10. október 2025
10. október 2025
Vinnueftirlitið hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar í fjórða sinn
Vinnueftirlitið hefur hlotið viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar 2025 og er það fjórða árið í röð sem stofnunin hlýtur þann heiður.

Viðurkenningin er veitt fyrirtækjum, sveitarfélögum og opinberum aðilum sem hafa náð að jafna hlutfall kynja í efsta lagi stjórnunar í að minnsta kosti 40/60.
Að þessu sinni hlutu 90 fyrirtæki, sextán sveitarfélög og tuttugu og tveir opinberir aðilar viðurkenningu úr hópi 253 þátttakenda sem hafa undirritað viljayfirlýsingu.
Viðurkenningunum er ætlað að vekja athygli á þeim fyrirtækjum og stofnunum sem hafa náð eftirtektarverðum árangri í jafnréttismálum og hvetja aðra til dáða.
"Við erum afar ánægð með að hljóta þessa viðurkenningu enda viljum við vera öðrum góð fyrirmynd hvað varðar öryggi og vellíðan á vinnustað og vitum sem er að jafnrétti er ein forsenda þess að hægt sé að innleiða heilbrigða vinnustaðamenningu. Viðurkenningin er sérstaklega ánægjuleg að þessu sinni þegar við minnumst 50 ára afmælis kvennafrídagsins 24. október næstkomandi," segir Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, forstjóri Vinnueftirlitsins.

Jón Ingi Einarsson, sviðsstjóri reksturs og greiningar hjá Vinnueftirlitinu, veitti viðurkenningunni viðtöku.