22. ágúst 2022
22. ágúst 2022
Yfirlýsing embættis landlæknis vegna úrskurðar kærunefndar útboðsmála nr. 8/2021
Þann 22. febrúar 2022 birti kærunefnd útboðsmála úrskurð í máli Kara Connect ehf. gegn embætti landlæknis, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Origo hf. og Sensa ehf. Kæran varðaði í fyrstu kaup á fjarfundarbúnaði og samþættingu hans við sjúkraskrárkerfi Sögu, Heklu heilbrigðisnet og sjúklingagáttina Heilsuveru.
Þann 22. febrúar 2022 birti kærunefnd útboðsmála úrskurð í máli Kara Connect ehf. gegn embætti landlæknis, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Origo hf. og Sensa ehf. Kæran varðaði í fyrstu kaup á fjarfundarbúnaði og samþættingu hans við sjúkraskrárkerfi Sögu, Heklu heilbrigðisnet og sjúklingagáttina Heilsuveru.
Þó úrskurðurinn kæmi embættinu fyrir margra hluta sakir á óvart, varð hann embætti landlæknis tilefni til að fara yfir innkaup miðstöðvar rafrænna heilbrigðislausna með fulltingi sérfræðings á því sviði. Embættið vill enda ekkert fremur en viðhafa vandað verklag þar sem lögum er fylgt í hvívetna, vel er farið með almannafé og hagsmunir almennings, stofnana og fyrirtækja tryggðir eins og við á. Þá vill embættið nefna að á næstunni mun fara fram útboð á þeim hluta fjarfundarbúnaðar sem upprunalega kæran beindist að.
Embætti landlæknis og lögmenn þess telja hins vegar að á þessum úrskurði kærunefndar útboðsmála séu verulegir annmarkar og meiri en embættið geti unað. Það á við um bæði málsmeðferð kærunefndar sem og túlkun og beitingu laga um opinber innkaup. Því hefur embættið, ekki síst að gengnum dómi Landsréttar í máli nr. 745/2021 (þar sem er að finna hliðstæðu varðandi málsmeðferð) farið fram á að mál kærunefndar útboðsmála nr. 8/2021 verði endurupptekið og kröfum vísað frá eða hafnað. Þar sem ákvörðun nefndarinnar liggur ekki fyrir og að frestur til að höfða mál til ógildingar úrskurðar er að renna út, hefur embætti landlæknis ákveðið að leggja málið fyrir dómstóla og hefur til þess fulltingi ríkislögmanns.
Þau ágreinings- og úrlausnarefni sem fjallað er um í úrskurðinum er afar flókin. Embætti landlæknis telur að ógerlegt sé að útfæra úrskurðarorð kærunefndar auk þess sem þau kalli á kostnað sem kann að hlaupa á hundruðum milljóna króna. Embætti landlæknis finnst því mikilvægt að skorið verði úr um m.a. túlkun og beitingu laga um opinber innkaup varðandi samninga þá sem embættið, og heilbrigðisráðuneytið þar á undan, gerðu áður en þau lög tóku gildi.
Embættinu er því nauðugur sá kostur að stefna Köru Connect ehf. og fleiri aðilum fyrir dóm og harmar að þess sé þörf. Embættið vill taka skýrt fram að það gerir ekki athugasemdir við að kæru fyrirtækisins, heldur úrskurð kærunefndar útboðsmála. Leikreglurnar eru því miður þannig að ekki er heimilt að stefna kærunefndinni. Stefna þarf kæranda og öllum aðilum máls til þess að fá breytingu eða ógildingu á úrskurði nefndarinnar fallist hún ekki á endurupptöku. Embættið myndi vilja sjá löggjafann breyta þeim reglum.
Nánar upplýsingar veitir Kjartan Hreinn Njálsson,
aðstoðarmaður landlæknis.
netfang: kjartanh@landlaeknir.is