Nauðungaruppboð og gjaldþrot
Hvað er gjaldþrot?
Gjaldþrot er þegar andvirði eigna skuldara er ráðstafað til að greiða skuldir hans.
Þegar skuldari er úrskurðaður gjaldþrota missir hann forræði á búi sínu og skiptastjóri ( sem er lögmaður, skipaður af dómara) tekur við því. Skiptastjóri reynir að koma eignum búsins í verð og getur í því skyni selt eignir þess og ráðstafað andvirði þeirra upp í skuldir. Þær skuldir sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti fyrnast á tveimur árum eftir að gjaldþrotaskiptum lýkur, ef fyrningarfrestur er ekki rofinn.
Hvernig get ég krafist gjaldþrots?
Ef að skuldari getur ekki staðið í fullum skilum með lán sín þegar þau falla í gjalddaga, og ekki er líklegt að hann geti það innan skamms tíma, getur hann krafist þess að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Krafa um gjaldþrotaskipti þarf að vera skrifleg og í henni þarf að koma skýrt fram:
Að skuldari krefjist þess að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Fullt nafn skuldara og kennitala hans.
Lögheimili skuldara og dvalarstaður, ef hann er annar en lögheimili.
Stundar skuldari atvinnurekstur? Ef svarið er já þarf að koma fram:
a. Stutt lýsing á því um hvernig rekstur er að ræða.
b. Hvar reksturinn fer fram.
c. Hvort um er að ræða firma sem ber sérstakt heiti og kennitölu.Gagnorð og skýr lýsing á málsatvikum og rökum skuldara, þ.e. hvernig fjárhagur skuldara hafi komist í það horf að hann telur rétt að krefjast gjaldþrotaskipta á búi sínu.
Fram þarf að koma að krafan styðjist við 64. gr. laga nr. 21/1991.
Sundurliðaðar upplýsingar um eignir og skuldir skuldara. Taka þarf fram hve mikill hluti skulda er gjaldfallinn/í vanskilum.
Mánaðarlegar tekjur og útgjöld og hve mikið sé eftir í hverjum mánuði til að greiða af skuldum.
Kröfu um gjaldþrotaskipti þurfa að fylgja gögn sem sýna fram á að skuldari geti ekki staðið í skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra koma á gjalddaga. Slík gögn geta t.d. verið launaseðlar, greiðsluseðlar, skattframtöl skuldara ásamt staðgreiðsluyfirliti fyrir þá mánuði sem liðnir eru eftir skil síðasta skattframtals og endurrit úr gerðabók sýslumanns þar sem fram kemur að árangurslaust fjárnám hafi verið gert hjá skuldara. Óski stjórn félags eftir gjaldþrotaskiptum þarf þar að auki að leggja fram samþykktir félagsins, síðasta ársreikning félagsins og vottorð frá hlutafélagaskrá.
Dómara er ávallt heimilt að krefja skuldara um frekari gögn ef hann telur þörf á þeim.
Krafa um gjaldþrotaskipti skal send héraðsdómi í þeirri þinghá (umdæmi dómstólsins) þar sem skuldari á skráð lögheimili og/eða dvalarstað, ef hann er annar en lögheimili. Krafan ásamt fylgigögnum skal vera í tvíriti og þegar hún er afhent héraðsdómi þarf að greiða gjald í ríkissjóð.
Einnig ber skuldara, eða öðrum sem krefst þess að bú einstaklings verði tekið til gjaldþrotaskipta, að leggja fram skiptatryggingu að fjárhæð kr. 280.000,- áður en mál hans verður tekið fyrir. Óski stjórn félags eftir gjaldþrotaskiptum eða um er að ræða lögaðila sem ætla má að hafi verið í mjög umfangsmiklum atvinnurekstri er viðmið skiptatryggingar kr. 1.000.000,-. Þegar óskað er eftir gjaldþrotaskiptum á búum annarra lögaðila er skiptatryggingin yfirleitt kr. 450.000,-. Dómari getur þó krafist þess að lögð sé fram hærri trygging ef ljóst er í upphafi að mál muni verða umfangsmikið.
