Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 27. des. 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 25. okt. 2017

130/2016

Reglugerð um hönnun og framleiðslu skemmtibáta og einmenningsfara.

Birta efnisyfirlit

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Tilgangur.

Tilgangur reglugerðarinnar er að mæla fyrir um kröfur til hönnunar og framleiðslu þeirra vara sem um getur í 1. mgr. 2. gr., og reglur sem gilda um frjálsan flutning þeirra innan Evrópska efnahagssvæðisins (hér eftir EES).

2. gr. Gildissvið.

1. Reglugerðin gildir um eftirtaldar vörur:

  1. skemmtibáta og hálfsmíðaða skemmtibáta,
  2. einmenningsför og hálfsmíðuð einmenningsför,
  3. íhluti, sem tilgreindir eru í II. viðauka, þegar þeir eru settir sér á markað á Evrópska efnahagssvæðinu,
  4. knúningsvélar sem eru settar í eða ætlaðar sérstaklega til uppsetningar á eða í förum,
  5. knúningsvélar, sem eru settar á eða í för, eftir umtalsverða breytingu á vélinni,
  6. för sem hefur verið breytt umtalsvert.

2. Reglugerðin gildir ekki um vörur sem taldar eru upp í 2. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar (2013/53/ESB).

3. Sé far sett á markað á EES í tómstundaskyni útilokar það ekki að það falli undir gildissvið reglugerðarinnar þó að nota mætti farið til leiguflutninga eða til þjálfunar í íþrótta- og tómstundaskyni.

3. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerðinni er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

  1. Tilskipunin: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/53/ESB frá 20. nóvember 2013 um skemmtibáta og einmenningsför og um niðurfellingu á tilskipun 94/25/EB.
  2. Far: Skemmtibátar eða einmenningsför.
  3. Skemmtibátur: Allar tegundir fara, að undanskildum einmenningsförum, sem eru ætluð til íþrótta og tómstunda, óháð knúningsmáta, sem eru með bollengd frá 2,5 m til 24 m.
  4. Einmenningsfar: Far, ætlað til íþrótta og tómstunda, undir 4 m að bollengd, búið knúningsvél með vatnsgeisladælu sem helsta knúningsafli og sem reiknað er með að einn eða fleiri einstaklingar stýri, sitjandi, standandi eða krjúpandi, á eða innan marka bols farsins.
  5. Far sem er smíðað til eigin nota: Far sem er að mestu leyti smíðað af framtíðarnotanda þess til eigin nota.
  6. Grunnkröfur um öryggi: Kröfur sem mælt er fyrir um í 4. gr. og I. viðauka við reglugerð þessa.
  7. Knúningsvél: Allar brunavélar með neista- eða þjöppukveikju, sem eru notaðar beint eða óbeint sem knúningsafl.
  8. Umtalsverð breyting á vél: Breyting á vél sem kann að valda því að vélin fari yfir losunarmörkin, sem gefin eru upp í B-hluta I. viðauka, eða eykur nafnafl vélarinnar um meira en 15%.
  9. Umtalsverð breyting á fari: Breyting á fari, sem hefur í för með sér breytingu á aðferð við að knýja farið áfram, felur í sér umtalsverða breytingu á vél eða breytir farinu það mikið að það uppfyllir mögulega ekki lengur gildandi grunnkröfur þessarar reglugerðar um öryggi og umhverfi.
  10. Knúningsaðferð: Aðferð sem notuð er til að knýja far á sjó áfram.
  11. Flokkur véla: Flokkun framleiðanda á vélum sem, með tilliti til hönnunar þeirra, hafa svipuð einkenni hvað varðar losun með útblæstri eða hávaðamengun.
  12. Bollengd: Lengd bols sem er mæld í samræmi við samhæfðan staðal.
  13. Að bjóða fram á markaði: Öll afhending vöru til dreifingar, neyslu eða til notkunar á markaði EES meðan á viðskiptastarfsemi stendur, hvort sem það er gegn greiðslu eða án endurgjalds.
  14. Að setja á markað: Það að vara er boðin fram í fyrsta sinn á markaði EES.
  15. Að taka í notkun: Fyrsta skipti sem vara, sem fellur undir reglugerðina, er notuð af endanlegum notanda innan EES.
  16. Framleiðandi: Einstaklingur eða lögaðili sem framleiðir vöru eða lætur framleiða eða hanna slíka vöru og setur vöruna á markað undir sínu nafni eða vörumerki.
  17. Viðurkenndur fulltrúi: Einstaklingur eða lögaðili með staðfestu á EES sem hefur skriflegt umboð frá framleiðandanum til að koma fram fyrir hans hönd í tengslum við tilgreind verkefni.
  18. Innflytjandi: Einstaklingur eða lögaðili með staðfestu innan EES sem setur vöru frá þriðja landi á markað Evrópska efnahagssvæðisins.
  19. Aðili sem flytur inn til einkanota: Einstaklingur eða lögaðili með staðfestu á EES sem flytur vöru frá þriðja landi inn á EES í tengslum við starfsemi sem ekki er í atvinnuskyni, í því skyni að hafa vöruna til einkanota.
  20. Dreifingaraðili: Einstaklingur eða lögaðili í aðfangakeðjunni, annar en framleiðandi eða innflytjandi, sem býður vöru fram á markaði.
  21. Rekstraraðilar: Framleiðandi, viðurkenndur fulltrúi, innflytjandi og dreifingaraðili.
  22. Samhæfður staðall: Evrópustaðall sem samþykktur er á grundvelli beiðni framkvæmdastjórnarinnar vegna beitingar samhæfingarlöggjafar EES.
  23. Faggilding: Staðfesting frá Einkaleyfastofu um að samræmismatsaðili uppfylli kröfurnar sem eru settar fram í samhæfðum staðli og, þar sem við á, allar viðbótarkröfur, þ.m.t. þær sem settar eru fram í viðeigandi atvinnugreinakerfum, til að annast sérstakt samræmismat.
  24. Samræmismat: Ferli sem sýnir fram á hvort kröfur þessarar reglugerðar í tengslum við vöru hafi verið uppfylltar.
  25. Samræmismatsstofa: Stofa sem annast samræmismat, þ.m.t. kvörðun, prófun, vottun og eftirlit.
  26. Innköllun: Hvers konar ráðstöfun sem miðar að því að vöru, sem þegar er aðgengileg endanlegum notanda, sé skilað til baka.
  27. Vara tekin af markaði: Hvers konar ráðstöfun sem miðar að því að koma í veg fyrir að vara í aðfangakeðjunni sé boðin fram á markaði.
  28. Markaðseftirlit: Sú starfsemi sem opinber yfirvöld annast og þær ráðstafanir sem þau gera til að tryggja að vörur uppfylli viðeigandi kröfur, sem settar eru fram í samhæfingarlöggjöf EES, og stofni ekki í hættu heilbrigði, öryggi eða öðrum þáttum er varða hagsmuni almennings.
  29. CE-merkið: Merki þar sem framleiðandinn tilgreinir að varan sé í samræmi við gildandi kröfur, sem settar eru fram í samhæfingarlöggjöf EES, þar sem kveðið er á um áfestingu merkisins.

