18. febrúar 2025
18. febrúar 2025
Vottun votlendisverkefna í augsýn
Drög að aðferðafræði við vottun gæðakolefniseininga fyrir endurheimt votlendis hafa nú verið birt í samráðsgátt loftslagsskrárinnar International Carbon Registry (ICR). Þar með styttist í að aðferðafræðin geti hlotið faggildingu og hægt verði að fara í verkefni til að endurheimta votlendi sem gefa af sér vottaðar kolefniseiningar í samræmi við strangar gæðakröfur.

Sérfræðingar Lands og skógar hafa haft forystu að því undanfarin misseri að þróa aðferðafræði og reglur sem gera kleift að votta kolefniseiningar fyrir endurheimt votlendis. Sunna Áskelsdóttir hefur farið fyrir verkefninu fyrir hönd Lands og skógar í samstarfi við Rannveigu Guicharnaud sem nú starfar hjá ICR en var hjá Deloitte þegar samstarfið hófst.
Stærstur hluti losunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi stafar frá framræstu votlendi. Votlendisjarðvegur myndast í súrefnissnauðu umhverfi þegar lífræn efni falla til við vatnsmettaðar aðstæður. Þar er rotnun afar hæg og lífræni massinn safnast því smám saman upp í áranna rás í stað þess að kolefnið úr honum losni út í andrúmsloftið. Þegar votlendissvæði eru ræst fram og vatnsstaða þeirra lækkuð kemst súrefni að þessu lífræna efni. Þar með byrjar það að rotna og brotnar hratt niður fyrir tilstuðlan súrefniskærra jarðvegsörvera með tilheyrandi losun koltvísýrings.
Við endurheimt votlendis er þessu ferli snúið við. Vatnsborð er hækkað á ný og súrefnissnauðar aðstæður skapast á ný á mjög skömmum tíma. Endurheimt votlendis er því ein skilvirkasta leiðin sem tiltæk er á Íslandi til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Mikið er hér af röskuðu votlendi sem ekki er í notkun og hægt er að endurheimta. Auk þess að draga úr losun styður endurheimtin við líffræðilega fjölbreytni, bættan vatnsbúskap og mikilvæg búsvæði fugla og plantna. Endurheimt votlendis vinnur því ekki eingöngu að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda heldur hjálpar Íslandi einnig að ná skuldbindingum sínum gagnvart samningnum um líffræðilega fjölbreytni.
Aðferðafræðin verður aðgengileg til umsagnar í samráðsgátt ICR fram til 17. mars. Að því búnu verður unnið úr athugasemdum og í kjölfarið metur faggildingarstofa aðferðafræðina. Í vor verður henni svo beitt í íslensku votlendisverkefni áður en hún hlýtur formlega faggildingu hjá vottunarstofu og ICR. Þar með verður til viðurkennd opin aðferðafræði sem nýta má við endurheimt votlendis til að búa til vottaðar kolefniseiningar sem standast háar gæðakröfur.

Sama svæði og á myndinni að ofan árið 2024 að lokinni endurheimt votlendis. Ljósmynd: Iðunn Hauksdóttir.