Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 23. des. 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 1. jan. 2015

405/2008

Reglugerð um þinglýsingar.

I. KAFLI Færsla dagbókar og móttaka þinglýsingaskjala.

1. gr.

Við hvert embætti þar sem þinglýsing fer fram skal halda dagbók á tölvufærðu formi.

Í dagbók skal færa eftirtalin atriði varðandi þinglýsingaskjöl:

  1. hvaða dag skjal er móttekið til þinglýsingar,
  2. nafn og kennitölu útgefanda skjals,
  3. nafn og kennitölu rétthafa eða viðtakanda skjals,
  4. tegund skjals,
  5. hvaða eign skjal varði,
  6. fjárhæð sem tilgreind er í skjali og ræður gjaldtöku,
  7. hvort skjal er verðtryggt,
  8. þinglýsingarnúmer skjals í óslitinni töluröð fyrir hvert ár,
  9. afhendingardag ef skjalið varðar fasteignakaup.

2. gr.

Hvert skjal skal fært í dagbók sama dag og það berst þinglýsingarstjóra. Skjöl sem berast eftir afgreiðslutíma teljast afhent næsta dag.

3. gr.

Endurrit dagbókar er skrá sem þinglýsingarstjóri skal gera vikulega skv. 3. mgr. 9. gr. þinglýsingalaga.

4. gr.

Við móttöku þinglýsingaskjals skal frumrit skjals ásamt samriti, er þinglýsingarstjóri heldur eftir, áritað af þinglýsingarstjóra eða starfsmanni hans. Áritun skal fela í sér viðurkenningu um viðtöku skjals og móttökudag.

Þá er skjal hefur verið fært í þinglýsingabók, ritar þinglýsingarstjóri vottorð um þinglýsinguna á bæði eintök skjalsins. Sé skjali þinglýst með athugasemd skal hún skráð á bæði eintök skjalsins.

Ef þinglýsingarbeiðandi óskar eftir kvittun fyrir móttöku skjals, skal þinglýsingarstjóri gefa hana.

5. gr.

Þinglýsingabækur fyrir bifreiðar, fasteignir, lausafé, loftför og skip, skv. V., VI. og VII. kafla þinglýsingalaga, skulu varðveittar í tölvuvæddri skrá fyrir landið í heild. Hver færsla skal auðkennd embætti því þar sem skjal var móttekið til þinglýsingar.

Í þinglýsingavottorði skal greina efni skjala sem móttekin hafa verið.

Þinglýsingaskrá þessa skal tengja viðeigandi stofnskrá. Þannig skal fasteignabók þinglýsingarstjóra tengd fasteignaskrá, bifreiðabók tengd ökutækjaskrá, skipabók tengd skipaskrá, lausafjárbók skal tengd þjóðskrá og fyrirtækjaskrá og loftfarabók skal tengd loftfaraskrá. Þinglýsing loftfara skal eingöngu fara fram í umdæmi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.

Þinglýsingarstjóra er heimilt að gefa út þinglýsingavottorð óháð því hvar þinglýsing skal fara fram.

II. KAFLI Varsla þinglýsingaskjala, þinglýsingapappír og þinglýsingabækur.

6. gr.

Þinglýsingaskjöl skal leggja í töluröð í skjalahylki eða möppur og varðveita í læstum skjalaskápum. Varðveita skal þinglýsingaskjöl og þinglýsingabækur í eldtraustri geymslu þar sem þess er kostur.

Þegar skjali er aflýst, skal nema það úr skjalahylkinu og leggja það í skjalasafn þinglýsingarstjóra og geymast í töluröð. Heimilt er að geyma aflýst skjal áfram í skjalahylki, enda beri það skýrlega með sér að því hafi verið aflýst.

Dómsmálaráðherra er heimilt að ákveða að þinglýsingaskjöl verði varðveitt á tölvutæku formi.

7. gr.

Eintak skjals er þinglýsingarstjóri varðveitir skal vera á löggiltum skjalapappír í stærðinni A4.

III. KAFLI Aðgangur að þinglýsingabókum og skjalahylkjum.

8. gr.

Almenningur skal hafa aðgang að þinglýsingabókum og afritum þinglýstra skjala tiltekinna eigna í þeim tilgangi að kynna sér efni þeirra, eftir nánari ákvörðun viðkomandi þinglýsingarstjóra.

Skoðun þinglýsingabóka í tölvu skal einungis heimil með þeim hætti að númer viðkomandi bifreiðar eða heiti og númer fasteignar eða skips sé notað. Þegar um skoðun í lausafjárbók er að ræða, skal aðgangur þó heimill eftir nafni og kennitölu eiganda lausafjár.

9. gr.

Starfsmenn þinglýsingarstjóra skulu vera almenningi til aðstoðar við skoðun þinglýsingabóka.

Óheimilt er að lána þinglýsingabækur eða -skjöl til nota utan skrifstofu þinglýsingarstjóra.

Þinglýsingarstjóri getur, ef nauðsyn krefur, sett nánari fyrirmæli um aðgang almennings að þinglýsingabókum og afritum þinglýstra skjala við embætti hans.

10. gr.

Gegn greiðslu endurritskostnaðar getur sérhver fengið staðfest ljósrit (endurrit) af því, sem greinir í þinglýsingabókum, og ljósrit af þinglýstum skjölum.

Ljósrit (endurrit) úr þinglýsingabók skal þannig úr garði gert, að það sé auðlæsilegt. Áður en það er afhent, skal gengið úr skugga um, að það sé ekki haldið neinum ágöllum.

11. gr.

Þeim sem er nauðsynlegt vegna starfsemi sinnar má veita heimild til að skoða tölvufærðar þinglýsingabækur og rafræn endurrit þinglýstra skjala með beinlínutengingu.

Sá er heimild hefur til að skoða þinglýsingabók með beinlínutengingu má prenta út úr henni veðbandayfirlit og rafræn endurrit þinglýstra skjala. Er honum óheimilt að veita óviðkomandi aðila upplýsingar úr þinglýsingabók sem hann fær með beinlínutengingu eða afhenda slíkum aðila veðbandayfirlit.

12. gr.

Dómsmálaráðherra veitir heimild til aðgangs að tölvufærðum þinglýsingabókum með beinlínutengingu. Slík heimild verður bundin nánari skilyrðum um aðgang að upplýsingum úr þinglýsingabókum og meðferð þeirra.

Útprentun á veðbandayfirliti skv. 2. mgr. 11. gr. kemur ekki í stað vottorðs þinglýsingarstjóra um efni þinglýsingabóka samkvæmt þinglýsingalögum.

IV. KAFLI Gildistaka o.fl.

13. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 53. gr. þinglýsingalaga nr. 39 frá 10. maí 1978, öðlast þegar gildi. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð um þinglýsingar nr. 284/1996 með síðari breytingu.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.