4. gr. Grunnkröfur um öryggi.

  1. Vörurnar, sem um getur í 1. mgr. 2. gr., má aðeins bjóða fram á markaði eða taka í notkun ef þær stofna ekki heilbrigði og öryggi fólks, eignum eða umhverfinu í hættu þegar þeim er viðhaldið með réttum hætti og þær notaðar eins og ætlast er til og aðeins ef þær uppfylla gildandi grunnkröfur skv. I. viðauka.
  2. Óheimilt er að bjóða fram á markaði eða taka í notkun vörur sem ekki uppfylla 1. mgr.

5. gr. Frjáls flutningur.

  1. Óheimilt er að hindra frjálsa flutninga fara og annarra vara sem uppfylla ákvæði reglugerðarinnar í samræmi við meginreglur EES-samningsins.
  2. Um frjálsan flutning fara og annarra vara samkvæmt reglugerðinni gildir að öðru leyti 6. gr. tilskipunarinnar.

II. KAFLI Skyldur rekstraraðila og aðila sem flytja inn vörur til einkanota.

6. gr. Skyldur framleiðanda.

  1. Þegar framleiðandi setur vöru á markað skal hann tryggja að hún hafi verið hönnuð og framleidd í samræmi við grunnkröfur um öryggi.
  2. Til viðbótar 1. mgr. skal framleiðandi:

