Fara beint í efnið

Prentað þann 5. jan. 2025

Eldri útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 1. jan. 2006 – 27. mars 2009 Sjá núgildandi

200/1998

Reglugerð um búfjármörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingum búfjár.

1. gr. Búfjármörk.

1.1. Búfjármörk eru; örmerki, frostmerki, brennimörk, plötumerki og eyrnamörk. Skylt er hverjum búfjáreiganda að hafa glöggt mark á búfé sínu. Lömb skulu eyrnamörkuð fyrir lok 12. viku sumars. Skylt er að brennimerkja eða plötumerkja allt ásett sauðfé og geitfé með brennimarki eða númeri lögbýlis eða eiganda, sýslutákni og númeri sveitarfélags. Að auki er heimilt að brennimerkja sömu númer og tákn á horn.

1.2. Í fjallskilasamþykkt er heimilt að setja sérákvæði um mörk og skil á stórgripum. Sammerkingar stórgripa eru óheimilar innan fjallskilaumdæma. Stjórn fjallskilaumdæmis skal, að öðru leyti setja í samráði við markavörð, reglur um takmörkun á sammerkingum stórgripa og samræma þær eftir þörfum við nágrannasýslur.

1.3. Í fjallskilasamþykkt er heimilt að tilgreina hvers konar mörk sé óheimilt að taka upp eða nota. Í markaskrá skal skýra eyrnamörk með myndum og geta um heiti þeirra. Markaverðir skulu vinna sem rækilegast að því að núverandi markeigendur leggi niður mörk, sem nú eru í markaskrá, en eru af annarri gerð en mörk, sem heimilt er að taka upp samkvæmt ákvæð um fjallskilasamþykkta og reglugerðar þessarar. Óheimilt er að prenta þau mörk í markaskrá umdæmisins eftir að núverandi eigendur þeirra hætta að eiga búfé. Markaverðir skulu vinna að því að markeigendur leggi niður varasamar námerkingar og leið beina um mörk og marklag.

2. gr. Eyrnamörk.

2.1. Eyrnamörk skulu bera sömu heiti í öllum fjallskilaumdæmum. Heiti þeirra eru í stafrófsröð sem hér segir, en stjarna aftan við heiti marksins táknar að unnið skuli gegn notkun þess framvegis:

.
.
.
70. Þrístýft* * táknar að unnið skuli gegn notkun þessara marka

3. gr. Brennimörk.

3.1. Brennimörk á hyrndu sauðfé, veturgömlu og eldra, skulu vera með númeri bæjar eða eiganda, sýslutákni og númeri sveitarfélags.

4. gr. Plötumerki.

4.1. Plötumerki í eyra skal áletra, afhenda og nota í samræmi við litakort og bæjar- eða eigandanúmer í markaskrá.

4.2. Litarmerking sauðfjár skal fara eftir varnarsvæðum, eins og þau eru tilgreind í viðauka I með reglugerð þessari og er óheimilt að litarmerkja sauðfé svo varanlegt sé nema samkvæmt ákvæðum hans. Þó getur yfirdýralæknir ákveðið aðra merkingu, ef nauðsyn krefur vegna sjúkdómavarna. Bú fé á Tilraunastöð Háskólans í meinafræði á Keldum og búfé sem tekið er frá vegna rannsókna eða gruns um sjúkdóma, má merkja með rauðum lit, hvar sem er á landinu, en þann lit má annars hvergi nota til að auðkenna búfé.

4.3. Á plötumerki búfjár skal skrá nú mer bæjar eða eiganda, sýslutákn og númer sveitarfélags, auk númers gripsins. Í markaskrá skal birta skrá yfir númer bæja eða eigenda í hverju sveitarfélagi og litakort sem sýnir svæðaskiptingu merkilita, eins og þeir eru tilgreindir í viðauka II með reglugerð þessari. Nota ber plötumerki sem markanefnd samþykkir.

5. gr. Frost- og örmerki fyrir hross.

5.1 Tilgangur frost- og örmerkinga hrossa er að tryggja sem best rétta upprunaskráningu og sönnun á eignarrétti.

5.2 Bændasamtök Íslands veita leyfi til frost- og örmerkinga hrossa, halda skrá yfir leyfishafa, leiðbeina um framkvæmd merkinga og hafa umsjón með þeim. Bændasamtökin skulu einnig annast skráningu frostmerkja, örmerkja og dreifingaraðila og alla meðferð og vörslu upplýsinga um framkvæmd frost- og örmerkinga á hrossum.