Skiptatryggingin er til að standa undir kostnaði við meðferð kröfunnar.
Hvernig gengur gjaldþrotamál fyrir sig?
Ef skuldari óskar sjálfur eftir skiptum á búi sínu
Dómari byrjar á að fara yfir beiðni hans og fylgigögn. Dómari getur óskað eftir frekari gögnum ef hann telur fyrirliggjandi gögn ekki skýra málið nægilega. Ef hann telur aftur á móti skilyrði til gjaldþrotaskipta vera uppfyllt er skuldari boðaður til þinghalds þar sem beiðni hans er tekin til úrskurðar.
Við það þinghald verður skuldari að mæta sjálfur eða lögmaður fyrir hans hönd.
Aðrir geta ekki mætt fyrir skuldara samkvæmt umboði.
Þegar úrskurður er kveðinn upp um gjaldþrotaskipti er skipaður skiptastjóri yfir þrotabúinu.
Skiptastjóri fær afrit af úrskurði og setur sig svo í samband við skuldara.
Skiptastjóri tekur við réttindum og skyldum búsins og boðar skuldara á fund til að fara yfir málefni búsins.
Bú skuldara (félag eða einstaklingur) er tekið til úrskurðar að kröfu annars aðila (skiptabeiðanda sem er aðili sem viðkomandi er í vanskilum við).
Skuldari (fyrirsvarsmaður fyrirtækis eða einstaklingur) fær boðun um að mæta í fyrirtöku þegar mál hans er tekið fyrir. Sama gildir í þessum málum eins og málum þegar skuldari óskar sjálfur eftir gjaldþrotaskiptum, aðilar sem eru boðaðir í fyrirtöku verða að mæta sjálfir eða lögmaður fyrir þeirra hönd.
Við fyrirtöku í gjaldþrotamáli er hægt að óska eftir fresti til að semja um kröfuna eða mótmæla henni ef skuldari telur hana ekki réttmæta.
Ef skuldari mætir ekki, eða ef frestur er ekki samþykktur, þá er krafan tekin til úrskurðar.
Úrskurður er svo að öllu jöfnu kveðinn upp tveimur vikum síðar og skiptastjóri skipaður yfir búinu sem setur sig í samband við skuldara.
Hvað get ég fengið langan frest vegna kröfu um gjaldþrotaskipti?
Í allt að mánuð fyrir fyrirtæki og einstaklinga með rekstur, með samþykki þess sem gerir kröfuna. Í allt að þrjá mánuði fyrir einstakling sem ekki hefur verið með rekstur á sinni kennitölu, með samþykki þess sem gerir kröfuna.
Til þess að fá frestinn þarf að mæta til boðaðs þinghalds. Ef skuldara finnst krafan ekki vera rétt þarf að mótmæla kröfunni við þingfestingu, þ.e.a.s. í fyrsta þinghaldi. Þá er stofnað ágreiningsmál sem er tekið fyrir sérstaklega. Skuldari fær þá að öllu jöfnu tvær vikur til að skila inn greinargerð og málið fer svo í úthlutun til dómara varðandi þann þátt.
Get ég kvartað yfir skiptastjóra þrotabús?
Svarið er já. Það má beina aðfinnslum við störf skiptastjóra til þess dómstóls sem skipaði hann.
Nánari upplýsingar:
Hvað eru aðfarargerðir?
Aðför og aðfarargerðum er beitt til að knýja á til dæmis um greiðslu skuldar.
Aðfarargerðir eru:
Fjárnám til greiðslu skuldar.
Útburðargerð þar sem aðili verður t.d. að flytja úr fasteign.
Innsetningargerð þar sem gerðarþoli verður að veita gerðarbeiðanda umráð lausafjár eða annarra hluta en eign á fasteign, t.d. afhenda honum bíl upp í skuld.
Gerðarbeiðandi er sá sem krefst aðfarar. Til dæmis getur banki sem hefur ekki fengið skuld greidda á réttum tíma krafist aðfarar og er þá gerðarbeiðandi.
Gerðarþoli er sá sem skuldar.
Þjónustuaðili
Dómstólar