Prentað þann 7. jan. 2025
450/2017
Reglugerð um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.
1. gr.
Heimilt er að endurgreiða úr ríkissjóði 25% af framleiðslukostnaði sem til fellur við framleiðslu kvikmynda eða sjónvarpsefnis hér á landi og eftir atvikum í öðru aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. 2. og 5. gr. laga nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, með síðari breytingum.
Við útreikning á endurgreiðslu er tekið mið af heildarframleiðslukostnaði kvikmyndar eða sjónvarpsefnis án tillits til þess hvaða þáttur í framleiðslunni skapar þann kostnað.
2. gr.
Umsókn um endurgreiðslu framleiðslukostnaðar kvikmyndaverkefnis skal senda nefnd um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar áður en framleiðsla hefst hér á landi. Nefndin sem skipuð er skv. 3. gr. laga nr. 43/1999 fer yfir innkomnar umsóknir sem skulu vera í samræmi við leiðbeiningar nefndarinnar um form umsókna. Í umsókn skulu koma fram upplýsingar um rekstur og efnahag þess félags sem sækir um endurgreiðsluna. Nefndin skal enn fremur gæta þess að umsóknir uppfylli skilyrði ákvæða 54. gr. reglugerðar (ESB) nr. 651/2014 um almenna hópundanþágu frá tilkynningarskyldu, þar sem tilgreindir eru tilteknir flokkar aðstoðar sem samrýmast innri markaðnum til beitingar á 107. og 108. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins.
Telji nefndin að verkefnið uppfylli sett skilyrði veitir hún umsækjanda vilyrði fyrir endurgreiðslu. Útgefið vilyrði tekur til þeirra verkþátta sem sótt er um endurgreiðslu fyrir eins og lýst er í umsóknargögnum og þess kostnaðar sem stofnað er til vegna þeirra, byggt á framlagðri kostnaðaráætlun á umsóknardegi.
Í útgefnu vilyrði nefndarinnar fyrir endurgreiðslu skal vakin athygli á heimild skv. 8. gr. til að fresta endurgreiðslu.
Telst nefndin vera "veitingarvald" í skilningi reglugerðar (ESB) nr. 651/2014 um almenna hópundanþágu frá tilkynningarskyldu.
3. gr.
Skilyrði endurgreiðslu samkvæmt reglugerð þessari er að viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að koma íslenskri menningu á framfæri, kynna sögu lands eða náttúru eða að viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að stuðla að aukinni reynslu, þekkingu og listrænum metnaði þeirra sem að framleiðslunni standa.
Við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. séu uppfyllt skal byggja á neðangreindu verkefnamati sem er tvíþætt og skiptist í menningar- og framleiðsluhluta.
Í menningarhlutanum eru gefin stig fyrir eftirfarandi liði þar sem hver liður gefur 2 stig sé hann uppfylltur að fullu en 1 stig sé hann uppfylltur að hluta:
- Söguþráður, viðfangsefni eða meginþema kvikmyndar eða sjónvarpsefnis byggir á atburðum sem eru hluti af íslenskri eða evrópskri menningu, sögu, þjóðararfi eða trúarbrögðum.
- Framleiðslan byggir á sögupersónu eða einstaklingi úr íslenskum eða evrópskum menningararfi, sögu, samfélagi eða trúarbrögðum.
- Söguþráður tengist íslenskum eða evrópskum stað eða staðháttum, umhverfi eða menningarlegu sögusviði.
- Söguþráður, handrit eða viðfangsefni byggir á bókmenntaverki eða er sótt til annarrar listgreinar (t.d. myndlistar, tónlistar) sem hefur menningarlegt vægi.
- Söguþráður, handrit eða meginþema beinist að viðfangsefnum líðandi stundar sem hafa vísun til menningar, samfélagsgerðar eða valdakerfis og stjórnmála í íslensku eða evrópsku samfélagi.
- Framleiðslan endurspeglar mikilvæg íslensk eða evrópsk gildi, t.d. samfélagslega og menningarlega fjölbreytni, samfélagslega samstöðu, mannréttindi, jafnrétti, umburðarlyndi, minnihlutavernd og virðingu fyrir menningu annarra, fjölskyldugildi, umhverfisvernd, virðingu fyrir náttúru og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Framleiðslan beinist að íslenskum eða evrópskum siðum og venjum eða menningu og sjálfsmynd.
- Verkefnið beinist að íslenskum eða evrópskum siðum og venjum eða menningu og sjálfsmynd.
