Fara beint í efnið

Tilkynna um ólaunað foreldraorlof

Tilkynning um ólaunað foreldraorlof

Foreldraorlof er ólaunað leyfi til að annast barn. Foreldri á rétt á 4 mánuðum í foreldraorlof fyrir hvert barn, þangað til barn verður 8 ára.

Orlofið er samkomulag á milli foreldris og atvinnurekanda. Það þarf samt sem áður að láta Vinnumálastofnun vita um töku þess og fyrirkomulag.

Skilyrði

  • Foreldri starfar á Íslandi.

  • Foreldri hefur starfað samfellt í 6 mánuði hjá sama atvinnurekanda. Það skiptir ekki máli hvort ráðning sé tímabundin eða ótímabundin.

Réttur til foreldraorlofs

Rétturinn til foreldraorlofs stofnast við:

  • fæðingu,

  • frumættleiðingu barns yngra en 8 ára,

  • töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur.

Að tilkynna um ólaunað foreldraorlof

Einstaklingar sem hyggjast taka foreldraorlof eiga að tilkynna atvinnurekanda um það eins fljótt og hægt er, í síðasta lagi 6 vikum fyrir fyrirhugaðan upphafsdag orlofsins.

Umsóknarferli

  1. Fylla út eyðublaðið sem er efst á síðunni.

  2. Eyðublaðið er undirritað af foreldri og atvinnurekanda.

  3. Atvinnurekandi afhendir foreldri afrit.

  4. Afritið þarf að berast Vinnumálastofnun: Skila gögnum rafrænt.

  5. Atvinnurekandi skráir töku foreldraorlofs. Þá getur foreldri fengið vottorð um fjölda tekinna foreldraorlofsdaga.

Um ólaunað foreldraorlof

Fyrirkomulag orlofs

Foreldri á rétt á að taka foreldraorlof í einu lagi. Með samkomulagi við atvinnurekanda getur foreldri líka hagað orlofinu með öðrum hætti. Til dæmis er hægt að skipta orlofinu niður á fleiri tímabil eða taka foreldraorlof samhliða minnkuðu starfshlutfalli.

Starfsmanni er óheimilt, nema með sérstöku samþykki vinnuveitanda, að taka lengra foreldraorlof en fjóra mánuði á hverju tólf mánaða tímabili.

Eyðublað: Breyta tímabili eða skrá nýtt tímabil í foreldraorlofi

Framlengt vegna frestunar

Heimilt er að framlengja tímann sem taka má foreldraorlof til 9 ára afmælisdags barns. Þetta á við þegar ákvörðun atvinnurekanda um frestun foreldraorlofs verður til þess að foreldri nær ekki að ljúka orlofinu áður en barnið verður 8 ára.

Réttur fellur niður

Réttur til foreldraorlofs fellur niður þegar barnið verður 8 ára.

Réttur verður virkur aftur

Réttur til foreldraorlofs verður virkur aftur ef barn greinist síðar með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun. Sá réttur gildir þangað til barnið verður 18 ára hafi foreldri ekki fullnýtt réttinn fyrir 8 ára aldur barns.

Skyldur atvinnurekanda

Atvinnurekandi skal leitast við að koma til móts við óskir foreldris um fyrirkomulag foreldraorlofs.

Ef atvinnurekandi getur ekki samþykkt óskir foreldris þarf hann að leggja til annað fyrirkomulag í samráði við foreldrið. Upplýsingum um breytt fyrirkomulag og ástæður skal skila umsækjanda skriflega, til dæmis með tölvupósti.

Má ekki fresta orlofi

Atvinnurekandi má ekki fresta foreldraorlofi. Undantekningar eru ef:

  • starf er árstíðabundið,

  • ekki tekst að finna hæfan staðgengil,

  • stór hluti starfsmanna sækir um foreldraorlof á sama tíma,

  • foreldri gegnir lykilhlutverki í æðstu stjórn fyrirtækis eða stofnunar.

Frestað í 6 mánuði - ekki lengur

Atvinnurekandi má ekki fresta foreldraorlofi lengur en í sex mánuði frá þeim tíma sem foreldraorlof átti að hefjast samkvæmt óskum foreldris, nema með samþykki þeirra.

Nærvera foreldris nauðsynleg

Það má ekki fresta foreldraorlofi sem er í beinu framhaldi af fæðingarorlofi eða ef barn veikist svo að nærvera foreldris sé nauðsynleg.

Sein svör

Ef atvinnurekandi hefur fallist á orlofstökuna eða hefur ekki svarað innan viku má hann ekki fresta töku foreldraorlofs.

Starfstengd réttindi í foreldraorlofi

Réttindi sem foreldri hefur áunnið sér, eða er að ávinna sér, þegar foreldraorlof hefst haldast óbreytt til loka orlofsins. Breytingar á réttindum, til dæmis með lagabreytingum eða nýjum kjarasamningum, ná líka til foreldra í foreldraorlofi.

Endurkoma í starf og uppsagnarvernd

Starfsmaður á rétt á að hverfa aftur til starfs síns að loknu foreldraorlofi. Sömu reglur um uppsagnarvernd gilda og í tilviki fæðingarorlofs. Um ákvörðun foreldraorlofs og skilyrði að öðru leyti er vísað til XI. og XII. kafla laga um laga um fæðingar- og foreldraorlof.

Tilkynning um ólaunað foreldraorlof

Þjónustuaðili

Vinnu­mála­stofnun

Tengt efni