Prentað þann 22. des. 2024
229/2003
Reglugerð um Kvikmyndasjóð.
I. KAFLI Almenn ákvæði.
1. gr. Hlutverk.
Kvikmyndasjóður starfar á vegum Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Hlutverk Kvikmyndasjóðs er að efla íslenska kvikmyndagerð með fjárhagslegum stuðningi. Íslensk kvikmynd er kvikmynd sem unnin er og kostuð af íslenskum aðilum eða er samstarfsverkefni íslenskra og erlendra aðila. Verkefni sem styrkt eru af Kvikmyndasjóði skulu hafa íslenska menningarlega skírskotun nema sérstök menningarleg rök leiði til annars.
2. gr. Úthlutun.
Fjárveitingar Kvikmyndasjóðs greinast milli einstakra greina kvikmyndagerðar sem hér segir:
a. | Til leikinna kvikmynda í fullri lengd til sýninga í kvikmyndahúsum. |
b. | Til stuttmyndagerðar. |
c. | Til heimildamyndagerðar. |
d. | Til leikins sjónvarpsefnis. |
Upplýsingar um styrki úr Kvikmyndasjóði og umsóknargögn skal birta á vefsíðu Kvikmyndamiðstöðvar. Kvikmyndamiðstöð skal senda umsækjanda staðfestingu um móttöku umsóknar og upplýsingar um málsmeðferð. Kvikmyndamiðstöð skal birta ráðstafanir á öllum fjárveitingum sínum jafnóðum á vefsíðu sinni.
Forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar er ábyrgur fyrir því að öll skilyrði fyrir úthlutun séu uppfyllt. Forstöðumaður tekur endanlega ákvörðun um styrkveitingu úr Kvikmyndasjóði, að fengnu skriflegu listrænu mati kvikmyndaráðgjafa sbr. 3. gr.
Afgreiðsla á umsóknum úr Kvikmyndasjóði getur orðið með eftirfarandi hætti:
a. | Umsókn er synjað um styrkveitingu. |
b. | Umsókn er veittur forgangur til styrkveitingar. |
c. | Umsókn hlýtur styrk eða vilyrði um styrkveitingu. |
Óheimilt er að veita styrki til kvikmyndaverks eftir að aðaltökutímabil er hafið, sbr. þó eftirvinnslustyrki skv. 9. gr.
3. gr. Kvikmyndaráðgjafar.
Listrænt mat á þeim styrkumsóknum sem Kvikmyndmiðstöð berast er í höndum kvikmyndaráðgjafa sem ráðnir eru tímabundið af forstöðumanni Kvikmyndamiðstöðvar. Kvikmyndaráðgjafar skulu hafa þekkingu og reynslu á sviði kvikmynda og mega ekki hafa hagsmuna að gæta varðandi úthlutun eða gegna störfum utan Kvikmyndamiðstöðvar sem tengjast íslenskri kvikmyndagerð.
Kvikmyndaráðgjafar leggja listrænt mat á umsóknir og með hliðsjón af fjárhags- og framkvæmdaþáttum, nema í þeim tilvikum þegar um er að ræða leiknar kvikmyndir í fullri lengd til sýninga í kvikmyndahúsum, sbr. 3. tl. 1. mgr. 8. gr. eða vegna umsókna um kynningarstyrki.
Kvikmyndaráðgjafar fylgjast með því að framvinda verks sé í samræmi við ákvæði úthlutunarsamnings sbr. 4. gr. Kvikmyndaráðgjafar geta kallað eftir nánari gögnum og fundað með umsækjendum/styrkþegum eftir þörfum.
4. gr. Úthlutunarsamningar.
Áður en greiðsla styrks fer fram skal Kvikmyndamiðstöð og styrkþegi gera með sér skriflegan úthlutunarsamning um greiðslutilhögun veitts styrks og skilyrði styrkveitingar og tímabundins vilyrðis. Þar skal m.a. kveðið á um fjármögnun, feril fjármögnunar, framvindu verks, skilyrði fyrir greiðslu á styrk, skil á kynningarefni og heimildir Kvikmyndamiðstöðvar til notkunar á hinu styrkta verki.
II. KAFLI. Tegundir styrkja, umsóknargögn og kostnaðaráætlun.
5. gr. Almennt.
Styrkir úr Kvikmyndasjóði geta runnið til handritsgerðar, þróunar, framleiðslu, þ.m.t. tímabundinna vilyrða til framleiðslustyrkja, eftirvinnslu og kynningar. Styrkirnir ná til leikinna kvikmynda í fullri lengd til sýninga í kvikmyndahúsi, til heimilda- og stuttmynda og til leikins sjónvarpsefnis, nema annað sé sérstaklega tekið fram í reglugerð þessari.
6. gr. Handritsstyrkur.