- Söguþráður, handrit eða viðfangsefni byggir á atburðum í samtíma eða sögu sem hafa þýðingu fyrir íslenskt eða evrópskt samfélag.
Í framleiðsluhlutanum eru gefin stig fyrir eftirtalda liði þar sem hámarksfjöldi stiga sem veittur er fyrir hvern lið er tilgreindur innan sviga. Fjöldi stiga sem veittur er ræðst af því hversu vel framleiðslan uppfyllir viðkomandi viðmið:
- Framleiðslan leggur til þróunar þeirrar tegundar kvikmyndalistar sem hún tilheyrir (hámark 3 stig).
- Framleiðslan eykur færni og getu þeirra kvikmyndagerðarmanna sem koma að verkinu til að standa að verkum sem hafa menningarlegt gildi (hámark 4 stig).
-
Þeir sem vinna við framleiðsluna eru íslenskir ríkisborgarar eða ríkisborgarar annars EES-ríkis. Veitt er hálft stig fyrir hvert eftirfarandi atriði en að hámarki 3 stig fyrir liðinn í heild.
- Leikstjóri.
- Framleiðandi/meðframleiðandi.
- Stjórnandi kvikmyndatöku (DOP).
- Aðstoðarstjórnandi kvikmyndatöku.
- Handritshöfundur.
- Aðalleikari.
- Leikari í aukahlutverki.
- Höfundur tónlistar.
- Leikmyndahönnuður.
- Búningahönnuður.
- Klippari.
- Förðunarfræðingur.
- Yfirmaður framleiðslu.
- Umsjónarmaður eftirvinnslu eða stafrænnar vinnslu.
- Endanleg útgáfa framleiðslu er á þjóðtungu EES-ríkis. (1 stig er veitt fyrir 10% af tungumáli framleiðslunnar, 2 stig fyrir 25%, 3 stig fyrir 50% og 4 stig fyrir 75%).
- Að lágmarki 51% tökuliðs (að frátöldum þeim sem nefndir eru í k-lið) eru ríkisborgarar EES-ríkja (hámark 4 stig).
- Kvikmyndatökur fara fram á Íslandi (hámark 4 stig).
- Framleiðslan kaupir þjónustu af íslenskum aðilum við tökur á Íslandi (hámark 4 stig).
- Eftirvinnsla (þar með eftirvinnsla hljóðs og tölvugrafík, stafræn vinnsla, hljóðvinnsla o.fl.) fer fram á Íslandi eða í EES-ríki (hámark 4 stig).
Stig fyrir n-, o- og p-liði eru veitt á grundvelli þess að hve miklu leyti framleiðslan uppfyllir hvert skilyrði. Nefndin metur að hve miklu leyti kvikmyndatökur, þjónustukaup og eftirvinnsla fer fram á Íslandi og hvort hún sé til þess fallin að stuðla að aukinni þekkingu og reynslu innan kvikmyndageirans.
Framleiðslan skal að lágmarki ná samtals 4 stigum úr menningarhlutanum og 23 stigum úr báðum hlutum samtals.
4. gr.
Við mat á því hvort endurgreiða skuli hlutfall af framleiðslukostnaði kvikmyndar eða sjónvarpsefnis skal auk skilyrða í 3. gr. fullnægja eftirfarandi skilyrðum:
- að starfrækt sé félag um framleiðsluna á Íslandi; íslenskt útibú eða umboðsskrifstofa félags sem skráð er í aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið,
- að fyrir liggi upplýsingar um helstu aðstandendur kvikmyndar eða sjónvarpsefnis,
- að fyrir liggi upplýsingar um innlenda aðila og hlutdeild þeirra við framleiðslu kvikmyndar eða sjónvarpsefnis,
- að fyrir liggi sundurliðuð áætlun um framleiðslukostnað og fjármögnun auk staðfestingar fjármögnunaraðila,
- að fyrir liggi greinargerð umsækjanda um að framleiðslan falli að markmiðum laganna,
- að fyrir liggi upplýsingar um efni fyrirhugaðrar framleiðslu kvikmyndar eða sjónvarpsefnis, þ. á m. handrit, stuttur efnisútdráttur og upplýsingar um tökustaði,
- að framleiðsluáætlun liggi fyrir (þ.e. töku- og eftirvinnsluáætlun) sem greinir frá framvindu verkefnisins, þ.e. hvenær áætlað er að vinna við verkefnið hefjist, lykiláfangar í verkefninu og hvenær ráðgert er að ljúka verkefninu og sýna afurðina opinberlega. Framvinduáætlun skal gera ráð fyrir að framleiðslu sé lokið innan þriggja ára frá því að endurgreiðslubeiðni er send
ráðuneytinunefnd um endurgreiðslur. Þegar sérstaklega stendur á getur nefnd um endurgreiðslur veitt undanþágu frá þessu skilyrði í að hámarki fimm ár frá dagsetningu vilyrðis, - að fyrir liggi hvernig staðið verði að almennri dreifingu,
- að efni kvikmyndar eða sjónvarpsefnis stríði ekki gegn ákvæðum almennra hegningarlaga.
