Fara beint í efnið

Prentað þann 15. jan. 2025

Eldri útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 27. jan. 2016 – 29. maí 2018 Sjá núgildandi

124/2015

Reglugerð um brennisteinsinnihald í tilteknu fljótandi eldsneyti.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að draga úr losun brennisteins í andrúmsloft vegna brennslu tiltekins eldsneytis og draga þannig úr skaðlegum áhrifum slíkrar losunar á heilsu fólks og umhverfi.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti, skipadíselolíu, skipagasolíu, svartolíu og gasolíu hér á landi og í mengunarlögsögu Íslands.

Ákvæði um brennisteinsinnihald í fljótandi eldsneyti gilda þó ekki um eldsneyti ætlað til notkunar við rannsóknir og þróun, olíuvinnslu eða olíuhreinsun, eða til nota í björgunar-, varð- eða herskipum eða hvers konar skipum sem ráða yfir viðurkenndu hreinsikerfi á útblæstri.

3. gr. Skilgreiningar.

  1. Aðferð til að draga úr losun: Útbúnaður, efni, tæki eða búnaður til ísetningar í skip, eða önnur aðferð, annars konar eldsneyti eða aðferð til að fara að ákvæðum, sem notuð eru sem annar valkostur í stað skipaeldsneytis með lágt brennisteinsinnihald til að uppfylla kröfurnar sem settar eru fram í þessari reglugerð, sem er sannprófanleg, mælanleg og framkvæmanleg.
  2. ASTM-aðferð: Aðferð sem American Society for Testing and Materials mælti fyrir um í útgáfu sinni frá 1976 um skilgreiningar og forskriftir staðla fyrir jarðolíuvörur og smurefni, með síðari breytingum.
  3. Brennslustöð: Sérhver tæknibúnaður þar sem eldsneyti er brennt í því skyni að nýta þann varma sem myndast.
  4. Farþegaskip: Skip sem flytja fleiri en 12 farþega og farþegar teljast allir aðrir en skipstjóri og skipverjar eða þeir aðrir sem eru ráðnir til tiltekinna starfa um borð í skipi í þágu þess og börn undir eins árs aldri.
  5. Gasolía (gasoil): Allt fljótandi eldsneyti úr jarðolíu, að undanskildu skipaeldsneyti, sem eimast minna en 65% miðað við rúmmál (þar með talið það sem tapast) við 250°C og sem eimast að minnsta kosti 85% miðað við rúmmál (þar með talið það sem tapast) við 350°C með ASTM D86 aðferðinni.
  6. Herskip: Skip sem telst til hers ríkis, ber hin ytri merki til að auðkenna slík skip af þjóðerni þess, er undir stjórn yfirmanns, sem stjórn ríkisins hefur formlega skipað og nafngreindur er í viðeigandi herþjónustuskrá eða á jafngildan hátt, og er með áhöfn undir venjulegum heraga.
  7. Markaðssetning: Afhending skipaeldsneytis gegn greiðslu eða án endurgjalds, til brennslu um borð í skipum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Flutningur skipaeldsneytis í birgðaskipum telst ekki markaðssetning.
  8. MARPOL-samningurinn: Alþjóðasamningur frá 1973, um varnir gegn mengun sjávar frá skipum, ásamt bókunum frá og með 1978.
  9. VI. viðauki við MARPOL-samninginn: Viðauki sem nefndur er "Reglur um varnir gegn loftmengun frá skipum", sem bætt var við MARPOL-samninginn með bókun 1997, með síðari breytingum.
  10. Skipadísilolía (marine diesel oil): Skipaeldsneyti sem gefið er upp fyrir DMB flokk í töflu 1 í ISO staðli 8217 með síðustu uppfærslu að undanskilinni tilvísun í brennisteinsinnihald.
  11. Skipaeldsneyti (marine fuel): Allt fljótandi eldsneyti úr jarðolíu sem er notað eða er ætlað til notkunar í skipum og bátum, þ.m.t. eldsneyti sem skilgreint er í ISO 8217. Skipaeldsneyti tekur til allra tegunda fljótandi eldsneytis úr jarðolíu sem notaðar eru á skipum í siglingum á skipgengum vatnaleiðum eða á skemmtibátum, þegar þessi skip eru á hafi úti.
  12. Skipagasolía (marine gasoil): Skipaeldsneyti sem gefið er upp fyrir DMX, DMA og DMZ flokka í töflu I í ISO staðli 8217 að undanskilinni tilvísun í brennisteinsinnihald.
  13. Skip við bryggju: Skip sem eru tryggilega fest með landfestum eða liggja við akkeri í höfn á Evrópska efnahagssvæðinu meðan þau eru fermd, affermd eða hafa stutta viðkomu (hotelling), þ.m.t. tíminn þegar ekki er verið að vinna við farm.
  14. SOx-svæði: Eystrasalt og Norðursjór, þar sem gilda takmarkanir á losun brennisteins skv. VI. viðauka MARPOL-samningsins.
  15. Svartolía (heavy fuel oil): Allt fljótandi eldsneyti úr jarðolíu, að undanskildu skipaeldsneyti og annað en gasolía, sem á grundvelli eimingarmarka, fellur undir flokk svartolíu sem ætluð er til nota sem eldsneyti og sem eimast minna en 65% miðað við rúmmál (þar með talið það sem tapast) við 250°C með ASTM D86 aðferðinni. Ef ekki er unnt að ákvarða eiminguna með ASTM D86 aðferðinni flokkast jarðolíuvaran engu að síður sem svartolía.