    1. útbúa tæknigögn, sbr. 21. gr.,
    2. framkvæma, eða láta framkvæma samræmismat, sbr. 18. gr.,
    3. gera yfirlýsingu, sbr. 14. gr.,
    4. merkja og festa CE-merkið á vöru, sbr. 16. og 17. gr.,
    5. varðveita tæknigögnin og afrit af yfirlýsingunni í tíu ár eftir að vara er sett á markað,
    6. tryggja að aðferðir séu til staðar til að samræmi haldist í raðframleiðslu, með tilliti til breytinga á hönnun eða eiginleikum vöru og breytinga á samhæfðum stöðlum sem lýst er yfir að samræmi vöru miðist við,
    7. tryggja að á vöru sé gerðar-, framleiðslueiningar- eða raðnúmer eða annað, sem gerir kleift að bera kennsl á vöruna, eða, ef það er ekki hægt vegna stærðar eða eðlis íhluta, að tilskildar upplýsingar séu veittar á umbúðunum eða í skjali sem fylgir vörunni,
    8. tilgreina nafn sitt, skráð viðskiptaheiti eða skráð vörumerki og heimilisfang, þar sem hafa má samband við hann, á vörunni eða, ef það er ekki hægt, á umbúðunum eða í fylgiskjali,
    9. tryggja að vörunni fylgi leiðbeiningar og öryggisupplýsingar í notendahandbók á íslensku.
  3. Ef talið verður að vara geti haft í för með sér áhættu fyrir heilbrigði og öryggi neytenda skal framleiðandi framkvæma úrtaksprófun og rannsókn á eintökum vörunnar þar sem hún er boðin fram á markaði. Ef nauðsyn krefur vegna hagsmuna neytenda skal framleiðandi halda skrá yfir kvartanir, vörur sem uppfylla ekki kröfur og innköllun vara. Framleiðandi skal veita dreifingaraðila upplýsingar um alla slíka vöktun.
  4. Framleiðandi, sem telur eða hefur ástæðu til að ætla að vara, sem hann hefur sett á markað, sé ekki í samræmi við þessa reglugerð, skal tafarlaust gera þær ráðstafanir til úrbóta sem nauðsynlegar eru til að varan verði í samræmi við kröfur, til að taka hana af markaði eða innkalla, ef við á. Ef áhætta stafar af vörunni skal framleiðandi ennfremur upplýsa Samgöngustofu þar um án tafar, einkum um tilvik þar sem ekki er farið að ákvæðum og um allar ráðstafanir sem gerðar eru til úrbóta.
  5. Framleiðandi skal, á grundvelli rökstuddrar beiðni frá Samgöngustofu, afhenda allar upplýsingar og skjöl, sem nauðsynlegar eru til að sýna fram á samræmi vöru, á íslensku, ensku eða Norðurlandamálum, þó ekki finnsku. Hann skal hafa samvinnu við Samgöngustofu að beiðni hennar, að því er varðar allar aðgerðir sem beitt er til að útiloka áhættu sem stafar af vöru sem hann hefur sett á markað.

7. gr. Viðurkenndir fulltrúar.

Framleiðanda er heimilt að tilnefna viðurkenndan fulltrúa með skriflegu umboði. Um umboð viðurkennds fulltrúa og takmörk umboðs gildir 8. gr. tilskipunarinnar.

8. gr. Skyldur innflytjanda.

  1. Innflytjandi má aðeins setja vöru, sem uppfyllir kröfur samkvæmt þessari reglugerð, á markað EES.
  2. Áður en innflytjandi setur vöru á markað skal hann tryggja eftirfarandi:

    1. að framleiðandi hafi útbúið tæknigögnin, sbr. a-lið 2. mgr. 6. gr.,
    2. að framleiðandi hafi framkvæmt eða látið framkvæma samræmismat, sbr. b-lið 2. mgr. 6. gr.,
    3. að framleiðandi hafi merkt og fest CE-merkið á vöru, sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr.,
    4. að vörunni fylgi yfirlýsing sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. og notendahandbók, sbr. h-lið 2. mgr. 6. gr.,
    5. að framleiðandi hafi merkt vöruna með gerðar-, framleiðslueiningar- eða raðnúmeri eða öðru, sem gerir kleift að bera kennsl á vöruna eða veitt tilskildar upplýsingar á umbúðum eða í fylgiskjali, sbr. f-lið 2. mgr. 6. gr.,
    6. að framleiðandi hafi tilgreint nafn sitt, skráð viðskiptaheiti eða skráð vörumerki og heimilisfang, þar sem hafa má samband við hann, á vörunni eða, ef það er ekki hægt, á umbúðunum eða í fylgiskjali, sbr. g-lið 2. mgr. 6. gr.
  3. Innflytjandi skal:

