Fara beint í efnið

13. mars 2024

Vottun – er það leiðin að árangri?

Erindi Helga Haraldssonar öryggisstjóra SAk á forvarnarráðstefnu VÍS.

Helgi Haraldsson öryggisstjóri SAk

Forvarnaráðstefna VÍS var haldin í Hörpu hlaupársdaginn 29. febrúar síðastliðinn. Þetta var fjórtánda forvarnaráðstefnan sem VÍS heldur og sóttu hana nú um 270 manns. Yfirskriftin þetta árið var: Snúast hjólin í átt að árangri?

Á ráðstefnunni hélt Helgi Haraldsson, öryggisstjóri SAk, erindi um vottunarferli SAk. Hann stiklaði á stóru um þá ákvörðun SAk að hefja þessa vegferð, vottunarferlið og velti því upp hvort það hefði skilað árangri fyrir sjúkrahúsið. Vinna við að fá alþjóðlega gæðavottun fyrir SAk hófst árið 2012 og fór forúttektin fram tveimur árum seinna. Í kjölfarið fékk SAk vottun DNV út frá DIAS staðlinum fyrir sjúkrahús, í desember 2015.

Síðan hafa fleiri vottanir fylgt svo sem út frá ISO 9001 gæðastjórnunar staðlinum, ISO 27001 staðlinum um upplýsingaöryggismál og ÍST 85 um jafnlaunavottun.

Erindi Helga má sjá hér: Vottun – er það leiðin að árangri? - Helgi Haraldsson (youtube.com)

Landsbyggðarhjartað

„Það er gagnlegt að sækja slíkar ráðstefnur, sjá hvað aðrir eru að gera og hvað sé efst og nýjast á baugi. Alltaf eitthvað gott sem getur tekið með sér“ segir Helgi.

Á ráðstefnunni voru tvö norðlensk fyrirtæki tilnefnd til forvarnarverðlaunanna og á síðasta ári fékk annað norðlenskt fyrirtæki verðlaunin. „Það gleður landsbyggðarhjartað að sjá að fyrirtækin á svæðinu virðast vera að standa sig vel í forvörnum“ segir Helgi að lokum.