Handritsstyrk má veita til handritshöfundar, leikstjóra sem vinnur að eigin handriti, framleiðanda eða teymis áðurnefndra. Ef um teymi er að ræða fær höfundur 80% styrkupphæðar og framleiðandi 20%. Handritsstyrk má einnig veita til kaupa á höfundarrétti verks, sem fyrirhugað er að skrifa handrit eftir, en slíkir styrkir skulu ávallt greiddir til framleiðanda. Handritsstyrkur til heimildamyndar getur náð til vettvangskönnunar og efnisöflunar. Veiting handritsstyrks er ekki vilyrði fyrir frekari styrkveitingu.
7. gr. Þróunarstyrkur.
Þróunarstyrk má veita til þróunar handrits og frekari fjármögnunar kvikmyndaverks ef álitið er að frekari þróun muni efla verkið umtalsvert á listrænan, fjárhagslegan eða tæknilegan hátt, eða treysta stöðu verksins að öðru leyti. Þróunarstyrk má aðeins veita framleiðslufyrirtækjum sem hafa á að skipa reyndum lykilstarfsmönnum á sviði kvikmyndagerðar. Veiting þróunarstyrks er ekki vilyrði fyrir frekari styrkveitingu.
8. gr. Framleiðslustyrkir.
Framleiðslustyrkir skiptast í eftirtalda flokka:
1. | Vilyrði um framleiðslustyrk má veita tímabundið þegar fullbúið handrit liggur fyrir ásamt fjárhags- og fjármögnunaráætlun. Slík vilyrði verða að framleiðslustyrk liggi fyrir skriflegir samningar eða staðfestingar um að fjármögnun sé að fullu lokið, frá öðrum en Kvikmyndasjóði. Takist ekki að tryggja fjármögnun frá öðrum en Kvikmyndasjóði áður en frestur rennur út og sé ekki veittur viðbótarfrestur, fellur vilyrðið sjálfkrafa úr gildi. |
2. | Framleiðslustyrk má veita þegar fullbúið handrit liggur fyrir ásamt fjárhags- og fjármögnunaráætlun. Skilyrði fyrir framleiðslustyrk er að fyrir liggi skriflegir samningar eða staðfestingar um að fjármögnun sé að fullu lokið frá öðrum en Kvikmyndasjóði. |
3. | Forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar getur veitt framleiðslustyrk vegna leikinnar kvikmyndar í fullri lengd til sýningar í kvikmyndahúsi, án umsagnar kvikmyndaráðgjafa, þegar annað hvort leikstjóri eða framleiðandi hefur fullgert að minnsta kosti eina leikna kvikmynd í fullri lengd og fjármögnun er lokið að öllu öðru leyti en sem nemur framlagi Kvikmyndasjóðs. Skilyrði fyrir framleiðslustyrk er að fyrir liggi skriflegir samningar eða staðfestingar um að fjármögnun sé að fullu lokið frá öðrum en Kvikmyndasjóði. Framleiðslustyrkir sem veittir eru samkvæmt ákvæði þessu skulu ekki nema hærri fjárhæð en 40% af heildarframleiðslukostnaði, þó að hámarki 40 milljónir króna. Jafnframt er skilyrði að heildarframleiðslukostnaður hinnar leiknu kvikmyndar sé að lágmarki 50 milljónir króna. Framleiðslustyrkir skv. þessum tl. ganga alla jafna fyrir öðrum styrkveitingum Kvikmyndasjóðs. |
Tímabundin vilyrði og framleiðslustyrkir eru aðeins veittir sjálfstæðum framleiðendum sem hafa reynslu og/eða staðgóða þekkingu á kvikmyndagerð. Sjálfstæður framleiðandi er fyrirtæki sem hefur kvikmyndagerð að meginstarfi.
Skilyrði fyrir úthlutun til leikins sjónvarpsefnis er að efnið sé ætlað til sýningar í sjónvarpi og sýningarréttur hafi verið tryggður í sjónvarpsstöð sem hefur umtalsverða dreifingu. Sjónvarpsstöðin má ekki vera með ráðandi eignarhlut á framleiðslunni, né heldur má sjónvarpsstöðin vera með ráðandi eignarhlut í sjálfstæðu framleiðslufyrirtæki sem sækir um styrk vegna leikins sjónvarpsefnis, hvort sem litið er til eignaraðildar, hlutafjáreignar eða höfð hliðsjón af viðskiptalegri stöðu. Ráðandi eignarhlutur telst það vera þegar ein sjónvarpsstöð á meira en 25% hlut í framleiðslufyrirtæki (eða eignarhlutur tveggja eða fleiri sjónvarpsstöðva er 50% eða meiri) eða þegar meira en 90% af veltu framleiðslufyrirtækis á þriggja ára tímabili er afrakstur samstarfs við eina sjónvarpsstöð. Sýningarréttur skal renna aftur til framleiðanda innan 7 ára frá undirskrift samnings ef um forsölusamning er að ræða og innan 10 ára ef um samframleiðslusamning er að ræða.