Verði veruleg breyting á forsendum framleiðslunnar og áætluðum framleiðslukostnaði, sbr. d-lið 1. mgr., eftir að framleiðsla hefst skal umsækjandi senda nefnd um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar ítarlega greinargerð og uppfærða kostnaðaráætlun. Veruleg breyting á kostnaði telst vera hækkun umfram 20% af fyrirliggjandi fjárhagsáætlun.
Auglýsinga- og fréttatengt efni, stuttmyndir, upptökur af íþróttaviðburðum og skemmtunum, efni sem fyrst og fremst er ætlað til kynningar á tiltekinni vöru eða þjónustu, svo og framleiðsla efnis sem fyrst og fremst er ætlað til sýninga í eigin dreifikerfi, skal eigi njóta endurgreiðslu.
5. gr.
Framleiðslukostnaður þess verkefnis sem sótt er um endurgreiðslu fyrir telst allur sá kostnaður sem stofnað er til vegna framleiðslunnar og heimilt er að draga frá tekjum af atvinnurekstri samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt og fellur til hér á landi og eftir atvikum í öðru aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 43/1999.
6. gr.
Þegar framleiðslu þess verkefnis sem sótt er um endurgreiðslu fyrir er lokið og fjárhagsuppgjör liggur fyrir skal umsækjandi senda nefnd um endurgreiðslur umsókn um útborgun á grundvelli útgefins vilyrðis, sbr. 2. gr. Framleiðslu telst lokið þegar allir vinnsluþættir sem sótt er um endurgreiðslu fyrir eru fullunnir, staðin hafa verið skil á niðurstöðu þeirra og kostnaður vegna þeirra skráður í fjárhagsbókhald umsækjanda og hefur verið gerður upp.
Umsókn um útborgun skal fylgja:
- Kostnaðaruppgjör þess verkefnis sem sótt er um endurgreiðslu fyrir, sundurliðað eftir helstu rekstrarþáttum, sem byggir á aðgreiningu kostnaðar frá öðrum verkefnum eða starfsemi umsækjanda og er tækur sem stofn til útreiknings 25% endurgreiðslu.
- Sundurliðað yfirlit um framleiðslukostnað verkefnis þar sem endanlegur kostnaður er borinn saman við kostnaðaráætlun, og eftir atvikum leiðrétta kostnaðaráætlun, sem send var nefnd um endurgreiðslur þegar sótt var um endurgreiðslu framleiðslukostnaðar. Ef verulegur mismunur er á áætlun og raunverulegum kostnaði skv. einstökum kostnaðarliðum skal til viðbótar fylgja greinargerð þar sem slík frávik eru skýrð. Verulegur mismunur telst vera á þeim liðum þar sem endanlegar fjárhæðir víkja meira en 20% frá upphaflegri áætlun. Verði veruleg hækkun á kostnaði verkefnis á sama mælikvarða miðað við kostnaðaráætlun eða uppfærða kostnaðaráætlun skal einnig gera grein fyrir breytingu á fjármögnun og leggja fram staðfestingu fjármögnunaraðila, sbr. f-lið 4. gr. laga nr. 43/1999.
- Stofn til endurgreiðslu getur einvörðungu falið í sér kostnað umsækjanda sem heimilt er að draga frá tekjum af atvinnurekstri samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt og er sérstaklega til stofnað vegna þess verkefnis sem sótt er um endurgreiðslu fyrir. Þá er það skilyrði fyrir því að kostnaður vegna launa og verktakagreiðslna geti talist stofn til endurgreiðslu að þau séu sannanlega skattlögð hér á landi. Ef hluti af framleiðslukostnaði uppfyllir ekki skilyrði 3. mgr. 2. gr. laga nr. 43/1999 um skattlagningu launa og verktakagreiðslna skal frádráttur vegna þeirra koma skýrt fram við framsetningu á framleiðslukostnaði sem sótt er um endurgreiðslu fyrir.
