Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 21. nóv. 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 24. feb. 2021

180/2021

Reglugerð um vinnustaðanám.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til vinnustaðanáms á framhaldsskólastigi. Hún byggist á almennum ákvæðum aðalnámskrár um nám á vinnustað og lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008.

2. gr. Skilgreiningar.

Merking orða í reglugerð þessari er sem hér segir:

Vinnustaðanám: Vinnustaðanám tekur bæði til hugtakanna vinnustaðanám og starfsþjálfun samkvæmt lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008.

Iðnmeistara-, fyrirtækis-, stofnunarsamningur um vinnustaðanám: er námssamningur um vinnustaðanám allra starfsgreina samkvæmt lögum nr. 92/2008 sem er gerður milli skóla, nemanda og iðnmeistara/fyrirtækis/stofnunar um að veita nemanda tilskilda menntun og þjálfun í samræmi við 28. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla.

Skólasamningur um vinnustaðanám: er námssamningur um vinnustaðanám allra starfsgreina samkvæmt lögum nr. 92/2008 milli nemanda, skóla og iðnmeistara/fyrirtækis/stofnunar um að veita nemanda tilskilda menntun í samræmi við 28. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla.

Vinnustaðanámssamningur: skiptist annars vegar í iðnmeistara-, fyrirtækis-, stofnunarsamning um vinnustaðanám eða skólasamning um vinnustaðanám.

Rafræn ferilsbók: er rafræn skráning um framvindu náms og námsferil nemanda á vinnustað þar sem hæfni nemanda er staðfest af umsjónarmönnum skóla auk iðnmeistara, fyrirtækis og stofnana eftir því sem við á. Rafræn ferilsbók er í umsjón Menntamálastofnunar.

Umsýsluaðili: er skóli sem annast umsýslu námssamnings eða annar aðili sem mennta- og menningarmálaráðherra hefur falið það hlutverk.

3. gr. Vinnuvernd.

Ekki má gera vinnustaðanámssamning við yngri einstakling en 16 ára. Í starfsgreinum þar sem vinnuhættir, vinnuskilyrði, vinnutími eða önnur atriði gera slíkt nauðsynlegt getur mennta- og menningarmálaráðherra áskilið hærra aldursmark eða ef önnur lög kveða svo á um.

Við gerð samnings við einstakling undir 18 ára aldri skal sérstaklega gæta ákvæða laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Foreldri eða forráðamaður ólögráða nemanda þarf að staðfesta samþykki sitt með undirritun á vinnustaðanámssamning.

4. gr. Umsjón með gerð vinnustaðanámssamninga.

Framhaldsskólar hafa umsjón með nemendum í vinnustaðanámi. Þeir halda skrá yfir fjölda nemenda sem eru í vinnustaðanámi hverju sinni.

Framhaldsskólar sjá um gerð og staðfestingu vinnustaðanámssamninga og hafa eftirlit með þeim. Þeir hafa með höndum ógildingu sömu samninga ef til þess kemur.

Mennta- og menningarmálaráðherra getur falið öðrum skóla en þeim sem nemandi stundar nám í, eða öðrum aðila, að sjá um gerð og staðfestingu vinnustaðanámssamninga og hafa eftirlit með þeim. Sömu aðilar hafa þá með höndum ógildingu sömu samninga ef til þess kemur. Þessir aðilar nefnast umsýsluaðilar í reglugerð þessari.

Umsýsluaðila er heimilt að skipuleggja vinnustaðanámssamninga við fleiri en eitt fyrirtæki til að tryggja fjölbreytni vinnustaðanáms nemanda.

5. gr. Iðnmeistara-, fyrirtækis-, stofnunarsamningar.

Iðnmeistara-, fyrirtækis-, stofnunarsamningur, skv. 2. gr. er gerður milli skóla, nemanda, og iðnmeistara/fyrirtækis/stofnunar um vinnustaðanám nemandans sem fer fram á vinnustað. Í samningnum er kveðið á um inntak og fyrirkomulag þess vinnustaðanáms sem skal fara fram. Samningurinn er vistaður í rafrænni ferilsbók nemandans. Sé ekki búið að innleiða rafræna ferilsbók skal samningurinn gerður í þríriti og heldur hver samningsaðili sínu eintaki. Ef umsýsluaðili er annar en skóli heldur sá fjórða eintakinu. Form samnings er ákveðið af þeim aðila sem hefur með höndum staðfestingu samninga og leggur sami aðili jafnframt til eyðublöð fyrir þá. Viðkomandi skóli ber ábyrgð á því að fullnægjandi eftirfylgni sé engu að síður með hæfni nemandans þar sem ekki er hægt að notast við rafrænar ferilsbækur til að meta hæfni hans.

Iðnmeistara-, fyrirtækis-, stofnunarsamningur kveður á um réttindi og skyldur iðnmeistara, skóla og nemanda, markmið vinnustaðanáms, gæðakröfur, gildistíma, meðferð ágreiningsmála og samningsslit.