    1. tilgreina nafn sitt, skráð viðskiptaheiti eða skráð vörumerki og heimilisfang, þar sem hafa má samband við hann, á vörunni eða, ef það er ekki hægt, á umbúðunum eða í fylgiskjali,
    2. tryggja að vörunni fylgi leiðbeiningar og öryggisupplýsingar í notendahandbók á íslensku,
    3. tryggja að á meðan vara er á hans ábyrgð að geymslu- og flutningsskilyrði tefli ekki í tvísýnu samræmi þess við grunnkröfur um öryggi,
    4. varðveita afrit af yfirlýsingunni, sem um getur í 14. gr., í tíu ár eftir að varan hefur verið sett á markað og hafa það tiltækt fyrir Samgöngustofu og tryggja að stofnunin geti haft aðgang að tæknigögnunum, sé þess óskað.
  4. Ef innflytjandi telur eða hefur ástæðu til að ætla að vara uppfylli ekki grunnkröfur um öryggi, skal hann ekki setja vöruna á markað fyrr en hún hefur verið færð til samræmis við kröfur. Ef áhætta stafar af vörunni skal innflytjandi ennfremur upplýsa framleiðanda og Samgöngustofu þar um.
  5. Ef talið verður að vara geti haft í för með sér áhættu fyrir heilbrigði og öryggi neytenda skal innflytjandi framkvæma úrtaksprófun og rannsókn á eintökum vörunnar á markaði. Ef nauðsyn krefur vegna hagsmuna neytenda skal innflytjandi halda skrá yfir kvartanir, vörur sem uppfylla ekki kröfur og innköllun vara. Innflytjandi skal veita dreifingaraðila upplýsingar um slíka vöktun.
  6. Innflytjandi, sem telur eða hefur ástæðu til að ætla að vara, sem hann hefur sett á markað, samrýmist ekki þessari reglugerð, skal tafarlaust gera þær ráðstafanir til úrbóta, sem eru nauðsynlegar til að varan samrýmist kröfum, til að taka hana af markaði eða innkalla hana, ef við á. Ef áhætta stafar af vörunni skal innflytjandi ennfremur upplýsa Samgöngustofu án tafar, einkum um tilvik þar sem ekki er farið að ákvæðum og um allar ráðstafanir sem gerðar eru til úrbóta.
  7. Innflytjandi skal, á grundvelli rökstuddrar beiðni frá Samgöngustofu, afhenda allar upplýsingar og skjöl, sem nauðsynleg eru til að sýna fram á að varan sé í samræmi við tilskildar kröfur, á íslensku, ensku eða Norðurlandamálum, þó ekki finnsku. Hann skal hafa samvinnu við Samgöngustofu, að beiðni hennar, að því er varðar allar aðgerðir sem beitt er til að útiloka áhættu sem stafar af vörum sem hann hefur sett á markað.

9. gr. Skyldur dreifingaraðila.

  1. Þegar dreifingaraðili býður vöru fram á markaði skal hann gæta þess vandlega að varan sé í samræmi við kröfur þessarar reglugerðar.
  2. Áður en dreifingaraðili býður vöru fram á markaði skal hann tryggja:

    1. að hún beri CE-merkið, sbr. 16. og 17. gr.,
    2. að henni fylgi yfirlýsing skv. 14. gr.,
    3. að henni fylgi leiðbeiningar og öryggisupplýsingar í notendahandbók á íslensku,
    4. að framleiðandi og innflytjandi hafi uppfyllt kröfurnar sem settar eru fram í g-lið 2. mgr. 6. gr. og a-lið 3. mgr. 8. gr.,
    5. að á meðan vara er á hans ábyrgð séu geymslu- og flutningsskilyrði í samræmi við grunnkröfur um öryggi.
  3. Ef dreifingaraðili telur eða hefur ástæðu til að ætla að vara uppfylli ekki grunnkröfur um öryggi skal hann ekki bjóða vöruna fram á markaði fyrr en hún hefur verið færð til samræmis við þær kröfur. Ef áhætta stafar af vörunni skal dreifingaraðilinn ennfremur upplýsa framleiðanda eða innflytjanda, ásamt Samgöngustofu, þar um.
  4. Dreifingaraðili sem telur eða hefur ástæðu til að ætla að vara, sem hann hefur boðið fram á markaði, sé ekki í samræmi við þessa reglugerð skal ganga úr skugga um að gerðar séu þær ráðstafanir til úrbóta sem nauðsynlegar eru til að færa vöruna til samræmis, til að taka hana af markaði eða innkalla, ef við á. Ef áhætta stafar af vörunni skal dreifingaraðili ennfremur upplýsa Samgöngustofu án tafar þar um, einkum um tilvik þar sem ekki er farið að ákvæðum þessarar reglugerðar og um allar ráðstafanir sem gerðar eru til úrbóta.
  5. Dreifingaraðili skal, á grundvelli rökstuddrar beiðni frá Samgöngustofu, afhenda allar upplýsingar og skjöl sem nauðsynleg eru til að sýna fram á samræmi vörunnar. Hann skal hafa samvinnu við Samgöngustofu, að beiðni stofnunarinnar, að því er varðar allar aðgerðir sem beitt er til að útiloka áhættu sem stafar af vörum sem hann hefur boðið fram á markaði.

10. gr. Yfirfærsla á skyldum framleiðanda til innflytjanda og dreifingaraðila.

Við framkvæmd þessarar reglugerðar skal innflytjandi eða dreifingaraðili hafa sömu skyldur og framleiðandi skv. 6. gr. þegar innflytjandi eða dreifingaraðili setur vöru á markað undir eigin nafni eða eigin vörumerki eða gerir breytingar á vöru, sem þegar hefur verið sett á markað, þannig að breytingin kann að hafa áhrif á samræmi hennar við kröfur reglugerðarinnar.

11. gr. Skyldur aðila sem flytja inn til einkanota.

