningar.
    4. Heila- og taugaskurðlækningar.
    5. Hjarta- og brjóstholsskurðlækningar.
    6. Kviðarholsskurðlækningar.

      Undirsérgreinar:

      1. Skurðlækningar efra kviðarhols.
      2. Ristil- og endaþarmsskurðlækningar.
    7. Lýtaskurðlækningar.
    8. Þvagfæraskurðlækningar.
    9. Æðaskurðlækningar.
  2. Augnlækningar:

    Undirsérgreinar:

    1. Augnlýtalækningar.
    2. Augasteinsskurðlækningar.
    3. Barnaaugnlækningar.
    4. Glákulækningar.
    5. Hornhimnulækningar.
    6. Sjónhimnulækningar.
    7. Taugaaugnlækningar.
  3. Bæklunarskurðlækningar:

    Undirsérgrein:

    1. Handarskurðlækningar.
  4. Fæðinga- og kvensjúkdómalækningar:

    Undirsérgreinar:

    1. Fósturgreining og meðgöngusjúkdómar.
    2. Innkirtlalækningar kvenna.
    3. Krabbameinslækningar kvenna.
    4. Vanfrjósemislækningar.
    5. Þvagfæraskurðlækningar kvenna.
  5. Háls-, nef- og eyrnalækningar:

    Undirsérgreinar:

    1. Háls-, nef- og eyrnaskurðlækningar.
    2. Heyrnarfræði.
    3. Radd- og talmeinafræði.
    4. Háls-, nef- og eyrnalækningar barna.
    5. Taugaheyrnarfræði.
  6. Svæfinga- og gjörgæslulækningar:

    Undirsérgreinar:

    1. Bráðalækningar utan sjúkrahúsa.
    2. Gjörgæslulækningar.
    3. Sérhæfðar verkjalækningar.
    4. Svæfingalækningar við fæðingar.
    5. Svæfinga- og gjörgæslulækningar barna.
    6. Svæfinga- og gjörgæslulækningar við brjósthols- og æðaaðgerðir.
  7. Lyflækningar:

    1. Lyflækningar.

      Undirsérgreinar:

      1. Blóðlækningar.
      2. Blóð- og krabbameinslækningar.
      3. Fíknilækningar.
      4. Gigtarlækningar.
      5. Gjörgæslulækningar.
      6. Hjartalækningar.
      7. Innkirtlalækningar.
      8. Krabbameinslækningar.
      9. Líknarlækningar.
      10. Lungnalækningar.
      11. Meltingarlækningar.
      12. Nýrnalækningar.
      13. Ofnæmis- og ónæmislækningar.
      14. Smitsjúkdómalækningar.
      15. Öldrunarlækningar.
    2. Blóðlækningar.
    3. Blóð- og krabbameinslækningar.
    4. Gigtarlækningar.
    5. Hjartalækningar.

      Undirsérgreinar:

      1. Hjartabilun og hjartaígræðsla.
      2. Hjartaþræðingar og innanæðaaðgerðir.
      3. Myndgreining hjarta.
      4. Raflífeðlisfræði hjarta.
    6. Innkirtlalækningar.
    7. Krabbameinslækningar.

      Undirsérgrein:

      1. Geislalækningar krabbameina.
    8. Lungnalækningar.
    9. Meltingarlækningar.
    10. Nýrnalækningar.
    11. Ofnæmis- og ónæmislækningar.
    12. Smitsjúkdómalækningar.
    13. Öldrunarlækningar.
  8. Atvinnu- og umhverfislækningar.
  9. Barnalækningar:

    Undirsérgreinar:

    1. Barna- og unglingageðlækingar.
    2. Blóð- og krabbameinslækningar barna.
    3. Bráðalækningar barna.
    4. Erfðalækningar barna.
    5. Fötlun barna.
    6. Gigtarlækningar barna.
    7. Gjörgæslulækningar barna.
    8. Hjartalækningar barna.
    9. Hæfing barna.
    10. Innkirtlalækningar barna.
    11. Lungnalækningar barna.
    12. Meltingarlækningar og næring barna.
    13. Nýburalækningar.
    14. Nýrnalækningar barna.
    15. Ofnæmislækningar barna.
    16. Ofnæmis- og ónæmislækningar barna.
    17. Ónæmislækningar barna.
    18. Smitsjúkdómalækningar barna.
    19. Smitsjúkdóma- og ónæmislækningar barna.
    20. Taugalækningar barna.
    21. Unglingalækningar.
  10. Bráðalækningar:

