Fyrsta skólastig
Í leikskólum er lögð áhersla á skapandi starf og leik. Hlúa skal að öllum þroskaþáttum, efla þá og örva samspil þeirra.
Uppbygging fyrsta skólastigs
Leikskólauppeldi og leikskólastarf byggir á sérstökum uppeldisaðferðum og sérstakri hugmyndafræði sem sótt er til rita og rannsókna ýmissa heimspekinga og uppeldisfræðinga. Upplýsingar um uppeldisstefnur og strauma er að finna á vefjum leikskóla.
Hornsteinn leikskólastarfsins er leikurinn. Hann er kennsluaðferð leikskólakennarans og námsleið barnsins.
Leikskólastjóri ber ábyrgð á uppeldisstarfi leikskólans, skipuleggur það í samráði við aðra starfsmenn, foreldra og börn og ræður starfsmenn.
Aðstoðarleikskólastjóri er staðgengill leikskólastjóra. Leikskólakennari eða deildarstjóri ber ábyrgð á börnum og uppeldisstarfi á sinni deild. Leiðbeinendur starfa undir handleiðslu leikskólakennara.
Leikskólaráðgjafar eða sérkennslufulltrúar starfa á vegum margra sveitarfélaga og veita ráðgjöf til leikskólastjóra, starfsmanna leikskóla og foreldra varðandi starf leikskólans í heild.
Mikilvægt er að góð samvinna milli foreldra og starfsfólks leikskólans skapist um leið og barnið byrjar á leikskólanum. Við flesta leikskóla eru starfandi foreldrafélög.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið mótar uppeldisstefnu leikskóla og sér um að fram fari mat á leikskólastarfi. Leikskóli er ekki skyldunám og hefur því nokkra sérstöðu sem fyrsta skólastigið.