5.3 Leyfishafa til frostmerkinga og/eða örmerkinga hrossa er skylt að útfylla þar til gert vottorð í þríriti þar sem skráð er frostmerki og/eða örmerki, tólf stafa fæðingarnúmer og auðkenni gripsins. Frumrit skal senda Bændasamtökum Íslands sem skrá upplýsingarnar í gagnavörslukerfið Feng. Afrit fær eigandi eða umráðamaður gripsins og eitt afrit geymir sá aðili sem annast einstaklingsmerkinguna.

5.4 Við eigendaskipti skal vottorð um einstaklingsmerkingu fylgja hrossinu og tilkynna ber eigendaskipti til Bændasamtaka Íslands á eyðublaði sem samtökin láta gera. Óheimilt er að slátra frostmerktu eða örmerktu hrossi eða flytja úr landi, nema framvísað sé vottorði um einstaklingsmerkingu og staðfestingu Bændasamtaka Íslands um skráðan eiganda. Sláturleyfishöfum ber að gæta þess að ætíð sé lesið af frostmerkjum og/eða örmerkjum hrossa fyrir slátrun, til að staðfesta réttan uppruna og eignarhald gripa. Þá skulu héraðsdýralæknar gæta þess að upplýsingar samkvæmt frostmerkingu og/eða örmerkingu séu ávallt skráðar á heilbrigðisvottorð vegna útflutnings hrossa.

5.5 Við frostmerkingu hrossa eru átta síðustu stafir fæðingarnúmers hrossins frostmerktir samkvæmt táknkerfi á háls eða bak hrossins. Tvö táknkerfi eru jafngild við örmerkingu hrossa. Frostmerki skv. kerfi 1 er samsett úr átta táknum sem gerð eru úr réttum hornum og samsíða línum. Táknin merkja tölustafina frá 0 til 9, sbr. mynd I. Merkið er þannig byggt upp, sbr. mynd II, að fremst er sem táknar að hrossið er fætt á Íslandi. Þá koma tvö tákn, hvort upp af öðru, sem merkja síðustu tvo tölustafi í fæðingarári hrossins en þriðja tákn merkir kyn þar sem II táknar hest og táknar hryssu. Þá koma tvö tákn fyrir upprunahérað og að síðustu þrjú tákn fyrir raðnúmer, þ.e. föst skráningarnúmer þátttakenda í hrossaskýrsluhaldi. Frostmerki skv. kerfi 2 er samsett úr tölustöfum og bókstaf. Er fyrsti tölustafur síðasti stafur fæðingarárs hrossins, næst kemur einkennisstafur eða númer upprunahéraðs og að síðustu koma þrjár tölur sem eru raðnúmer, þ.e. föst skráningarnúmer þátttakenda í hrossaskýrsluhaldi. Tafla 1 sýnir númer upprunahéraðs og einkennisstafi þess. Fyrir upprunahéruð 80, 81, 82 og 83 skal ekki nota einkennisstafi, aðeins númer upprunahéraðs.

Tafla 1

Upprunahéruð Einkennis- Landsvæði
Númer stafur
25 R Kjalarnesþing.
35 B Borgarfjarðarsýsla, Akranes.
36 M Mýrasýsla, Borgarnes.
37 P Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla.
38 D Dalasýsla.
45 F Vestfirðir, nema Strandasýsla.
49 T Strandasýsla.
55 V V-Húnavatnssýsla.
56 H A-Húnavatnssýsla
57 K Skagafjarðarsýsla, vestan Héraðsvatna,
Hegranes og Sauðárkrókur.
58 W Skagafjarðarsýsla, austan Héraðsvatna og
Siglufjörður.
65 A Eyjafjarðarsýsla, Akureyri, Dalvík,
Ólafsfjörður.
66 E S-Þingeyjarsýsla, Húsavík.
67 N N-Þingeyjarsýsla.
75 S N-Múlasýsla, Seyðisfjörður.
76 U S-Múlasýsla, Neskaupstaður, Eskifjörður.
77 Z A-Skaftafellssýsla, Höfn.
84 O Rangárvallasýsla, austan Eystri-Rangár.
80 Rangárvallasýsla, austan Eystri-Rangár.
85 Y V-Skaftafellssýsla.
86 L Rangárvallasýsla, vestan Eystri-Rangár.
81 Rangárvallasýsla, vestan Eystri-Rangár.
87 X Árnessýsla, nema uppsveitir, Selfoss,
Vestmannaeyjar.
82 Árnessýsla, nema uppsveitir, Selfoss,
Vestmannaeyjar.
88 I Árnessýsla, uppsveitir.
83 Árnessýsla, uppsveitir.