    Undirsérgreinar:

    1. Bráðalækningar barna.
    2. Bráðalækningar utan sjúkrahúsa.
    3. Eitrunarfræði.
  11. Endurhæfingarlækningar.
  12. Lýðheilsufræði.
  13. Geðlækningar:

    1. Geðlækningar.

      Undirsérgreinar:

      1. Barna- og unglingageðlækningar.
      2. Fíknigeðlækningar.
      3. Réttargeðlækningar.
      4. Samfélagsgeðlækningar.
      5. Öldrunargeðlækningar.
    2. Barna- og unglingageðlækningar.
  14. Heimilislækningar:

    Undirsérgrein:

    1. Héraðslækningar.
  15. Húðlækningar:

    Undirsérgrein:

    1. Húðmeinafræði.
  16. Lækningarannsóknir:

    1. Blóðmeinafræði.
    2. Eiturefnafræði.
    3. Erfðalæknisfræði.
    4. Klínísk lífeðlisfræði.
    5. Klínísk lífefnafræði.
    6. Klínísk lyfjafræði.
    7. Klínísk ónæmisfræði og blóðgjafafræði.
    8. Meinefnafræði.
    9. Meinafræði.

      Undirsérgreinar:

      1. Barnameinafræði.
      2. Blóðmeinafræði.
      3. Frumumeinafræði.
      4. Réttarmeinafræði.
      5. Taugameinafræði.
    10. Ónæmisfræði.
    11. Réttarmeinafræði.
    12. Sýkla- og veirufræði.
    13. Sýklafræði.
    14. Veirufræði.
  17. Myndgreining:

    Undirsérgreinar:

    1. Myndgreining barna.
    2. Myndgreining ísótópa.
    3. Myndgreining rannsóknarinngripa.
    4. Myndgreining stoðkerfis.
    5. Myndgreining taugakerfis.
  18. Taugalækningar:

    1. Taugalækningar

      Undirsérgreinar:

      1. Bólgusjúkdómar miðtaugakerfis.
      2. Flogaveiki.
      3. Heilaæðasjúkdómar.
      4. Hreyfitruflanir.
      5. Höfuðverkir.
      6. Klínísk taugalífeðlisfræði.
      7. Endurhæfing taugasjúkdóma.
    2. Klínísk taugalífeðlisfræði.
  19. Viðbótarsérgreinar:

    1. Heilbrigðisstjórnun: Heimilt er að veita lækni, sem hlotið hefur sérfræðileyfi í einni sérgrein, viðbótarsérgrein í heilbrigðisstjórnun. Til að öðlast slíka viðurkenningu skal viðkomandi hafa lokið 90 ECTS-eininga viðbótarnámi í heilbrigðisstjórnun og sex mánaða vinnu á stofnun eða deild er fæst við stjórnun heilbrigðismála sem viðurkennd er af mats- og hæfisnefnd skv. 15. gr.
    2. Lýðheilsufræði: Heimilt er að veita lækni, sem hlotið hefur sérfræðileyfi í einni sérgrein, viðbótarsérgrein í lýðheilsufræðum. Til að öðlast slíka viðurkenningu skal viðkomandi hafa lokið 90 ECTS-eininga viðbótarnámi í lýðheilsufræðum og sex mánaða vinnu við lýðheilsufræði sem viðurkennd er af mats- og hæfisnefnd skv. 15. gr.
    3. Öldrunarlækningar: Heimilt er að veita lækni, sem hlotið hefur sérfræðileyfi í heimilislækningum, viðbótarsérgrein í öldrunarlækningum. Til að öðlast slíka viðurkenningu skal viðkomandi hafa lokið tveggja ára viðurkenndu viðbótarnámi í öldrunarlækningum.
    4. Líknarlækningar: Til að læknir geti hlotið sérfræðileyfi í líknarlækningum sem viðbótarsérgrein skal hann hafa hlotið sérfræðileyfi í aðalsérgrein skv. 2. mgr. Þetta á þó ekki við hafi læknir einungis hlotið sérfræðileyfi í atvinnu- og umhverfislækningum, sérgreinum innan lækningarannsókna, erfðalækningum, lýðheilsufræði, myndgreiningu, réttarlæknisfræði og klínískri taugalífeðlisfræði.
      Til að öðlast viðurkenningu skal viðkomandi hafa lokið að minnsta kosti tveggja ára viðurkenndu viðbótarsérnámi í líknarlækningum.
    5. Sérhæfðar verkjalækningar: Til að læknirgeti hlotið sérfræðileyfi í sérhæfðum verkjalækningum sem viðbótarsérgrein skal hann hafa hlotið sérfræðileyfi í aðalsérgrein skv. 2. mgr. Þetta á þó ekki við hafi læknir einungis hlotið sérfræðileyfi í atvinnu- og umhverfislækningum, sérgreinum innan lækningarannsókna, erfðalækningum, lýðheilsufræði, myndgreiningu, réttarlæknisfræði og klínískri taugalífeðlisfræði.
      Til að öðlast viðurkenningu skal viðkomandi hafa lokið að minnsta kosti tveggja ára viðurkenndu viðbótarsérnámi í sérhæfðum verkjalækningum.