- Kostnaður sem fellur til erlendis getur einvörðungu myndað stofn til endurgreiðslu hafi hann fallið til á Evrópska efnahagssvæðinu og meira en 80% heildarkostnaðar vegna kvikmyndar eða sjónvarpsefnis hafi fallið til hérlendis. Sé sótt um endurgreiðslu vegna kostnaðar sem fellur til erlendis skal leggja fram sundurliðun á framleiðslukostnaði eftir þeim löndum sem hann féll til í.
- Staðfesting stjórnar og framkvæmdastjóra umsækjanda á að kostnaðaruppgjör sem lagt er fram og myndar stofn til endurgreiðsluútreiknings byggi á bókhaldi sem fært er í samræmi við lög um bókhald og ársreikninga og kostnaður sé aðgreindur frá öðrum verkefnum umsækjanda með fullnægjandi hætti og telji ekki til annan kostnað en framleiðslukostnað þess verkefnis sem sótt er um endurgreiðslu fyrir. Þá skal stjórn og framkvæmdastjóri umsækjanda staðfesta að verkefnið sem sótt er um útborgun fyrir og staðfest kostnaðaruppgjör sé í samræmi við ákvæði laga nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, með síðari breytingum, og reglugerða settra á grundvelli þeirra.
Nemi endurgreiðslan hærri fjárhæð en 20 milljónum króna skal kostnaðaruppgjör jafnframt endurskoðað. Í því skyni að staðreyna kostnaðaruppgjör getur nefnd skv. 3. gr. óskað eftir viðeigandi upplýsingum frá skattyfirvöldum sem og bókhaldi umsækjanda. Sé kostnaðaruppgjör og/eða fylgigögn þess ófullnægjandi skal nefndin veita umsóknaraðila frest til að skila inn fullnægjandi gögnum. Berist nefndinni ekki fullnægjandi gögn við lok frestsins eða bendi gögn málsins til að kostnaðaruppgjör sé ekki í samræmi við ákvæði laga nr. 43/1999 skal nefndin hafna endurgreiðslu.
Ef umsóknargögn með beiðni um útborgun endurgreiðslu eru í grundvallaratriðum frábrugðin forsendum umsóknar og umsóknargögnum sem lágu til grundvallar við útgáfu vilyrðis, sbr. 2. gr., skal nefndin hafna beiðni um endurgreiðslu.
Nefnd um endurgreiðslur skal birta leiðbeiningar um skil umsókna um útborgun og skilgreina nánar hvaða gagna er krafist og á hvaða formi.
Berist umsókn um útborgun endurgreiðslu eftir að sex mánuðir hafa liðið frá lokum framleiðslu þess verkefnis sem sótt er um endurgreiðslu fyrir skal hafna henni.
6. gr. a.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 6. gr. er, vegna áhrifa alheimsfaraldurs COVID-19, á tímabilinu 1. apríl til 1. júlí 2020, heimilt að óska eftir sérstakri útborgun á endurgreiðslu að hluta. Þetta á við um verkefni sem áður hefur fengið vilyrði, þó framleiðslu sé ekki lokið. Þessi hlutaendurgreiðsla kemur að fullu til frádráttar fullri endurgreiðslu við lokauppgjör. Sömu kröfur eru gerðar til endurgreiðslu á grundvelli þessa ákvæðis og fram koma í 6. gr., eftir því sem við á og á einungis við um kostnað við framleiðslu sem hefur verið greiddur og fellur til á Íslandi. Sérstök skilyrði hlutaendurgreiðslu eru að umsækjandi skili greinargerð um framleiðslustöðu verkefnisins þar sem eftirfarandi upplýsingar koma fram:
- Gera þarf grein fyrir hvaða kostnaðarþættir innan uppfærðrar heildarkostnaðaráætlunar verkefnis mynda stofn til útreiknings hlutaendurgreiðslu.
- Gera þarf grein fyrir þeim verkþáttum sem ekki eru fullunnir og þeim kostnaði sem ekki hefur verið greiddur innan uppfærðrar heildarkostnaðaráætlunar verkefnis.
- Gefa þarf skýringar á því hvernig alheimsfaraldur COVID-19 hefur áhrif á framleiðslu verkefnis, stöðu þess varðandi fjármögnun eða tekjuöflun, almenna dreifingu og fjárhagslegar skuldbindingar.
7. gr.