5.6 Heimilt er að frostmerkja hross með eigendamerkjum, þó ekki á sömu staði á gripnum og frostmerkt er skv. táknkerfum 1 eða 2, sbr. 5.5. Öll eigendamerki skal skrá í markaskrár sem stórgripamörk í samræmi við ákvæði 9. gr. reglugerðar nr. 200/1998 um búfjármörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingum búfjár.

5.7 Við örmerkingu hrossa er eingöngu heimilt að nota þær gerðir örmerkja sem að mati Bændasamtaka Íslands uppfylla kröfur samtakanna til upprunaskráningar og gæðaskýrsluhalds. Því skal tryggt að hvert örmerki hafi einkvæma áletrun þannig að ekki skapist hætta á ruglingi eða misferlum. Óheimilt er að bæta tölu- eða bókstöfum í örmerki né breyta því á einn eða annan hátt. Þetta skal sannreynt við skráningu í gagnavörslukerfið Feng hverju sinni. Ávallt skal tilgreina tegund örmerkis á vottorði Bændasamtaka Íslands.

5.8 Örmerki skal komið fyrir undir faxrót, undir húð við sinaband, vinstra megin á hálsi um miðjan makka. Við örmerkingu skal þess gætt að fara vel að gripnum og fylgja viðeigandi leiðbeiningum um ísetningu og aflestur örmerkis. Þeir aðilar sem annast örmerkingu hrossa (leyfishafar sbr. 5.2) skulu ætíð hafa til afnota aflestrartæki sem geta lesið af öllum gerðum örmerkja sem Bændasamtök Íslands heimila til dreifingar og notkunar fyrir hross.

6. gr Frostmerki fyrir nautgripi.

Heimilt er að frostmerkja nautgripi á læri eða malir. Sé um eigendamerki að ræða skal skrá þau í markaskrár sem stórgripamörk í samræmi við ákvæði 9. gr. reglugerðar nr. 200/1998 um búfjármörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingum búfjár.

7. gr. Markeigandi.

7.1. Markeigandi skal skrásettur í markaskrá á þeim bæ, þar sem hann heldur búfé. Heimilt er að skrá markeiganda í þéttbýli á lögheimili hans.

7.2. Flytjist markeigandi búferlum, skal hann leita álits og samþykkis markavarðar, hvort hann þurfi að breyta um mark vegna sammmerkinga. Sama á við um búfé sem markeigandi kaupir. Óheimilt er markeiganda að nota sama mark á fé í tveimur eða fleiri varnarhólfum. Flytjist markeigandi á annað fjársamgöngusvæði, þar sem hann má ekki nota fjármark sitt vegna sammerkingar, skal markið fylgja lögbýli því eða svæði, sem hann flutti frá.

8. gr. Eigendaskipti að mörkum.

8.1. Mörk ganga að erfðum. Gefa má mark og selja, enda sé gerð marksins í samræmi við reglur fjallskilaumdæmisins. Taka má upp nýtt mark, gerðarmark, enda hafi enginn markeigandi á því svæði, sem reglugerð þessi bannar sammerkingar á sama mark eða svo líkt að hætta sé á misdrætti að dómi markavarðar.

8.2. Eigendaskipti að marki á milli þess sem markaskrár eru gefnar út skulu tilkynnt markaverði, er birtir um það tilkynningu í Lögbirtingablaði á kostnað hins nýja eiganda. Afrit tilkynningar skal senda Bændasamtökum Íslands. Sama gildir ef maður flyst á milli fjallskilaumdæma eða varnarhólfa, eða tekur upp nýtt mark. Geri markavörður ekki athugasemd við markið, að höfðu samráði við hlutaðeigandi markaverði, skal hann þegar senda tilkynningu um það til birtingar í Lögbirtingablaði. Markaverðir á viðkomandi svæ ðum skulu færa skrá yfir slík mörk og eigendur þeirra. Aðeins markavörðum er heimilt að auglýsa mörk í Lögbirtingablaði. Mark auglýst með öðrum hætti, eða án samþykkis markavarðar er ógilt og notkun þess óheimil.

