Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

15. janúar 2026

Veruleg fjölgun í fylgdum vegna ólögmætrar dvalar 2025

Árið 2025 fjölgaði verulega þeim sem voru sendir úr landi í fylgd lögreglu vegna ólögmætrar dvalar. Fjöldinn jókst um 37% miðað við árið 2024 og um 219% miðað við árið 2023. Alls fylgdi lögregla 115 einstaklingum vegna ólögmætrar dvalar úr landi árið 2025, samanborið við 84 árið 2024 og 36 árið 2023.

Árangur í afgreiðslu mála þeirra sem hafa dvalið í ólögmætri dvöl má rekja til öflugs starfs lögreglu embættanna og skilvirks samstarfs við heimferða- og fylgdadeild ríkislögreglustjóra.

Heildarfjöldi lokaðra mála hjá heimferða- og fylgdadeild ríkislögreglustjóra voru 388 mál árið 2025 samanborið við 369 mál 2024, eða 5% aukning. Ef horft er til ársins 2023, þegar heildarfjöldi lokaðra mála var 216, er 80% aukning.

Ef horft er til tegundar máls má sjá að fyrrum umsækjendur um alþjóðlega vernd er stærsti hópurinn, líkt og síðustu ár. Athygli er vakin á því að þeim fer hlutfallslega fækkandi milli áranna 2024 og 2025. Þá fjölgar í hópi einstaklinga sem hafa dvalið á landinu í ólögmætri dvöl líkt og áður hefur komið fram sem og einstaklingum með sakaferil eða hafa lokið afplánun hér á landi.

Ríflega helmings fjölgun var á málum þar sem einstaklingar fara án fylgdar á milli áranna 2024 og 2025, þ.e. einstaklingum er fylgt út í flugvél af lögreglu og þeir yfirgefa landið án frekari afskipta. Þvingaðar fylgdir, þar sem einstakling er fylgt á áfangastað eða millilendingarstað til að tryggja fylgd út af Schengen svæðinu, voru 71% allra mála deildarinnar á árinu 2025.

Opnar verkbeiðnir hjá heimferða- og fylgdadeild voru 244 í byrjun árs 2025, en aðeins 103 í byrjun árs 2026. Fækkunin þýðir ekki að færri beiðnir hafi borist, heldur að málin eru afgreidd hraðar en áður vegna styttri málsmeðferðartíma. Einnig er unnið að flóknari málum sem krefjast samstarfs við sendiráð, sem gefa út ferðaskilríkja og auðkenningar ríkisborgara, en slík mál taka oft lengri tíma.