Iðnmeistara-, fyrirtækis-, stofnunarsamningur er gerður í samræmi við gildandi kjarasamning fyrir nemendur í viðkomandi starfsnámi.

Iðnmeistari/fyrirtæki/stofnun skipuleggur vinnustaðanám þannig að nemandi geti náð þeirri hæfni sem kveðið er á um í starfalýsingu og hæfnikröfum atvinnulífs fyrir viðkomandi starf og í námsbrautarlýsingu skóla. Vinnustaðanámið tekur til þeirra hæfniþátta sem að mati atvinnulífs og skóla fer betur að kenna á vinnustað eða erfitt er að kenna í skóla.

Lengd vinnustaðanáms hjá iðnmeistara/fyrirtæki/stofnun ræðst af hæfni nemandans en haldið er utan um hæfniþætti starfsins í rafrænni ferilsbók. Vinnustaðanámi telst lokið þegar nemandinn hefur, að mati iðnmeistara/fyrirtækis/stofnunar og umsjónarmanns skóla, náð öllum hæfniþáttum og þar með þeirri hæfni sem tilskilin er. Vinnustaðanám getur því verið mismunandi langt hjá nemendum en þó aldrei lengra en skipulagt nám kveður á um.

6. gr. Skólasamningar.

Skólasamningur, skv. 2. gr. er gerður milli skóla og iðnmeistara/fyrirtækis/stofnunar um vinnustaðanám nemandans sem fer fram á vinnustað. Í skólasamningnum er kveðið á um inntak og fyrirkomulag þess vinnustaðanáms sem skal fara fram. Skólasamningurinn er vistaður í rafrænni ferilsbók nemandans. Sé ekki búið að innleiða rafræna ferilsbók skal samningurinn gerður í þríriti og heldur hver samningsaðili sínu eintaki. Ef umsýsluaðili er annar en skóli heldur sá fjórða eintakinu. Form skólasamnings er ákveðið af þeim aðila sem hefur með höndum staðfestingu skólasamninga og leggur sami aðili jafnframt til eyðublöð fyrir þá. Skólinn ber ábyrgð á því að fullnægjandi eftirfylgni sé engu að síður með hæfni nemandans þar sem ekki er hægt að notast við rafrænar ferilsbækur til að meta hæfni hans.

Skólasamningurinn kveður á um réttindi og skyldur vinnuveitenda, skóla og nemanda, markmið vinnustaðanáms, gæðakröfur, gildistíma, meðferð ágreiningsmála og samningsslit.

Áður en gerður er skólasamningur skal skóli hafa fullreynt að koma nemanda á iðnmeistarasamning og tilkynnt það til meistarafélags viðkomandi iðngreinar þar sem það á við. Skóli skipuleggur vinnustaðanám í samstarfi við vinnustaði þannig að nemandi geti náð þeirri hæfni sem kveðið er á um í starfalýsingu og hæfnikröfum atvinnulífs fyrir viðkomandi starf og í námsbrautarlýsingu skóla. Vinnustaðanámið tekur til þeirra hæfniþátta sem að mati atvinnulífs og skóla fer betur á að kenna á vinnustað eða erfitt er kenna í skóla.

Lengd vinnustaðanáms með skólasamningi ræðst af hæfni nemandans en haldið er utan um hæfniþætti starfsins í rafrænni ferilsbók. Vinnustaðanámi telst lokið þegar nemandinn hefur, að mati tilsjónarmanns á vinnustað og umsjónarmanns skóla, náð öllum hæfniþáttum og þar með þeirri hæfni sem tilskilin er. Vinnustaðanám getur því verið mismunandi langt hjá nemendum en þó aldrei lengra en skipulagt nám kveður á um.

7. gr. Námstími í vinnustaðanámi.

Hæfni nemanda ræður tímalengd vinnustaðanáms. Fulltrúar skóla og vinnustaðar meta sameiginlega hæfni nemanda samkvæmt hæfnikröfum starfsins og hæfniþáttum í rafrænni ferilsbók. Vinnustaðanám getur þó aldrei orðið lengra en uppgefin tímamörk í námsbrautalýsingum viðkomandi greinar.

8. gr. Skyldur iðnmeistara, skóla, fyrirtækis eða stofnunar.

Aðilar skuldbinda sig með gerð iðnmeistara-, fyrirtækis-, stofnunarsamnings eða skólasamnings til að veita nemanda kennslu í greininni og sjá svo um að hann hafi að námstíma loknum hlotið tilskilda hæfni í helstu verkefnum, verkþáttum og vinnubrögðum samkvæmt starfalýsingu, hæfnikröfum, hæfniþáttum í rafrænni ferilsbók og námsbrautalýsingu.

9. gr. Skilyrði.

