Óstýrilátir farþegar
Óboðleg hegðun flugfarþega er vaxandi vandamál víða um heim, líka á Íslandi. Ýmsar ástæður geta legið að baki, til dæmis andleg veikindi, streita, lyfjanotkun og áfengi.
Flugfélög mega neita farþegum um að fara um borð í flugvél ef talið er að þeir geti valdið vandræðum. Samkvæmt Tokyo-sáttmálanum frá 1963 hefur flugstjóri heimild til að fjarlægja farþega sem ógnar öryggi flugs. Áhöfnin má líka beita nauðsynlegu valdi til að draga úr hættu eða skaða af völdum óstýrilátra farþega. Áhafnir fá sérstaka þjálfun til að takast á við slíkar aðstæður.
Lögreglan gegnir einnig mikilvægu hlutverki. Samkvæmt áfengislögum og lögreglulögum hefur hún heimildir til að grípa inn í þegar hegðun farþega fer úr böndunum.
Samgöngustofa minnir á mikilvægi þess að flug fari friðsamlega fram svo allir komist heilir á áfangastað. Stofnunin fær tilkynningar frá íslenskum flugrekendum um atvik sem tengjast erfiðum farþegum og mun áfram vinna að því með rekstraraðilum flugvalla, flugrekendum og öðrum að því að fækka slíkum tilfellum.
Samgöngustofa hvetur farþega til að sýna ábyrgð og virðingu í flugi svo ferðalagið verði ánægjulegt og öruggt fyrir alla.
Algengar spurningar
Er leyfilegt að drekka áfengi í flugstöðvum eða í flugi?
Já, það er leyfilegt að neyta áfengis í flugstöðvum, að því tilskildu að einstaklingur hafi náð lögaldri til áfengisneyslu. Í flugvélum má aðeins drekka áfengi sem keypt er af áhöfn.
Mega einstaklingar vera ölvaðir á flugvöllum eða í flugi?
Þrátt fyrir að ekki sé óleyfilegt að vera ölvaður á flugvelli eða í flugi er mikilvægt að muna að óábyrg hegðun getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir ölvaðan einstakling og aðra farþega.
Eru einhverjar takmarkanir á áfengisneyslu í flugvél?
Flugfélög setja sínar eigin reglur varðandi áfengisneyslu farþega um borð.
Er hægt að banna einstaklingum að fara um borð í flugvél ef þeir eru sýnilega ölvaðir?
Flugfélög áskilja sér rétt til að banna farþegum sem sökum ofneyslu áfengis teljast ógn við flugöryggi um borð í loftfari.
Hvað telst óstýrilát hegðun í flugvél?
Óstýrilát hegðun í flugvél er t.d. móðganir eða hótanir gagnvart áhöfn eða öðrum farþegum. Líkamleg átök og óviðeigandi snerting við áhöfn eða farþega. Að neita að fylgja leiðbeiningum áhafnar, reyna að opna hurðir eða valda alvarlegum truflunum á flugi á annan máta.
Geta flugfélög bannað farþega að ferðast aftur með félaginu í kjölfar óstýrilátrar hegðunar?
Já, flugfélög geta sett farþega á bannlista vegna óstýrilátrar hegðunar eða framkomu. Lengd bannsins er ákvörðuð af flugfélaginu og er að jafnaði háð alvarleika brots og stefnu flugfélags.
Hver eru lagaleg áhrif þess að ráðast á áhafnameðlim eða samfarþega?
Að ráðast á áhafnameðlim eða samfarþega er refsivert samkvæmt hegningarlögum og getur varðað fangelsi og/eða háum sektum.
Get ég verið kærður af öðrum farþega ef ég veld ónæði í flugi?
Já, ef hegðun þín veldur öðrum farþega skaða eða vanlíðan geta þeir haft ástæðu til að leggja fram kæru.
Lagastoð:
Lög um loftferðir nr. 80/2022 https://www.althingi.is/lagas/nuna/2022080.html
107. gr. Upplýsingagjöf og aðstoð við farþega.
108. gr. Valdheimildir flugstjóra.
Lögreglulög 90/1996 https://www.althingi.is/lagas/nuna/1996090.html
16. gr. Heimild til handtöku.
Almenn hegningarlög nr. 19/1940 https://www.althingi.is/lagas/nuna/1940019.html
XVIII. kafli. Brot, sem hafa í för með sér almannahættu.
XIX. kafli. Ýmis brot á hagsmunum almennings.
XXIII. kafli. Manndráp og líkamsmeiðingar.
XXIV. kafli. Brot gegn frjálsræði manna.
Reglugerð um flugvernd nr. 750/2016 https://island.is/reglugerdir/nr/0750-2016
48. gr. Tilkynningar.
Áfengislög nr. 75/1998 https://www.althingi.is/lagas/nuna/1998075.html
VI. kafli. Meðferð og neysla áfengis.
VII. kafli. Leyfissviptingar, refsingar o.fl.
ICAO DOC 8973: 3.2.2, 3.6, 3.8.1-3.8.5, 3.9.1, 3.9.2
Flutningsskilmálar Icelandair fyrir farþega og farangur https://www.icelandair.com/is/adstod/skilmalar-og-skilyrdi/flutningsskilmalar/

Þjónustuaðili
Samgöngustofa