Kröfur til fjarkennslu í ökunámi
1. Almennt
Faglegar og formlegar lágmarkskröfur eru samkvæmt eftirfarandi lýsingu.
Innskráning á námskeið skal fara fram með rafrænum skilríkjum eða annarri rafrænni auðkenningu.
2. Fyrirkomulag
Nemandi á að fá nákvæmar upplýsingar um fyrirkomulag kennslunnar, um markmið, skipulag og forsendur hennar sem og um kröfur sem gerðar verða til hans og hann getur gert til skólans.
Skóli skal tryggja að nemandi uppfylli skilyrði til að mega hefja nám.
Efnistök eiga að vera skilgreind í kennsluskrá skólans og í samræmi við námskrá.
3. Tæknilegar kröfur
Framsetning þarf að vera gagnvirk og árangursstýrð með sjálfvirkum hætti.
Gera þarf raunhæfar ráðstafanir sem tryggja að nemandi hafi tileinkað sér efnið eins og hann væri í staðbundnu námi.
Taka skal mið af þörfum þeirra sem eiga erfitt með að lesa í allri framsetningu ritaðs máls, með því að nemi geti valið letur og liti. Einnig skal upplestur vera í boði í formi vefþulu.
Nemandi skal hafa möguleika á því að hafa samband við kennara skólans til að leita ráða eða skýringa á meðan á námi stendur. Upplýsingar um kennara og tengiliðaupplýsingar skulu koma fram á vefsvæði. Kennari skal svara nemendum innan sólarhrings á virkum dögum.
Skólinn skal halda nákvæma skrá yfir allar aðkomur nemanda að náminu, til dæmis hve oft og hvenær nemandi skráir sig inn og hvað hann gerir.
4. Lotur og námsmat
Dreifing námsins á að vera í samræmi við fyrirmæli námskrár.
5. Námsefni
Nemandi skal hafa aðgang að námsefni, sem er í samræmi við skilgreind markmið í námskrá, fyrir tilstuðlan skólans.
Nánari fyrirmæli samkvæmt tegund náms

Þjónustuaðili
Samgöngustofa