Ef um samframleiðslu fleiri en eins sjálfstæðs framleiðanda er að ræða, verða meðframleiðendur að tilgreina einn aðila samframleiðslunnar sem aðalframleiðanda og heimila honum að skrifa undir samninga við Kvikmyndamiðstöð fyrir sína hönd.
9. gr. Eftirvinnslustyrkur.
Veita má styrk til eftirvinnslu leikinna kvikmynda í fullri lengd til sýninga í kvikmyndahúsi í sérstökum tilvikum, enda hafi þær ekki hlotið framleiðslustyrk úr Kvikmyndasjóði og kvikmyndatöku og klippingu er lokið. Eftirvinnslustyrkur má að hámarki nema 40% af heildarkostnaði kvikmyndar, þó ekki hærri fjárhæð en 15 milljónum króna.
10. gr. Kynningarstyrkur.
Veita má styrki til kynningar- og markaðssetningar. Skilyrði styrkveitingar er að framleiðslu kvikmyndar sé lokið og áætlun um kynningu og kostnað liggi fyrir.
11. gr. Umsóknargögn og kostnaðaráætlun.
Umsóknir um styrki til handritsgerðar, þróunar, framleiðslu, þ.m.t. tímabundinna vilyrða til framleiðslustyrkja, eftirvinnslu og kynningar skulu vera skriflegar á þar til gerðum eyðublöðum Kvikmyndamiðstöðvar. Eftirfarandi gögn skulu fylgja umsóknum eftir því sem við á og tilgreina skal á eyðublöðum Kvikmyndamiðstöðvar:
1. | Greinargerð umsækjanda um kvikmyndaverk. |
2. | Fullbúið handrit og/eða efnisútdráttur. |
3. | Undirbúnings-, töku- og eftirvinnsluáætlun og áætlun um frumsýningardag. |
4. | Framleiðslu- eða framvinduáætlun. |
5. | Listi yfir lykilstarfsmenn og leikara. |
6. | Kostnaðaráætlun á sérstöku formi Kvikmyndamiðstöðvar. |
7. | Skriflegir samningar eða staðfesting um fjármögnun. |
8. | Nákvæm fjármögnunaráætlun auk tæmandi upplýsinga um aðra styrki sem sótt hefur verið um og/eða kvikmyndaverkið hefur fengið. |
9. | Fjárstreymisáætlun. |
10. | Upplýsingar um alla gerða og fyrirhugaða samframleiðslusamninga. |
11. | Áætlun um tekjuskiptingu. |
12. | Vilyrði fyrir sýningu í kvikmyndahúsum á Íslandi. |
13. | Vilyrði fyrir sýningu í sjónvarpi. |
14. | Markaðs- og kynningaráætlun. |
15. | Samningar við alla rétthafa og höfunda kvikmyndaverks. |
16. | Upplýsingar um menntun og starfsreynslu helstu aðstandenda og lykilstarfsmanna. |
17. | Upplýsingar um framleiðslufyrirtæki. |
18. | Upplýsingar um alla aðra samninga sem gerðir hafa verið um framleiðslu og fjármögnun kvikmyndar. |
Allir fjármögnunar- og samframleiðslusamningar vegna kvikmynda, þ.m.t. eigið framlag framleiðenda þurfa að hljóta samþykki Kvikmyndamiðstöðvar. Í samframleiðslusamningnum skal tíundað hvernig fjármögnun skiptist milli samframleiðenda og hver réttur íslenskra framleiðenda sé. Breytist samningar eftir undirritun úthlutunarsamnings skal framleiðandi tafarlaust upplýsa um þær breytingar og fá samþykki Kvikmyndamiðstöðvar fyrir þeim.
Í kostnaðaráætlun skulu allir liðir færðir á markaðsvirði. Kostnaðaráætlun skal innihalda stjórnunarkostnað sem þó skal ekki vera hærri en 7,5% af heildarkostnaðaráætlun að frádreginni 10% óvissu og þóknun framleiðenda. Þóknun framleiðanda skal miðuð við eðli og umfang verkefnis og háð samþykki Kvikmyndamiðstöðvar.
III. KAFLI. Greiðslur styrkja, uppgjör o.fl.
12. gr. Greiðslur styrkja.
