7. september 2023
7. september 2023
Vísindadagurinn haldinn í 14 skipti
150 manns sóttu daginn í fyrra - vísindavinnan skapar nýja þekkingu sem leiðir til marvissari kennslu, betri þjónustu við skjólstæðinga og forvarna í samfélaginu
Vísindadagur Sjúkrahússins á Akureyri og Heilbrigðisstofnunnar Háskólans á Akureyri fer fram miðvikudaginn 20. september frá kl. 9:30 – 15:30 í Kjarna – kennslustofu á 2. hæð SAk. Þetta er í 14 skiptið sem dagurinn er haldinn og áhuginn fyrir honum vex með ári hverju.
„Vísindadagurinn er hátíðlegur dagur og uppskeruhátíð vísindastarfs á SAk. Okkar markmið er að meðferð sjúklinga, kennsla og rannsóknir séu samþætt í daglegum störfum á sjúkrahúsinu og á þessum góða degi fær starfsfólk okkar tækifæri til að segja frá vísindaverkefnum sínum sem þau hafa unnið ötullega að samhliða klínískum störfum,“ segir Laufey Hrólfsdóttir, deildarstjóri mennta- og vísindadeildar og lektor við heilbrigðisstofnun Háskólans á Akureyri.
Á dagskrá eru 12 fjölbreyttir fyrirlestrar og í ár verður aftur tekin upp sú hefð að bjóða upp á fyrirlestur frá gesti sem hefur átt farsælan feril í kennslu- og rannsóknum. Í þetta skiptið verður það Dr. Stefán B. Sigurðsson, prófessor emeritus, sem mun fjalla um sinn feril og rannsóknir. Stefán er með doktorspróf frá Háskólanum í Lundi en helstu rannsóknarsvið hans eru rannsóknir á sléttum vöðvum í æðum og berkjum og rannsóknir tengdar stjórnun á þvermáli æða og berkna þ.e. sjúkdómum eins og of háum blóðþrýstingi, asthma og gláku. Einnig rannsóknir á rákóttum vöðvum og verkefnum tengdum þrek- og þolþjálfun íþróttamanna ásamt ýmsum heilsufarsrannsóknum.
„Sjúkrahúsið er kennslusjúkrahús með sterk tengsl við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands. Vísindastarf og kennsla heilbrigðisstétta þurfa að haldast í hendur en vísindavinnan skapar nýja þekkingu sem leiðir til marvissari kennslu, betri þjónustu við skjólstæðinga og forvarna í samfélaginu. Það er því til mikils að vinna að efla vísindavinnuna og gera hana sýnilegri og það er hvatinn fyrir okkur að efla Vísindadaginn,“ segir Laufey.
Sanngjarnar staðsetningar fyrir þyrlur til sjúkraflugs
Af mörgu er að taka enda fyrirlestrarnir fjölbreyttir en staðsetning þyrlu til sjúkraflutninga hefur verið í umræðunni að undanförnu og ætlar Dr. Björn Gunnarsson, sérfræðingur í svæfinga- og gjörgæslulækningum og dósent við Heilbrigðisvísindastofnun HA, að flytja erindi um sanngjarnar staðsetningar fyrir þyrlur til sjúkraflutninga á Íslandi. Verkefnið hlaut 19 milljón króna rannsóknarstyrk frá Rannís á ár. Meðrannsakendur Björns eru Kristrún María Björnsdóttir íþróttafræðingur, Sveinbjörn Dúason bráðatækir og viðskiptafræðingur og Dr. Ármann Ingólfsson, prófessor í aðgerðargreiningu (e. operations management) við University of Alberta School of Business.
Fyrstu niðurstöður svefnrannsóknar
„Það má ætla að erindin um svefnrannsóknina veki einnig athygli enda er hér um einstakt verkefni að ræða og þátttakendur allir frá Akureyri og nærsveitum. Þetta er ein ítarlegasta rannsókn sem gerð hefur verið á Vesturlöndum á algengi svefnvandamála barna á aldrinum 4-8 ára en um 386 börn hafa verið mæld sem búa á svæðinu,“ segir Laufey. Umsjónarmenn verkefnisins eru þau Dr. Hannes Petersen, sérfræðingur í HNE lækningum og prófessor við læknadeild HÍ, Dr. Laufey Hrólfsdóttir deildarstjóri mennta- og vísindadeildar og lektor við Heilbrigðisvísindastofnun HA og Gróa Björk Jóhannesdóttir, yfirlæknir barnalækninga á SAk. Samstarfsaðili er Sólveig Dóra Magnúsdóttir eigandi SleepImage. Ingibjörg Ösp Ingvarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og meistaranemi í lýðheilsuvísindum við HÍ, fjallar um fyrstu niðurstöðum varðandi algengi og tengsl kæfisvefns við þyngd barna. Magnús Ingi Birkisson sérnámgrunnslæknir á SAk mun í framhaldi segja frá undirliggjandi ástæðum kæfisvefns og gagnsemi læknisskoðunar og meðferðar en hann hlaut styrk fyrir þessari vinnu frá Nýsköpunarsjóði námsmanna.