  1. Ef framleiðandi ábyrgist ekki að varan sé í samræmi við kröfur þessarar reglugerðar skal aðili, sem flytur inn til einkanota, tryggja, áður en hann tekur vöruna í notkun, að varan hafi verið hönnuð og framleidd í samræmi við grunnkröfur um öryggi og skal hann sinna þeim skyldum framleiðanda, eða sjá til þess að þeim sé sinnt, sem settar eru fram í a-e-lið og i-lið 2. mgr. og 5. mgr. 6. gr.
  2. Ef tilskilin tæknigögn eru ekki tiltæk hjá framleiðanda skal aðili, sem flytur inn til einkanota, láta taka þau saman með notkun viðeigandi sérþekkingar.
  3. Aðili, sem flytur inn til einkanota, skal tryggja að á vörunni komi fram nafn og heimilisfang tilkynnta aðilans sem annaðist samræmismat vörunnar.

12. gr. Tilgreining rekstraraðila.

  1. Rekstraraðilar skulu, samkvæmt beiðni, greina Samgöngustofu frá eftirfarandi aðilum:

    1. öllum rekstraraðilum sem hafa afhent þeim vöru,
    2. öllum rekstraraðilum sem þeir hafa afhent vöru.
  2. Rekstraraðilar skulu geta lagt fram upplýsingarnar, sem um getur í 1. mgr., í tíu ár eftir að þeim hefur verið afhent vara og í tíu ár eftir að þeir hafa afhent vöru.
  3. Aðilar sem flytja inn til einkanota skulu, samkvæmt beiðni, greina Samgöngustofu frá því hvaða rekstraraðili afhenti þeim vöruna.
  4. Aðilar sem flytja inn til einkanota skulu geta lagt fram upplýsingarnar, sem um getur í 1. mgr., í tíu ár eftir að þeim hefur verið afhent vara.

III. KAFLI Samræmi vöru við tilskildar kröfur.

13. gr. Samræmi við samhæfða staðla.

Gengið skal út frá því að vörur, sem eru í samræmi við samhæfða staðla eða hluta þeirra, þar sem tilvísanir í þá hafa verið birtar í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, samræmist þeim kröfum sem falla undir þessa staðla eða hluta þeirra í samræmi við grunnkröfur um öryggi.

14. gr. ESB-samræmisyfirlýsing og yfirlýsing í samræmi við III. viðauka.

  1. ESB-samræmisyfirlýsing skal vera yfirlýsing um að sýnt hafi verið fram á að grunnkröfur um öryggi eða þær kröfur sem um getur í b- eða c-lið 4. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar, hafi verið uppfylltar.
  2. ESB-samræmisyfirlýsing skal byggð upp eins og fyrirmyndin, sem sett er fram í IV. viðauka við þessa reglugerð, og innihalda þá þætti sem tilgreindir eru í viðeigandi aðferðareiningum, sem settar eru fram í II. viðauka við ákvörðun nr. 768/2008/EB, sem og í V. viðauka við þessa reglugerð, og skal stöðugt uppfærð. Hún skal vera á íslensku, ensku eða Norðurlandamálum, þó ekki finnsku.
  3. Með því að gera ESB-samræmisyfirlýsingu ábyrgist framleiðandi, aðili sem flytur inn til einkanota, eða einstaklingurinn sem breytir vélinni, sem um getur í b- og c-lið 4. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar, samræmi vörunnar.
  4. ESB-samræmisyfirlýsingin, sem um getur í 3. mgr., skal fylgja eftirfarandi vörum þegar þær eru boðnar fram á markaði eða teknar í notkun:

    1. förum,
    2. íhlutum, þegar þeir eru settir sér á markað,
    3. knúningsvélum.
  5. Yfirlýsing framleiðandans eða innflytjandans, sem sett er fram í III. viðauka fyrir hálfsmíðað far, skal innihalda þættina sem tilgreindir eru í þeim viðauka og skal fylgja hálfsmíðuðu fari. Hún skal vera á íslensku, ensku eða Norðurlandamálum, þó ekki finnsku.

15. gr. Meginreglur um CE-merkið.

Um CE-merkið gildir reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 765/2008, frá 9. júlí 2008, um kröfur varðandi faggildingu og markaðseftirlit í tengslum við markaðssetningu á vörum og um niðurfellingu reglugerðar (EBE) nr. 339/93, sem innleidd var hér á landi með reglugerð nr. 566/2013, um markaðseftirlit, faggildingu o.fl.

16. gr. Vörur sem merkja á með CE-merkinu.

  1. Eftirfarandi vörur skulu merktar með CE-merkinu þegar þær eru boðnar fram á markaði eða teknar í notkun:

    1. för,
    2. íhlutir,
    3. knúningsvélar.
  2. Ganga skal út frá því að vörurnar, sem um getur í 1. mgr., og bera CE-merkið séu í samræmi við þessa reglugerð.

17. gr. CE-merkið fest á vöru.

