Fara beint í efnið

10. maí 2024

Viðskiptavinum TR hefur fjölgað um 23% undanfarinn áratug

Á ársfundi Tryggingastofnunar (TR) sem haldinn var þriðjudaginn 7. maí, kom fram í ávarpi Huldar Magnúsdóttur forstjóra að fjölgun hafi verið í öllum lífeyrisflokkum en TR greiðir til fjölbreytts hóps einstaklinga. Á undanförnum áratug hefur viðskiptavinum TR fjölgað um 23% en heildarfjöldi þeirra sem fengu greiðslur frá TR árið 2023 voru 82.634.

Huld Magnúsdóttir, forstjóri TR

Heildargreiðslur TR voru rúmlega 204 milljarðar vegna ársins 2023 en voru um 186 milljarðar árið 2022. Líkt og íbúar landsins, búa flestir einstaklingar sem fá greiðslur frá TR á höfuðborgarsvæðinu.

Konur eru í meirihluta í öllum helstu greiðsluflokkum TR og eru þær um 60% þeirra sem fá ellilífeyri, örorku- og endurhæfingarlífeyri. Þegar skoðaður er hópurinn 55 til 66 ára, má sjá að hlutfall kvenna með örorku fer stigvaxandi með hækkandi aldri. 26% kvenna á Íslandi á aldrinum 64 til 66 ára eru með örorku eða ein af hverjum fjórum konum. Tryggingastofnun hefur leitað til Félagsvísindastofnunar um að gera rannsókn á stöðu kvenna 50-66 ára með örorkulífeyrir og á áætlun er að framkvæma slíka rannsókn haustið 2024 í samvinnu við ýmsa hagaðila.

Á fundinum sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra: „Tryggingastofnun er rík af mannauði og metnaði til að gera vel. Ráðuneytið hefur átt gott samstarf við starfsfólk TR sem vill ná árangri fyrir fólkið í landinu.“. Þá sagði Guðmundur að mörg krefjandi og spennandi verkefni væru fram undan með tilkomu endurskoðunar á nýju örorkulífeyriskerfi.

Mikilvægur stuðningur til fjölskyldna

TR gegnir mikilvægu hlutverki til stuðnings fjölskyldna með greiðslum vegna ýmissa málaflokka. Má þar nefna umönnunargreiðslur, barnalífeyri, mæðra- og feðralaun, bifreiðastyrki, greiðslur til ungmenna 18-20 ára ef foreldrar eru lífeyrisþegar, auk þess sem TR hefur milligöngu um meðlagsgreiðslur. Árið 2023 fengu foreldrar um 4.500 barna umönnunargreiðslur á ári. Sá fjöldi nemur um 3% af heildarfjölda barna á aldrinum 0-18 ára á Íslandi.

Salvör Nordal umboðsmaður barna var með erindi á fundinum og fór m.a. yfir mikilvægi þess að biðlistar barna eftir aðstoð og ýmsum úrræðum í samfélaginu yrðu styttir. Ástandið væri orðið alvarlegt á mörgum sviðum.

Starfsemi TR í stöðugum umbótum

Á árinu var ráðist í margar umbætur varðandi þjónustu og aðgengi að þjónustu TR sem meðal annars felur í sér lengingu á opnunartíma, endurhönnun á þjónustumiðstöð, miklum fjölda fræðsluerinda, stafrænt örorkuskírteini var gefið út í samstarfi við Ísland.is, umboðsmaður viðskiptavina afgreiddi rúmlega 100 mál af ýmsum toga og opnað var fyrir rýmri aðgang viðskiptavina að gögnum á Mínum síðum TR.

Stöðugar umbætur einkenndu starfsemi TR árið 2023 þar sem áhersla er lögð á að gera þjónustuna enn skilvirkari og betri. „Það er mikilvægt fyrir starfsemina sem snýst fyrst og fremst um að veita góða þjónustu og vera upplýsandi, að veita skýrar leiðbeiningar, bjóða fræðslu og efni á mannamáli og vera aðgengileg öllum sem til TR leita“ segir Huld Magnúsdóttir forstjóri TR.

Ársskýrslu Tryggingastofnunar má sjá hér