8.3. Þau mörk sem óheimil eru samkvæmt reglugerð þessari eða fjallskilasamþykkt mega ekki ganga að erfð um, sölu eða gjöf. Við kaup og sölu búfjár skal afmá bæjarnúmer fyrri eiganda. Jafnframt er heimilt að marka upp eða breyta eyrnamarki.

9. gr. Skráning og niðurfelling marka.

9.1. Skylt er markeiganda að tilkynna markaverði mark sitt til skráningar í markaskrá fjallskilaumdæmis og greið ;a fyrir það gjald sem stjórn þess ákveður. Skal það gert innan tiltekins frests sem markavörður auglýsir, m.a. í Lögbirtingablaði. Við mó ttöku nýrra marka skal skrá móttökudag.

9.2. Vilji einhver taka upp nýtt mark milli þess sem markaskrá er gefin út, skal hann tilkynna það markaverði. Geri markavörður ekki athugasemd við markið, að höfðu samráði við markaverði aðliggjandi fjallskilaumdæma, skal hann þegar senda tilkynningu um það til birtingar í Lögbirtingablaði. Afrit tilkynningar sendist Bændasamtökum Íslands, sem skrá markið í tölvu, þegar markið hefur birst í Lögbirtingablaði.

9.3. Mark sem hvorki er skráð í gildandi markaskrá né hefur verið auglýst, eftir útgáfu síðustu markaskrár eða í viðbæti við markaskrá umdæmisins, skal talið niður fallið og er þá öðrum heimilt að taka það upp. Fyrri eigandi eða erfingi hans á þó forgangsrétt til marksins, ef hann tekur það upp innan átta ára frá útgáfu síðustu markaskrár og heldur það þá aldursrétti sínum.

10. gr. Markaskrár.

10.1. Stjórn hvers fjallskilaumdæmis skal sjá um ú tgáfu á markaskrá fyrir umdæmið. Markaskrár skulu gefnar út samtímis um land allt og eigi sjaldnar en áttunda hvert ár. Skal senda sýslumönnum, markavörðum, markanefnd, hreppstjórum og sláturhúsum á hugsanlegum samgöngusvæðum búfjár eintak markaskrárinnar en Bændasamtökum Íslands tvö eintök.

10.2. Stjórnir fjallskilaumdæma geta sameinast um útgáfu markaskrár, þar sem það þykir henta. Semja má um útgáfu marka úr hluta sýslu í annarri skrá, ef sérstök landfræðileg ástæða er til þess, og að fengnu samþykki markanefndar. Skulu þá öll búfjármörk á viðkomandi svæði birt í þeirri skrá. Einstaka búfjáreigendum er þó heimilt að fá mark sitt birt í nágrannaskrá. Óheimilt er stjórn fjallskilaumdæmis að skipta markaskrá upp eftir svæðum innan fjallskilaumdæmis eða láta prenta sérstaka stórgripamarkaskrá. Mörk sem eingöngu eru notuð fyrir stórgripi skulu auðkennd í markaskrá með stjörnu og er algerlega óheimilt að nota þau á sauðfé.

10.3. Stjórn fjallskilaumdæmis felur ákveðnum manni, markaverði, söfnun og umsjón með mörkum, svo og útgáfu markaskrár. Skal sem mest samræmi haft við gerð markaskráa um land allt og fylgt í því efni ákvæðum reglugerðar þessarar. Bændasamtök Íslands skrá öll mörk í tölvu og hafa umsjón og eftirlit með útgáfu markaskráa og samræma gerð þeirra.

11. gr. Útgáfa markaskráa.

11.1. Við gerð markaskráa skal fylgja eftirfarandi reglum:

11.1.1. Brotið skal vera sem næst 11-111/2 sm á breidd og 19-20 sm á hæð.

11.1.2. Hverri síðu skal skipt í dálka, er liggi þvert á kjöl:

1. dálkur fyrir tölu marksins

2. dálkur fyrir mark á hægra eyra

3. dálkur fyrir mark á vinstra eyra

4. dálkur fyrir brennimark

5. dálkur fyrir nafn og heimili markeiganda

6. dálkur fyrir númer bæjar eða eiganda, sý slutákn og númer sveitarfélags.

