Fara beint í efnið

Raflestur bíla við reglubundna skoðun

Raflestur bíla

Með raflestri er átt við rafrænan aflestur upplýsinga úr bíl í gegnum OBD tengi þess (e. On-Board Diagnostics). Er þetta í samræmi við reglugerð um skoðun ökutækja og Evróputilskipun um sama efni.

OBD kerfi er innbyggt greiningarkerfi bíls sem fylgist með og stjórnar eiginleikum hans. Kerfið safnar einnig upplýsingum um ástand kerfa og bilanir í bílnum. Jafnframt skráir það upplýsingar sem tengjast notkun hans, svo sem um notkun eldsneytis og um losun mengandi efna.

Upplýsingar verða lesnar í eftirfarandi tilgangi:

  • Raflestur bilanakóða sem geta valdið athugasemdum við reglubundna skoðun. Ákveðnar bilanir koma fram sem gaumljós í mælaborði en svo er aðrar upplýsingar eingöngu að finna í bilanakóðum vélatölvunnar sem tæknimenn hafa aðgang að. Sumir bilanakóðar geta gefið til kynna bilanir sem gefa til kynna vandamál sem haft geta áhrif á aksturseiginleika eða öryggi, eða kunna að valda aukinni útblástursmengun.

  • Raflestur raungagna um losun og orkunotkun (e. Real World Data on CO2 emissions and fuel or energy consumption, eða RWD). Þessum upplýsingum þarf að skila til Umhverfisstofnunar Evrópu sem nýtir þær til að sannreyna uppgefnar upplýsingar frá framleiðendum bíla.

Raflestur bilanakóða

Raflestur bilanakóða hefst 1. mars 2025 og verður fyrst um sinn safnað upplýsingum um þá kóða sem koma fram. Frá 1. janúar 2026 eru kóðarnir nýttir sem grundvöllur athugasemda sem bæta þarf úr að lokinni skoðun.

Raflestur bilanakóða á við eftirfarandi hóp bíla:

  • Bílar skráðir eftir 29.11.2018.

Upplýsingar eru lesnar um bilanir í eftirfarandi kerfum:

  • Bilanir í hemlalæsivörninni (ABS)

  • Bilanir í rafræna hemlastjórnkerfinu (EBS)

  • Bilanir í rafknúna aflstýribúnaðinum (EPS)

  • Bilanir í stillingu og tengingu aðalljósa og hemlaljósa

  • Bilanir í stjórntölvum vélarinnar

  • Bilanir í öryggisbeltakerfum

  • Bilanir í loftpúðakerfum (Airbag og SRS)

  • Bilanir í sjálfvirku neyðarkallskerfi (eCall)

  • Bilanir í mengunarvarnarkerfum

Raflestur á bilanakóðum er gerður í aðalskoðun, skráningarskoðun, breytingaskoðun og endurskoðunum vegna þeirra.

Raflestur raungagna um losun og orkunotkun

Raflestur raungagna um losun (útblástursmengun) og orkunotkun hefst 1. mars 2025. Við raflestur er verksmiðjunúmer bíls lesið ásamt upplýsingum um akstur og eldsneytisnotkun rafmagnsmótors og/eða brunahreyfils.

Raflestur raungagna á við eftirfarandi hóp bíla:

  • Fólksbílar (M1) annars vegar, og hins vegar sendibílar (N1) sem eru undir 2.510 kg að eiginþyngd.

  • Sem knúnir eru brunahreyfli eingöngu (meðtaldir þeir sem hafa líka rafmótor sem ekki er hægt að hlaða með raftengli) og þeir sem knúnir eru bæði brunahreyfli og rafmótor með hlaðanlegri rafhlöðu (e. plug-in hybrid).

  • Sem hafa fyrstu skráningu eftir 1. janúar 2021 (fyrsti skráningardagur) og eru ekki eldri en 15 ára frá fyrstu skráningu.

  • Undanskildir eru bílar í notkunarflokkunum "Húsbifreið", "Neyðarakstur", "Rallakstur", "Sérbyggð rallbifreið" og "Beltabifreið".

Raflestur á raungögnum um losun og orkunotkun er gerður í skráningarskoðun og aðalskoðun.

Raflestur við skoðun

Raflestur við skoðun er bæði fljótlegur og auðveldur fyrir skoðunarmann.

  • Skoðunarmaður stingur OBD skannanum í samband við tengið og getur þar með lesið af.

OBD tengið er venjulega staðsett undir stýrinu eða við miðjustokk en getur einnig verið að finna í hanskahólfinu. Vinsamlega hafið sem minnst af persónulegum munum í hanskahólfinu ef tengið er þar.

Heimild til söfnunar raungagna

Samkvæmt reglugerð um skoðun ökutækja skulu skoðunarstofur við reglubundna skoðun lesa úr ökutækjum upplýsingar um eldsneytis- og/eða orkunotkun sem fást í raunverulegum akstri (raungögn). Upplýsingarnar, ásamt verksmiðjunúmerum, skulu svo sendar til Samgöngustofu.

Ekki er heimilt að nota þessi gögn, sem safnað er hjá skoðunarstofum, í neinum öðrum tilgangi en að senda þau til Samgöngustofu. Skoðunarstofum er einungis heimilt að geyma verksmiðjunúmer ökutækja ásamt gögnum sem fást í raunverulegum akstri, sem safnað hefur verið í þessum tilgangi, þar til gögnin hafa verið send til Samgöngustofu, en þá skal þeim eytt. Jafnframt skal Samgöngustofa eyða gögnunum þegar þau hafa verið send til Umhverfisstofnunar Evrópu (European Environmental Agency).

Eigandi (umráðandi) ökutækis hefur heimild til að neita skoðunarstofu um lestur gagnanna. Skal hann koma þeirri neitun á framfæri við skoðunarstofuna áður en lestur gagnanna fer fram. Að öðrum kosti telst eigandi (umráðandi) hafa samþykkt ofangreinda vinnslu þeirra.

Taka ber fram að eigandi (umráðandi) hefur ekki heimild til að hafna lestri bilanakóða úr OBD tengi bílsins.

Þjónustuaðili

Samgöngu­stofa