Til að iðnmeistara, fyrirtækjum eða stofnunum sé heimilt að taka nemendur á iðnmeistara-, fyrirtækis-, stofnunarsamning eða skólasamning skulu eftirtalin skilyrði uppfyllt:

  1. Iðnmeistari, fyrirtæki eða stofnun skal hafa á að skipa hæfum tilsjónarmanni sem býr að góðri fagþekkingu, færni í mannlegum samskiptum og hefur yfirsýn yfir helstu verkefni viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar.
  2. Iðnmeistari, fyrirtæki eða stofnun skal hafa með höndum næg verkefni á starfssviði sínu til að geta annast fullnægjandi kennslu samkvæmt námskrá starfsgreinarinnar.
  3. Iðnmeistari, fyrirtæki eða stofnun skal hafa yfir að ráða vinnustað eða verkstæði með fullnægjandi aðstöðu, faglegri þekkingu og námstækifærum, ásamt vélum, tækjum, áhöldum og búnaði sem viðkomandi starfsgrein útheimtir.
  4. Í fyrirtæki í löggiltri iðn, sem rekið er undir forstöðu meistara samkvæmt iðnaðarlögum nr. 42/1978, skal tilsjónarmaður nemenda ávallt hafa iðnréttindi í þeirri iðngrein sem hann hyggst kenna.
  5. Skilyrði sem sett eru í almennum ákvæðum aðalnámskrár um nám og starfsþjálfun á vinnustað.

10. gr. Skrár yfir iðnmeistara, fyrirtæki og stofnanir sem bjóða vinnustaðanám.

Menntamálastofnun skal halda skrá yfir iðnmeistara, fyrirtæki og stofnanir sem uppfylla skilyrði sett samkvæmt reglugerð þessari.

11. gr. Slit.

Samningsslit skulu ávallt gerð í samráði við skóla/umsýsluaðila.

Aðilar iðnmeistara-, fyrirtækis-, stofnunarsamnings eða skólasamnings geta slitið honum:

  1. ef nemandi vanrækir nám sitt.
  2. ef nemandi hefur, að áliti læknis, ekki heilsu til að stunda viðkomandi starf.
  3. ef iðnmeistari, fyrirtæki eða stofnun brýtur eða uppfyllir ekki samningsskyldur sínar.
  4. ef iðnmeistari, fyrirtæki eða stofnun verður gjaldþrota eða hættir störfum af öðrum ástæðum.

Ef svo er ástatt sem greinir í a- og c-liðum 2. mgr. en iðnmeistari, fyrirtæki, stofnun eða nemandi slíta ekki samningi um vinnustaðanám getur skóli/umsýsluaðili slitið samningi að undangenginni athugun.

Aðilum er heimilt að slíta samningi um vinnustaðanám ef þeir koma sér saman um það. Þegar samningi er slitið skal það jafnan tilkynnt skóla/umsýsluaðila samningsins skriflega.

Verði endurtekin slit á samningi um vinnustaðanám af hálfu iðnmeistara, fyrirtækis eða stofnunar eða viðkomandi verði sannanlega uppvís að því að vanrækja kennslu missir viðkomandi rétt sinn til þess að annast kennslu nemenda á vinnustað og skal vinnustaðurinn þá tekinn af lista Menntamálastofnunar.

Hafi nemandi áður stundað nám hjá öðrum aðila, en slitið samningi um vinnustaðanám við hann sbr. c- og d-liði 2. mgr. skal sú hæfni sem hann hefur öðlast metin áfram að fullu hjá seinni samningsaðila í sömu starfsgrein.

Ef iðnmeistari, fyrirtæki, eða stofnun uppfyllir ekki eða brýtur samningsskyldur sínar, sbr. c-lið eða verður gjaldþrota eða hættir störfum af öðrum ástæðum sbr. d-lið, skal skóli/umsýsluaðili útvega nemanum annan námsstað í starfsgreininni.

12. gr. Málsmeðferð við slit samnings.

Sé iðnmeistara-, fyrirtækis-, stofnunarsamningi eða skólasamningi slitið skal skóli/umsýsluaðili skrá ástæðu samningsslitanna. Óski aðili einhliða eftir riftun samnings um vinnustaðanám skal það gert skriflega og mótaðila samnings jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um riftunarbeiðnina. Uppsagnarfrestur samnings í slíkum tilvikum skal alla jafna vera einn mánuður.

Ágreiningi er kann að rísa vegna samningsslita skal vísað til umsýsluaðila vinnustaðanámssamninga, sem leiðbeinir nemanda um mögulega málsmeðferð og leiðir til að ljúka vinnustaðanámi hans.

Við slit á samningi um vinnustaðanám skal skóli/umsýsluaðili gæta að því að sú hæfni sem nemandi hefur náð sé skráð í rafræna ferilsbók hans.

13. gr. Málskot.

Takist ekki að leysa ágreining um réttindi og skyldur nemanda eftir hefðbundnum leiðum má skjóta honum til mennta- og menningarmálaráðherra, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig verður ágreiningi um rétt fyrirtækis til þess að annast kennslu nemenda skotið til mennta- og menningarmálaráðherra.

14. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt ákvæði 28. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla, öðlast gildi 1. ágúst 2021. Um leið fellur úr gildi reglugerð nr. 840/2011 um vinnustaðanám og starfsþjálfun á vinnustað.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.