Ráðherra getur ákveðið að fella undir reglugerð þessa nýja sérgrein og undirsérgrein á sérsviði læknisfræði, að fengnum tillögum landlæknis, enda standi viðkomandi sérgrein á traustum fræðilegum grunni og eigi sér samsvörun á viðurkenndum alþjóðlegum vettvangi. Landlæknir skal afla faglegs rökstuðnings og umsagnar hjá mats- og hæfisnefnd skv. 15. gr. og Læknafélagi Íslands.

Nú hefur læknir, sem starfar hér á landi, lokið markvissri þjálfun á sviði undirsérgreinar sem ekki er formlega viðurkennd í námslandi en er viðurkennd hér á landi, og er þá landlækni heimilt að veita sérfræðileyfi í undirsérgreininni, að fenginni umsögn skv. 11. gr., enda sé þjálfunin sambærileg, að lágmarki tvö ár og aldrei skemmri en í þeim löndum sem veita slíka viðurkenningu.

11. gr. Umsókn um sérfræðileyfi og umsagnir.

Umsókn um sérfræðileyfi í sérgrein læknisfræði skv. 10. gr. ásamt gögnum sem staðfesta faglega menntun, starfsreynslu og hæfi, svo og önnur fylgiskjöl sem landlæknir telur nauðsynleg, skal senda til landlæknis.

Áður en sérfræðileyfi er veitt skv. 6. gr. skal landlæknir leita umsagnar læknadeildar Háskóla Íslands um hvort umsækjandi uppfylli skilyrði um nám skv. 7. og 8. gr.

Landlækni er heimilt að skipa sérstaka mats- og umsagnarnefnd til að meta umsóknir um sérfræðileyfi.

Landlækni er heimilt að leita umsagnar annarra aðila eftir þörfum.

IV. KAFLI Réttindi og skyldur.

12. gr. Faglegar kröfur og ábyrgð.

Læknir skal sýna sjúklingi virðingu og sinna störfum sínum af árvekni og trúmennsku og í samræmi við þær faglegu kröfur sem gerðar eru til lækna á hverjum tíma.

Lækni ber að þekkja skyldur sínar og siðareglur lækna, viðhalda þekkingu sinni og faglegri færni og tileinka sér nýjungar er varða starfið.

Læknir skal kynna sér lög og reglugerðir sem gilda um heilbrigðisstarfsmenn og heilbrigðisþjónustu svo og önnur lög og stjórnvaldsfyrirmæli eftir því sem við á.

Læknir ber ábyrgð á þeirri læknisfræðilegu greiningu og meðferð sem hann veitir.

Læknir skal virða faglegar takmarkanir sínar og leita eftir aðstoð eða vísa sjúklingi til annars heilbrigðisstarfsmanns eftir því sem nauðsynlegt og mögulegt er, svo sem ef hann telur sig ekki geta veitt sjúklingnum viðeigandi heilbrigðisþjónustu.