  1. Festa skal CE-merkið á vörurnar, sem um getur í 1. mgr. 16. gr., þannig að það sé sýnilegt, læsilegt og óafmáanlegt. Ef um er að ræða íhluti þar sem þessu verður ekki við komið eða það er ástæðulaust vegna stærðar eða eðlis vörunnar skal festa merkið á umbúðir og fylgiskjöl vörunnar. Ef um er að ræða far skal festa CE-merkið á auðkennisplötu framleiðanda farsins, aðskilið frá kenninúmeri farsins. Ef um er að ræða knúningsvél skal festa CE-merkið á vélina.
  2. CE-merkið skal fest á áður en varan er sett á markað eða tekin í notkun. Á eftir CE-merkinu og kenninúmerinu, sem um getur í 3. mgr., getur fylgt táknmynd eða annað merki sem gefur til kynna sérstaka áhættu eða notkun.
  3. Á eftir CE-merkinu skal setja kenninúmer tilkynntu stofunnar, ef hún tekur þátt í eftirlitsþætti framleiðslunnar eða matinu sem fram fer að lokinni smíði.
  4. Tilkynnta stofan skal sjálf sjá um að festa kenninúmer sitt á, að öðrum kosti skal framleiðandinn eða viðurkenndur fulltrúi hans eða einstaklingurinn, sem um getur í 2., 3. eða 4. mgr. 18. gr., sjá um það samkvæmt fyrirmælum stofunnar.

IV. KAFLI Samræmismat.

18. gr. Gildandi samræmismatsaðferðir.

  1. Áður en framleiðandi setur vöru á markað, sem um getur í 1. mgr. 2. gr., skal hann beita aðferðunum sem settar eru fram í aðferðareiningunum, sem um getur í viðauka IA við reglugerð þessa.
  2. Áður en aðili sem flytur inn til einkanota tekur í notkun vöru, sem um getur í 1. mgr. 2. gr., skal hann beita aðferðinni sem um getur í 20. gr. ef framleiðandi hefur ekki framkvæmt samræmismat fyrir viðkomandi vöru.
  3. Allir þeir sem setja á markað eða taka í notkun knúningsvél eða far, sem búið er að lagfæra eða gera umtalsverða breytingu á, eða þeir sem breyta fyrirhugaðri notkun fars, sem fellur ekki undir þessa reglugerð, með þeim hætti að farið mun falla undir gildissvið hennar, skulu beita aðferðinni sem um getur í 20. gr., áður en vara er sett á markað eða tekin í notkun.
  4. Allir þeir sem setja á markað far, sem þeir hafa smíðað til eigin nota fyrir lok fimm ára tímabilsins, sem um getur í vii-lið a-liðar 2. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar, skulu beita aðferðinni, sem um getur í 20. gr., áður en varan er sett á markað.

19. gr. Kröfur til hönnunar og smíði, losunar með útblæstri, hávaðamengunar og viðbótarkröfur.

  1. Um hönnun og smíði skemmtibáta gilda kröfur 1. gr. viðauka IA við reglugerð þessa.
  2. Um losun með útblæstri gilda kröfur 2. gr. viðauka IA við reglugerð þessa.
  3. Um hávaðamengun gilda kröfur 3. gr. viðauka IA við reglugerð þessa.
  4. Um viðbótarkröfur fer samkvæmt 4. gr. viðauka IA við reglugerð þessa.

20. gr. Mat sem fer fram að lokinni smíði.

Matið sem fer fram að lokinni smíði, sem um getur í 2., 3. og 4. mgr. 18. gr., skal framkvæmt eins og mælt er fyrir um í V. viðauka.

21. gr. Tæknigögn.

  1. Tæknigögnin, sem um getur í 2. mgr. 6. gr., skulu innihalda öll viðeigandi gögn og upplýsingar um þær aðferðir sem framleiðandinn notar til að tryggja að varan uppfylli grunnkröfur um öryggi. Einkum skulu þar vera skjölin sem talin eru upp í IX. viðauka.
  2. Tæknigögnin skulu tryggja að auðvelt sé að skilja hönnun, smíði, virkni og mat á samræmi vörunnar við tilskildar kröfur.

V. KAFLI Um tilkynnta samræmismatsaðila.

22. gr. Tilkynntur aðili o.fl.

  1. Um tilkynningu samræmismatsaðila og eftirlit með þeim fer eftir lögum nr. 24/2006, um faggildingu o.fl., með síðari breytingum.
  2. Skilyrði fyrir tilkynningu er að samræmismatsaðili uppfylli þau skilyrði sem mælt er fyrir um í X. viðauka við reglugerð þessa.
  3. Gengið skal út frá því að samræmismatsaðili, sem sýnir fram á samræmi við viðmiðanir sem mælt er fyrir um í viðeigandi samhæfðum stöðlum eða hluta þeirra og tilvísun í þá hefur verið birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins, uppfylli þær kröfur sem gerðar eru í X. viðauka við reglugerð þessa, að svo miklu leyti sem gildandi samhæfðir staðlar ná yfir þær kröfur.