11.1.3. Skylt er að nota sömu markaheiti í markaskrám um land allt og raða þeim þannig í starfrófsrö ð í öllum markaskrám; Fyrst skal raða mörkum, sem aðeins eru á vinstra eyra og nota heitið "Alheilt hægra" í dálki fyrir mark á hægra eyra. Á mörkuðu eyra skal fyrst lýst yfirmarki, síðan undirbenjum niður eftir eyranu að framan og því næst á sama hátt aftan á eyra.

12. gr. Sammerkingar á sauðfé.

12.1. Það telst vera sammerking þegar tveir eða fleiri markeigendur eiga sama mark.

12.2. Sammerking er óheimil innan fjallskilaumdæmis. Óheimilt er að taka upp nýjar sammerkingar innan þess og niður skulu felldar núverandi sammerkingar. Ef kind er með vafamarki skal henni skilyrðislaust slátrað.

12.3. Reglur um bann við sammerkingum á milli fjallskilaumdæma eru:

12.3.1.Gullbringu- og Kjósarsýsla (Kjalarnesþing). Bannaðar eru sammerkingar við Borgarfjarðarsýslu, Mýrasýslu og Árnessýslu.

12.3.2. Borgarfjarðarsýsla. Bannaðar eru sammerkingar við Mýrasýslu og Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu austan Snæfellsnesslínu. Nyrðra varnarhólf í Borgarfjarðarsýslu má ekki hafa sammerkt við Dalasýslu sunnan Hvammsfjarðarlí nu, Strandasýslu sunnan sömu línu og við Hú navatnssýslur og Skagafjarðarsýslu vestan Héraðsvatna. Þó má nyrðra Borgarfjarðarhólf hafa sammerkt við hreppana norðan Vatnsnesslínu í Vestur-Húnavatnssýslu. Bannaðar eru sammerkingar við Árnessýslu og Kjalarnesþing.

12.3.3. Mýrasýsla. Bannaðar eru sammerkingar við Snæfellsnes- og Hnappadalssý ;slu, Dalasýslu, Strandasýslu sunnan Gilsfjarðarlínu, Húnavatnssýslur og Skagafjarðarsýslu vestan Hé raðsvatna, Árnessýslu, Kjalarnesþing og Borgarfjarð arsýslu. Heimilt er þó að halda núverandi sammerkingum í Mýrasýslu vestan Stafholtstungnahrepps við svæðið á milli Blöndu og Hérað svatna, norðan Bólstaðarhlíðarhrepps, Seyluhrepps og Eyhildarholts í Rípurhreppi. Einnig er heimilt að hafa sammerkt við hreppa norðan Vatnsnesslínu í Vestur-Húnavatnssýslu.

12.3.4. Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla. Bannaðar eru sammerkingar við Dalasýslu, Strandasýslu sunnan Gilsfjarðarlínu og Mýrasýslu. Austan Snæfellsnesslínu má ekki vera sammerkt við Borgarfjarðarsýslu.

12.3.5. Dalasýsla. Bannaðar eru sammerkingar við Austur-Barðastrandarsýslu og Strandasýslu sunnan Þorskafjarðarlínu. Norðan Hvammsfjarðarlínu eru auk þess bannaðar sammerkingar við Austur-Barðastrandarsýslu á milli Kollafjarðar- og Þorskafjarðarlína, Nauteyrarhrepp í Norður-Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu á milli Árneshrepps og Þorskafjarðarlínu, og Vestur-Hú navatnssýslu í Miðfjarðarhólfi. Einnig eru bannaðar sammerkingar við Mýrasýslu og Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu. Sunnan Hvammsfjarðarlínu er að auki bannað að hafa sammerkt við Húnavatnssýslur vestan Blöndu og nyrðra Borgarfjarðarhólf. Þó má hafa sammerkt við hreppa norðan Vatnsnesslínu í Vestur-Húnavatnssýslu. Um Kleifar í Dalasýslu, gilda sömu reglur og væri jörðin í Austur-Barðastrandarsýslu.

12.3.6. Barðastrandarsýslur, Ísafjarðarsýslur og Strandasýsla. Bannaðar eru sammerkingar á Vestfjarðakjálka, þ.e. norðan Gilsfjarðarlínu. Í Austur-Barð astrandarsýslu á milli Kollafjarðar- og Þorskafjarð arlína, í Nauteyrarhreppi í Norður-Ísafjarð arsýslu, og í Strandasýslu á milli Á rneshrepps og Þorskafjarðarlínu má ekki vera sammerkt við Dalasýslu og Strandasýslu norðan Hvammsfjarð arlínu. Sunnan Þorskafjarðarlínu má ekki vera sammerkt við Dalasýslu og Strandasýslu. Í Strandasýslu á milli Gilsfjarðarlínu og Hvammsfjarð ;arlínu má ekki vera sammerkt við Vestur-Hú navatnssýslu í Miðfjarðarhólfi, Mý rasýslu og Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu. Í Strandasýslu sunnan Hvammsfjarðarlínu má ekki hafa sammerkt við Húnavatnssýslur, Skagafjarðarsýslu vestan Héraðsvatna, nyrðra Borgarfjarðarhólf, Mýrasýslu og Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu.

