Hvaða stofnanir/fyrirtæki verða að tilnefna persónuverndarfulltrúa?
Persónuverndarfulltrúi á að vera til staðar hjá öllum stofnunum, ráðuneytum og sveitarfélögum sem og ákveðnum fyrirtækjum sem vinna með mikið af persónuupplýsingum eða hafa eftirlit með einstaklingum á Netinu, til dæmis til að búa til persónusnið um þá.
Skylt er að tilnefna persónuverndarfulltrúa þegar:
vinnsla fer fram hjá stjórnvaldi eða sveitarfélagi (óháð því hvaða persónuupplýsingar eru unnar).
Meginstarfsemi ábyrgðaraðila eða vinnsluaðila lýtur að vinnsluaðgerðum, sem fela í sér umfangsmikið, reglubundið og kerfisbundið eftirlit með einstaklingum.
Meginstarfsemi ábyrgðaraðila eða vinnsluaðila er umfangsmikil vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga eða persónuupplýsinga er varða sakfellingar í refsimálum og refsiverð brot.
Æskilegt er að fyrirtæki, sem sinna verkefnum sem innt eru af hendi í þágu almannahagsmuna tilnefni persónuverndarfulltrúa þó þau teljist ekki til stjórnvalda sem og fyrirtæki sem eru að meirihluta í eigu ríkisins tilnefni slíka fulltrúa.
Fyrirtækjum sem ekki sinna þessari starfsemi er engu að síður frjálst að tilnefna persónuverndarfulltrúa, en hafa þarf í huga að þá þarf að gera sömu kröfur og gerðar eru þegar skylt er að tilnefna fulltrúann.
Þegar persónuverndarfulltrúi hefur verið tilnefndur hjá viðkomandi fyrirtæki eða stjórnvaldi þarf ábyrgðaraðili að tilkynna um það til Persónuverndar með upplýsingum um nafn hans, netfang og símanúmer.
Hér má finna athugunarlista við tilnefningu persónuverndarfulltrúa.