Hlaðskoðanir SAFA/SACA
Hlaðskoðanir erlendra flugvéla á Íslandi
Eitt verkefna Samgöngustofu er að gera hlaðskoðanir á flugvélum sem skráðar eru erlendis og lenda á Íslandi. Þetta verkefni kallað Hlaðskoðunaráætlun Evrópusambandsins og nær til þriðja ríkis flugfélaga (SAFA) og flugvéla skráðra innan Evrópusambandsins (SACA).
Hlaðskoðanir SAFA/SACA
Áætlunin hefur lagastoð í lögum um loftferðir nr. 80/2022 og er útfærð í reglugerð ESB nr. 965/2012. Þessar reglur heimila annars vegar fyrirvaralausar hlaðskoðanir á flugvélum sem grunur leikur á um að ekki sé fylgt settum alþjóðlegum eða evrópskum öryggisreglum og hins vegar skyndiskoðanir á flugvélum eftir ákveðnum reglum án þess að grunur leiki á að pottur sé brotinn í rekstri flugvélanna. Við slíkar skoðanir er farið eftir ákveðnum reglum og allir vinnuferlar eru staðlaðir og framkvæmd prófana er eins í öllum aðildarlöndum EES.
Öll aðildarríki EEA auk nokkurra annarra ríkja, samtals 50, taka þátt í þessu verkefni en markmiðið er að staðlaðar skyndiskoðanir verði teknar upp sem víðast.
Flugvélarnar eru skoðaðar eftir fyrir fram ákveðnu kerfi sem allar þátttökuþjóðir nota og niðurstöðurnar eru skráðar í sameiginlegan gagnagrunn sem er í vörslu Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins (EASA). Forgangsröðun við skoðanir er áhættumiðuð og byggist t.d. á öryggisupplýsingum sem þátttökuríkin safna eða á reglubundinni greiningu gagna úr miðlægum gagnagrunni.
Ef frávik frá settum öryggisreglum koma í ljós eru viðkomandi flugmálayfirvöld látin vita og allar upplýsingar um frávikin eru settar í gagnagrunninn.
SACA (öryggismat á loftförum skráðum í ESB) eru skoðanir á hlaði sem aðildarríki ESB framkvæma á loftförum sem flugrekendur nota undir lögbundnu eftirliti annars aðildarríkis ESB. Þessar skoðanir byggja á reglum og kröfum ESB sem eru að minnsta kosti jafnar en oft strangari en staðlar Alþjóða flugmálastofnunarinnar (ICAO).
SAFA (öryggismat á loftförum skráðum utan ESB) eru skoðanir sem framkvæmdar eru á loftförum sem skráð eru utan ESB. Þessar skoðanir byggja á reglum ICAO. Auk þessara ofangreindu staðla eru gögn framleiðenda höfð til hliðsjónar þegar tæknilegt ástand loftfara er metið.
Hlaðskoðanir eru takmarkaðar við skyndiskoðanir og koma ekki í stað reglubundins eftirlits yfirvalda. Þess vegna er ekki hægt að ábyrgjast lofthæfi viðkomandi loftfars. Ef frávik eru þess eðlis að þau geta haft áhrif á flugöryggi geta eftirlitsmenn krafist aðgerða til úrbóta áður en vélinni er leyft að hefja sig aftur til flugs.
EASA skiptir flugrekendum í tvo flokka þegar áætlun um skoðanir eru gerðar. Annars vegar er um að ræða rótgróin flugfélög sem hafa sýnt í gegnum árin að starfræksla þeirra uppfyllir öryggiskröfur og umferð þeirra innan ESB ríkja er yfir ákveðnu lágmarki og hins vegar eru rekstraraðilar sem hafa ekki uppfyllt öll skilyrði sem sett eru til að komast í fyrri flokkinn og/eða ekki eru til nægjanlegar upplýsingar um þau. EASA úthlutar hverju þátttökuríki ákveðnum fjölda skoðana á flugvélum í fyrri flokknum en er einungis ráðgefandi um fjölda skoðana í seinni flokknum.
Eftirlitsmenn allra þátttökuríkja notast við gátlista með 53 skoðunaratriðum. Þessi atriði varða skoðun á skírteinum og læknisvottorðum flugmanna, verklagsreglum og handbókum, öryggisbúnað og tæknileg atriði, ástand farþegarýmis og fleira. Stundum eru öll atriðin skoðuð en oft gefst ekki tími til þess þar sem það er stefna EASA að ekki verði seinkun flugs vegna skoðana ef engin frávik finnast.
Frávik geta verið mismunandi og er skipt upp í nokkra flokka eftir alvarleika þeirra með tilliti til flugöryggis. Öll frávik eru skráð í sameiginlegan miðlægan gagnagrunn (Ramp Tool) og viðkomandi flugmálayfirvöldum gert viðvart um þau. Einstaka frávik geta verið það alvarleg að flugvélinni er ekki hleypt í loftið fyrr en ráðstafanir hafa verið gerðar og viðgerðir framkvæmdar. Ef um er að ræða mikilvæg eða meiriháttar frávik er þess krafist að rekstraraðilinn geri ráðstafanir til úrbóta, sem geta falið í sér rannsókn á frumorsök til að ráða bót á kerfislægum vandamálum hjá flugrekandanum. Ríkið sem framkvæmdi viðkomandi skoðanir fylgist síðan með eftirmálum og fylgir eftir að viðeigandi ráðstafanir séu gerðar til úrbóta.
Öllum gögnum úr skoðanaskýrslum sem og viðbótarupplýsingum er deilt í gegnum miðlægan gagnagrunn (Ramp Tool) í umsjón EASA. Öll þátttökuríki hlaða skoðanaskýrslum inn í þennan gagnagrunn og gerir þær þannig aðgengilegar öllum þátttökuríkjum. Þarna er safnað saman ítarlegum upplýsingum um öryggi sem auðveldar alla greiningu gagna. Gögnin eru trúnaðarmál og ekki aðgengileg almenningi. Þeir sem hagsmuna eiga að gæta geta fengið aðgang að gagnagrunninum hjá viðkomandi flugmálayfirvöldum fyrir sitt flugfélag. Auk þátttökuþjóðanna hafa 60 önnur ríki og um 1.100 rekstraraðilar að ýmsum hlutum gagnagrunnsins.
Fulltrúar aðildarþjóðanna hittast tvisvar á ári til að bera saman bækur sínar og samræma verklag og staðla. Einnig skipuleggur Flugöryggisstofnunin árlega samráðsfund iðnaðar- og eftirlitsaðila þar sem flugmálayfirvöld og fulltrúar flugiðnaðarins hittast til að ræða sameiginleg hagsmunamál á þessu sviði.
Til þess að geta starfað sem eftirlitsmaður í hlaðskoðunum þarf hann/hún að hafa bakgrunn úr flugstarfsemi, t.d. sem flugmaður, flugvirki, flugfreyja/þjónn eða flugumsjónarmaður. Viðkomandi þarf að sækja námskeið á vegum EASA og framkvæma nokkrar skoðanir undir eftirliti yfireftirlitsmanns. Hjá Samgöngustofu starfa nú sex reynslumiklir eftirlitsmenn í hlaðskoðunum, en hver þeirra hefur jafnframt önnur störf á hendi hjá stofnuninni.
Nánari upplýsingar um hlaðskoðanir eru á heimasíðu EASA:
European Union Aviation Safety Agency - Ramp Inspection Programmes (SAFA & SACA)
Þjónustuaðili
Samgöngustofa