12.3.7. Vestur-Húnavatnssýsla. Bannaðar eru sammerkingar við Skagafjarðarsýslu vestan Héraðsvatna, Árnessýslu, nyrðra Borgarfjarðarhólf, Mýrasýslu og Dala- og Strandasýslur sunnan Hvammsfjarðarlínu. Norðan Vatnsnesslínu má þó vera sammerkt við Árnes- og Dalasýslur, nyrðra Borgarfjarðarhólf og Mýrasýslu. Vestan Miðfjarðarlínu má ekki vera sammerkt við Dala- og Strandasýslur sunnan Gilsfjarðarlínu. Þorkelshólshreppur má ekki hafa sammerkt við Akrahrepp í Skagafjarð arsýslu.

12.3.8. Austur-Húnavatnssýsla. Bannaðar eru sammerkingar við Skagafjarðarsýslu vestan Héraðsvatna og Akrahrepp. Austan Blöndu má ekki vera sammerkt við Viðvíkurhrepp í Skagafjarðarsý slu. Í Bólstaðarhlíðarhreppi má ekki vera sammerkt við Eyjafjarðarsýslu sunnan Hörgár eða Ása- og Djúpárhreppa í Rangárvallasýslu. Einnig eru bannaðar sammerkingar við Árnessýslu, nyrðra Borgarfjarðarhólf, Mýrasýslu og Dala- og Strandasýslur sunnan Hvammsfjarðarlínu. Sammerkt má þó vera í hreppum austan Blöndu, við Dalasýslu sunnan Hvammsfjarðarlínu. Ennfremur mega hrepparnir norðan Bólstaðarhlíðarhrepps halda núverandi sammerkingum við Mýrasýslu vestan Stafholtstungnahrepps.

12.3.9. Skagafjarðarsýsla. Bannaðar eru sammerkingar við Eyjafjarðarsýslu. Lýtingsstaðahreppur, Seyluhreppur, Eyhildarholt í Rípurhreppi og Akrahreppur mega ekki hafa sammerkt við Suður-Þingeyjarsýslu vestan Skjálfandafljóts. Ennfremur má Akrahreppur ekki hafa sammerkt við Skútustaðahrepp og Bárðdælahrepp austan Skjálfandafljóts eða þau svæði Suður-Þingeyjarsýslu sem eiga eða nota afrétti sunnan byggða. Akrahreppur, Lýtingsstaðahreppur, Seyluhreppur og Eyhildarholt í Rípurhreppi mega ekki hafa sammerkt við Ása- og Djúpárhreppa í Rangárvallasýslu. Hrepparnir vestan Héraðsvatna mega ekki hafa sammerkt við Árnessýslu, nyrðra Borgarfjarðarhólf, Mýrasýslu, Strandasýslu sunnan Hvammsfjarðarlínu og Húnavatnssýslur. Hrepparnir norðan Seyluhrepps, nema Eyhildarholt í Rípurhreppi, mega þó halda núverandi sammerkingum við Árnessýslu vestan Ölfusár og Sogs og Mýrasýslu vestan Stafholtstungnahrepps. Í Viðvíkurhreppi má ekki vera sammerkt við Austur-Húnavatnssýslu austan Blöndu og Akrahreppur má ekki hafa sammerkt við Austur-Húnavatnssýslu og Þorkelshólshrepp í Vestur-Húnavatnssýslu. Um Skatastaði og Stokkhólma í Akrahreppi gilda hvarvetna sömu reglur og væru þeir í Lýtingsstaðahreppi.

12.3.10. Eyjafjarðarsýsla og Siglufjörður. Bannaðar eru sammerkingar við Skagafjarðarsýslu, Suður-Þingeyjarsýslu og Kelduneshrepp í Norður-Þingeyjarsýslu. Þó má vera sammerkt norðan Hörgár við svæðið austan Skjálfandafljó ts. Sunnan Hörgár eru bannaðar sammerkingar við Bólstaðarhlíðarhrepp, Árnessýslu austan Hvítár og við Ása- og Djúpárhreppa í Rangárvallasýslu. Um Siglufjörð gilda sömu reglur og Eyjafjarðarsýslu norðan Hörgár.