4. gr. Brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti.

Brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti, þ.m.t. svartolíu sem er notuð eða er ætluð til nota í skipum eða bátum, sem notað er hér á landi og í mengunarlögsögu Íslands skal vera að hámarki 3,5% (m/m), að undanskildu eldsneyti til skipa sem nota viðurkenndar aðferðir til að draga úr losun í lokuðu kerfi. Frá og með 1. janúar 2020 má brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti sem notað er hér á landi og í mengunarlögsögu Íslands ekki vera meira 0,5% (m/m).

Brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti skipa sem fara um SOx-svæði, skal ekki fara yfir 0,1% (m/m).

Brennisteinsinnhald í skipaeldsneyti, sem notað er í farþegaskipum sem sigla áætlunarferðir til eða frá höfn á Evrópska efnahagssvæðinu, skal til og með 1. janúar 2020 ekki vera meira en 1,5% (m/m).

Ákvæði þessarar greinar gilda um öll skip án tillits til þess undir hvaða fána þau sigla, þar með talið skip sem hefja ferð sína utan Evrópska efnahagssvæðisins.

5. gr. Brennisteinsinnihald í skipadíselolíu.

Brennisteinsinnihald skipadíselolíu skal vera að hámarki 1,5% (m/m).

6. gr. Brennisteinsinnihald í skipagasolíu.

Brennisteinsinnihald skipagasolíu skal vera að hámarki 0,1% (m/m).

7. gr. Brennisteinsinnihald í svartolíu.

Brennisteinsinnhald í svartolíu skal vera að hámarki 1,0% (m/m).

Í brennslustöðvum á landi má ekki nota svartolíu með meiri brennisteini en 1% á þeim á svæðum þar sem hætta er á að loftgæði með tilliti til brennisteins fari yfir umhverfismörk fyrir brennisteinsdíoxíð, sbr. reglugerð um brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnisdíoxíð og köfnunarefnisoxíð, bensen, kolsýring, svifryk og blý í andrúmsloftinu og upplýsingar til almennings, nema annað sé sérstaklega tilgreint í starfsleyfi viðkomandi brennslustöðvar með viðeigandi mótvægisaðgerðum.

