Prentað þann 27. des. 2024
279/1989
Reglugerð um merki á skólabifreiðum
1. gr.
Á hópbifreið sem notuð er til að flytja skólabörn skulu vera sérstök merki sem sýna þá notkun. Lögreglustjóri getur veitt undanþágu frá notkun merkis fyrir skólabifreið, ef akstursleiðir bifreiðar eru þannig að farþegum er einungis hleypt inn eða út utan alfaravegar og skólanefnd mælir með. Merki þessi skal einnig nota á hópbifreið þótt aðrir farþegar séu jafnframt fluttir með bifreiðinni ef megintilgangur ferðar er að flytja skólabörn. Heimilt er og að nota merki þessi á aðrar bifreiðir en þó aðeins þegar skólabörn eru einu farþegar bifreiðarinnar.
Þegar bifreið sem ber merki fyrir skólabifreiðir er notuð í öðru skyni skulu merkin tekin af bifreiðinni eða þau hulin eða brotin saman.
2. gr.
Merki fyrir skólabifreiðir skal vera ferningur, 40-60 sm hver hlið, með gulum endurskinsgrunni og 2,5-4 sm breiðri rauðri rönd án endurskins á brúnum. Á merkinu skal vera a.m.k. 2,9 sm há svört táknmynd eins og á umferðarmerki A 11 (börn). Í efri hornum merkisins skal vera ljósker fyrir rauðgult blikkandi ljós.
3. gr.
Ljósflötur ljóskersins skal vera hringlaga, 7-10 sm í þvermál. Ljóskerið skal gefa frá sér 350-500 candela ljósstyrk mælt beint framan við ljóskerið. Ljós á ljóskerinu skulu kvikna og slokkna samtímis og skal blikktíðni ljósanna vera sem næst 90 leiftur á mínútu.
4. gr.
Rofa fyrir blikkljós skal komið þannig fyrir að ökumaður geti auðveldlega beitt honum. Rauðgult viðvörunarljós sem sést vel úr sæti ökumanns skal kvikna og slokkna þegar blikkljósin eru í notkun. Viðvörunarljósið skal vera þannig tengt að það sýni ökumanni ef ekki kviknar á blikkljósunum.
5. gr.
Þegar bifreið er notuð til að flytja skólabörn skal kveikja á blikkljósunum u. þ. b. 100 m frá viðkomustað og slökkva á þeim um leið og ekið er frá viðkomustaðnum. Í öðrum tilvikum skal vera slökkt á ljósunum.
6. gr.
Á merki eða festingum þess skulu ekki vera skarpar eða útstæðar brúnir sem gætu valdið auknu tjóni í umferðaróhappi.
7. gr.
Merki skal vera bæði framan og aftan á bifreið, vinstra megin við miðju bifreiðar og sem næst lóðrétt og hornrétt á miðlínu hennar. Neðri brún merkis má ekki vera neðar en 50 sm frá vegi og efri brún ekki ofar en 150 sm frá vegi.
8. gr.
Merki skulu vera vel fest og þau mega hvorki hylja skráningarmerki né lögboðinn ljósabúnað.
9. gr.
Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 60. gr. umferðarlaga, nr. 50 30. mars 1987, öðlast gildi 1. september 1989.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.