Prentað þann 4. jan. 2025
37/1989
Reglugerð um greiðslur samkvæmt 38. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda
1. gr.
Þeir menn, sem njóta annarra tekna en launatekna og vilja komast hjá greiðslu álags á tekjuskatt og útsvar af þessum tekjum, sbr. 121. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, skulu greiða fjárhæð sem ætla má að nægi til lúkningar væntanlegri álagningu tekjuskatts og útsvars á þessar tekjur. Greiðsla þessi skal innt af hendi eigi síðar en 31. janúar næstan á eftir staðgreiðsluári. Greiðslan skal bætast við staðgreiðslu þá sem maðurinn innti af hendi eða innt hefur verið af hendi fyrir hann, á staðgreiðsluári og færast á staðgreiðsluskrá áður en greiðslustaða hans er ákvörðuð skv. 34. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda með síðari breytingum.
2. gr.
Með greiðslu samkvæmt 1. gr. skal fylgja sérstök skilagrein þar sem fram kemur m.a. nafn og kennitala þess aðila sem greitt er fyrir ásamt upplýsingum um hvers vegna greiðslan er innt af hendi. Skilagreinar er unnt að .fá hjá skattstjórum og innheimtumönnum staðgreiðslu.
3. gr.
Maður skal skila greiðslu skv. reglugerð þessari ásamt skilagrein í því umdæmi þar sem hann á lögheimili. Skil skal gera til gjaldheimtna þar sem þær eru starfandi en annars staðar til sýslumanns.
Eftirtaldir aðilar eru innheimtumenn staðgreiðslu og taka við staðgreiðslufé og skilagreinum ef þær eru ekki inntar af hendi í bönkum, sparisjóðum eða pósthúsum með greiðslu inn á gíróreikning:
A. Gjaldheimtan í Reykjavík er innheimtuaðili staðgreiðslu í stjórnsýsluumdæmi Reykjavíkur.
B. Sýslumenn:
Sýslumaðurinn á Akranesi.
Sýslumaðurinn í Borgarnesi.
Sýslumaðurinn í Stykkishólmi.
Sýslumaðurinn í Búðardal.
Sýslumaðurinn á Patreksfirði.
Sýslumaðurinn á Ísafirði.
Sýslumaðurinn í Bolungarvík.
Sýslumaðurinn á Hólmavík.
Sýslumaðurinn á Blönduósi.
Sýslumaðurinn á Sauðárkróki.
Sýslumaðurinn á Siglufirði.
Sýslumaðurinn á Ólafsfirði.
Sýslumaðurinn á Akureyri.
Sýslumaðurinn á Húsavík.
Sýslumaðurinn á Seyðisfirði.
Sýslumaðurinn í Neskaupstað.
Sýslumaðurinn á Eskifirði.
Sýslumaðurinn á Höfn í Hornafirði.
Sýslumaðurinn í Vík í Mýrdal.
Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum.
Sýslumaðurinn á Hvolsvelli.
Sýslumaðurinn á Selfossi.
Sýslumaðurinn í Hafnarfirði.
Sýslumaðurinn í Kópavogi.
Sýslumaðurinn í Keflavík.
Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli.
4. gr.
Greiðsla ásamt skilagrein þarf að hafa borist innheimtumanni sem um getur í 2. mgr. 3. gr. eigi síðar en 31. janúar næstan á eftir staðgreiðsluári. Dagsetning á greiðslukvittun innheimtumanns staðgreiðslu er sönnun fyrir því að skil hafi verið gerð á réttum tíma.
Greiðslur sem berast eftir 31. janúar munu ekki verða teknar sem greiðsla samkvæmt 38. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, og verða því ekki færðar á staðgreiðsluskrá áður en greiðslustaða er ákvörðuð samkvæmt 34. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda með síðari breytingum
5. gr.
Við mismun, sem í ljós kemur á álögðum tekjuskatti manna og staðgreiðslu samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 34. gr. þeirra laga, og stafar af of lágri stað-greiðslu, skal bæta 2,5% álagi. Við mismun, sem rætur á að rekja til of hárrar staðgreiðslu, skal með sama hætti bæta 2,5% álagi.
6. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 41. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum og heimild í 119. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.