Ákvæði 2. mgr. gilda ekki um svartolíu sem notuð er:

í brennslustöðvum sem uppfylla viðmiðunarmörk fyrir losun brennisteinsdíoxíðs fyrir slík ver sem eru sett í starfsleyfi, ef þau viðmiðunarmörk fyrir losun eiga ekki við samkvæmt ákvæði starfsleyfis, þar sem mánaðarleg meðaltalslosun brennisteinsdíoxíðs er ekki meira en 1.700 mg/Nm³ og súrefnisinnihaldið í útblæstrinum er 3% miðað við rúmmál í þurru ástandi,
í brennslustöðvum þar sem mánaðarleg meðaltalslosun brennisteinsdíoxíðs er ekki meira en 1.700 mg/Nm³ og súrefnisinnihaldið í útblæstrinum er 3% miðað við rúmmál í þurru ástandi,
til brennslu í hreinsunarstöðvum, þar sem mánaðarleg meðaltalslosun brennisteinsdíoxíðs í öllum brennslustöðvum hreinsunarstöðvarinnar er ekki meiri en 1.700 mg/Nm³ og súrefnisinnihaldið í útblæstrinum er 3% miðað við rúmmál í þurru ástandi, óháð því hvaða tegund eða samsetning eldsneytis er notuð, en að undanskildum verum sem falla undir a-lið, gashverflum og gashreyflum.

8. gr. Brennisteininnihald í gasolíu.

Brennisteinsinnihald gasolíu skal vera að hámarki 0,1% (m/m).

9. gr. Skyldur skipstjóra.

Skipstjóri ber ábyrgð á að dagbók skips sé rétt útfyllt, þar sem fram kemur hvers konar eldsneyti er notað og hve langan tíma tekur að skipta um eldsneyti ef þurfa þykir.

Skipstjóri skal tilkynna Umhverfisstofnun ef ekki er fáanlegt skipaeldsneyti sem er í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.

10. gr. Skipaeldsneytisbirgjar.

Skipaeldsneytisbirgjar skulu skrá brennisteinsinnihald í öllu skipaeldsneyti, sem þeir markaðssetja, á afhendingarseðil sem innsiglað sýni fylgir og kaupandi hefur skrifað undir í samræmi við ákvæði MARPOL-samningsins. Afhendingarseðillinn skal vera í samæmi við ákvæði MARPOL-samningsins. Fyrir 1. mars ár hvert skulu skipaeldsneytisbirgjar senda Umhverfisstofnun niðurstöður mælinga viðurkenndra rannsóknastofa um brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti, sbr. 1. ml.

Umhverfisstofnun skal, í samræmi við viðeigandi ákvæði MARPOL-samningsins, halda skrá yfir skipaeldsneytisbirgja á landinu, og birta hana á heimasíðu sinni.

11. gr. Skip sem liggja við bryggju.

Til að stuðla að bættum loftgæðum og draga úr mengun skulu skip sem liggja við bryggju nota rafmagn úr landi í stað skipaeldsneytis eftir því sem kostur er.

Sé ekki möguleiki á að nota rafmagn úr landi skulu skip sem liggja við bryggju í höfnum landsins ekki nota skipaeldsneyti með meira brennisteinsinnihald en 0,1% (m/m). Gera skal ráð fyrir nægum tíma fyrir áhöfnina til að ljúka öllum nauðsynlegum aðgerðum við að skipta um eldsneyti eins fljótt og unnt er eftir að lagst er að bryggju og eins nálægt brottför og hægt er. Tíminn sem tekur að skipta um eldsneyti skal skráður í dagbók skipsins.

Ákvæði 2. mgr. gilda ekki:

  1. ef skip eiga, samkvæmt birtri tímaáætlun, að liggja skemur en tvo tíma við bryggju,
  2. um skip þar sem slökkt er á öllum vélum og rafmagn úr landi er notað meðan þau eru við bryggju í höfnum.

12. gr. Viðurkenndar aðferðir til að draga úr losun.

Öllum skipum er heimilt að nota viðurkenndar aðferðir til að draga úr losun, án tillits til þess undir hvaða fána skipin sigla, í höfnum landsins, landhelgi, efnahagslögsögu eða á mengunareftirlitssvæðum sem annar valkostur í stað þess að nota skipaeldsneyti sem uppfyllir kröfurnar í 4.-8. gr.