13. gr. Upplýsingaskylda og skráning.

Um upplýsingaskyldu læknis gagnvart sjúklingi fer samkvæmt ákvæðum laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997.

Um skyldu læknis til að veita landlækni upplýsingar, meðal annars vegna eftirlits með heilbrigðisstarfsmönnum og heilbrigðisþjónustu og til gerðar heilbrigðisskýrslna, fer samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007.

Læknir sem veitir sjúklingi meðferð skal færa sjúkraskrá samkvæmt ákvæðum laga um sjúkraskrár, nr. 55/2009, og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim.

14. gr. Trúnaður og þagnarskylda.

Um trúnað og þagnarskyldu lækna fer skv. 17. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012.

V. KAFLI Ýmis ákvæði.

15. gr. Mats- og hæfisnefnd um starfsnám til að öðlast almennt lækningaleyfi og um sérnám í læknisfræði.

Ráðherra skipar mats- og hæfisnefnd þriggja sérfræðilækna til fjögurra ára í senn. Einn skal skipaður samkvæmt tilnefningu Læknafélags Íslands, einn samkvæmt tilnefningu læknadeildar Háskóla Íslands og einn samkvæmt tilnefningu landlæknis. Skipa skal með sama hætti jafnmarga nefndarmenn til vara. Ráðherra skipar formann úr hópi nefndarmanna. Nefndin skal kalla til eftir þörfum sérfræðinga innan sérsviða læknisfræði.

Nefndin skal meta hæfi heilbrigðisstofnunar eða deildar heilbrigðisstofnunar til að öðlast viðurkenningu sem kennslustofnun fyrir starfsnám til lækningaleyfis skv. 4. gr. og til að annast sérnám skv. 7. og 8. gr.

Nefndin skal meta og staðfesta marklýsingar fyrir starfsnám til starfsleyfis skv. 4. gr. og samþykkja marklýsingu einstaka sérnámsbrauta fyrir formlegt sérnám skv. 7. og 8. gr., sbr. 10. gr., að fengnum umsögnum sérgreinafélaga, heilbrigðisstofnana/kennslustofnana, forstöðumanna fræðasviða við Háskóla Íslands og embættis landlæknis.

Í marklýsingum skal meðal annars kveðið á um skipulag og inntöku í sérnám, innihald, fyrirkomulag og lengd sérnámsins og einstakra námshluta, gæðakröfur, handleiðslu og hæfismat. Við gerð marklýsinga skal leita alþjóðlegrar ráðgjafar eftir því sem þurfa þykir.

Skipulagi sérnáms skal þannig háttað að alþjóðlegum gæðaviðmiðum sé mætt.

Nefndin setur sér starfsreglur sem staðfestar skulu af ráðherra. Í þeim skal meðal annars kveðið á um þau viðmið sem hafa skal til hliðsjónar við mat stofnana og hvernig samráði skuli háttað við stofnanir sem metnar eru hverju sinni.

Aðsetur nefndarinnar skal vera á Landspítala sem leggur nefndinni til starfsaðstöðu og starfsmann sem heldur fundargerðir, fylgir málum eftir og heldur utan um starfsemi nefndarinnar milli funda.

Nefndin skal senda ráðherra marklýsingar og yfirlit yfir þær heilbrigðisstofnanir og deildir heilbrigðisstofnana sem nefndin viðurkennir til að veita starfsnám og sérnám á hverjum tíma.

Yfirlit yfir viðurkenndar heilbrigðisstofnanir svo og marklýsingar fyrir starfsnám og marklýsingar sérnámsbrauta fyrir formlegt sérnám skal birta á heimasíðu embættis landlæknis.

Heilbrigðisstofnun skal tilkynna nefndinni um allar breytingar á starfsemi sem og á mönnun sem haft getur áhrif á hæfi heilbrigðisstofnunar eða deildar heilbrigðisstofnunar til að öðlast viðurkenningu sem kennslustofnun fyrir starfsnám til lækningaleyfis skv. 4. gr. og til að annast sérnám skv. 7. og 8. gr.

Nefndin skal endurskoða mat sitt á heilbrigðisstofnunum og marklýsingum á fjögurra ára fresti eða oftar ef tilefni er til.