Framleiðslustyrkur leikinnar kvikmyndar í fullri lengd til sýningar í kvikmyndahúsi er greiddur á fyrsta tökudegi aðaltökutímabils, sé öllum skilyrðum styrkveitingar fullnægt skv. reglugerð þessari og ákvæðum úthlutunarsamnings. Framleiðslustyrkir til annarra flokka kvikmynda skulu greiddir í hlutum eftir framvindu verks skv. ákvæðum úthlutunarsamnings. Sama gildir um greiðslu handritsstyrkja, þróunarstyrkja, eftirvinnslustyrkja og kynningarstyrkja.
13. gr. Uppgjör og skil.
Uppgjöri vegna styrkveitinga skal skilað innan sex mánaða frá þeim tíma að verki telst lokið skv. úthlutunarsamningi. Kvikmyndamiðstöð er heimilt að krefja styrkþega um uppgjör staðfest af löggiltum endurskoðanda.
Uppgjör skal innihalda sömu liði og upprunaleg kostnaðaráætlun og skulu upphæðir úr kostnaðaráætlun fylgja með til samanburðar. Uppgjör skal einnig innihalda sérstakan lista yfir fjármögnunarfé, þ.m.t. styrki, fjárfestingar, forsölu á sýningarrétti, eftir því sem við á.
Verði verulegar breytingar á handriti, fjármögnun eða kostnaðaráætlun frá umsókn ber styrkþega að tilkynna það Kvikmyndamiðstöð án tafar. Í slíkum tilvikum tekur forstöðumaður endanlega ákvörðun um hvort krefjast eigi endurgreiðslu styrks, að hluta eða öllu leyti, eða hvort lækka beri fjárhæð styrks sem veittur hefur verið en er ógreiddur.
Verki telst lokið þegar styrkþegi hefur efnt að fullu skyldu sína skv. úthlutunarsamningi við Kvikmyndamiðstöð. Nú lýkur styrkþegi ekki við gerð þess verks, sem styrkur hefur verið veittur til, innan umsamins tíma og skal hann þá endurgreiða styrk sem veittur hefur verið, að frádregnum sannanlegum og réttmætum útlögðum kostnaði vegna verksins að mati forstöðumanns.
Hafi styrkþega eða fyrirtæki sem hann hefur átt aðild að áður verið úthlutað styrk úr Kvikmyndasjóði, ber styrkþega að gera fullnaðarskil áður en hann fær aftur úthlutað. Sé verk í vinnslu skal styrkþegi skila inn milliuppgjöri og skýrslu um stöðu verksins, áður en öðrum styrk er úthlutað.
Styrkþegi skal skila fullnaðaruppgjöri til Kvikmyndamiðstöðvar eigi síðar en 6 mánuðum eftir frumsýningardag. Kvikmyndamiðstöð er heimilt að óska eftir uppgjöri staðfestu af löggiltum endurskoðanda.
14. gr. Heimildir Kvikmyndamiðstöðvar Íslands o.fl.
Kvikmyndamiðstöð er heimilt í tengslum við menningarlega viðburði að sýna hópi manna hérlendis og erlendis kvikmynd sem hlotið hefur styrk. Kvikmyndamiðstöð skal upplýsa framleiðanda um allar slíkar sýningar.
Framleiðandi afhendir Kvikmyndamiðstöð ljósmyndir, veggspjöld, tilvitnanir, skoðunareintök, stutt atriði og tónlist úr styrktu kvikmyndaverki til kynningar hérlendis og erlendis. Kvikmyndamiðstöð er einnig heimilt að nota framangreint efni í kynningarútgáfur sínar. Kvikmyndamiðstöð er heimilt að láta gera eintak af styrktu kvikmyndaverki til eigin nota.
Framleiðanda ber að upplýsa Kvikmyndamiðstöð ef einhverjar hömlur eru á notkun styrktrar kvikmyndar og kynningarefni henni tengdu. Kvikmyndamiðstöð er heimilt að kynna verkið með upplýsingum og fréttatilkynningum, nema um annað sé samið.
Merki Kvikmyndamiðstöðvar skal koma fram í upphafs- og lokatitlum kvikmyndar sem hlotið hefur styrk. Þá ber að geta stuðnings Kvikmyndamiðstöðvar á öllu markaðsefni kvikmyndar.
Verk sem nýtur styrks úr Kvikmyndasjóði skal kynnt sem íslenskt á kvikmyndahátíðum og mörkuðum erlendis. Í samframleiðsluverkefnum skal getið um íslenskt þjóðerni ásamt öðrum.
15. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 2. mgr. 7. gr. kvikmyndalaga nr. 137/2001 og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 460/1993 um úthlutanir úr Kvikmyndasjóði Íslands, með síðari breytingum.
Ákvæði til bráðabirgða.
Þrátt fyrir ákvæði 15. gr. skal um úthlutanir úr Kvikmyndasjóði Íslands, vegna vilyrða á árinu 2002, sem koma til útborgunar á árinu 2003, fara eftir ákvæðum reglugerðar nr. 460/1993.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.