Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

29. desember 2025

Vinningshafar í hönnunarsamkeppni um merki Peatland LIFEline 

Tillaga Gunnars Karls Thoroddsens, nema í Listaháskóla Íslands, varð hlutskörpust í samkeppni um hönnun kennimerkis fyrir verkefnið Peatland LIFEline. Hin sex ára gamla Marey Ólafía Kristinsdóttir fékk einnig viðurkenningu fyrir skemmtilega teikningu sem var innblástur vinningsmerkisins. 

Vinningshafarnir Marey Ólafía Kristinsdóttir og Gunnar Karl Thoroddsen.

Markmið hönnunarsamkeppninnar var að finna merki sem myndi fanga anda íslensks votlendis – endurheimt og tengingu við náttúruna. Samkeppnin var opin nemendum í hönnun. Byggt var á frumlegum hugmyndum sem sprottnar voru upp úr 24 uppástungum sem börn og unglingar teiknuðu á Vísindavöku 2025. Hver þátttakandi gat sent inn tvær tillögur með stuttri röksemdafærslu.

Dómnefnd mat innsendar tillögur samkvæmt matskvarða sem byggður var á tengslum við verkefnið, frumleika, einfaldleika og skýrleika, litanotkun og tengingu við barnateikningu. Allir nemendur í hönnun voru hvattir til að taka þátt í keppninni. 

Gunnar Karl Thoroddsen, nemi í Listaháskóla Íslands (LHÍ), bar sigur úr býtum eftir vandlega íhugun dómnefndar. Verðlaun voru veitt á skrifstofu Fuglaverndar miðvikudaginn 17. desember. Ásamt Gunnari hlaut Marey Ólafía Kristinsdóttir, sex ára, viðurkenningu fyrir skemmtilega teikningu sem var innblástur vinningsmerkisins. 

Dómnefnd skipuðu Eggert Pétursson myndlistarmaður, Nick Folkard, fulltrúi bresku fuglaverndarsamtakanna RSPB, og Fífa Jónsdóttir, formaður dómnefndar og sérfræðingur í vísindamiðlun hjá Landi og skógi. Átta frábærar tillögur bárust dómnefnd frá fimm nemendum LHÍ. 

Í umsögn dómnefndar segir að þau hafi verið sammála um að hönnunin hefði gripið anda verkefnisins á lofti og túlkað hann á einfaldan og skiljanlegan hátt.

Merkið er einfölduð mynd af jaðrakan í vatni sem lýsir kjarna verkefnisins einstaklega vel. Dómnefndin hreifst strax af tillögu Gunnars enda var hún heildstæð og vel úthugsuð frá upphafi. Grafísk túlkun fuglsins er einföld en hefur þægilega dýpt. Samkvæmt lýsingu keppninnar þá tók hann sér teikningu barns til fyrirmyndar og það var mynd Mareyjar Ólafíu Kristinsdóttur (6 ára) sem veitti honum innblástur. Val þeirra beggja á myndmáli sýnir sterka tengingu við íslenska náttúru og segir allt sem segja þarf um markmið verkefnisins. Litanotkun og letur fóru vel saman við það myndræna og auðvelt verður að nýta merkið til þess að kynna verkefnið hér á landi og erlendis næstu fimm árin.

Á myndinni hér að neðan eru vinningshafarnir Marey Ólafía Kristinsdóttir og Gunnar Karl Thoroddsen ásamt dómnefndarfólkinu Fífu Jónsdóttur og Eggerti Péturssyni en þriðja dómnefndarfulltrúann, Nick Folkard, vantar á myndina.

 Um Peatland LIFEline

Peatland LIFEline er umfangsmikið verkefni sem miðar að endurheimt votlendis og líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi. Verkefnið er samstarf sjö stofnana og félagasamtaka, Landbúnaðarháskóla Íslands, Lands og skógar, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Fuglaverndar, Hafrannsóknastofnunar, Náttúruverndarstofnunar og bresku fuglaverndarsamtakanna RSPB. Verkefnið er að mestu fjármagnað af LIFE-sjóðnum, sem er hluti af umhverfis- og loftslagsáætlun Evrópusambandsins. Það hófst formlega 1. september 2025 og stendur til loka febrúar 2031, eða í 66 mánuði.

Markmið Peatland LIFEline er að efla yfirsýn og þekkingu á votlendi á lálendi á Íslandi, vistfræði þess, líffræðilegri fjölbreytni og hlutverki í kolefnishringrásinni. Sérstök áhersla er lögð á vistgerðina starungsmýravist, sem hefur mjög hátt verndargildi, auk fuglategundanna jaðrakans, stelks og lóuþræls, sem eru mikilvægir vísar um heilbrigði votlendis. Einnig verður sjónum beint að evrópska álnum sem er í útrýmingarhættu. 

Íslenskt votlendi er einstakt í Evrópu, meðal annars vegna samspils ungs berggrunns, eldvirkni, áfoks og eldgosasögu. Þéttleiki fuglalífs er mikill og nokkrar tegundir reiða sig að stórum hluta á þessi svæði. Verkefnið mun leggja grunn að betri yfirsýn yfir ástand votlendissvæða og helstu áskoranir við endurheimt þeirra, auk þess sem lögð er áhersla á samfélagslega þátttöku og miðlun þekkingar.

Ljósmyndir: Fuglavernd

Sjá fleiri myndir á vef Fuglaverndar