Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Hugbúnaðarrammi Fjársýslunnar

Þjónustuaðili:

Reynsla Fjársýslunnar hefur sýnt fram á vöntun á heildstæðum leiðbeiningum fyrir opinbera aðila þegar kemur að fjárfestingu í hugbúnaði. 

Því var brugðið á það ráð að setja saman leiðarvísi fyrir opinbera aðila við kaup á hugbúnaði, með það að markmiði að einfalda ferlið og draga úr áhættu.

Leiðarvísirinn fjallar um mikilvægi þarfagreiningar, markmiðssetningar og varna gegn birgjalæsingu, ásamt því að útlista tæknilegar og lagalegar kröfur sem ber að hafa í huga við val á mismunandi tegundum hugbúnaðar, þar á meðal staðlaðar, sérlausnir og Power Platform.

Hann veitir einnig innsýn í mótun útboðsgagna, greiðslufyrirkomulags og krafna er varða þróun, prófanir og skil hugbúnaðar.

Byggt er á lærdómi Fjársýslunnar af fyrri útboðum, gögnum frá Stafrænu Íslandi og Fjármálaráðuneytinu, gögnum frá Norskum, Breskum og Dönskum systurstofnunum Ríkiskaupa ásamt reynslu höfundar af hugbúnaðarþróun.

    3. Greiningar og áætlanir

    Eftir að mótuð hafa verið markmið og lykil breytur settar fram er hægt að vinna í þarfagreiningu fyrir verkefnið.

    Efni kaflans

    Áætlanagerð vegna innkaupa skiptist í kostnaðaráætlun og tímaáætlun.

    Kostnaðaráætlun

    Kostnaðaráætlunin segir til um það hvernig á að kaupa inn, það er, hvort innkaup séu yfir eða undir útboðsmörkum. Einnig gefur hún líka til kynna hvaða tegund af innkaupaferli gæti mögulega hentað við innkaup. 

    Áætlunin þarf að fela í sér útreikning á áætluðu virði innkaupanna  og samanlagt heildarvirði allra áfanga, ef kaupa á inn í nokkrum áföngum.

    Útreikningur á áætluðu virði

    Áætlað virði innkaupanna skal taka mið af þeirri heildarfjárhæð sem kaupandi mun greiða fyrir innkaupin, án virðisaukaskatts. Heildarfjárhæðin felur í sér:

    • Aðföng.

    • Flutning vöru.

    • Þóknun.

    • Annað sem kaupandi leggur til og metið verður til fjár.

    Heildarfjárhæðin þarf að taka tillit til allra ákvæða og atriða sem kaupandi setur fram og munu verða partur af samning í kjölfar útboðs. Til dæmis er varðar endurnýjun samningsins.

    Ef fyrirhugað er að kaupa vöru, þjónustu eða verk í áföngum skal miða við samanlagt heildarvirði allra áfanga. Einnig þarf að tiltaka virði allra framlengingarheimilda.

    Tímaáætlun

    Upphaf verks, verktími og tímamörk geta skipt sköpum við undirbúning og framkvæmd innkaupaferils frá byrjun til afhendingar. Þess vegna er gott verkskipulag mikilvægt, þar sem hver áfangi eða verkhluti tekur við af öðrum eða jafnvel skarast.

    Vinnuframlag: Kaupandi verður að tilnefna rétta aðila innan stofnunar og gera ráð fyrir vinnuframlagi þeirra í innkaupaferlinu.