12.3.11. Suður-Þingeyjarsýsla og Kelduneshreppur. Bannaðar eru sammerkingar í Þingeyjarsýslum. Skútustaðahreppur og Bárðdælahreppur austan Skjálfandafljóts og þeir bæir í Reykdælahreppi sem rétt hafa til að nota afrétti sunnan byggða mega ekki hafa sammerkt við Norður-Múlasýslu norðan Lagarfljóts og Fljótsdalshrepp. Svæðið á milli Skjálfandafljóts og Jökulsár á Fjöllum norðan Skútustaðahrepps og Bárðdælahrepps má ekki hafa sammerkt við Norður-Múlasýslu norðan Jökulsár á Brú. Bannaðar eru sammerkingar þeirra svæða í Suður-Þingeyjarsýslu sem eiga eða nota afrétti sunnan byggða í sýslunni, við Árnessýslu austan Hvítár, Ása- og Djúpárhreppa í Rangárvallasýslu og Akrahrepp í Skagafjarðarsýslu. Bannaðar eru sammerkingar við Eyjafjarðarsýslu. Austan Skjálfandafljóts má þó vera sammerkt við Eyjafjarðarsýslu norðan Hörgár. Vestan Skjálfandafljóts eru bannaðar sammerkingar við Lýtingsstaðahrepp, Seyluhrepp, Eyhildarholt í Rípurhreppi og Akrahrepp í Skagafjarðarsýslu.

12.3.12.Norður-Þingeyjarsýsla austan Jökulsár. Bannaðar eru sammerkingar í Þingeyjarsýslum og við Norður-Múlasýslu norðan Lagarfljóts og Fljótsdalshrepp.

12.3.13. Múlasýslur. Bannaðar eru sammerkingar í Múlasýslum. Þó má Suður-Múlasýsla hafa sammerkt við Vopnafjarðarhrepp og Skeggjastaðahrepp í Norður-Múlasýslu. Sunnan Jökulsár á Brú má ekki vera sammerkt við Austur-Skaftafellsýslu austan Hornafjarðarfljóts. Fljótsdalshreppur og svæðið norðan Lagarfljóts má ekki hafa sammerkt við Skútustað ahrepp, Bárðdælahrepp austan Skjálfandafljóts, þá bæi í Reykdælahreppi í Suður-Þingeyjarsýslu sem rétt hafa til að nota afrétti sunnan byggða, og Norður-Þingeyjarsýslu. Norðan Jökulsár á Brú má ekki hafa sammerkt við svæðið á milli Skjálfandafljóts og Jökulsár á Fjöllum, norðan Skútustaðahrepps og Bárðdælahrepps.

12.3.14. Austur-Skaftafellssýsla. Bannaðar eru sammerkingar austan Hornafjarðarfljóts við Múlasýslur sunnan Jökulsár á Brú. Hofshreppur má ekki hafa sammerkt við Vestur-Skaftafellssýslu austan Mýrdalssands.

12.3.15. Vestur-Skaftafellssýsla. Bannaðar eru sammerkingar við Rangárvallasýslu. Álftavers- og Skaftártunguhreppar mega ekki hafa sammerkt við Árnessýslu austan Hvítár. Bannaðar eru sammerkingar austan Mýrdalssands við Hofshrepp í Austur-Skaftafellssýslu.

12.3.16. Rangárvallasýsla. Bannaðar eru sammerkingar vestan Markarfljóts við Árnessýslu. Ása- og Djúpárhreppar mega ekki hafa sammerkt við Bólsstaðarhlíðarhrepp í Austur-Húnavatnssýslu, Seylu-, og Lýtingsstaðahrepp, Eyhildarholt í Rípurhreppi og Akrahrepp í Skagafjarð arsýslu, Eyjafjarðarsýslu sunnan Hörgár og við þau svæði í Suður-Þingeyjarsýslu sem eiga eða nota afrétti sunnan byggða. Bannaðar eru sammerkingar við Vestur-Skaftafellssýslu.