Skip, sem nota þær aðferðir til að draga úr losun sem um getur í 1. mgr., skulu draga að minnsta kosti jafnmikið úr losun brennisteinsdíoxíðs og næðist ef notað væri skipaeldsneyti sem uppfyllir kröfur 4.-8. gr. reglugerðarinnar. Jafngild losunargildi skulu ákvörðuð í samræmi I. viðauka.

Þær aðferðir til að draga úr losun sem um getur í 1. mgr. skulu uppfylla viðmiðanir sem tilgreindar eru í II. viðauka.

13. gr. Eftirlit.

Umhverfisstofnun hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar. Um eftirlit fer samkvæmt XI. kafla efnalaga nr. 61/2013 auk ákvæða 2.-4. mgr. þessarar greinar. Samgöngustofa hefur þó eftirlit með búnaði skipa vegna mengunarvarna í samræmi við ákvæði 3. ml. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda.

Til að hafa eftirlit með brennisteinsinnihaldi skipaeldsneytis er Umhverfisstofnun eða aðilum í umboði hennar, heimilt að taka sýni úr skipum, tönkum og olíubirgðastöðvum, til nánari greiningar eða fá upplýsingar frá rannsóknastofu sem skipaeldsneytisbirgir vísar til. Einnig er Umhverfisstofnun eða aðilum í umboði hennar, heimill aðgangur að olíudagbókum skipa og kvittunum frá söluaðila olíu þar sem fram koma upplýsingar um brennisteinsinnihald skipaeldsneytis.

Uppfylli skip ekki ákvæði um eldsneyti, sbr. reglugerð þessa, er Umhverfisstofnun heimilt að krefja skipstjóra um að:

  1. lögð sé fram skýrsla fyrir skipið varðandi þær aðgerðir sem gripið var til í því skyni að hlíta reglum og
  2. lögð sé fram sönnun þess að reynt hafi verið að kaupa eldsneyti fyrir skipið, í samræmi við kröfur reglugerðarinnar, og í samræmi við sjóáætlun skipsins enda hafi eldsneytið ekki verið tiltækt þar sem áætlað var, að reynt hafi verið að útvega slíkt eldsneyti og að þrátt fyrir að leitast hafi verið við að fá eldsneyti, sem uppfyllir kröfur, þá hafi slíkt eldsneyti ekki verið tiltækt til kaups.

Þess skal ekki krafist að skipið víki frá fyrirhugaðri siglingu sinni eða að siglingunni sé frestað að óþörfu.

14. gr. Þvingunarúrræði og viðurlög.

Um brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar fer samkvæmt XIII. og XIV. kafla efnalaga nr. 61/2013 og V. kafla laga nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda.

15. gr. Innleiðing tiltekinna EES-gerða.

Reglugerðin er sett til innleiðingar á eftirfarandi EES gerðum:

  1. Tilskipun 93/12/EBE um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um brennisteinsmagn í tilteknu fljótandi eldsneyti,
  2. Tilskipun 99/32/EB um að draga úr magni brennisteins í tilteknum tegundum fljótandi eldsneytis og breytingu á tilskipun 93/12/EB,
  3. Tilskipun 2005/33/EB um breytingu á tilskipun 99/32/EB um að draga úr magni brennisteins í tilteknum tegundum fljótandi eldsneytis.
  4. Tilskipun 2012/33/ESB um breytingu á tilskipun ráðsins 99/32/EB um að draga úr magni brennisteins í tilteknum tegundum fljótandi eldsneytis.

16. gr. Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 1., 6., 11. og 17. tölul. 11. gr. efnalaga nr. 61/2013 og v. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004. Reglugerðin er sett að höfðu samráði við Samtök atvinnulífsins, sbr. 2. mgr. 11. gr. efnalaga. Þá er reglugerðin sett að höfðu samráði við innanríkisráðherra vegna hlutverks Samgöngustofu um eftirlit með búnaði skipa vegna mengunarvarna í samræmi við ákvæði 3. ml. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda.

Reglugerðin öðlast þegar gildi. Reglugerð nr. 560/2007 um fljótandi eldsneyti heldur gildi sínu að svo miklu leyti sem hún samrýmist ákvæðum reglugerðar þessarar.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.