23. gr. Dótturfélög og undirverktakar tilkynntra aðila.

  1. Tilkynntur aðili sem, með heimild viðskiptavinar, felur undirverktaka verkefni í tengslum við samræmismat eða leitar til dótturfélags, skal tryggja að undirverktakinn eða dótturfélagið uppfylli þær kröfur sem mælt er fyrir um í X. viðauka við reglugerð þessa.
  2. Tilkynntur aðili ber fulla ábyrgð á þeim verkefnum sem undirverktaki eða dótturfélagið framkvæma, án tillits til staðsetningar.
  3. Um eftirlit með dótturfélögum og undirverktökum tilkynntra aðila fer eftir lögum nr. 24/2006, um faggildingu o.fl., með síðari breytingum.

24. gr. Skyldur tilkynntra aðila.

  1. Tilkynntur aðili skal framkvæma samræmismat í samræmi við samræmismatsaðferðina sem mælt er fyrir um í viðauka IA.
  2. Tilkynntur aðili skal við samræmismatið gæta þess að leggja ekki ónauðsynlegar byrðar á rekstraraðila og aðila sem flytja inn til einkanota. Hann skal taka tilhlýðilegt tillit til stærðar rekstraraðila, starfsumhverfis hans og skipulags, hversu flókin framleiðslutækni er notuð og hvort um fjölda- eða raðframleiðslu er að ræða. Þó skal þess gætt að ekki sé dregið úr nákvæmni og umfangi þeirrar verndar sem nauðsynleg er til að varan uppfylli kröfur þessarar reglugerðar.
  3. Tilkynntur aðili, sem telur að framleiðandi hafi ekki uppfyllt grunnkröfur um öryggi eða samsvarandi samhæfðan staðal, skal krefjast þess að framleiðandi grípi til viðeigandi ráðstafana til úrbóta. Tilkynntur aðili skal ekki gefa út ESB-gerðarprófunarvottorð fyrr en framleiðandi hefur uppfyllt þær kröfur.
  4. Ef tilkynntur aðili kemst að þeirri niðurstöðu, við vöktun á því að samræmis sé gætt í kjölfar útgáfu á vottorði, að vara uppfylli ekki lengur ákvæði skal hún krefjast þess að framleiðandi geri viðeigandi ráðstafanir til úrbóta og skal fella vottorðið tímabundið úr gildi eða afturkalla það ef nauðsyn krefur.
  5. Ef ekki eru gerðar ráðstafanir til úrbóta eða þær hafa ekki tilskilin áhrif skal tilkynnta stofan takmarka vottorðin, fella þau tímabundið úr gildi eða afturkalla þau, eins og við á.

25. gr. Upplýsingaskylda tilkynntra aðila.

  1. Tilkynntur aðili skal upplýsa Einkaleyfastofu um eftirfarandi:

    1. tilvik þar sem ESB-gerðarprófunarvottorði er synjað,
    2. aðstæður sem hafa áhrif á gildissvið tilkynningar og skilyrði fyrir henni,
    3. beiðni sem þeim berst frá stjórnvöldum um upplýsingar vegna samræmismatsstarfsemi,
    4. ef óskað er, samræmismatsstarfsemi sem hefur farið fram innan gildissviðs tilkynningar aðila og alla aðra starfsemi sem hefur farið fram, þ.m.t. starfsemi sem nær yfir landamæri og undirverktakastarfsemi.
  2. Tilkynntur aðili skal veita öðrum tilkynntum aðilum skv. þessari reglugerð sem annast sambærilega samræmismatsstarfsemi á sömu vörum, viðeigandi upplýsingar um mál er varða neikvæðar og, sé þess óskað, jákvæðar niðurstöður samræmismats.

VI. KAFLI Lokaákvæði og gildistaka.

26. gr. Framkvæmd þessarar reglugerðar.

  1. Samgöngustofa annast framkvæmd og eftirlit þessarar reglugerðar að undanskildum V. kafla. Faggildingarsvið Einkaleyfastofu annast framkvæmd og eftirlit V. kafla. Um skipulag og framkvæmd eftirlits með vörum sem falla undir reglugerð þessa fer skv. 3. mgr. 15. gr. og 16.-29. gr. reglugerðar (EB) nr. 765/2008, sbr. reglugerð nr. 566/2013.
  2. Um málsmeðferð, ákvarðanir og réttarúrræði Samgöngustofu fer skv. lögum nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, með síðari breytingum og lögum nr. 119/2012, um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, með síðari breytingum.

27. gr. Hættulegar vörur.