16. gr. Frekari skilyrði fyrir veitingu almenns lækningaleyfis og sérfræðileyfis.

Umsækjandi um almennt lækningaleyfi skv. 2. gr. og sérfræðileyfi í læknisfræði skv. 6. gr., sem er ríkisborgari frá ríki utan EES og Sviss sem Ísland hefur ekki samið við um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi skal leggja fram meðal annars gögn um ríkisfang, innihald náms og námslengd, ásamt prófskírteini, starfsleyfi ef starfsgreinin er löggilt í því landi sem umsækjandi kemur frá, fyrirhuguð störf hér á landi svo og önnur gögn og vottorð sem landlæknir telur nauðsynleg vegna útgáfu leyfis.

Áður en umsókn skv. 1. mgr. um almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi er tekin til efnislegrar meðferðar þarf eftir atvikum að liggja fyrir staðfest afrit umsóknar um atvinnu- og dvalarleyfi ásamt undirrituðum ráðningarsamningi.

Heimilt er að gera kröfu um að umsækjandi skv. 1. mgr. búi yfir kunnáttu í íslensku og hafi þekkingu á íslenskri heilbrigðislöggjöf svo og öðrum lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem talin eru nauðsynleg til að geta starfað sem læknir eða sérmenntaður læknir, einkum vegna öryggis og samskipta við sjúklinga.

Hafi að mati landlæknis ekki verið sýnt fram á að nám umsækjanda skv. 1. mgr. uppfylli kröfur skv. 3., 4. og 7.-9. gr. er landlækni heimilt að krefjast þess að umsækjandi gangist undir reynslutíma og/eða próf sem sýni fram á að hann búi yfir þeirri faglegu þekkingu og hæfni sem krafist er af lækni og sérmenntuðum lækni til að starfa hér á landi. Viðkomandi menntastofnun skal skipuleggja reynslutíma og/eða próf fyrir umsækjanda í samráði við landlækni.

Almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi er gefið út eftir komu umsækjanda skv. 1. mgr. til starfa hér á landi.

17. gr. Heimild til að synja umsókn um almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi.

Landlækni er heimilt að synja lækni um almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi þótt hann uppfylli ákvæði þessarar reglugerðar telji landlæknir að námið hafi ekki verið nægilega samfellt eða að óeðlilega langur tími hafi liðið frá því að umsækjandi lauk samfelldu námi eða sérnámi og þar til umsókn barst.

18. gr. Gjaldtaka.

Landlækni er heimilt að innheimta sérstakt gjald samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur til viðbótar gjaldi skv. 10. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, fyrir hvers konar afgreiðslu og meðhöndlun á umsóknum um almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi, þar á meðal fyrir þýðingu gagna, mat umsagnaraðila á umsókn heilbrigðisstarfsmanns, yfirferð og mat gagna og aðra umsýslu vegna umsókna um starfsleyfi eða sérfræðileyfi skv. 31. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, og skv. 3. mgr. 8. gr. laga um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, nr. 26/2010, sbr. 34. gr. reglugerðar um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum, nr. 461/2011.

19. gr. Almenn ákvæði.

Ákvæði laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, laga um sjúkraskrár, nr. 55/2009, laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, svo og önnur lög og stjórnvaldsfyrirmæli gilda eftir því sem við á um lækna og sérmenntaða lækna.

20. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 5., 8., 30. og 31. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur brott reglugerð um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi, nr. 1222/2012.

Ákvæði til bráðabirgða.

Námsblokkir skv. 4. gr. taka ekki til þeirra sem hefja starfsnám til almenns lækningaleyfis á árinu 2015. Um starfsnám þeirra fer samkvæmt reglugerð um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi, nr. 1222/2012.

Lækni sem fengið hefur almennt lækningaleyfi og hafið skipulagt sérnám fyrir gildistöku reglugerðar þessarar er heimilt að sækja um sérfræðileyfi á grundvelli eldri reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi, nr. 1222/2012, í fimm ár frá gildistöku reglugerðar þessarar. Þeir sem hefja sérnám eftir gildistöku reglugerðar þessarar skulu haga sérnámi samkvæmt ákvæðum hennar.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.