12.3.17. Vestmannaeyjar. Bannaðar eru sammerkingar á milli fjáreigenda í Vestmannaeyjum.

12.3.18. Árnessýsla. Bannaðar eru sammerkingar við Kjalarnesþing, Borgarfjarðarsýslu, Mýrasýslu, Húnavatnssýslur og Skagafjarðarsýslu vestan Héraðsvatna. Þó má hafa sammerkt við hreppa norðan Vatnsneslínu í Vestur-Húnavatnssýslu. Í Árnessýslu vestan Ölfusár og Sogs má þó halda núverandi sammerkingum við hreppana norðan Seyluhrepps nema Eyhildarholt í Rípurhreppi í Skagafjarðarsýslu. Í Árnessýslu austan Hvítár má ekki vera sammerkt við Akrahrepp í Skagafjarðarsýslu, Eyjafjarðarsýslu sunnan Hörgár eða þau svæði Suður-Þingeyjarsýslu, sem afrétt eiga eða nota sunnan byggða, og ekki við Skaftártunguhrepp og Álftavershrepp í Vestur-Skaftafellssýslu. Bannaðar eru sammerkingar við Rangárvallasýslu vestan Markarfljóts.

12.4. Fyrir útgáfu markaskráa skulu markaverðir vinna sameiginlega að útrýmingu óleyfilegra sammerkinga. Bændasamtök Íslands veita markavörðum upplýsingar um sammerkingar. Hver markavörður skal skrá aldur og flokk þeirra marka sem kunna að falla niður vegna sammerkingar samkvæmt ákvæðum 12.3. Jafnframt skal hann tilkynna markavörðum aðliggjandi fjallskilaumdæma um þau mörk sem hann hefur skráð þannig.

12.5. Markaverðir skulu halda með sér fundi svo oft sem þurfa þykir, þar sem ákvörðun er tekin á grundvelli a-liðar 4. mgr. 68. gr. afréttalaga nr. 6/1986, um hvaða markeigandi missir mark sitt vegna sammerkingar, enda hafi hlutað eigandi aðilum áður verið gefin kostur á að lýsa skriflega viðhorfum sínum til málsins. Niðurstöðu slíkra funda skal tilkynna viðkomandi markeigendum skriflega án tafar, auk þess sem þær skulu fæ rðar til bókar. Verði ekki leyst úr ágreiningi um hver halda skuli marki á grundvelli reglna a-liðar 4. mgr. 68. gr. afréttalaga eða markaverðir verða ekki sammála um úrlausn máls, skal vísa málinu til úrskurðar markanefndar. Markaverðir skulu einnig fyrirbyggja sammerkingar við upptöku nýrra marka eða flutning marka á milli fjallskilaumdæma.

12.6. Nú leggur markeigandi niður fjármark sitt til að útrýma sammerkingu, en á erfitt með eða getur ekki markað fjárstofn sinn undir hið nýja mark. Er þá markaverði heimilt að láta prenta hið aflagða mark einu sinni í markaskrá umdæmisins, en þó því aðeins að það sé auðkennt með bókstafnum F og tekið fram í formála viðkomandi markaskrár, að slík mörk séu aðeins á fullorðnu fé og óheimilt sé að nota þau á lömb. Skylt er hlutaðeigandi fjáreiganda að plötumerkja allt fé sem ber hið aflagða mark.

13. gr. Markanefnd.

13.1. Markanefnd skal fylgjast með framkvæmd laga, reglugerða og fjallskilasamþykkta um mörk og markaskrár og vera þeim til ráðuneytis sem um þau mál fjalla. Þá skal markanefnd fylgjast með og aðstoða Bændasamtök Íslands við tölvuskráningu allra marka í landinu, samkvæmt ákvæðum 10.3.

13.2. Markanefnd úrskurðar um ágreining sem rísa kann vegna ákvörðunar markavarðar eða fundar markavarða um skráningu á marki, synjun skráningar eða nið urfellingu marks vegna sammerkinga. Skal nefndin í því efni fylgja ákvæðum 68. gr. afréttalaga.

14. gr.

Landbúnaðarráðherra getur að fengnum meðmælum yfirdýralæknis, veitt undanþágu frá litarmerkingu búfjár séu sérstakar aðstæður fyrir hendi.

15. gr. Refsiákvæði og gildistaka.

14.1. Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum samkvæmt 70. gr. laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986.

14.2. Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í IX. kafla laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl. og lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 579/1989 um búfjármörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingum búfjár, svo og breytingar með reglugerðum nr. 410/1992, 50/1994, 212/1997 og 709/1997.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.