  1. Ef Samgöngustofa hefur ástæðu til að ætla að vara, sem fellur undir þessa reglugerð, skapi áhættu fyrir heilbrigði eða öryggi fólks eða fyrir eignir eða umhverfið, skal stofnunin framkvæma mat á viðkomandi vöru sem tekur til allra krafna sem mælt er fyrir um í þessari reglugerð. Viðkomandi rekstraraðilar eða aðilinn sem flytur inn til einkanota skulu hafa samvinnu við Samgöngustofu eins og nauðsyn krefur.
  2. Um matið og aðgerðir í kjölfar þess og málsmeðferð fer skv. ákvæðum 44. gr. tilskipunarinnar.

28. gr. Formlegar kröfur ekki uppfylltar.

  1. Án þess að hafa áhrif á 23. gr. skal Samgöngustofa, komist hún að einni af eftirfarandi niðurstöðum, krefjast þess að viðkomandi rekstraraðili eða aðili sem flytur inn til einkanota ráði bót á eftirfarandi ósamræmi við kröfur:

    1. að CE-merkið hafi verið fest á með þeim hætti að það brjóti gegn 15., 16. eða 17. gr.,
    2. að CE-merkið, sem um getur í 15. gr., hafi ekki verið fest á,
    3. að ESB-samræmisyfirlýsingin eða yfirlýsingin, sem um getur í III. viðauka, hafi ekki verið útbúin með réttum hætti,
    4. að ESB-samræmisyfirlýsingin eða yfirlýsingin, sem um getur í III. viðauka, hafi ekki verið útbúin með réttum hætti,
    5. að tæknigögnin séu annaðhvort ekki tiltæk eða ekki tæmandi,
    6. að upplýsingarnar, sem um getur í 6. mgr. 6. gr. eða 3. mgr. 8. gr., vanti, séu rangar eða ófullnægjandi,
    7. að aðrar kröfur, sem kveðið er á um í 6. eða 8. gr., séu ekki uppfylltar.
  2. Sé enn um að ræða tilvik, sem um getur í 1. mgr., þar sem kröfur eru ekki uppfylltar skal gera allar viðeigandi ráðstafanir til að takmarka eða banna að varan sé boðin fram á markaði eða tryggja að hún sé afturkölluð eða tekin af markaði, eða ef um er að ræða vöru sem er flutt inn af aðila, sem flytur inn til einkanota, að notkun hennar sé bönnuð eða takmörkuð.

29. gr. Rökstuðningur ákvarðana.

Allar ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli þessarar reglugerðar og hafa í för með sér takmarkanir á markaðssetningu eða heimild til að nota skemmtibáta og aðrar vörur sem falla undir gildissvið reglugerðar þessarar samkvæmt 1. mgr. 2. gr., skulu rökstuddar. Hlutaðeigandi aðila skal tilkynnt án tafar um slíka ákvörðun og honum um leið kynnt þau lagaúrræði sem hann getur nýtt sér og um þann frest sem hann hefur til þess.

30. gr. Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum skv. 29. gr. laga nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, með síðari breytingum.

31. gr. Innleiðing.

Með reglugerð þessari eru innleidd ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/53/ESB frá 20. nóvember 2013 um skemmtibáta og einmenningsför og um niðurfellingu á tilskipun 94/25/EB.

Með reglugerð þessari öðlast gildi framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/1 frá 3. janúar 2017 um verklagsreglur um auðkenningu fara samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/53/ESB um skemmtibáta og einmenningsför á sjó samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 58/2017 frá 17. mars 2017 um breytingu á II. viðauka (tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun). Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 31 frá 18. maí 2017, bls. 105-109.

32. gr. Gildistaka og lagastoð.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 3. og 4. mgr. 1. gr. laga nr. 47/2003 um eftirlit með skipum, öðlast þegar gildi.

Við gildistöku reglugerðarinnar fellur úr gildi eldri reglugerð um skemmtibáta nr. 168/1997, ásamt síðari breytingum, sbr. reglugerðir nr. 708/2000 og nr. 1045/2005.

Ákvæði til bráðabirgða. I.

Ekki skal hindra að vörur sem falla undir tilskipun 94/25/EB og eru í samræmi við þá tilskipun og voru settar á markað eða teknar í notkun fyrir 18. janúar 2017, séu boðnar fram á markaði eða teknar í notkun.

Ekki skal hindra að boðnar verði fram á markaði eða teknar verði í notkun utanborðsknúningsvélar með neistakveikju, sem hafa afl sem nemur 15 kW eða minna, sem eru í samræmi við viðmiðunarmörk I. áfanga fyrir losun með útblæstri, sem mælt er fyrir um í lið 2.1 í B-hluta I. viðauka við reglugerð þessa, og sem voru framleiddar af litlum og meðalstórum fyrirtækjum, eins og skilgreint er í tilmælum framkvæmdastjórnarinnar 2003/361/EB, og settar á markað fyrir 18. janúar 2020.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.