Telji nefndin að skilyrðum fyrir endurgreiðslu sé fullnægt heimilar hún útborgun og ákvarðar fjárhæð endurgreiðslu á grundvelli framlagðra upplýsinga um stofn til útreiknings endurgreiðslu samkvæmt reglugerð þessari og lögum nr. 43/1999.
8. gr.
Hafi umsækjandi hlotið styrk frá opinberum aðilum til þeirrar framleiðslu sem sótt er um endurgreiðslu fyrir dregst sá styrkur frá framleiðslukostnaði skv. 5. gr. við útreikning endurgreiðslu.
Samanlagður styrkur opinberra aðila og heildarfjárhæð endurgreiðslu skv. 1. gr. fyrir kvikmynd eða sjónvarpsefni skal ekki fara yfir 85% af heildarframleiðslukostnaði þeirrar kvikmyndar eða sjónvarpsefnis.
Fjárhæð endurgreiðslna samkvæmt reglugerð þessari er háð fjárveitingum Alþingis í samræmi við fjárlög. Nefndin hefur heimild til að fresta útborgun endurgreiðslna sem kunna að vera umfram fjárveitingar Alþingis hverju sinni. Séu samþykktar endurgreiðslur á fjárlagaárinu umfram fjárveitingar er nefndinni heimilt að fresta endurgreiðslu, annaðhvort að öllu leyti eða að hluta, yfir á næsta fjárlagaár.
Eigi íslenska ríkið útistandandi endurgreiðslukröfu á umsækjanda vegna ólögmætrar ríkisaðstoðar skal hafna umsókn um endurgreiðslu.
Eigi umsækjandi um endurgreiðslu í fjárhagsvanda skal umsókn hafnað. Fyrirtæki telst eiga í fjárhagsvanda ef a.m.k. eitt af eftirfarandi skilyrðum er uppfyllt:
- Um er að ræða félag með takmarkaðri ábyrgð og bókfært eigið fé þess, samkvæmt viðurkenndum reikningsskilaaðferðum, er orðið lægra en nemur helmingi innborgaðs hlutafjár að meðtöldum yfirverðsreikningi. Þessi töluliður á ekki við um fyrirtæki sem er lítið eða meðalstórt og starfsemi þess hefur staðið yfir í þrjú ár eða skemur.
- Um er að ræða félag þar sem a.m.k. einn aðili ber ótakmarkaða ábyrgð á skuldum félagsins og bókfært eigið fé þess, samkvæmt viðurkenndum reikningsskilaaðferðum, er orðið lægra en nemur helmingi innborgaðs hlutafjár að meðtöldum yfirverðsreikningi. Þessi töluliður á ekki við um fyrirtæki sem er lítið eða meðalstórt og starfsemi þess hefur staðið yfir í þrjú ár eða skemur.
- Um er að ræða fyrirtæki sem sætir gjaldþrotameðferð eða uppfyllir skilyrði laga til að vera tekið til gjaldþrotameðferðar.
- Um er að ræða fyrirtæki sem hefur fengið björgunaraðstoð í skilningi leiðbeinandi reglna ESA um björgun og endurskipulagningu fyrirtækja, og hefur enn ekki endurgreitt lánið eða aflétt ábyrgðinni eða hefur fengið aðstoð til endurskipulagningar og er því enn bundið af samþykktri áætlun um endurskipulagningu.
-
Um er að ræða fyrirtæki sem hvorki er lítið né meðalstórt og hefur uppfyllt eftirtalin skilyrði síðustu tvö reikningsár:
- hlutfall milli bókfærðra skulda fyrirtækisins og eigin fjár hefur verið hærra en 7,5 og
- hagnaður fyrir afskriftir og vexti (EBITDA) nemur lægri fjárhæð en nettófjármagnskostnaður ársins.
9. gr.
Fella ber niður vilyrði og endurkrefja styrkþega um þegar veitta styrki komi í ljós að umsækjandi hafi vísvitandi veitt rangar upplýsingar eða leynt upplýsingum sem höfðu áhrif á mat nefndarinnar. Sama á við ef Eftirlitsstofnun EFTA ákvarðar að styrkveitingin hafi verið ólögmæt ríkisaðstoð.
10. gr.
Reglugerð þessi er sett á grundvelli 8. gr. laga nr. 43/1999, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi. Á sama tíma fellur úr gildi reglugerð sama efnis nr. 622/2012.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 15. maí 2017.
F. h. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra,
Ingvi Már Pálsson.
Þórður Reynisson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.